Davíð Örn Guðjónsson er landfræðingur og starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins sem friðargæsluliði í borginni Batticaloa á Sri Lanka í tæpt hálft ár á árunum 2007-2008.
„Kvöld eitt í nóvember 2007 fór ég út að borða með kollega mínum frá norsku flóttamannahjálpinni. Úrval veitingastaða í borginni var afar takmarkað og því sjaldgæft að ég borðaði utan heimilisins.
Ég pantaði mér rækjukarrý og límonaði til að drekka og þegar ég vaknaði um nóttina leið mér eins og mér hefði verið byrlað eitur. Ég var með óráði og orkulaus en fór fram úr rúminu og tók sterkt verkjalyf en þar sem langt var á næsta sjúkrahús var ég með pakka með helstu lyfjum sem ég taldi mig þurfa að hafa, þar á meðal malaríulyf sem ég og flestir aðrir friðargæsluliðar tókum daglega. Mér fór að líða eilítið betur og lagðist aftur í rúmið en fékk þá fljótlega mikið kuldakast.“
Martröðin var rétt að byrja.
Malaría útilokuð
Davíð Örn var orkulaus og óglatt næsta dag en mætti samt í vinnuna og fór ásamt fleirum út fyrir borgina til að fylgja eftir einu verkefninu. „Þegar þangað kom var ég orðinn mjög veikur og ákvað Norðmaðurinn að fara með mig til læknis.
Þar var tekin blóðprufa og mér gefin sýklalyf. Ég fór síðan heim og lagðist upp í rúm. Norðmaðurinn kom þó fljótlega og sagði að ég yrði að leggjast á sjúkrahús þar sem ég væri með einkenni malaríu. Hann hafði samband við höfuðstöðvar okkar í Colombo og var ákveðið að ég færi strax á sjúkrahús. Við tók átta tíma keyrsla á sjúkrahús þar sem strax var athugað hvort um malaríu væri að ræða.“
Svo var ekki og sneri Davíð Örn fljótlega aftur til vinnu.
Hann segir að á þessum tíma hafi hann ekki haft neina matarlyst og fór hann að fá reglulega niðurgang og magaverki. „Ég taldi að þetta væri tímabundinn kvilli hugsanlega út af þeim sterka mat sem í boði var í landinu.“
Þá fannst honum oft eftir því sem á leið eins og eitthvað vera á hreyfingu inni í sér þegar hann var að fara að sofa en taldi það vera ímyndun.
Athugasemdir