Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Við Styrmir

Styrmir Gunnarsson var lengi meðal nánustu samherja minna í fiskveiðistjórnarmálinu. Flokksbræðrum hans mörgum fannst hann hafa gengið úr skaftinu. Það sem gerðist var að föður mínum tókst að sannfæra Matthías Johannessen, hinn ritstjóra Morgunblaðsins, um nauðsyn veiðigjalds. Matthías sá um Styrmi. Þeir skrifuðu leiðara eftir leiðara og Reykjavíkurbréf eftir bréf um nauðsyn þess að stjórna fiskveiðum á þann veg að útvegsmenn greiddu fullt verð fyrir kvótann.

Ég fékk spurnir af því fyrir 25 árum eða þar um bil að sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði mælt með veiðigjaldi í viðræðum við stjórnvöld. Ég fékk Styrmi til að biðja sinn mann í bankanum, Birgi Ísleif Gunnarsson seðlabankastjóra, um að leyfa sér að sjá minnisblað sjóðsins um málið. Þá getum við sagt, sagði ég við Styrmi: Sjóðurinn segir þetta líka! Styrmir reyndi og hringdi síðan til að segja mér að Birgir Ísleifur vildi ekki láta minnisblaðið af hendi.

Nú geta stjórnvöld ekki lengur legið á slíkum upplýsingum heldur birtir sjóðurinn nú yfirleitt slík gögn í anda gegnsæis sem Rússar kalla glasnost. Mig langar að halda að við Styrmir eigum okkar litla þátt í því.

Það kom flatt upp á Styrmi þegar honum var boðið sæti fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í auðlindanefnd sem lagði á ráðin um fiskveiðistjórnarstefnuna. Sá árangur varð af starfi nefndarinnar að veiðigjald var leitt í lög 2002 en þó aðeins til málamynda. Styrmi þótti þetta duga. Hann sagði: Lýsum yfir sigri og snúum okkur að öðru – líkt og Bandaríkjamenn gerðu þegar þeir töpuðu stríðinu í Víetnam 1975. Styrmir hellti sér út í baráttuna gegn aðild Íslands að ESB, gegn Baugi og gegn útlendingum sem hann kenndi um hrunið hér heima. Við höfðum nú færra um að tala, nema tónlist.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni