Matarsóun og nýting matvæla hefur verið töluvert í umræðunni á undanförnum misserum og það er að sjálfsögðu mjög jákvætt og hefur örugglega vakið marga til umhugsunar og jafnvel fengið þá til að bæta ráð sitt. Þó er ekki allt sem gert hefur verið nýlunda – ég heyrði til dæmis nýlega útvarpsviðtal við konu um þetta efni og þá minntist hún meðal annars á að hún hefði skömmu áður séð í Bónus að þar var hilla með ávöxtum og grænmeti sem voru farin að láta á sjá og voru seld á niðursettu verði. Þetta taldi hún vera nýtt og þakkaði það umræðunni. En í Bónus, í það minnsta þar sem ég versla, hefur þetta verið gert í mörg ár og ég hef oft nýtt mér þetta.
Sumt grænmeti og ávextir er ekkert verra þótt útlitið sé ekki alveg upp á sitt besta, annað er vel hægt að nýta að minnsta kosti að hluta og það borgar sig ef afslátturinn er verulegur – ég keypti til dæmis einu sinni bakka með nektarínum á 50 krónu, tvær voru skemmdar og ég henti þeim en hinar allar í fínu lagi.
Ljótari og betri ávextir
Og svo eru til tegundir sem batna eftir því sem þær ljókka, allavega upp að vissu marki. Bananar eru auðvitað gott dæmi, þeir verða því bragðmeiri og sætari sem þeir eru linari og ljótari, og sveppir verða líka bragðmeiri með aldrinum. Einu sinni var ég í grænmetiskælinum í Hagkaup og þar var boðið upp á tvenns konar ætisveppi, annars vegar skjannahvíta og áferðarfallega, hins vegar sveppi sem voru farnir að dökkna verulega og þorna dálítið. Þá kom þar að maður, fór að tína sveppi í poka – þessa hvítu og fínu – og sagði við mig; - Mikið eru þetta fallegir sveppir.
- Já, sagði ég – en ég vil nú heldur þessa. Og byrjaði að tína þessa ljótu í pokann minn.
Athugasemdir