Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Panamaskjölin: Benedikt, faðir Bjarna, átti félag í skattaskjólinu Tortólu

Bene­dikt Sveins­son, fað­ir Bjarna Bene­dikts­son­ar, átti fé­lag í skatta­skjól­inu Tor­tólu ásamt eig­in­konu sinni. Bene­dikt stofn­aði líka fé­lag í Lúx­em­borg sem um­tals­vert skatta­hag­ræði var af. Bjarni Bene­dikts­son var full­trúi föð­ur síns í stjórn­um margra fyr­ir­tækja á ár­un­um fyr­ir hrun, með­al ann­ars skipa­fé­lags­ins Nes­skipa sem átti dótt­ur­fé­lög í Panama og á Kýp­ur.

Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, stofnaði fyrirtæki á Tortólu í gegnum panömsku lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Fyrirtækið heitir Greenlight Holding Luxembourg S.A. og settist Benedikt sjálfur í stjórn þess ásamt eiginkonu sinni og móður fjármálaráðherra, Guðríði Jónsdóttur. Félagið var stofnað árið 2000 og var hætt að greiða umsýslugjöld af því til Mossack Fonseca árið 2010. Félagið var því virkt þar til eftir hrunið árið 2008.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum átti Bjarni Benediktsson sjálfur fyrirtæki í skattaskjólinu Seychelles-eyjum, Falson & Co., sem stofnað var í gegnum Mossack Fonseca árið 2006 til að stunda fasteignaviðskipti í Dubaí. Bjarni hefur sagt að hann hafi ekki vitað að félagið hafi verið á Seychelles-eyjum heldur hafi hann talið það vera í Lúxemborg. „Það var ekki fyrr en mér barst ábending frá erlendum blaðamanni að ég komst að því að svo hefði ekki verið, en umrætt félag Falson & Co, var skráð á Seychelles-eyjum. Það hafði þó engin áhrif í skattalegu samhengi.“ 

Hluthafarnir settust í stjórn
Hluthafarnir settust í stjórn Eigendur félagsins Greenlight Luxembourg S.A. á Tortóla, Benedikt Sveinsson og Guðríður Jónsdóttir, settust í stjórn félagsins í lok apríl árið 2000. Kaupþing í Lúxemborg hafði milligöngu um stofnun félagsins.

Upplýsingarnar um Tortóla-félag Benedikts koma fram í Panama-skjölunum svokölluðu frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca sem ICIJ, alþjóðlegamtök blaðamanna, komust yfir í gegnum þýska blaðið Süddeustche Zeitung. Íslenski fjölmiðillinn Reykjavík Media ehf. fékk aðgang að Panama-skjölunum og vinnur Stundin greinina í samstarfi við þann fjölmiðil. 

Stundin hefur ekki náð tali af Benedikti Sveinssyni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og hefur því ekki upplýsingar um af hverju Greenlight Luxembourg S.A. var stofnað, hvaða eignir félagið átti eða hvaða skattalegu áhrif félagið hafði fyrir hann - ef nokkur.

„Ég mun láta einskis ófreistað til að ná til hinna, sem fara á svig við lög og reglur.“

Skoðanir Bjarna á aflandsfélögum

Tekið skal fram að notkun á aflandsfélögum og fyrirtækjum í skattaskjólum er ekki ólögleg og er alls ekki gefið að eigendur slíkra fyrirtækja hafi framið nein lögbrot, til að mynda skattalagabrot. Skattalegt hagræði slíkra fyrirtækja gat hins vegar verið umtalsvert. Til dæmis má nefna að fram til 1. september ársins 2009 voru fjármagnstekjur slíkra skattaskjólsfélaga, sem til urðu með framvirkum samningum og öðrum slíkum fjármálaafurðum, undanþegnar skatti og ekki var litið svo á að tekjur slíkra jafngiltu tekjum einstaklinganna sem áttu félögin, líkt og ákveðið var að gera með lagabreytingu á Íslandi árið 2010. Eftir þá lagabreytingu var ekki gerður skattalegur greinarmunur á tekjum slíkra aflandsfélaga og tekjum einstaklingsins sem á félagið. 

Miðað við orð Bjarna Benediktssonar um eigið aflandsfélag þá snýst gagnrýni hans á notkun aflandsfélaga fyrst og fremst um skattalagabrot sem kunna að vera framin í slíkum félögum en ekki um notkun þeirra sem slíkra. „Í þessum efnum tel ég rétt að fylgja einfaldri reglu. Það eiga allir að skila sínu til sameiginlegs rekstrar samfélagsins. Langflestir fylgja þessari sjálfsögðu reglu. Ég mun láta einskis ófreistað til að ná til hinna, sem fara á svig við lög og reglur og vilja fá frítt far með samborgurum sínum sem halda uppi lífsgæðunum á Íslandi.“

Fyrirtæki í skattaskjólum og á aflandssvæðum eru hins vegar yfirleitt stofnuð vegna þess skattahagræðis sem felst í þeim þó alls ekki sé þar með sagt að eigendur þeirra brjóti lög með notkun þeirra. Notkun aflandsfélaga gengur með öðrum orðum út á að lækka skattgreiðslur með löglegum hætti, eða ólöglegum eftir atvikum. Til að mynda hefði verið skattahagræði af fjármagnstekjunum sem fyrirtæki Bjarna á Seychelles-eyjum hefði fengið ef viðskipti þess í Dubaí hefðu gengið sem skyldi. 

Báðir formenn stjórnarflokkanna og feður þeirra
Báðir formenn stjórnarflokkanna og feður þeirra Upplýsingar úr Panamaskjölunum hafa sýnt að báðir formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og feður þeirra, Benedikt Sveinsson og Gunnlaugur Sigmundsson, eru tengdir félögum í skattaskjólum sem kom fram í gögnunum.

Báðir formennirnir og feður þeirra tengjast Panama-skjölunum

Með þessum upplýsingum liggur fyrir að báðir formenn ríkisstjórnarflokkanna, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og feður þeirra beggja, Benedikt Sveinsson og Gunnlaugur Sigmundsson, tengjast fyrirtækjum og viðskiptum í gegnum skattaskjól. 

Reykjavík Media ehf. hefur áður greint frá fyrirtækinu Wintris Inc. á Tortóla sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson átti með eiginkonu sinni, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, sem og frá fyrirtæki Bjarna Benediktssonar, Falson & Co. 

Þá koma í Panama-skjölunum einnig fram óbeinar upplýsingar um félag Gunnlaugs Sigmundssonar í Lúxemborg, GSSG Holding, þar sem stjórnarmenn félagsins voru þrjú fyrirtæki á Tortólu, Waverton Group Limited, Starbrook International Limited og Birefield Holding, sem Kaupþing í Lúxemborg notaði sem leppa fyrir aflandsfélög viðskiptavina sinna í Lúxemborg. Ekki er minnst á félag Gunnlaugs í skjölunum sem sagt en mikið er af upplýsingum um þessi þrjú Tortóla-félög sem voru skráðir stjórnarmenn félags hans.

Allir þessir aðilar - Bjarni, Benedikt, Sigmundur Davíð og Gunnlaugur - koma því með beinum eða óbeinum hætti fyrir í Panama-skjölunum.

Umsvifamikill fjárfestir og bæjarfulltrúi

Benedikt hefur síðastliðna áratugi verið umsvifamikill fjárfestir á Íslandi og átt hlutabréf í fyrirtækjum eins og Eimskipum, Sjóvá, Íslandsbanka, N1 og Icelandair. Hann sat í mörgum stjórnum hjá þessum fyrirtækjum sem og öðrum. Hann var þar að auki bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þrjú kjörtímabil frá 1986 til 1998 og oddviti flokksins lungann úr tímanum. Benedikt var því á sama tíma, bæjarfulltrúi í Garðabæ og fjárfestir, rétt eins og Bjarni Benediktsson sonur hans var þingmaður og fjárfestir og stjórnarmaður í stórfyrirtækjum og fjárfestingarfélögum þar til eftir hrunið árið 2008 þegar hann ákvað að hætta að sitja í stjórnum fjölskyldufyrirtækjanna samhliða þingmennsku sinni. 

Benedikt tengdist meðal annars umdeildri einkavæðingu íslenska ríkisins á SR-mjöli árin 1993 og 1994 en hann var forsvarsmaður kaupendahópsins sem keypti fyrirtækið í umdeildum viðskiptum í gegnum sjávarútvegsráðuneyti Þorsteins Pálssonar sem Ríkisendurskoðun gagnrýndi í skýrslu árið 1994 með orðunum: „Ríkisendurskoðun telur að þeim verklagsreglum sem samþykktar voru af ríkisstjórninni 12. október 1993 og fylgja skal við framkvæmd á einkavæðingu hafi ekki verið fylgt sem skyldi við undirbúning og sölu hlutabréfa í SR-mjöli hf.“ Þeir Benedikt og Þorsteinn voru þá báðir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum, Þorsteinn sem ráðherra og Benedikt sem oddviti sveitarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Garðabæ.

