Trump og Ísland
Ástandið í Bandaríkjunum nú á sér engan líka í sögu landsins.
Aldrei áður hefur það gerzt að fv. forseti – og ekki bara hann! – saki sitjandi forseta um að ógna lýðræðinu í landinu. Fræðimenn og aðrir hafa allar götur frá 2017 sent frá sér viðvaranir um skríðandi fasisma í boði Trumps forseta. Sjálfur hef ég birt grein eftir grein um málið.
Tilefnin eru ærin og halda áfram að hrannast upp þar eð Trump forseti reynir ekki að leyna þessum þætti stjórnarstefnu sinnar heldur sér hann sjálfur um að afhjúpa hálffasískar fyrirætlanir sínar. Hann styðst ekki einu sinni við blaðafulltrúa að heitið geti. Það sem aðrir í hans sporum myndu telja hyggilegt að þegja um segir hann upphátt, t.d. að hann ætli að grafa undan póstþjónustu – rífa niður póstkassa, fækka póstflokkunarvélum og starfsmönnum o.s.frv. – gagngert til að draga úr kjörsókn fram að kosningum. Póstatkvæði eru mikilvægari í komandi kosningum en endranær þar eð margir kjósendur vilja skiljanlega forðast þrengsl á kjörstað vegna faraldursins. Þegar póstmálastjórinn áttaði sig á alvöru málsins sagðist hann ætla að fresta aðgerðum fram yfir kosningar. Hann er stór hluthafi í fyrirtækjum sem keppa við póstþjónustuna, nema hvað. Umhverfisráðherrann er olíufursti og þannig er hægt að rekja kapalinn áfram í verst mönnuðu ríkisstjórn landsins í manna minnum. Mannvalið í ríkisstjórninni gaf tilefni til þess að grafið var upp orðið „kakistocracy“ úr enskum orðaforða 17. aldar sem þýðir stjórn hinna verstu í andstöðumerkingu við „aristocracy“, stjórn hinna beztu, sem hefur raunar ekki heldur gefið góða raun á heildina litið, en það er annað mál.
Kannski lýsir Trump forseti forkastanlegum fyrirætlunum sínum opinskátt einmitt til að ganga fram af fólki. Hneykslin í boði forsetans reka hvert annað svo ótt og títt að ekkert eitt hneyksli endist lengur manna á meðal en í nokkra daga eða vikur. Þannig hefur kjörtímabilið liðið frá 2017.
Nú birtast í löngum bunum bækur sem afhjúpa forsetann sem fábjána, gangster og siðblindingja, þar á meðal bók eftir fv. hægri hönd forsetans, Michael Cohen. Hann var framan af kjörtímabilinu, þar til hann var gómaður, fyrsti maðurinn sem forsetinn talaði við á morgnana og hinn síðasti á kvöldin. Cohen lýsir forsetanum sem lygara og svindlara og segist þekkja málið vel því hann hafi verið fullur þátttakandi í svindlinu. Enda situr Cohen nú inni líkt og nokkrir aðrir fv. samstarfsmenn forsetans. Og nú hefur þingnefnd í öldungadeildinni undir stjórn repúblikana gefið út 1000 blaðsíðna skýrslu sem staðfestir fyrri upplýsingar alríkislögreglunnar FBI og leyniþjónustunnar CIA um ólöglegt samráð manna Trumps við rússneska málaliða KGB sem heitir nú GRU fyrir og eftir kosningar 2016. En allt þetta er löngu þekkt svo kannski kippir enginn sér upp við nýjar uppljóstranir.
Víkur þá sögunni hingað heim.
Einnig hér reka hneykslin hvert annað svo ótt og títt og hafa gert árum saman að þau halda ekki athygli fólks nema skamma hríð í senn því alltaf gýs upp nýtt hneyksli sem feykir síðasta hneyksli út af borðinu. Þetta virðist þó ekki vera meðvituð strategía í stjórnmálum hér heima heldur bara gamalkunnugt fúsk og sjúsk. En áferðin er hin sama og einnig niðurstaðan.
Aðferðin er einnig að sumu leyti hin sama og í Bandaríkjum Trumps. Stjórnsýslan er veikt með því að fækka hæfum starfsmönnum til að rýma fyrir óhæfu fólki. Ríkið hefur með þessu háttalagi hvað eftir annað bakað sér bótaskyldu fyrir dómi. Ein birtingarmynd vandans er að hlaupið hefur vöxtur í fjölda pólitískra upplýsingafulltrúa sem á kaffistofunni í einu ráðuneytinu ganga undir nafninu upphafningarsveit ráðherrans, sjö eða átta manns þar sem einn dugði áður. Ráðherrum sem neyðast til að segja af sér, þá sjaldan það gerist, er bættur skaðinn með bitlingum í útlöndum. Annað er eftir þessu. Enda styður Morgunblaðið Trump, útgerðin styður Moggann, og ríkisstjórnin styður útgerðina og gagnkvæmt.
Og svo eru haldnar alþingiskosningar við og við með ójöfnu vægi atkvæða þótt 67% kjósenda hafi lýst stuðningi við stjórnarskrárákvæði um jafnt vægi atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá 20. október 2012. Stjórnmálamenn og flokkar ganga til alþingiskosninga með fullar hendur fjár úr sjóðum útvegsfyrirtækja o.fl., gefa innstæðulaus loforð út og suður í trausti þess að einu hneykslin sem þeir þurfi að óttast séu þau sem ná að halda athygli kjósenda rétt fyrir kosningar.
Mun þeim takast þetta einu sinni enn 2021? Eða eigum við að taka Hvíta-Rússland á þetta? Það myndi létta róðurinn ef Trump nær ekki endurkjöri í nóvember, verður dreginn fyrir dóm 2021 og settur inn. Þá mun fara um ýmsa nær og fjær. Og þá mun létta til.
Athugasemdir