Traust á tímum veirunnar
Þegar farsótt herjar á fólk og æðir yfir löndin og bóluefni, skilvirk lyf og jafnvel skimun eru ekki í boði og heilbrigðisþjónustan á fullt í fangi með að sinna þeim sem sýkjast, þá skiptir miklu að réttar upplýsingar um vána berist almenningi hratt og vel. Samkvæmar, trúverðugar og réttar upplýsingar eru þá áhrifaríkasta vörn almannavaldsins og almennings gegn vánni.
Reynslan ber vitni. Spænska veikin 1918 varð svo mannskæð sem raun ber vitni einkum vegna þess að heimsstyrjöldinni fyrri var þá enn ólokið og stríðandi stórveldi kusu að leyna upplýsingum um útbreiðslu veikinnar til að reyna að villa um fyrir andstæðingum með því að láta engan bilbug á sér finna. Spánn var hlutlaus í styrjöldinni og birti réttar upplýsingar. Spænska veikin dregur nafn sitt af því.
Í þessu ljósi sögunnar skulum við skoða lofs- og þakkarverða framgöngu Ölmu Möller landlæknis, Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns, Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og samstarfsmanna þeirra að undanförnu. Þau bera fumlaust fram fyrir fólkið í landinu samkvæmar, trúverðugar og að því er bezt verður séð réttar upplýsingar svo sem allra mestu skiptir. Stjórnvöld verðskulda lof fyrir að hafa falið hæfu fólki forustu um varnir gegn veirunni.
Bandaríkin: Allar reglur brotnar
Trump Bandaríkjaforseti virðist á hinn bóginn ekki hafa skilning á því sem mestu skiptir heldur hefur hann miðlað röngum upplýsingum að því er virðist til að reyna að líta sjálfur betur út. Ekki bara það: Hann hefur brotið nánast allar reglur í bókinni og slævt beittasta vopnið gegn veirunni, og það er traust almennings.
Allar reglur í bókinni? Hvaða bók?
Að gefnu tilefni gaf Sóttvarnaeftirlit Bandaríkjanna (Centers for Disease Control and Prevention) út fyrir nokkrum árum 450 blaðsíðna handbók um hvernig stjórnvöldum ber að tala við almenning í alvarlegri lýðheilsukreppu. Einföld hugsun rennur eins og rauður þráður í gegnum handbókina og hún er þessi: Til að hægt sé að vernda þá sem höllum fæti standa gegn lífshættulegri veiru þurfa stjórnvöld að gefa almenningi skýr fyrirmæli um skilvirkar varnir gegn veirunni í tækan tíma og almenningur þarf að geta treyst stjórnvöldum og fyrirmælum þeirra um varnir.
Þess sáust vikum saman engin merki að Trump forseti og menn hans þekktu til handbókarinnar eða tækju mið af henni. Fyrstu viðbrögð forsetans 26. febrúar s.l. voru spádómur um að bráðum myndi smitum í Bandaríkjunum fækka úr 15 niður í núll – and „that’s a pretty good job we’ve done“, bætti forsetinn við. Fjöldi skráðra smitaðra í landinu nálgast nú 11.000 og fer enn ört vaxandi og 163 hafa látið lífið af völdum veirunnar.
Þegar forsetinn var fyrir fáeinum dögum spurður um hvort hann bæri einhvern hluta ábyrgðarinnar á því hversu skimun hefði farið seint af stað og væri skammt á veg komin í Bandaríkjunum skellti hann skuldinni á aðra. Þegar hann var spurður hvort fólkið í landinu ætti heldur að taka mark á honum eða yfirmanni sóttvarna í landinu, Anthony S. Fauci, vék forsetinn sér undan spurningunni. Spurningin helgaðist af því að málflutningur forsetans hefur verið í litlu samræmi við málflutning sóttvarnalæknisins. Forsetinn gefur sjálfum sér einkunnina 10 fyrir framgöngu sína í málinu.
Framganga forsetans veldur kvíða meðal almennings, öryggisleysi og úlfúð, segja sóttvarnalæknar sem hafa eins og aðrir þurft að hlýða á þær fjarstæður sem forsetinn hefur haldið fram um faraldurinn. Hann hefur m.a. sagzt hafa „meðfædda hæfileika“ (e. „natural ability“) á sviði sóttvarna. Þessi ummæli forsetans þarf að skoða í samhengi við áþreifanlega andúð hans á vísindum og vísindamönnum og þá staðreynd að hann hefur raðað í kringum sig einvala liði óhæfra embættismanna.
Handbókin lýsir þeim vítum sem stjórnvöld þurfa að varast í lýðheilsukreppu. Forsetinn hefur anað út í þau öll að heita má. Handbókin varar við ósamkvæmum skilaboðum til almennings. Forsetinn segir eitt, sérfræðingar hans segja annað. Þannig stendur á því að margir Bandaríkjamenn telja sig ekki þurfa að hlíta fyrirmælum þar sem eitt rekur sig á annars horn. Næstum 50 milljónir Bandaríkjamanna eru 65 ára og eldri og standa verr að vígi gagnvart veirunni en þeir sem yngri eru. Margt af þessu eldra fólki telur sig ekki þurfa að sæta fyrirmælum um að halda sig innan dyra og virða 2ja metra regluna utan húss sem innan.
Handbókin leggur áherzlu á samkvæman og trúverðugan boðskap yfirvalda þegar faraldur geisar. Samt hafa helztu sóttvarnasérfræðingar bandarísku alríkisstjórnarinnar hvað eftir annað þurft að aflýsa blaðamannafundum eða víkja fyrir forsetanum, varaforsetanum og öðrum stjórnmálamönnum sem vildu komast að. Handbókin hamrar á nauðsyn þess að þeir sem fjalla um faraldurinn fyrir hönd yfirvalda gerþekki málið og kunni að fjalla um það skýrt og yfirvegað. Trump forseti fullnægir í engu þessum skilyrðum auk þess sem hann hefur grafið undan trausti almennings á vísindum og viðurkenndum sannindum, m.a. varðandi hlýnun loftslags. Kínverjar veita Evrópuþjóðum nú hjálp í viðureigninni við veiruna, en Bandaríkin eru ekki aflögufær.
Góð ráð dýr
Efnahagsafleiðingar farsóttarinnar munu verða býsna alvarlegar í bráð, að sumu leyti jafnvel alvarlegri en afleiðingar fjármálakreppunnar 2008, en afleiðingar veirunnar verða næstum örugglega skammvinnar ef dauðsföll af völdum hennar eru undan skilin. Bráðavandinn er sá að útgjöld heimila og fyrirtækja dragast saman í skyndingu og útgjöld eins eru tekjur annars. Tekjur heimila og fyrirtækja dragast því einnig saman í skyndingu. Því er viðbúið að atvinna minnki verulega um hríð. Eftir er að sjá hvers innspýting fjár úr almannasjóðum inn á reikninga fólks og fyrirtækja, fjármögnuð með svo að segja vaxtalausum lántökum, er megnug til mótvægis gegn skyndilegum samdrætti tekna. Ríkisvaldið gæti kosið að gerast „launagreiðandi til þrautavara“ svo sem Emmanuel Saez og Gabriel Zucman, hagfræðiprófessorar í ríkisháskólanum í Berkeley í Kaliforníu, hafa lagt til. Hugmynd þeirra er einföld framlenging hugmyndarinnar um ríkisvaldið sem lánveitanda til þrautavara. Hugmyndin um borgaralaun birtist nú í nýju ljósi.
Kjarni þessa máls í efnahagslegu tilliti er sá að veirufaraldurinn tekur enda innan tíðar, þeir gera það alltaf. Þegar Spænsku veikinni slotaði 1919 að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni fylltust fólk og fyrirtæki þvílíkri bjartsýni og gleði að af hlauzt einhver mesti efnahagsuppgangur sem sögur fara af í Bandaríkjunum og víðar. Þriðji áratugur 20. aldar hefur síðan verið kenndur m.a. við fagnaðarópin („Roaring Twenties“). Einn helzta lyftistöng uppsveiflunnar var útgjöldin sem fólk og fyrirtæki höfðu frestað og létu nú verða af með miklum brag. Menningin blómstraði, djassinn og allt það.
Svipað mun einnig gerast nú þegar fárinu slotar. Og þá mun ríða á að ganga hægt um gleðinnar dyr því það gerðu menn ekki á þriðja áratug 20. aldar heldur tók við af honum heimskreppan á fjórða áratugnum með hörmulegum afleiðingum. Sá partur sögunnar þarf ekki að endurtaka sig. Sagan er til þess að læra af henni.
Athugasemdir