„Þá varð mér litið út um gluggann, á naktar greinar sem bar við hvítan himin, og ákvað að ákvörðunin um að flytja hingað hefði verið rétt, eða í versta falli ekki röng. Þak yfir höfuðið. Dapurleg fegurð. Friður. Húsið var lítið en hátt til lofts í stærsta rýminu sem gegndi hlutverki eldhúss, stofu og borðstofu. Til að spara pláss og fé höfðum við keypt skáphurðir úr Ikea í stað venjulegra hurða en þær voru rennihurðir og úr gleri og gáfu heimilinu japanskan blæ – þótt það væri að öðru leyti sundurgerðarlegt; gólfið flotað, húsgögnin tilviljanakenndur samtíningur, pottaplöntur lifðu af dragsúg og skort á sólarljósi. Hátalarar, magnarar, gamlar myndavélar og önnur tæki voru áberandi – líkt og við byggjum í stúdíói. Við höfðum fengið okkur kamínu vegna þess að þegar vindur blés að norðan næddi kuldinn inn í húsið og í vetur sem leið sátum við stundum á púðum við eldinn. …
Guðrún Eva Mínervudóttir birtir brot úr nýrri skáldsögu sinni um leið og hún segir frá heimili sínu og því sem skiptir hana mestu máli. Hún er heppin, segir hún, því hún á heimili og óskar öllum þess að mega búa við öryggi og frið. Vera Pálsdóttir ljósmyndari sótti hana heim.
Athugasemdir