Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Hengistóllinn er í sérstöku uppáhaldi

Skart­gripa­hönn­uð­irn­ir Helga Guð­rún Frið­riks­dótt­ir og Orri Finn­boga­son búa í lít­illi íbúð á Vest­ur­göt­unni. Heim­il­ið er í af­slöpp­uð­um bóhem stíl og hef­ur mikla sál. Út­sýn­ið yf­ir slipp­inn og höfn­ina er ein­stakt og set­ur sterk­an svip á íbúð­ina.

Mild reykelsislykt tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara þegar gengið er inn í íbúðina. Helga Guðrún og Orri byrja á því að hella upp á kaffi í espresso könnu og bjóða okkur sæti við stofugluggann. Úti blasir við líf og fjör í slippnum, sem og Esjan í allri sinni dýrð. Helga Guðrún keypti íbúðina árið 2010, áður en hún kynntist Orra. Hún segir staðsetninguna og útsýnið fyrst og fremst hafa heillað sig. „Við sitjum eiginlega alltaf hér og horfum út. Meira að segja börnin geta gleymt sér við að glápa á skipin,“ segir hún. Tilhugsunin um að slippurinn fari úr miðbænum finnst þeim leiðinleg. „Ég held að það sé misskilningur í borgarmyndun að það þurfi að hreinsa til og ýta öllu til hliðar fyrir ferðamenn. Það eru einmitt þessir hlutir sem gera borgina sjarmerandi.“

Stórkostlegt útsýni
Stórkostlegt útsýni „Við vitum alltaf hvaða skip eru í slipp. Maður getur alveg slegið um sig með þeim upplýsingum,“ segir Helga Guðrún.

Algjör kráka
Algjör kráka Helga Guðrún og Orri hanna saman skartgripi undir nafninu Orri Finn. „Þetta er morgunseremonían mín, að tína á mig alla hringina. Það tekur lúmskan tíma. Ég hef alltaf verið algjör kráka og þarf að vera með mikið af skarti.“
Hljóðfærin
Hljóðfærin Orri ver löngum stundum í hljóðfærahorninu svokallaða, en þar má finna nokkur strengjahljóðfæri, orgel, harmonikku og bongótrommur.
 

Íbúðin er ekki stór, en hátt er til lofts og rýmið er opið. Í miðri stofunni hangir fjólublár hengistóll sem er í sérlegu uppáhaldi hjá heimilisfólkinu, sér í lagi hjá sonum Orra sem eru á aldrinum sjö, tíu og þrettán ára. „Þeir rífast um hver megi sitja í stólnum,“ segir Helga Guðrún. Sjálfri þykir henni best að liggja með góða bók á marokkóska teppinu í legubekknum sem einnig er í stofunni og þá er uppáhalds staður Orra hljóðfærahornið svokallaða þar sem hann spilar ýmist á orgelið sem hann erfði eftir afa sinn, harmonikku eða gítar. „Stofan er miðja heimilisins og við verjum miklum tíma hér,“ segir Helga Guðrún. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár