Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

„Ég horfði á Sýrland brenna“

Firas Fayyad var hand­tek­inn og pynt­að­ur í sýr­lensku fang­elsi. Hann seg­ir mark­mið­ið hafa ver­ið að „brenni­merkja sál“ hans. Það tókst ekki enda held­ur hann bar­áttu sinni fyr­ir frálsu Sýr­landi áfram með linsu mynda­vél­ar­inn­ar að vopni. Fayyad vinn­ur að heim­ild­ar­mynd um sýr­lensk­an dreng og flótta hans til Evr­ópu. Hann held­ur til í Tyrklandi á með­an Sýr­land brenn­ur fyr­ir fram­an aug­un á hon­um. Þorp syst­ur hans var ný­lega lagt í rúst í rúss­neskri loft­árás.

„Á þessum myndum má sjá eyðileggingu þorpsins hennar systur minnar. Rússneskar sprengjuflugvélar sprengdu það í loft upp. Þar voru engir ISIS-liðar eða uppreisnarmenn. Einungis nokkrar litlar fjölskyldur.“ Sýrlenski kvikmyndagerðarmaðurinn Firas Fayyad flúði heimaland sitt árið 2012. Hann fékk nýlega þær fregnir að þorpið Tal Hadia hefði verið lagt í rúst. Þar hafði systir hans, Maryam Fayyad, haldið til ásamt tveimur börnum sínum.

Tal Hadia er lítið sýrlenskt þorp nærri Aleppo. Þar bjuggu um fjögur þúsund manns árið 2004 en eftir sprengjuárásir sýrlenska hersins voru einungis fáar fjölskyldur eftir, þar á meðal Fayyad og börn hennar. „Húsið hennar var lagt í rúst rétt eins og flest önnur húsin í þorpinu,“ segir Fayyad sem eins og aðrir Sýrlendingar á flótta er æ ofan í æ minntur á hryllinginn í heimalandinu. Þær fjölskyldur sem eftir voru hafa nú allar yfirgefið þorpið sem að sögn Fayyad er nú lítið annað en draugaþorp.

Systir hans og börn lifðu árásina af. „Hún var ekki heima þegar
árásirnar hófust og þeim tókst að flýja yfir í þorp fjölskyldu minnar.“ Systir Fayyad var hjá nágranna sínum þegar þau heyrðu í útvarpinu að rússneskar loftárásir væru yfirvofandi. „Útvarpið er eina tækið til þess að vita hvenær vænta má árása.“ Fayyad segir að hún hafi lýst því þannig að stuttu síðar hafi þau heyrt hávaða og hvelli allt í kring um sig og hlaupið í skjól. Þegar árásunum linnti hafi þeim orðið eyðileggingin ljós: „Við sáum húsin okkar í rúst. Við grétum bara og grétum.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár