Í gærkvöldi var samningur Sjómannasambands Íslands samþykktur með naumum meirihluta. Niðustaðar atkvæðagreiðslunnar var tilkynnt hjá ríkissáttasemjara klukkan 20:45. Fór kosningin um samningin þannig að 52,3 prósent samþykktu hann en 46,9 prósent greiddu atkvæði gegn honum. Auðir og ógildir seðlar voru átta. Alls kusu 1189 sjómenn um samningin, og voru 623 atkvæði greidd með honum en 558 greidd gegn.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, hafa hótað sjómönnum lagasetningu, og þannig stillt þeim upp við vegg að semja við útgerðarmenn.
Þorgerður Katrín neitaði því í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 að hafa hótað lagasetningu. (Samtalið hefst eftir rúmar 34 mínútur af þættinum.) „Nei það er einfaldlega ekki rétt,“ sagði Þorgerður í samtali við Sigmar Guðmundsson. Sigmar gekk á Þorgerði og spurði hana aftur: „Sagðir þú þeim um helgina að það væru lög tilbúin og þau yrðu sett ef menn myndu ekki semja stuttu síðar? Voru þau orð hangandi yfir samninganefndunum þarna um helgina?“
„Loðnan er komin hérna, hún setti auðvitað þrýsting á alla.“
Þorgerður svaraði spurningunni: „Ja, það er alveg ljóst að við ræddum þetta, við sögðum, það eru komnar tíu vikur í verkfalli. Menn áttuðu sig á að það var komið að þessum skurðpunkti. Loðnan er komin hérna, hún setti auðvitað þrýsting á alla. Loðnan er komin, og það eru náttúrlega ekki margir kostir eftir þegar menn eru búnir að vera tíu vikur í verkfalli. En það er af og frá að þeim hafi verið hótað.“
Vilhjálmur tjáði sig fyrst um málið opinberlega í Facebook-færslu í gærkvöldi. Þar sagði hann að hluta sjómannaforystunnar hefði verið tilkynnt að búið væri að gera klár lög á deiluna. „En ráðherrann sagði „þetta er ekki hótun“! Jafnframt sagði hún að sjómannaforystan hefði til miðnættis að svara þessu sáttatilboði, því ef tilboðinu yrði ekki tekið og deilan myndi ekki leysast þá þyrfti hún að hringja í forseta Alþings til að kalla Alþingi saman og setja lög á sjómenn!“
„Hann staðfestir að í öllum atriðum er frásögn Vilhjálms af fundinum rétt.“
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands var einnig á viðstaddur fundinn með Þorgerði Katrínu þar sem lagasetning var rædd. Ekki náðist í Jónas við vinnslu fréttarinnar, þar sem hann er á sjó. Á síðu SÍ kom hinsvegar inn tilkynning í dag. Þar segir: „Vegna samskipta sjómanna við sjávarútvegsráðherra og viðtala við Vilhjálm Birgisson formanns VLFA um málið, þar sem sjómönnum var hótað lagasetningu til að stöðva verkfall sjómanna, skal tekið fram að formaður Sjómannafélags Íslands, Jónas Garðarsson, var á umræddum fundi með sjávarútvegsráðherra. Hann staðfestir að í öllum atriðum er frásögn Vilhjálms af fundinum rétt.“
Því er ljóst að annaðhvort fara talsmenn sjómannaforystunnar með rangt mál, eða Þorgerður Katrín segir ekki rétt frá.
Athugasemdir