Benedikt ákvað að hætta sem bæjarfulltrúi í Garðabæ árið 1998 og var hann því hættur í stjórnmálum þegar hann stofnaði félag sitt á Tortólu árið 2000. „Ég lít svo á að það þurfi að endurnýja alltaf öðru hvoru í bæjarfulltrúahópi flokksins. Mér finnst kominn tími til núna að ég hvíli mig. […] Ég hef haft gaman að því að vera í bæjarmálunum og vonandi hef ég gert eitthvert gagn,“ sagði Benedikt þegar hann hætti í stjórnmálum samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá því í október 1997.

Á þeim tíma sem fyrirtæki Benedikts á Tortóla var stofnað var hann hins vegar meðal annars stjórnarformaður Eimskipafélagsins - hann hafði verið í stjórninni frá 1986 -  og gegndi hann því starfi til ársins 2003.

Var fulltrúi föður síns
Var fulltrúi föður síns Bjarni Benediktsson var fulltrúi föður síns í stjórnum margra fyrirtækja á árunum fyrir hrunið. N1, BNT, Bílanaust, Fjárfestingarfélagið Máttur og skipafélagið Nesskip eru meðal þeirra. Síðastnefnda fyrirtækið átti um tíma tvö dótturfélög í Panama og fjögur dótturfélög á Kýpur.

Feðgarnir og tengsl stjórnmála og viðskiptalífs

Á árunum eftir síðustu aldamót var Benedikt mjög umsvifamikill fjárfestir þó ekki færi mikið fyrir honum á yfirborðinu. Bjarni Benediktsson var meðal annars fulltrúi fyrir hans hönd og hlutabréfa hans í olíufélaginu N1 og móðurfélagi þess, BNT ehf., en Bjarni var stjórnarformaður beggja fyrirtækja þar til í árslok 2008 þegar hann hætti.

Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði Bjarni að honum fyndist óþægilegt að vera stjórnmálamaður og þátttakandi í viðskiptalífinu á sama tíma og íslenska ríkið ætti bankana í landinu, líkt og gerðist í kjölfar hrunsins þegar íslenska ríkið yfirtók íslensku bankana.  „Ég neita því heldur ekki að mér finnst á vissan hátt óheppilegt að vera mjög virkur þátttakandi í viðskiptalífinu eftir að bankarnir komust í hendur ríkisins.“ Miðað við þetta svar Bjarna þá fannst honum ekki óheppilegt að vera stjórnmálamaður og virkur þátttakandi í viðskiptalífinu þegar bankarnir voru í einkaeigu heldur eingöngu eftir hrun þegar þeir voru komnir í fang ríkisins.

Sjálfur átti Bjarni aðeins lítinn hlut í N1 sem hann sagðist hafa selt á fyrri hluta árs 2008 þegar DV spurði hann um málið um vorið 2009, rétt áður en hann var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Þá sat Bjarni í stjórn fjárfestingarfélagsins Máttar fyrir hönd föður síns en framkvæmdastjóri og einn hluthafi þess fyrirtækis var Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Bjarni átti heldur ekki hlutabréfin í Mætti ehf. heldur faðir hans en eignarhald föður hans í hinum ýmsu fyrirtækjum gerði það að verkum að það var gjarnan Bjarni, ekki Benedikt, sem settist í stjórn þessara fyrirtækja. 

Bjarni kom svo að Vafningsviðskiptunum svokölluðu fyrir hönd föður síns og bróður hans, Einars Sveinssonar, en eins og kunnugt er fékk Bjarni umboð frá þeim báðum til að skuldbinda fjárfestingarfélag í þeirra eigu, Þátt International, fyrir tíu milljarða láni frá Glitni í febrúar árið 2008. Lánið var til að fjármagna hlutabréf í Glitni sem enginn annar banki vildi lána fyrir á þeim tíma. Bæði Bjarni og Benedikt seldu hlutabréf í Glitni sem þeir áttu persónulega í sama mánuði; Bjarni seldi fyrir um 126 milljónir og Benedikt fyrir um 850 milljónir króna í gegnum félagið Hafsilfur ehf.

Upplýsingar um fjárfestingar Benedikts Sveinssonar frá árunum fyrir hrun sýna að Bjarni Benediktsson var oft og tíðum fulltrúi hans í stjórnum fyrirtækja og í einstaka viðskiptum á þessum árum enda voru hagsmunir Benedikts sannarlega einnig hagsmunir Bjarna. Erfitt er að því gera mikinn greinarmun á þeim feðgum þar sem Bjarni starfaði gjarnan innan einstakra fyrirtækja í nafni föður síns. 

Þeir feðgar Benedikt og Bjarni eiga það sameiginlegt að hafa báðir stundað viðskipti um árabil samhliða störfum sínum sem kjörnir fulltrúar almennings auk þess sem þeir stofnuðu báðir fyrirtæki í skattaskjólum í gegnum panamísku lögmannsstofuna Mossack Fonseca. Benedikt stofnaði sitt fyrirtæki árið 2000 á meðan Bjarni stofnaði sitt félag árið 2006 vegna áðurnefndra fasteignaviðskipta í Dubaí. 

Skráningarskjal og úrsögn Magnúsar
Skráningarskjal og úrsögn Magnúsar Þessi skjöl úr Panama-lekanum sýna skráningu Greenlight Luxembourg S.A. í gegnum Mossack Fonseca og undirritaða úrsögn Magnúsar Guðmundssonar úr stjórn félagsins.

Stofnað í gegnum þekktan skattalögfræðing og Kaupþing

Í stofnskjölum Tortóla-félagsins Green Light Holding S.A. kemur fram að Mossack Fonseca hafi stofnað fyrirtækið í febrúar árið 2000 og selt það til fyrirtækisins KV Associates í Lúxemborg. Það fyrirtæki er kennt við lögmanninn Karim Van den Ende og hefur unnið náið með mörgum íslenskum fjárfestum í gegnum árin, meðal annars Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Pálmadóttur. Van den Ende hefur meðal annars verið með prókuruumboð fyrir félag Ingibjargar, Guru Invest S.A., sem Stundin fjallaði um í síðasta tölublaði sínu. KV Associates sérhæfir sig í skattaskipulagningu og eignastýringu fyrir alþjóðlega fjárfesta. 

Út frá gögnunum að dæma var Benedikt Sveinsson í viðskiptum við Kaupþing í Lúxemborg sem virðist hafa fengið félagið frá KV Associates. Fyrstu stjórnarmenn Green Light Holding Luxembourg S.A. voru starfsmenn Kaupþings í Lúxemborg, Magnús Guðmundsson og Björn Jónsson, en báðir koma þeir margsinnis fyrir í Panama-skjölunum út af stofnun og umsýslu með aflandsfélag. Gögnin um Green Light Holding Luxembourg S.A. eru merkt Kaupþingi í Lúx þar sem gögnin voru föxuð til Mossack Fonseca frá skrifstofum bankans. Í ársreikningum eignarhaldsfélags Benedikts, Hafsilfurs ehf., koma einnig fram upplýsingar um að hann hafi verið í eignastýringu í bankanum í Lúxemborg.

Eigendurnir settust í stjórn

Á hluthafafundi Greenlight Holding Luxembourg S.A. sem haldinn var þann 25. apríl árið 2000 kemur fram að allir hluthafar félagsins hafi verið mættir á fundinn. „Út frá viðveruskránni að dæma eru allir hluthafar félagsins annað hvort mættir sjálfir eða einhver í umboði þeirra og boðað hafi verið til fundarins með lögmætum hætti.“ Þeir sem voru klárlega á fundinum voru stjórnarmennirnir Magnús Guðmundsson og Björn Jónsson en undirskriftir þeirra beggja eru á fundargerðinni. Hugsanlegt er því að þeir hafi verið fulltrúar Benedikts og Guðríðar á fundinum.

Á fundinum var ákveðið að þau tvö, Benedikt og Guðríður, myndu setjast í stjórn félagsins í stað þeirra Magnúsar og Björns. Þau fengu bæði prókúruumboð yfir félaginu samkvæmt fundargerðinni. Magnús og Björn skráðu sig úr stjórn félagsins á sama tíma með bréfum sem skráð voru á Green Light Holding Luxembourg á Tortólu. Þessi gögn voru svo send til Mossack Fonseca á Tortólu.

