Það er stílhreint og fallegt í íbúð Gísla Arnar Lárussonar á Fulham Road í London, þar sem hann hefur búið undanfarin misseri. Appelsínugult og rautt er áberandi hvert sem litið er.
„Ég er hrifinn af þessum tveimur litum og hef lengi verið. Því ekki að halda sig við það sem lætur manni líða vel?,“ spyr Gísli með bros á vör þegar ég minnist á þetta. Hann er glaðlegur og virkar í góðu jafnvægi og af öllu yfirbragðinu að dæma myndi maður telja hann talsvert yngri en aldurinn gefur til kynna. Það er kannski ekki skrýtið, enda hefur Gísli hugleitt og stundað yoga nánast daglega svo árum skiptir. Hann segir þetta tvennt lykilinn að því að geta verið jafn atorkusamur og raun ber vitni, án þess að brenna yfir. En líf Gísla hefur ekki alltaf einkennst af jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, líkama og sálar. Gísli kleif metorðastigann hratt í atvinnulífinu og var ungur að árum orðinn forstjóri eins stærsta trygginarfélags Evrópu.
Athugasemdir