Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Umsögn handa undirbúningsnefnd

Til: Undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa

Frá: Þorvaldi Gylfasyni

Efni: Umsögn um „Framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi. Málsatvik.“

Ég þakka nefndinni fyrir að veita mér sem einum 16 kærenda færi á að bregðast við uppfærðri lýsingu nefndarinnar á málavöxtum í NV-kjördæmi.
Lýsingin er að minni hyggju haldin sömu göllum og fyrri lýsing enda hefur nefndin í engu brugðizt við athugasemdum mínum og annarra kærenda við fyrri lýsingu að því er ég fæ séð. Lýsingin er því eftir sem áður ótrúverðug í veigamiklum atriðum.

Ég hef eins og áður þrennt að athuga við lýsinguna.

1. Fulltrúum yfirkjörstjórnar í NV ber enn ekki saman um mikilvæg atriði í lýsingu þeirra á málsatvikum. Ekki verður séð að reynt hafi verið að sannreyna vitnisburði þeirra með þekktum úrræðum.

2. Lýsingin tekur ekki enn tillit til þess að einn kærandinn færir óyggjandi tölfræðileg rök að því að lýsing formanns yfirkjörstjórnar á tildrögum síðari talningarinnar hlýtur að vera röng. Nefndin hefði getað boðað hlutlausan tölfræðing eða stærðfræðing á sinn fund til að skýra fyrir henni hvers vegna tölfræðirökin hníga svo sterklega að þeirri niðurstöðu að átt hafi verið við gögnin milli fyrri talningar og hinnar síðari. Hvergi kemur fram að formaðurinn hafi verið látinn sverja eið að framburði sínum hjá lögreglu sem er þekkt úrræði í málum sem þessu þar eð meinsæri er refsivert. Svo virðist sem nefndin kjósi vitandi vits að leiða hjá sér þann möguleika að átt hafi verið við gögnin. Meðferð nefndarinnar á þessum þætti málsins virðist vitna um hlutdrægni og rangsleitni.

3. Lýsingin er bundin við málsatvik í NV-kjördæmi en tekur ekki á hliðstæðum vitnisburðum sem kærendur lögðu fram um meint lögbrot og aðra óreglu við meðferð kjörgagna í öðrum kjördæmum. Við bætist að ný kæra vegna gruns um kosningasvik í SV-kjördæmi er nú til skoðunar hjá ákærusviði lögreglunnar. Má af því ráða hversu brýnt það er að rannsaka málsatvik í NV í samhengi við rannsókn málsatvika í öðrum kjördæmum, enda hefur formaður yfirkjörstjórnar í NV sagt: „ef menn ætla að svindla í kosningum þá svindla þeir í kosningum“.

Í hegningarlögum nr. 19/1940 (141. gr.) segir: „Opinber starfsmaður, sem sekur gerist um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári].“ Þetta ákvæði á m.a. við um þá sem láta hlutdrægni og rangsleitni ráða niðurstöðu sinni í opinberri rannsókn meintra lögbrota.

Sjá rækilegri greinargerð um málið í grein minni „Leynimakk um lögbrot“ í Stundinni 11. nóvember 2021, https://stundin.is/grein/14291/leynimakk-um-logbrot/.

Með virðingu.

Reykjavík, 18. nóvember 2021.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni