Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík hefur ítrekað farið á svig við starfsleyfi og ekki tilkynnt um óhöpp og atvik sem hafa átt sér stað eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Þetta kemur fram í bæði opinberum eftirlitsskýrslum og í tölvupóstsamskiptum á milli stjórnenda United Silicon og Umhverfisstofnunar sem Stundin hefur undir höndum. Í þeim kemur meðal annars fram að Umhverfisstofnun hafi skráð frávik frá starfsleyfi í hverri einustu eftirlitsheimsókn sem farin hefur verið í verksmiðju United Silicon frá því þær hófust með fyrirvaralausu eftirliti þann 17. nóvember síðastliðinn. Samkvæmt Umhverfisstofnun er frávik framkvæmd sem telst ekki í samræmi við kröfur sem settar eru fram í starfsleyfi, lögum og reglugerðum. Tólf slík frávik hafa verið skráð í umræddum eftirlitsheimsóknum en þá eru skráningar á frávikum hjá öðrum eftirlitsstofnunum ótaldar.
Stundin hefur á undanförnum mánuðum ítarlega fjallað um kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, aðdragandann að byggingu hennar, framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar og viðskiptasögu eigandans, Magnúsar Garðarssonar. Í síðustu umfjöllun Stundarinnar voru birt myndskeið sem starfsmenn sögðu sýna ólöglega losun á varasömum efnum utan verksmiðjunnar. Þetta hafi verið gert í skjóli nætur og að þessari aðferð væri beitt í trássi við starfsleyfi United Silicon.
Athugasemdir