Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Veirutíðindi


Nú er fjöldi dauðsfalla af völdum veirufaraldursins í Bandaríkjunum kominn upp fyrir 200.000. Talan jafngildir gervöllum íbúafjölda Íslands 1967. Tíu þúsund dauðsföll eða þar um bil bætast við í hverri viku. Því má reikna með að fjöldi fallinna verði kominn upp í eða upp fyrir 250.000 á kjördag þar vestra 3. nóvember – og þá erum við komin til Íslands 1988.

Bandaríkjamenn standa frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að dauðsföllin þar af völdum veirunnar nema röskum fimmtungi af öllum dauðsföllum um heiminn þótt Bandaríkjamenn telji aðeins um 4% af heildarmannfjölda heimsins.

Belgía, Spánn og Bretland eru einu Evrópulöndin þar sem veiran hefur kostað hærra hlutfall mannfjöldans lífið en í Bandaríkjunum ef örríkin San Marínó og Andorra eru ekki talin með. Bandaríkin eru nú í þann veginn að sigla fram úr Bretlandi og munu með sama áframhaldi sigla einnig fram úr Spáni og Belgíu innan fárra vikna. Þá verða Bandaríkin ein eftir efst á listanum ásamt nokkrum Suður-Ameríkuríkjum: Perú, Bólivíu, Síle, Brasilíu og Ekvador. Perú er efst á listanum sem stendur. Þar nálgast fjöldi dauðsfalla af völdum veirunnar nú einn af hverjum þúsund íbúum, eitt prómill mannfjöldans þar borið saman við 0,6 prómill í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Þrátt fyrir bakslag sums staðar í Evrópu fjölgar smitum og dauðsföllum þar mun hægar en í Bandaríkjunum og sumum Suður-Ameríkulöndum. Þess vegna halda Bandaríkin áfram að bruna upp eftir listanum.

Myndin af þróun og afleiðingum faraldursins í Svíþjóð er nú tekin að skýrast. Faraldurinn hefur til þessa kostað tæp 5.900 manns lífið í Svíþjóð borið saman við 453 dauðsföll í Danmörku, 339 í Finnlandi og 265 í Noregi, en fá dauðföll bætast nú við í Svíþjóð líkt og annars staðar um Norðurlönd.

Anders Tegnell yfirsóttvarnalæknir Svíþjóðar telur að skýringin á þessum mikla mun framan af faraldrinum stafi að hluta af því að inflúensufaraldrar síðustu ára hafa kostað færri mannslíf í Svíþjóð og einnig í Belgíu, Bretlandi og Hollandi en áður og því hafi tiltölulega fleiri eldri borgarar í þessum löndum orðið covid-veirunni að bráð en ella hefði orðið.

Af þessu má ráða hversu villandi það getur verið að skoða aðeins tölur um dauðsföll af völdum veirunnar. Við bætist að tölurnar ná yfir alla sem voru smitaðir við andlátið hvort sem dánarorsökin var veiran eða ekki.

Nær væri því að skoða og bera saman dánartíðni í víðara samhengi þar sem haldið er til haga skyldum þáttum, t.d. fjöldi dauðsfalla í inflúensufaraldrinum 2019, og óbeinum áhrifum faraldursins, t.d. hik sumra við að leita sér lækninga við öðrum sjúkdómum af ótta við smit. Hér er verk að vinna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Loka auglýsingu