Katrín Jakobsdóttir hefur algera yfirburði í stuðningi þjóðarinnar í embætti forseta Íslands, samkvæmt skoðanakönnun Stundarinnar. Þeir tveir síðustu einstaklingar sem setið hafa á Bessastöðum hafa verið mjög ólíkir persónuleikar, með gríðarlega ólíkar áherslur. Vigdís Finnbogadóttir var nánast óumdeild, sameiningartákn jafnréttis og húmanisma, sem sat alla tíð á friðarstóli. Við af henni tók Ólafur Ragnar Grímsson, pólitískur refur, markaðsstjóri viðskiptalífsins, sem afþýddi málsskotsréttinn og sigldi í gegnum ólgusjó.
Enginn þeirra sex einstaklinga sem búnir eru að tilkynna framboð sitt til forseta þykja líklegir til að ná kjöri. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Stundarinnar, þar sem spurt var um stuðning við 27 framkomna og mögulega forsetaframbjóðendur, hefur Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, afgerandi mestan stuðning í embættið sem kosið verður til næsta sumar.
Katrín hefur hins vegar hvorki boðið sig fram til forseta né útilokað framboð. Af þeim 10 aðilum sem mestan stuðning hlutu í könnun Stundarinnar var enginn einn þeirra sex sem nú hafa boðað framboð til forseta. Sá fyrirliggjandi frambjóðenda sem þótti helst koma til greina var Þorgrímur Þráinsson, en einn af hverjum tíu valdi hann.
Athugasemdir