Það var á björtum maídegi sem ég hitti Eystein í fyrsta skipti. Hávaxinn, grannur maður með bréfpoka í annarri hendinni, gekk hægum skrefum á bílastæðinu fyrir framan fjölbýlishúsið sem hann býr í í Keflavík. Eysteinn var kominn á undan upp á þriðju hæð þar sem hann býr og þegar hann hafði heilsað hlýlega setti hann innihald bréfpokans á disk. Sætabrauð úr bakaríinu.
Sjálfur gat hann ekkert borðað út af æxlinu við vélindað. Hann átti erfitt með að kyngja og þess vegna skyrpti hann reglulega í eldhúsvaskinn eða fór fram á baðherbergi. Plastslanga sást standa upp úr buxnastrengnum. Í hana hefur farið næstum því öll næring sem hann hefur fengið í tæpt ár.
Sætabrauðið lá óhreyft á diskinum meðan á viðtalinu stóð. Þegar annar aðilinn getur ekki borðað finnst manni ekki eiga við að vera að gæða sér á sætabrauði. Það sýndi hins vegar gestrisni Eysteins að fara svona veikur út í bakarí.
Eysteinn, sem talaði meðal annars um reykingar og drykkju í gegnum árin, sagði frá sjúkdómssögu sinni en reykingar og drykkja eru aðalástæður vélindakrabbameins eins og hann er með. Mér fannst samt vanta eitthvað í viðtalið.
Eysteinn hafði samband við mig daginn eftir. Sagðist hafa verið í vörn og vildi hitta mig aftur. Hann heilsaði jafnhlýlega og fyrr og sagði í það skipti á hreinskilinn hátt um hve djúpt hann sökk í drykku og eiturlyfjaneyslu í kringum tvítugt. Reykingarnar fylgdu með. Eysteinn var íþróttamaður sem um tvítugt spilaði í efstu deild bæði með Njarðvík og Snæfelli. Hann hætti í íþróttum 22 ára þegar hann fór í framreiðslunám en hann vann lengi sem þjónn. Hann hefur nokkrum sinnum hætt allri neyslu og farið í meðferðir.
Greinin var síðan skrifuð og lauk á skilaboðum Eysteins til unglinga sem eru að fikta við áfengi og tóbak:
„Ég hef glímt við þennan alkóhólisma í 24 ár. Það hafa gríðarlegir peningar farið í þetta, heilsunni hefur hrakað gríðarlega og lífsánægja, lífsvilji og frami tefst alveg svakalega og verður jafnvel enginn ef fólk er í þessu. Ef þú ert 14 ára og ert að fara í svona félagsskap – talaðu við foreldra þína og reyndu að finna aðra leið.“
Eysteinn átti að fara í enn eina lyfjameðferðina nokkrum dögum eftir viðtalið. Hann fékk að vita að lyfjameðferðirnar yrðu ekki fleiri. Sama dag var hann að aka frá Reykjavík til Keflavíkur og þegar hann var kominn að Straumsvík var hann orðinn svo veikur að hann þurfti að aka út í vegarkant og hringdi í bróður sinn sem hringdi á sjúkrabíl. Eysteinn var með lungnabólgu auk þess sem slangan sem lá inn í magann hafði losnað og olli honum mikilli vanlíðan og segir hann að hún hafi verið farin að slást í líffæri. Hann lá fárveikur á sjúkrahúsi í um mánuð.
Baráttan hefur síðan verið hörð. Hann hefur fjórum sinnum fengið lungnabólgu frá því í vor og og krabbinn grasserar í þessum 41 árs gamla manni.
Hann er 188 sentímetrar og um 50 kíló.
Athugasemdir