Margrét Erla Maack er marghöfða skrímsli. Frá unga aldri hefur hún fetað sína eigin ótroðnu slóð. Hvar sem hún stingur niður fæti, hvort sem það er í útvarpi, sjónvarpi, á sviði, í leikhúsi eða á brjóstunum með Sirkus Íslands, er eftir því tekið. Þrátt fyrir að vera ung að árum hefur hún lifað litríku lífi og er engan veginn orðin södd. Nú síðast vakti hún athygli fyrir heiðarlega lýsingu á kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir í myndbandi fyrir Druslugönguna og svo í kjölfarið kaldhæðna beiðni sína að Vestmannaeyingar ættu vinsamlegast að nauðga heima hjá sér, í umræðum um kynferðisbrot á þjóðhátíð.
Til að byrja á byrjuninni segir Margrét foreldra sína ekki vissa um hvort getnaður hennar hafi átt sér stað í Nice í Frakklandi eða Lúxemborg „en þau fullyrða samt að það sé ástæðan fyrir því að mér finnst svo gaman að hafa það næs og lúxuslegt“. Segist hún lengi hafa verið feitasta barn á Íslandi, sem hafi gert það að verkum hversu lengi hún var að læra að ganga. Þrátt fyrir þyngdina segist hún hafa verið verulega matvönd.
Athugasemdir