Engan hluthafalista um Greenlight Holding Luxembourg S.A. er að finna í Panamagögnunum. En þar sem Benedikt og Guðríður setjast í stjórn þess skömmu eftir að það var stofnað og fá umboð til að skuldbinda fyrirtækið, og þar sem starfsmenn Kaupþings í Lúxemborg voru fulltrúar hluthafa félagsins á fundinum þar sem þetta gerðist, er ljóst að þau fóru með eigendavald yfir félaginu. Benedikt og Guðríður sáttu svo í stjórn þess þar til það var afskráð.

Félagið afskráð 2010
Félagið afskráð 2010 Tortólafélagið var afskráð árið 2010 og sést bréfið sem Mossack Fonseca stílaði meðal annars á Benedikt í maí 2010 meðal annars hér. Þá var hætt að greiða árgjald félagsins og þegar slíkt er gert og lögmannsstofan sem heldur utan um félagið fær ekki greitt fyrir það slíta þær slíkum aflandsfélögum.

Fyrirtækið virkt þar til árið 2010

Fyrirkomulagið á stjórn Greenlight Holding Luxembourg er nokkuð frábrugðið fyrirkomulaginu í flestum þeim fyrirtækjum sem eru í Panama-skjölunum þar sem eigendurnir sjálfir, Benedikt og Guðríður, settust í stjórn félagsins í stað þess að aðilar á vegum Mossack Fonseca eða annarrar lögmannsstofu gegndu því hlutverki. Fyrirkomulagið hjá þeim var því gagnsærra ef svo má segja þar sem hluthafarnir sátu sjálfir í stjórn fyrirtækisins. 

Litlar upplýsingar eru í Panama-skjölunum um Greenlight Holding Luxembourg S.A. eftir þetta. Það er ekki fyrr en árið 2010 sem starfsmenn Mossack Fonseca senda tölvupósta sín á milli um að það eigi eftir að greiða umsýslugjöld fyrir fyrirtækið vegna ársins 2010. Á því ári virðist hafa verið hætt að greiða gjöld vegna félagsins til Mossack Fonseca og tilkynnti Mossack Fonseca þá fyrirætlun sína að hætta að sjá um umsýslu félagsins í bréfi í maí árið 2010 sem meðal annars var stílað á Benedikt Sveinsson og Magnús Guðmundsson í október árið 2010. Lögfræðingurinn Karim Van den Ende í Lúxemborg fékk einnig sams konar bréf vegna afskráningar félagsins. Félagið var svo afskráð úr fyrirtækjaskránni á Tortólu í október 2010. 

Tímasetningin á afskráningu félagsins vekur nokkra athygli þar sem að í gildi tóku lög á Íslandi árið 2010 sem gerðu eigendur aflandsfélaga persónulega skattskylda vegna tekna slíkra félaga erlendis. Benedikt hætti sem sagt að hafa félagið virkt á þessu sama ári. Eins og kom fram í frétt Reykjavík Media um félag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Wintris Inc., þá seldi hann eiginkonu sinni hlut sinn í Wintris einum degi áður en þessi lög tóku gildi í ársbyrjun 2010.

Félag með svipuðu nafni stofnað í Lúxemborg

Þann 7. apríl árið 2000, átján dögum áður en Magnús og Björn færðu félagið yfir á Benedikt og Guðríði, hafði Kaupþing í Lúxemborg sótt um kennitölu á Íslandi fyrir félag í Lúxemborg sem bar svipað nafn og Tortóla-félag Benedikts og Guðríðar. Það félag hét Greenlight Holding S.A. Umsóknin var vegna bankaviðskipta. Þetta kemur fram í skjali sem sent var til Ríkisskattstjóra og sem aðgengilegt er í gegnum vefsíðuna Creditinfo. 

Í skjalinu sækir Kaupþing um kennitölu fyrir félagið til að stunda bankaviðskipti á Íslandi. Ekkert er minnst á Benedikt eða Guðríði í þessari umsókn en með henni fylgdu stofnskjöl félagsins frá Lúxemborg sem dagsett voru í byrjun mars árið 2000. Út frá þessu skjali liggur því ekki fyrir því að Benedikt hafi verið eigandi umrædds félags. Í tölvupósti frá Kaupþingi til ríkisskattstjóra sagði um beiðnina um kennitölu: „Með þessu faxi fylgir stofnskrá Green Light Holding S.A. og staðfesting á skráningu félagsins hér í Lúxemborg. […] Ástæðan fyrir beiðninni: fjárfestingar á Íslandi og við þurfum að hafa kennitölu þegar við höfum viðskipti við bankastofnanir á Íslandi.“ Framkvæmdastjóri félagsins var þá sagður vera Magnús Guðmundsson, starfsmaður Kaupþings í Lúxemborg á þeim tíma. 

Sömu tvö Tortóla-félög og voru skráðir stjórnarmenn í félagi Gunnlaugs Sigmundssonar í Lúxemborg, Waverton Group Limited og Starbrook International Limited, skráðu sig fyrir öllu hlutafé félagsins upp á samtals 30 milljónir íslenskra króna.

Ekki liggur fyrir hvort eigendatengsl voru á milli Green Light-félagsins á Tortóla, Greenlight Holding Luxembourg S.A. og félagsins í Lúxemborg, Greenlight Holding S.A. Svo virðist hins vegar sem Benedikt Sveinsson hafi átt bæði félögin. 

Þetta fyrirtæki tengist líka Panamaskjölunum eins og Tortólafélagið, þó það sé með óbeinum hætti, þar sem mikið magn gagna er þar að finna um félögin Waverton Group Limited og Starbrook International Limited. Engar upplýsingar er hins vegar að finna um þau félög þar sem þessi Tortóla-félög sátu í stjórn. 

Fyrirtæki í Lúxemborg nutu skattahagræðis

Fyrirtæki eins og Greenlight Holding S.A. í Lúxemborg nutu verulegs skattahagræðis samkvæmt lúxemborgískum lögum fram til ársins 2010. Þetta voru svokölluð „1929 Holding“-félög en skattahagræði slíkra félaga var afnumið með lögum í Lúxemborg árið 2010. Meðal annars þurftu slík fyrirtæki ekki að greiða fyrirtækjaskatt í Lúxemborg og ekki skatta af arðgreiðslum sem þau meðtóku.

Lögin voru sett árið 1929 og var ætlað að búa til umhverfi í Lúxemborg sem væri skattalega hagkvæmt fyrir fyrirtæki. Eins og segir um „Holding 1929“-félög á einum stað: „Árið 1929 bjó hertogadæmið Lúxemborg til ákvæði í skattalögum sem var hagstætt fyrir eignarhaldsfélög en yfirvöld þar í landi höfðu áhyggjur af því að ekki væru í gildi tvísköttunarsamningar til að koma í veg fyrir tvísköttun. Samkvæmt þessu skattalagaákvæði þurfti fyrirtækið aðeins að greiða árlegan skráningarskatt sem nam 0,2 prósentum af eigin fé fyrirtækisins. Þar fyrir utan þurfti fyrirtækið ekki að greiða neina skatta, hvorki á innkomnar tekjur né útgreiddar.“ Lagaákvæðið breytti því samt ekki að einstaklingurinn, eða fyrirtækið, sem var eigandi félagsins þurfti að greiða skatta af mótteknum arði í því landi þar sem hann var með skattalega heimilisfesti.

Árið 2006 ákvað Evrópunefndin hins vegar að þessi lög í Lúxemborg fælu í sér „óréttlætanlegt skattahagræði“ og brot á lögum aðildarríkja Evrópusambandsins. Í kjölfar þess ákváðu yfirvöld í Lúxemborg að afnema lögin og var það gert árið 2007. Eigendur slíkra félaga fengu þriggja ára frest, fram til ársins 2010, til að búa sig undir afnám laganna. 

Þá virðist Benedikt Sveinsson hins vegar hafa verið hættur að nota umrætt félag.

Tortólafélagið bar sama nafn og skipafélag í Panama

Nafn eignarhaldsfélags Benedikts á Tortóla, og nafn félagsins í Lúxemborg, eru svipuð og nafn félags í Panama sem Benedikt stýrði meðal annarra á tíunda áratug síðustu aldar. 

Félagið í Panama hét Green Light Shipping Organization og var skipafélag samkvæmt Guðmundi Ásgeirssyni fjárfesti sem yfirleitt er kenndur við íslenska skipafélagið Nesskip. Guðmundur var stærsti hluthafi Nesskipa með rúmlega 40 prósenta hlut en Benedikt Sveinsson átti tæplega 24 prósenta hlut á móti honum auk þess sem eignarhaldsfélag hans, Hafsilfur ehf., átti 12 prósenta hlut í Nesskipum. Skipafélagið í Panama var stofnað utan um rekstur flutningaskipsins Sandness samkvæmt Guðmundi.

