Af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar má ráða að kjörtímabilið muni einkennast af íhalds- og aðhaldssemi í ríkisfjármálum og hægrisinnaðri skattastefnu auk þess sem fjármögnun grunnþjónustu og uppbyggingu innviða verði áfram skorinn þröngur stakkur.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hyggst auka vægi einkareksturs í menntakerfinu og liðka fyrir þátttöku einkaaðila í fjármögnun og rekstri samgönguverkefna. Þá virðist ekki standa til að hverfa frá þeirri grunnstefnu í skattamálum sem rekin var í stjórnartíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, en sú skattastefna fól í sér að bein skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa jókst meðan álögum var létt af hátekju- og stóreignafólki.
Um leið og ríkisstjórnin boðar öfluga uppbyggingu innviða, forgangsröðun í þágu heilbrigðismála og útgjaldaaukningu til ýmissa málaflokka er stefnt að því að „allar varanlegar útgjaldaákvarðanir rúmist innan hagsveiflunnar“ og að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára. Í stjórnarsáttmálanum eru þannig annars vegar sett fram háleit og aðhaldssöm rekstrarmarkmið og hins vegar gefin rausnarleg loforð sem krefjast verulegrar útgjaldaaukningar. Þrátt fyrir þetta er lítið fjallað um varanlega tekjuöflun hins opinbera; minnst er á græna skatta, bætt skatteftirlit, bílastæðagjöld og aðra gjaldtöku af ferðamönnum en að öðru leyti virðist helst eiga að treysta á sparnað í opinbera geiranum og einskiptistekjur vegna sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Um leið er stefnt að því að almenningur fái „tiltekinn eignarhlut“ afhentan endurgjaldslaust sem var eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga.
Fram kemur að lögð verði áhersla á að treysta „samkeppnishæfni Íslands“ og skapað skattaumhverfi sem auki „alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja“. Þetta er í samræmi við yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, á Alþingi síðasta vor um ágæti alþjóðlegrar skattasamkeppni.
Horft til einkaframkvæmdar
Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar stóð til að fjárfestingarstigi hins opinbera yrði haldið í lágmarki næstu fimm árin, álíka lágu og á tímum kreppunnar. Um leið var horft til þess að einkaaðilar gætu sinnt nauðsynlegum innviðafjárfestingum.
Sams konar hugmyndir birtast í stjórnarsáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar en þar kemur fram að leitað verði „fjölbreyttari leiða til að fjármagna samgöngukerfið, meðal annars með samstarfsfjármögnun þar sem það er hagkvæmt“. Hér er vísað til þess sem sem á ensku er kallað public-private partnership og oftast þýtt sem einkafjármögnun eða einkaframkvæmd.
Athugasemdir