Nesskip er íslenskt skipafélag sem stofnað var árið 1974 en árið 2006 keypti norska skipafélagið Wilson Eurocarriers meirihluta í félaginu, meðal annars hlutabréf Benedikts Sveinssonar, og á norska fyrirtækið yfir 90 prósent hlutafjár í dag. Bjarni Benediktsson sat um tíma í stjórn Nesskipa fyrir hönd föður síns en nafn hans kemur meðal annars fyrir í ársreikningi Nesskipa fyrir árið 2003.

Benedikt sat í stjórn fyrirtækisins í Panama ásamt Guðmundi samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskránni í Panama. Benedikt og Guðmundur sátu líka í stjórn fyrirtækisins Kermit Overseas í Panama sem seldi félaginu Saltskipi hf., sem var í eigu SÍF, Sambands íslenskra fiskútflytjenda, flutningaskipið Hvítanes árið 1997. Eimskip keypti Hvítanes svo árið 2001 en þá var Benedikt Sveinsson stjórnarformaður Eimskipafélagsins eins og áður segir. 

Tekið skal fram að þessi fyrirtæki í Panama koma ekki fyrir í Panama-skjölunum en af einhverjum ástæðum ber Tortóla-félag Benedikts sama nafn og annað þessara skipafélaga. 

Félögunum slitið eftir sölu á skipum
Félögunum slitið eftir sölu á skipum Guðmundur Ásgeirsson, kenndur við Nesskip, segir að tveimur Panama-félögum sem Nesskip átti hafi verið slitið eftir að skip sem þau áttu voru seld. Benedikt átti nærri 40 prósent hlut í Nesskipum og sat Bjarni í stjórn félagsins fyrir hans hönd á tíunda áratugnum.

Félögunum slitið eftir sölu

Guðmundur segir að þessum tveimur fyrirtækjum hafi verið slitið eftir að skipin sem þau áttu voru seld. „Þetta voru bara skipafélög. Þau áttu skip og sigldu meðal annars með saltfisk og voru í alþjóðasiglingum. Þetta eru eignarhaldsfélögin yfir skipin sjálf, yfir stálinu. Endanlegur eigandi þessara fyrirtækja var svo Nesskip. Svo var þessum félögum bara slitið þegar skipin voru seld. Þá var þetta bara búið,“ segir Guðmundur. Bæði skipin sem voru inni í félögunum tveimur voru því seld út úr þessum félögum.

Guðmundur segir að ástæðan fyrir stofnum þessara fyrirtækja hafi verið að þegar skipin voru keypt hafi þau verið skráð í Panama og að það hafi ekki verið nein ásæða til að færa þau þaðan og því hafi þessi tvö skipafélög verið stofnuð utan um rekstur skipanna. „Þegar Hvítanesið er keypt var það undir Panama-fána. Það er mjög erfitt að fá eldri skip inn undir flagg í nýju landi. Það er ýmislegt sem varð til þess að það var engin ástæða til að skipta neitt um land og færa þetta frá Panama.“

Samkvæmt þessu svari Guðmundar voru því fyrst og fremst praktískar ástæður fyrir því að þeir Benedikt ákváðu að stofna fyrirtækin í Panama í kringum rekstur umræddra skipa. Nesskip ehf. átti svo að minnsta kosti fjögur önnur dótturfélög en fyrirtækin tvö í Panama og voru þau öll skráð á Kýpur samkvæmt ársreikningum félagsins. 

Tortóla-félag Benedikts virðist því ekki hafa komið að rekstri Green Light Shipping Organization þó nafn þess sé líkt nafni panamíska fyrirtækisins enda var búið að slíta skipafélaginu í Panama þegar Tortólafélagið var stofnað. Guðmundur segir að hann minni að eigendur Nesskipa hafi keypt panamíska fyrirtækið Green Light Shipping Organization af fyrirtæki í Panama og að félagið hafi þá borið umrætt nafn.

Greenlight kemur fyrir í ársreikningum Benedikts

Eignarhaldsfélag sem ber nafnið Greenlight kemur fyrir í ársreikningum áðurnefnds fyrirtækis Benedikts Sveinssonar, Hafsilfurs hf., sem hélt utan um hlutabréf hans í Nesskipum. Greenlight er talið upp í ársreikningum fyrirtækins fram til ársins 2006. Hafsilfur er sagt 100 prósent eigandi félagsins en ekki er sagt frá fyrirtækinu með sama hætti í hvert skipti. Í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2005 er fyrirtækið kallað „Green Light Holding“ og í ársreikningum 2006 er það kallað „Green light Holding ehf.“. Í ársreikningunum er verðmæti umrædds fyrirtækis sagt vera rúmlega tvær milljónir króna. 

Ekkert fyrirtæki í íslensku hlutafélagaskránni heitir hins vegar „Green light Holding ehf.“ og er langlíklegast að vísað sé til fyrirtækisins í Lúxemborg þar sem endingin „Holding“ kemur þar fyrir og ekkert bendir til að Hafsilfur ehf. hafi verið eigandi Tortóla-félagsins.

Engar opinberar upplýsingar eru hins vegar til um Tortóla-félag Benedikts og Guðríðar, Greenlight Luxembourg S.A, sem Stundin hefur heimildir um. Miðað við gögnin í Panama-skjölunum voru þau Benedikt og Guðríður líka skráð persónulega fyrir félaginu og því koma upplýsingar um eignarhald þess væntanlega ekki fram í neinum ársreikningum annarra félaga á þessum tíma. Engar opinberar heimildir liggja fyrir um eignir þess eða starfsemi. 

Fyrirtækið í Lúxemborg kemur ekki fyrir í ársreikningum eignarhaldsfélags Benedikts eftir árið 2007 en tekið skal fram að fyrirtækið skilaði engum ársreikningum á árunum 2008 og 2009. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2010 er hins vegar ekkert minnst á Green Light Holding og virðist félagið þá ekki hafa verið hluti af eignasafni Hafsilfurs ehf. Félag með þessu nafni finnst ekki heldur í hlutafélagaskránni í Lúxemborg.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Panamaskjölin

Hvernig peningaslóð stjórnenda Kaupþings og maka þeirra liggur til Tortólu
Skýring

Hvernig pen­inga­slóð stjórn­enda Kaupþings og maka þeirra ligg­ur til Tor­tólu

Notk­un eig­in­kvenna fyrr­ver­andi stjórn­enda Kaupþings­banka á fé­lög­um á af­l­ands­svæð­inu Kyp­ur er enn eitt dæm­ið um það að þess­ir að­il­ar hafi not­ast við slík fé­lög í við­skipt­um sín­um eft­ir efna­hags­hrun­ið 2008. Hreið­ar Már Sig­urðs­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings, og eig­in­konu hans tengd­ust til dæm­is fé­lög­um í Pana­maskjöl­un­um og ár­ið 2019 var sagt frá Tor­tóla­fé­lagi sem not­að var til að halda ut­an um eign­ir á Ís­landi sem tengd­ust þeim.
Panamaskjölin: Seldi húsið sitt mánuði fyrir kyrrsetningu í skattamáli
FréttirPanamaskjölin

Pana­maskjöl­in: Seldi hús­ið sitt mán­uði fyr­ir kyrr­setn­ingu í skatta­máli

Sig­urð­ur Gísli Björns­son, at­hafna­mað­ur og fyrr­ver­andi eig­andi fisk­sölu­fy­ir­tæk­is­ins Sæ­marks, seldi hús­ið fyr­ir 185 millj­ón­ir mán­uði áð­ur en eign­ir hans voru kyrr­sett­ar. Rann­sókn­in hef­ur und­ið upp á sig og eru upp­hæð­irn­ar sem tengj­ast meint­um skatta­laga­brot­um í gegn­um Panama hærri en tal­ið var.
Fengu fjölskyldumálverk í hendurnar eftir umfjöllun Stundarinnar
FréttirPanamaskjölin

Fengu fjöl­skyldu­mál­verk í hend­urn­ar eft­ir um­fjöll­un Stund­ar­inn­ar

Skosk­ar mæðg­ur sem komu til Ís­lands í byrj­un árs í leit að svör­um við spurn­ing­um sem leit­að hafa á fjöl­skyldu þeirra eru þakk­lát­ar Ís­lend­ingi sem sendi þeim mál­verk sem var í eigu ömmu þeirra og lang­ömmu á Ís­landi. Gunn­ar Eggert Guð­munds­son taldi rétt­ast að fjöl­skyld­an fengi mál­verk­ið þar sem þau fengu lít­ið sem ekk­ert úr búi Áslaug­ar.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu