Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Tíu ár frá merkisdeginum 27. júlí 2011

Í dag, 27. júlí, eru liðin tíu ár frá lokafundi Stjórnlagaráðs sem þjóðin kaus og Alþingi skipaði til að endurskoða stjórnarskrána. Starfið stóð sleitulaust frá aprílbyrjun til júlíloka 2011 og gekk vel, svo vel að hvergi bar skugga á að heita má eins og einróma samþykkt frumvarpsins í heild sinni á lokafundinum vitnar um. Mig langar að minnast afmælisins með því að endurbirta hér af vefsetri Stjórnlagaráðs ræðurnar sem 22 stjórnlagaráðsfulltrúar héldu á 18. og næstsíðasta ráðsfundinum þennan dag til að gera grein fyrir atkvæðum sínum við lokaafgreiðslu frumvarpsins. Þrír fulltrúar sáu ekki ástæðu til að gera grein fyrir atkvæðum sínum og tóku því ekki til máls við umræðuna, þar á meðal ég. Skýinu sem dró fyrir sólu á lokasprettinum og getið er um í ræðum nokkurra fulltrúa var bægt frá daginn eftir með samhljóða samþykkt aðfaraorðanna sem hefjast svo: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Daginn þar á eftir, 29. júlí, var frumvarpið afhent forseta Alþingis við einfalda athöfn í Iðnó.

Salvör Nordal
Þá tökum við skjalið í heild sinni, þá er stóra stundin runnin upp. Og það hefur verið ... já, Vilhjálmur, gjörðu svo vel.

Vilhjálmur Þorsteinsson
Formaður og góðir ráðsfulltrúar. Já, það er að renna hérna upp söguleg og langþráð stund. Og eftir mjög mikla vinnu og erfiða og skemmtilega og lærdómsríka, að þá erum við núna að fara að greiða lokaatkvæði um heildstætt frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Frumvarp sem að Stjórnlagaráð hefur útbúið á grundvelli tillaga stjórnlaganefndar og hugmynda Þjóðfundar 2010. En frumvarp okkar til stjórnarskipunarlaga mun standa og falla með því hvað í því stendur. Og eins og Kata sagði hérna áðan, ef að hugmyndir okkar eru góðar, þá munu þær lifa og sigra að lokum. Ekkert annað mun skipta máli þegar að upp er staðið. Og ég er þess fullviss að þessar hugmyndir séu góðar og að þær muni lifa og verða að nýrri stjórnarskrá. Stjórnarskráin okkar er miklu skýrari en sú sem að nú gildir. Hún gætir betur mannréttinda, jafnræðis og jafnréttis. Hún dreifir valdi og lætur vald og ábyrgð fara saman. Hún gerir okkur kleift að leigja út aðgang að auðlindum til hóflegs tíma í senn og gegn fullu verði, almenningi til hagsbóta. Nú, hún styrkir Alþingi, hún eflir lýðræðið og hún jafnar vægi atkvæða. Hún tryggir rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum og eykur gagnrýnið aðhald, auk fjölda annarra umbóta, stórra og smárra. Í stuttu máli, betri stjórnarskrá fyrir betri framtíð. Ég mæli með því að við samþykkjum öll þetta frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Það mun ég gera sjálfur af heilum hug með gleði og von í hjarta. Og ég óska hér með eftir því að nafnakall verði viðhaft í atkvæðagreiðslunni.

SN
Takk fyrir. Já, það er hægt að verða við því að hafa nafnakall við lokaafgreiðslu. Ég mælist líka til þess að þeir sem vilja gera grein fyrir atkvæði sínu, að þeir geri það á undan en ekki ... þannig að svo getum við haft bara ... látið atkvæðagreiðsluna ganga hratt fyrir sig, sjálfa atkvæðagreiðsluna. Þannig að er einhver sem óskar eftir að ...? Pawel.

Pawel Bartoszek
Já, kæru vinir. Er þetta atkvæðaskýring? Já, ég er stoltur og hrærður og þakklátur fyrir að fá að sitja hér. Það eru 500 manns sem vildu vera í þessum sporum sem ég er í og fengu það ekki. Sumir þeirra eru hér í salnum og aðrir vonandi að fylgjast með okkur og mér er hugsað til þessa fólks. Nú eftir fyrri umræðu voru nokkur atriði sem voru þess eðlis að ég taldi mig ekki geta stutt frumvarpið. Í þeim málum var komið til móts við mínar skoðanir og annarra og fyrir það vil ég þakka. Auðvitað er ýmislegt í þessu frumvarpi sem er ekki alveg eins og ég myndi vilja hafa það. Og annað er nákvæmlega eins og ég myndi vilja hafa það. En þannig er það nú bara og nú skilum við okkar verkefni áfram. Og ég segi já.

SN
Ég ætla að biðja varaformann að taka við fundarstjórninni.

Ari Teitsson
Eru fleiri sem vilja gera grein fyrir atkvæði sínu? Salvör, gjörðu svo vel.

SN
Ég tek undir orð annarra sem hafa tjáð sig hér, um hvað það hefur verið lærdómsríkt og merkilegt að taka þátt í þessu starfi. Og hvað það hefur verið gríðarlega skemmtilegt. Við höfum skilað drjúgu starfi á síðustu mánuðum, en við réðumst í það að endurskoða í heild sinni núgildandi stjórnarskrá. Og í kringum starf okkar hefur orðið til samfélagsleg umræða um mörg mikilvæg álitaefni. Starfið er mikilvægur áfangi í breytingum á stjórnarskránni. Tíminn sem við höfum fengið til starfsins hefur óhjákvæmilega verið skammur. Og að mínu mati er sumt í frumvarpinu sem þarf frekari greiningu og ítarlegri skýringu og kannski, eins og sumir hafa orðað það, við þurfum að fá álagspróf. Enda hefur þetta frumvarp verið að taka breytingum allt til þessarar stundar. Á þessum forsendum, eða með þetta í huga, greiði ég atkvæði með frumvarpinu.

AT
Þá skila ég fundarstjórninni aftur til Salvarar, gjörðu svo vel.

SN
Eiríkur Bergmann. Gjörðu svo vel.

Eiríkur Bergmann Einarsson
Já, kæru félagar. Ég skal hafa þetta mjög stutt. Við höfum hér greitt atkvæði um 114 greinar og ég hef stutt þær allflestar. Það eru örfáar undantekningar á því og ég vildi þess vegna gera grein fyrir atkvæði mínu núna. Þrátt fyrir að ég hafi greitt atkvæði gegn einstaka örfáum greinum, að þá styð ég þetta plagg af heilum hug.

Ég tel að hér hafi verið unnin mjög góð vinna og þetta er, held ég alveg örugglega, merkilegasta starf sem ég hef tekið þátt í. Ég er sérstaklega ánægður og hrærður með það, að þegar að mér fannst stefna í óefni, eftir fyrstu umræðuna og þegar mér fannst við vera komin út yfir það umboð sem okkur var ætlað og var farið að líða ögn skringilega með verkefnið, að þá tók hópurinn í heild sinni, ráðið í heild sinni, sig til og leiðrétti sig, þannig að öllum gat liðið vel með það sem að hér er til afgreiðslu. Og því mun ég aldrei gleyma og það þakka ég fyrir.

SN
Silja Bára Ómarsdóttir. Gjörðu svo vel.

Silja Bára Ómarsdóttir
Já, formaður og kæru félagar og gestir. Ég ætla nú að segja eins og Pawel að það er svolítið magnað að vera hérna, vitandi það að það voru yfir 500 manns sem að sóttust eftir að taka þátt í þessu verkefni og hafa fengið að vera ein af þeim 25 sem að urðu þess heiðurs aðnjótandi að vinna þetta og þetta hefur verið alveg ótrúlegt tímabil. Og örugglega eitt það merkilegasta sem að við eigum öll eftir að gera um ævina. Mig langar bara að þakka ykkur öllum fyrir einstaklega áhugaverða, skemmtilega, fræðandi og gefandi samvinnu. Mig langar að nefna nokkur atriði sem að ég er sérstaklega stolt af. Það er jafnræðisreglan, þar sem að við erum að bæta við tveimur mjög mikilvægum og nokkrum öðrum líka mikilvægum, en þetta eru tvö atriði, sem að mér eru sérstaklega hugleikin, tveimur mjög mikilvægum breytum, kynhneigð og fötlun, sem ekki komust inn síðast þegar stjórnarskrá var endurskoðuð og eru núna nefnd sem mismunabreytur sérstaklega, í jafnræðisreglunni. Ég er svolítið svekkt að við komum ekki inn kynvitundinni, en það er bara slagur fyrir næstu ár. Ég er sérstaklega stolt af ákvæðinu sem ég nefndi áðan, um bann við stuðningi við beitingu vopnavalds og ég er ofboðslega stolt af því að hafa tekið þátt í að skrifa greinarnar um umhverfi og auðlindir og náttúru. Mig langar, í lokin, að nefna fólkið, svona, á bak við tjöldin, sem að skipti hvað mestu máli fyrir nefndina mína. Og það er hann Andrés Ingi sem að þjónaði okkur með bros á vör og óendanlegri þolinmæði. Valborg sem að kom inn á lokametrunum og reddaði okkur síðustu vikuna, eftir að Andrés fór í fæðingarorlof. Og hún Sif sem er lögfræðingurinn okkar og hefur verið alveg ómetanleg auðlind fyrir okkur, í okkar starfi. Og síðan eru það konurnar uppi á 5. hæðinni sem að hugsa um okkur andlega og líkamlega, gefa okkur að borða og redda öllu sem að okkur vantar, komu hérna hlaupandi með verkjatöflur handa mér í gær þegar ég var að fá mígreniskast. Það eru Ágústa og Svanhvít og Marta. Og síðan er auðvitað fjöldi annars starfsfólks sem að hefur tekið þátt í þessu starfi með okkur og á heiður skilinn fyrir það. Ég ætla að segja já við þessu frumvarpi og ég er stolt af því að hafa fengið að leggja hönd á plóg. Takk.

SN
Gísli Tryggvason. Gjörðu svo vel.

Gísli Tryggvason
Já, formaður, góðir félagar og aðrir áheyrendur. Ég vil ítreka þakkir til hins frábæra starfsfólks okkar, einstakra meðfulltrúa og skynsamrar stjórnar og vil bæta þökkum til þjóðarinnar og fjölmiðla fyrir stuðninginn við okkar starf. Draumur minn er orðinn að veruleika um Stjórnlaga, ja ráð, þó ekki hafi orðið þing, og ég er sannfærður um að þetta verður stjórnarskrá og þessi nýja stjórnarskrá verður betri en sú gamla, ekki síst með það sem ég lagði mesta áherslu á, að veita opinberu valdi meira aðhald. Ég styð þetta að sjálfsögðu. Takk.

SN
Örn Bárður Jónsson. Gjörðu svo vel.

Örn Bárður Jónsson
Formaður, góð systkin nær og fjær. Ég lýsti því hér áðan af mikilli gleði, með hvaða hætti okkur hefur tekist að vinna hingað til. En nú hefur dregið ský fyrir sólu. Ég gekk til sátta við fólk hér í þessu ferli, við fámennan hóp sem hefur sýnt mikinn þvergirðingshátt oft á tíðum. En við náðum sáttum. Og ég stóð við þá sátt. Og ég brást ekki einu einasta atviki í þeim sáttum. En í dag var rofin þessi sátt. Og það hryggir mig. Ég styð þessa stjórnarskrá, ég er búinn að samþykkja hverja einustu grein. En það hefur dregið ský fyrir sólu og ég fer með hryggð í hjarta heim. Og þarf að skoða það hvort ég tek þátt í framhaldinu. En við ljúkum þessari samþykkt hér í dag og ég styð stjórnarskrárfrumvarpið að sjálfsögðu.

SN
Íris Lind Sæmundsdóttir. Gjörðu svo vel.

Íris Lind Sæmundsdóttir
Takk kærlega fyrir. Ég ætla að segja já og samþykkja frumvarpið í þeim fyrirliggjandi drögum sem hér eru. Það eru ýmsir þættir sem að ráða því. Í heildina litið er stjórnarskráin betri en sú sem við höfum nú. Hún er ítarlegri og hún felur í sér mikla og bætta stjórnskipan á Íslandi. Mig langar, svona í framhaldi af orðum Silju Báru, þá verð ég að taka undir það að ég er sérstaklega stolt af því að sjá endurbætta jafnræðisreglu. Ég lagði sérstaka áherslu á það í nóvember sl. á að kynhneigð og fötlun færu sérstaklega inn í jafnræðisregluna. Ef ég mætti, með leyfi formanns, fara aðeins í smá skýringu á jafnræðisreglunni og í framhaldi af sko, ábendingu eða tilvísun Silju Báru til breytingartillögunnar sem hún flutti hér í fyrri umferð um það að bæta inn í jafnræðisregluna kynvitund, sem mismunabreytu, sem njóti sérstakrar verndar jafnræðisreglunnar. Nú er það svo að þessi breytingartillaga, henni var hafnað með alveg gríðarlega naumum meirihluta. Og þetta var tilfinningaþrungin stund fyrir marga og við fengum hér hóp í heimsókn sem mótmælti því að við hefðum ekki samþykkt þetta. Og ef ég mætti gleðja þá sem samþykktu þessa tillögu þá ætla ég að fá að gera smá grein fyrir því, hvað felst í jafnræðisreglunni, eins og hún er túlkuð nú. Jafnræðisreglan, sem að núna er í 6. gr. frumvarpsins, hún kemur úr 65. gr. stjórnarskrárinnar eins og hún stendur nú, með örlitlum breytingum að teknu tilliti til nýrra þátta og orðalagsbreyting. Þessi jafnræðisregla var sett inn í stjórnarskrána árið 1995, þegar að breytingar voru gerðar á mannréttindakaflanum og þrátt fyrir að jafnræðisreglan hafi verið grundvallarþáttur og grundvallarregla í íslenskri stjórnskipan, fram til þess tíma. Fyrirmyndin að ákvæðinu kemur úr 14. gr. mannréttindasáttmálans, 26. gr. samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, og hana er að auki að finna í samningnum um efnahagsleg og félagsleg réttindi, og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, auk annarra óteljandi samninga sem Ísland er aðili að. Nú, í þessum samningum, sem að sérstaklega var litið til árið 1995, þar er kynvitund ekki sérstaklega tilgreind. Hins vegar hefur það verið svo, með þróun síðustu ára, að jafnræðisregla þeirra hefur verið túlkuð sem svo að undir hana falli mismunabreytan kynvitund. Og það hefur verið staðfest í, sem sagt, niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, og nú síðast árið 2010 í stefnumarkandi dómi frá Mannréttindadómstólnum, þar sem sérstaklega var tilgreint að kynvitund falli undir það sem í samningnum er talið vera staða að öðru leyti. Nú, þetta er líka talið, þetta felst líka í mismunatilskipunum Evrópusambandsins, en Ísland er nú að vinna að nýrri mismunalöggjöf sem að miðar að því að breyta íslenskri jafnréttislöggjöf til samræmis við þetta. Og svo ætla ég að nefna það að Ísland skrifaði núna í maí undir samning um baráttuna gegn ofbeldi gagnvart konum. Og var meðal fyrstu 13 aðildarríkja Evrópuráðsins til að undirrita hann. En hann er fyrsti samningur sinnar tegundar og þar er jafnræðisregla, og í henni er sérstaklega talað um bann við mismunum á grundvelli kynvitundar. Þannig að ég bendi á að eins og við þurfum að túlka og munum túlka jafnræðisregluna, þá er kynvitund ein þeirra mismunabreytna sem nýtur sérstakrar verndar og ég tel að við þurfum, og ég ætla að gera breytingartillögu við greinargerðina við greinina, þannig að við setjum þetta sérstaklega inn. Og ég er tilbúin til að benda ykkur á frekara efni til þess að styrkja þetta. Takk.

SN
Arnfríður Guðmundsdóttir. Gjörðu svo vel.

Arnfríður Guðmundsdóttir
Já, kæru vinir. Við erum svo sannarlega á kaflaskilum í vinnu okkar, og við erum líka á kaflaskilum í sögu okkar samfélags. Við komum hingað inn, með þá von og þann draum að við ætluðum að skrifa betri stjórnarskrá, uppfæra stjórnarskrá, skrifa stjórnarskrá fyrir 21. öldina, þar sem að markmið eins og jafnrétti og margbreytileiki og réttlæti fengju að vera í forgrunni ásamt háleitum markmiðum eins og gegnsæi og ábyrgð. Við erum búin að ná ótrúlegum árangri. Við höfum verið margradda kór, sem að hér hefur sungið á síðustu mánuðum, hópurinn er margbreytilegur og hefur að mörgu leyti endurspeglað þann margbreytileika sem að er í okkar samfélagi. Verkið sem við höfum unnið hér er ekki bara verk sem við höfum unnið fyrir okkur sjálf, því að þetta er svo sannarlega verk sem að er fyrir samfélagið okkar og er fyrst og síðast unnið fyrir framtíðina, fyrir komandi kynslóðir. Og það eru vissulega forréttindi að hafa fengið að taka þátt í þessu starfi. Það hafa verið forréttindi að fá að vinna að nýjum og uppfærðum mannréttindakafla, ásamt öðrum köflum í þessu nýja frumvarpi um ný stjórnarskipunarlög. Ég segi já, með stolti og þakklæti, en líka von um réttlátara samfélag. Ég segi já fyrir hönd barnanna minna og fyrir hönd íslensks samfélags í framtíðinni.

SN
Freyja Haraldsdóttir. Gjörðu svo vel.

Freyja Haraldsdóttir
Já, elsku vinir. Ég get náttúrlega ekki setið á mér frekar en fyrri daginn, að tjá mig aðeins hér í dag. En mér finnst alveg ótrúlegt að við séum komin á þann stað sem við erum komin í dag. Tíminn er búinn að fljúga áfram, þó svo að um leið þá sé þetta búið að vera það mikil reynsla að mér líður eins og þetta sé búið að taka mörg ár, þá finnst mér líka eins og við höfum byrjað í gær. Mig langar að taka undir með Pawel og Írisi og Silju og Arnfríði og fleirum, að það er klárlega mikill heiður og mikil forréttindi að fá að sitja hér og að hafa fengið það tækifæri og það traust að fá að taka þátt í þessu starfi. Árið 2006 þá fór ég af stað með fyrirlestraherferð sem hét, „Það eru forréttindi að lifa með fötlun.“ Það voru mjög margir sem héldu að ég væri algjörlega gengin af göflunum. Og veltu fyrir sér af hverju í ósköpunum ég segði þetta. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er það og stend náttúrlega algjörlega við þetta enn þann dag í dag, er vegna þess að það að ég sé fötluð hefur einhvern veginn sett upp vegferð sem að hefur komið mér á staði og gefið mér tækifæri til að upplifa, og taka þátt í hlutum sem ég hefði aldrei gert, ef ég hefði ekki fæðst fötluð. Þetta er eitt af því, vegna þess að hingað kom ég fyrst og fremst til að vera fulltrúi fatlaðs fólks. Þannig að enn á ný, staðfestir þetta kenningu mína um að það eru forréttindi, bæði að vera hér og að vera fötluð kona. Mig langar að nota tækifærið og þakka A-nefnd sérstaklega, fyrir dásamlegt samstarf, fyrir það að hafa unnið upp á hvern einasta dag ásamt öðrum ráðsliðum að því að byggja upp mannréttindakaflann, kaflann um náttúruna og, bara með þeim glæsibrag sem að ég tel að við höfum öll saman gert hér. Ég kvíði svolítið að hitta ykkur ekki á hverjum degi, og ég þarf eiginlega helst að fá að taka ykkur með mér í hina vinnuna mína. Það væri ótrúlega gott. Og mér finnst ótrúlega merkilegt, hvernig við höfum náð að vinna saman, við erum 25, með ótrúlega ólíkar skoðanir stundum, en samt auðvitað sameinumst í mörgu, um ólíkan karakter, ólíka reynslu, ólíka menntun, komum frá ólíkum fjölskyldum o.sfrv., o.s.frv. Það er oft sagt að svo stór hópur eigi ekki að geta sameinast um svona stórt plagg eins og þetta er. Það er oft talað um að sé ekki séns, og oft heyrði ég útundan mér að fólk taldi að þetta yrði nú bara eitthvað svona, eitt stórt dramakast. Það var það svolítið hérna fyrir nokkrum dögum síðan en það er kannski allt í lagi, af því að við ..., þetta er erfitt, þetta á að vera erfitt og þetta var ofboðslega erfitt. En það sem að stendur upp úr í mínum huga, fyrir utan þetta flotta verk, að það er að við náðum saman. Og það þarf mikið hugrekki, það þarf mikinn þroska og það þarf mikla visku til þess að geta gert það. Og við gátum það. Og af því finnst mér bara allt í lagi að við séum mjög mikið stolt. Og mig langar bara að sjálfsögðu að þakka ykkur öllum, fyrir að vera til, og þá er ég að tala um, að sjálfsögðu ráðsfulltrúa og starfsfólkið hérna sem hefur hugsað ótrúlega vel um okkur, og að sjálfsögðu þjóðina alla, sem að bæði upphaflega, hvað sem okkur finnst um þá kosningu, kaus okkur hér og sem hefur sent okkur erindi og stutt okkur og skammað okkur þegar það hefur þurft, og leiðbeint okkur í því starfi sem við höfum verið að vinna. Og ég hef lært af hverju einasta ykkar, og þess vegna langar mig bara að þakka ykkur fyrir það og þakka ykkur fyrir að gera mig að betri manneskju. Og með þeim orðum þá vil ég segja að ég segi stolt, já, við þessu frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Takk.

SN
Erlingur Sigurðarson. Gjörðu svo vel.

Erlingur Sigurðarson
Góðir félagar. Það líður senn að hausti. Vorinu hef ég eytt innanhúss, í félagsskap ykkar, við að semja landinu nýja stjórnarskrá. Og það hefur bara tekist býsna vel og samvinnan verið með ágætum þó að erfitt hafi verið á köflum. Ég ætla að flytja hér atkvæðaskýringu, ekki framboðsræðu, en enn er eftir svolítið af stjórnarskránni. Við unnum alltaf út frá því að það væru með henni aðfaraorð. Og ég segi já við stjórnarskránni og ég segi já við aðfaraorðunum sem eiga að koma inn í hana á morgun. Takk fyrir.

SN
Lýður Árnason. Gjörðu svo vel.

Lýður Árnason
„Við Íslendingar, breyskir og sundurleitir sem við erum, setja þessa stjórnarskrá í von um að hún muni þoka okkur áleiðis til friðsældar og réttlætis.“ Við hefðum kannski átt að samþykkja þessi aðfaraorð hérna í síðustu viku ... . En engu að síður þá er ég sammála séra Erni Bárði að það hefði verið betra að klára þetta mál núna. En þó að agnarsmátt ský hafi dregið fyrir sólu, þá ætla ég það nú að á morgun ríki aftur hér heiðríkja, og að fyrirgefningin svífi yfir vötnum. Sjálfur er ég mjög ánægður með að hafa tekið þátt í þessu starfi. Ég nefni sérstaklega auðlindaákvæðið sem er alveg nýtt og náttúruákvæðið. Mannréttindakaflinn er klárlega til bóta. Ég er líka mjög ánægður með Alþingiskaflann, og sérstaklega alþingiskosningar. Það er mjög margt nýtt í þeim kafla sem að ég held að þjóðin hafi gjarnan viljað fá, og það var sterkt ákall um það. Ég er líka mjög ánægður með kaflann um beint lýðræði og þar er margt nýtt, sem að var ekki áður, og ég held að það endurspegli líka það sem að Þjóðfundurinn kallaði á. Þannig að ég geng mjög sáttur frá þessu verki og ég ætla svo sannarlega að greiða því atkvæði mitt og það verður já. Takk.

SN
Katrín Fjeldsted.

Katrín Fjeldsted
Ágætu áheyrendur. Þessir fjórir mánuðir hafa liðið eins og örskot, og ég vil þakka fyrir það frjóa samstarf sem hér hefur myndast. Ég held við séum ekki full af sjálfumgleði, við erum bara full af gleði yfir því, að hafa getað leitt saman hesta okkar, komið sitt úr hverri áttinni, og landað því verkefni sem við tókum að okkur. Við höfum lagt okkur fram og reynt að vinna vel. Og ég vil þakka fyrir þetta samstarf, ég vil þakka samstarfið í minni nefnd, sem var B-nefnd, og þar sátu Ástrós, Eiríkur, Erlingur, Gísli, Vilhjálmur og Þórhildur, auk mín, og nefndarritaranum okkar sem var Guðbjörg Eva, og öllum starfsmönnum hér innanhúss. Ég lít svo á að stóru kaflaskilin í stjórnarskrá hafi orðið 1995, þegar mannréttindakaflinn kom þar inn. Og stóra breytingin nú, nýju kaflaskilin, eru þau að náttúrunni er gert hærra undir höfði en áður og umhverfismál verða sýnileg í stjórnarskránni. Við skilum stolt af okkur þessum nýja sáttmála fyrir þjóðina, og ég treysti Alþingi til að leita sem fyrst eftir stuðningi við hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, svo að þjóðin fái nýja stjórnarskrá í stað þeirrar sem nú er í gildi, en hún er frá 1944. Þetta er nýr rammi um störf Alþingis og framkvæmdarvaldsins og ég er mjög hamingjusöm með að ná niðurstöðu og ég vona að við styðjum öll stjórnarskrána. Ég segi já. Takk.

SN
Þorkell Helgason.

Þorkell Helgason
Góðu vinir. Það er mér mikil ánægja, núna undir lok starfsævi minnar að fá að leggja þessu lið, að semja nýjan sáttmála handa þjóðinni, um lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Og ég mun því heilshugar greiða frumvarpi okkar til stjórnarskipunarlaga atkvæði mitt. Þakka ykkur öllum fyrir.

SN
Ástrós Gunnlaugsdóttir.

Ástrós Gunnlaugsdóttir
Já, kæru vinir. Mig langaði bara að byrja á að þakka ykkur öllum fyrir þennan frábæra tíma sem við höfum átt hérna saman. Og vil taka undir með Pawel og Silju Báru að það hafa verið gríðarleg forréttindi að hafa valist úr hópi 500 frambjóðenda, til þess að taka þátt í þessu ótrúlega starfi, sem að hefur verið unnið hér. Ég hef auðvitað [ógreinilegt] aðeins dottið út kannski, svona á þessum lokametrum, sem mér heyrist hafa verið ágætis fæðingarhríðar, ég átti þær annars staðar heldur en hér. En ofboðsleg gleði og ég er ofboðslega stolt af ykkur öllum að hafa náð þessari samstöðu, sem að ég sé skína í gegn, bæði ég fylgdist með ykkur í gær og núna hérna í dag. Og þetta verkefni okkar er auðvitað fyrir framtíðina og ég er yngst hér, og kannski með yngsta áhorfandann okkar líka, með okkur hérna í dag. Og ég vona bara að þetta frumvarp okkar til nýrrar stjórnarskrár muni gera framtíð Íslands bjartari og ég hef fulla trú á því. Og það er með miklu stolti í hjarta og gleði sem að ég kveð þetta frábæra verkefni sem að mun án efa vera það merkilegasta starf sem ég mun nokkurn tíma taka að mér, þrátt fyrir að ég sé ung að árum ennþá, þá held ég að þegar maður horfir til framtíðarinnar, þá finnist ekki merkilegara eða frábærara starf heldur en að vinna með ykkur öllum og koma að nýrri stjórnarskrá, og þakka bara kærlega fyrir. Og segi heilshugar já, við þessu frábæra frumvarpi okkar. Takk.

SN
Katrín Oddsdóttir. Gjörðu svo vel.

Katrín Oddsdóttir
Já, ég ætlaði nú bara að komast aðeins, ég var búin að segja allt sem ég þurfti að segja áðan en mig langaði til að þakka sérstaklega Finni tæknimanni, og öllum tæknigaurunum okkar, vegna þess að sko, hann gerði það að verkum að allir gátu tekið þátt í vinnunni okkar, líka í útlöndum og alls staðar. Og það er það merkilegasta, finnst mér, langmerkilegasta, hvernig fólkið kom að þessu. Og við höfum staðið okkur vel, en þeir hafa staðið sig enn betur af því að þau tóku þátt á alveg nýjan hátt. Og ég skora á þetta sama fólk og allt fólkið í landinu að taka núna þetta kefli og láta þetta verða stjórnarskrá Íslands. Þetta er mjög góð stjórnarskrá og ég segi jahá!

SN
Dögg Harðardóttir.

Dögg Harðardóttir
Formaður, kæru ráðsfélagar og Íslendingar allir. Það kom mér á óvart að ná kosningu til Stjórnlagaþings. Það kom mér á óvart að kosningin skyldi verða úrskurðuð ógild, og það kom mér á óvart að Alþingi skyldi þrátt fyrir það ákveða að skipa okkur 25, sem höfðum náð kosningu, í Stjórnlagaráð. Og að leiðarlokum þá er mér þakklæti efst í huga. Þakklæti til þjóðarinnar, þakklæti til fjölskyldunnar minnar. Það er ekkert sjálfgefið að eiga mann á Akureyri, sem sér um börnin mín, á meðan ég er hér alla virka daga. Og ég er hrærð og mjög þakklát. En ég er líka þakklát fyrir allar þær bænir sem hafa verið beðnar fyrir okkur, vegna þess að það hefur verið yfir okkur vakað, þó það hafi ekki allir hér kannski vitað af því, en það hefur fyrst og fremst verið beðið fyrir því að við myndum ekki samþykkja neitt sem yrði til tjóns. Og það er kannski þess vegna sem við þurftum að heyja baráttu á ótal sviðum. En ég þakka líka Guði fyrir að við komumst að niðurstöðu í sátt. Og ég ætla að vera ein þeirra 25 sem segja já.

SN
Illugi Jökulsson. Gjörðu svo vel.

Illugi Jökulsson
Takk fyrir. Mig langar nú að byrja á því að geta vonandi átt svolítinn þátt í því að blása skýinu af himni míns góða og kappsfulla vinar, Arnar Bárðar. Ég átti nú örlítinn þátt í þessum aðfaraorðum og styð þann texta sem að hann samdi svo og rak smiðshöggið á 100%, og mun styðja þau á morgun, þegar þau verða afgreidd og gerð að óaðskiljanlegum þætti þessarar stjórnarskrár. Ég sé það ekkert sem neinn sérstakan galla þótt rætt sé við einhverja sem hafa efasemdir og gerð tilraun til að ná ennþá betri samstöðu um þessi aðfaraorð, sem munu svo glæsilega prýða þá stjórnarskrá sem ég ætla rétt að vona að verði að endingu samþykkt. Nú fyrir mig persónulega, þá er það merkileg reynsla fyrir mann sem hefur haft af því atvinnu, svona, meira og minna síðustu rúm 20 árin að röfla í útvarpi og blöðum yfir því sem betur mætti fara í samfélaginu, að geta þá átt þátt í því að betrumbæta það, kannski, að einhverju leyti. Ég er sannfærður um að þessi stjórnarskrá, sem að við höfum hér, vonandi, lagt drög að, muni bæta samfélagið mjög verulega og styð þetta frumvarp að sjálfsögðu.

SN
Þórhildur Þorleifsdóttir.

Þórhildur Þorleifsdóttir
Ráðsfélagar, aðrir gestir. Ég get ekki látið hjá líða að byrja á því að tala um hvernig fór fyrir texta Arnar Bárðar hér áðan. Mér finnst það afskaplega leitt, og kannski vegna þess að ég sit hér við hlið hans, þá finn ég glöggt fyrir því hvað honum þykir það leitt. Ég er alveg sannfærð um það að hefðum við haft aðeins tíma, þá hefðum við leyst þetta mál í sátt. Eins og við gerðum við öll önnur mál. Það voru miklu myrkari ský og þykkari á lofti fyrir helgina, og um helgina. Það voru margir sárir og vonsviknir til skiptis, en við náðum sátt um öll mál. Og eins og er nú að koma í ljós núna með þeim hætti, að flestir, ef ekki allir sem hingað til hafa talað, una vel við. Ég vona að Örn Bárður viti það, og sé jafn sannfærður og ég, að við hefðum náð sátt um þetta mál, hefði okkur gefist tími. Ég lýsi stuðningi við verk hans og mun auðvitað greiða atkvæði með orðum hans, og ég vona að hann geti huggast við það að sáttin hefði náðst. Ég sný mér aðeins að stjórnarskránni. Ég er auðvitað eins og aðrir, stolt og glöð, yfir bæði að hafa fengið að vera hér og því starfi sem hér hefur farið fram. Ég ætla ekki að tína upp uppáhaldsgreinar eða tiltaka einhver tiltekin vonbrigði. Ég ætla fyrst og fremst að lýsa ánægju með allt í heild, alla stjórnarskrána og vinnuna. Ég held að hugmyndir okkar muni fyrr eða síðar fá fylgi og stuðning, eins og aðrir hafa talað um hér, en ég held að það verði ekki síðra veganesti og lærdómur sem við sendum út í samfélagið, það var hvernig okkur tókst að vinna hér. Og það fordæmi sem við höfum sýnt með vinnubrögðum, er mjög í anda þeirra orða sem standa hér í aðfaraorðunum, að við viljum vinna með öðrum þjóðum, við skulum bara setja í staðinn, við viljum vinna hvert með öðru, að friði. Og við höfum sýnt hvernig hægt er að leysa mál, ég held að fæstir hefðu trúað því í upphafi, úti í samfélaginu, og líka hér í hópnum, að þetta myndi takast með þessum hætti. Ég hef áður sagt það, að það að ná sátt, ég kem úr stjórnmálahreyfingu sem ég átti aðild að að stofna, sem að vann alltaf í sátt. Og þess vegna veit ég það vel að það að vinna, að reyna að ná sátt, þýðir ekki að það sé alltaf gert í sátt og samlyndi. Það eru átök og leiðindi til sátta. Og ég hef oft orðað að við mættum ekki sýna átakafælni og það hefur svo sannarlega verið tekist á. En oftast hefur það nú verið af drengskap, eða stúlkuskap, og niðurstaða náðst. Ég ætla því bara að lýsa gleði minni, eins og ég segi, með plaggið í heild, vinnuna í heild og af því að mér líður dálítið núna eins og, ég hef oft nefnt leikhúsið til sögunnar, mér líður dálítið núna eins og þegar maður situr úti í sal og ljósin fara niður og nú er tjaldið um það bil að fara frá, og þá ræður maður engu um verkið meir, en það fer fyrir sjónir almennings. Og því ætla ég að taka mér hér, af því að hann Örn Bárður er nú vanur að vitna dálítið í Biblíuna, ég er nú ekki vön því og er heldur ekki mjög biblíufróð manneskja, en ég ætla að segja um þessi drög okkar, „Af þjóð ertu komin, til þjóðar skaltu aftur fara.“ Og í sama anda ætla ég að taka í munn mér orð barnabarns míns sem fermdist núna í vor, og þegar að hann var beðinn í kirkju að staðfesta fermingarheitið, þá sagði hann hátt og snjallt: „Já, svo sannarlega!“ Og ég læta það verða mitt svar hér.

SN
Andrés Magnússon.

Andrés Magnússon
Kæru félagar. Við erum mikið að tala um þessa stóru stund í dag. En í raun og veru þá ber fyrst og fremst að þakka þeim þingmönnum, sem hafa haft áhuga á stjórnarskrárbreytingum, áratugum saman. Við getum lesið það að ákveðnir þingmenn hafa reynt að koma fram stjórnarskrárumbótum, ár eftir ár eftir ár. Fyrst og fremst ber okkur hins vegar að þakka því fólki sem stóð niðri á Austurvelli, með bumbur sínar og búsáhöld, Herði Torfasyni, og öðrum sem að skipulögðu mótmæli fólksins. Það eru þau, sem gerðu það að verkum að við erum hér í dag. Og síðan ber að þakka þeim stjórnmálamönnum sem tóku undir kröfur þeirra. Síðan er það nú bara þannig að við tókum flest drögin beint upp úr skýrslu stjórnlaganefndar, þannig að þeirra verk er mjög mikið. Og við, við erum bara svona í þokkalega launuðu innidjobbi, þar sem er hlýtt og gott. Og ég get ekkert sagt að það þurfi að þakka okkur, við unnum bara fyrir kaupinu okkar, eins og fólk á spítölum og annars staðar í samfélaginu, og mæður sem eru að ala upp börn. En ég þakka ykkur fyrst og fremst fyrir að vera til, fyrir að fá að hafa deilt þessum tíma með ykkur, það var ofboðslega skemmtilegt. Og ég ætla ekkert að gera meira úr þessum degi heldur en til stendur, mey skal að morgni lofa. Við erum bara búin að ýta þessu fleyi á flot og það á alveg eftir að komast í land. En ég þakka ykkur fyrir þennan tíma sem ég fékk að vera með ykkur. Takk.

SN
Guðmundur Gunnarsson. Gjörðu svo vel.

Guðmundur Gunnarsson
Það er í sjálfu sér ekki alltaf endilega þeir sem að hafa sig mest í frammi, eða flytja flestar ræðurnar eða lengstu, sem að hafa mestu áhrifin. Ég þekki þetta ferli allt saman afskaplega vel. Og ég skil í sjálfu sér mjög vel líka stöðu Arnar Bárðar. Maður hefur séð þennan leik ansi oft, og þekkir hann afskaplega vel. En það er í sjálfu sér ekki endilega þessir háværustu sem að hafa kannski haft mestu áhrifin á það hvernig þessu verki hefur miðað og hver niðurstaða þess er. Þó svo að þeir hafi kannski oftast staðið hér í pontu og lýst sig sem málsvara fólksins í landinu á meðan aðrir séu það ekki. Allt eru þetta samt atriði sem maður þekkir afskaplega vel úr því starfi sem ég kem. En við erum með nýja stjórnarskrá, hún er mjög framsækin. Hún er djörf á mörgum sviðum. Hún nálgast mjög vel þau atriði sem að fólkið í landinu setti fram, allaveganna það fólk, þessi 13.000 sem að kusu mig, og hafa verið í miklu samstarfi við mig um þau mál, og þau hafa jú náð fram að ganga inni í nefndarherbergjunum og þar hefur mesta vinnan farið fram. Og í sjálfu sér ber það vel merki þess hvernig plaggið er orðið, og sú sátt sem hefur náðst. Hún næst ekki á stöðum eins og þessum hér, í þessum sal, hún næst inni í nefndunum og þar sem fólkið vinnur. Þetta er í sjálfu sér mjög sérstakt og það er í sjálfu sér mjög sérstakt að fá að njóta þessara forréttinda eins og margir hafa talað um, að fá að vera hérna og hafa fengið að vera í þessum hóp. Nú stundum hafa menn jú stappað niður fótunum og stundum hafa menn, sem sagt, brýnt röddina hver gegn öðrum. En í sjálfu sér hefur það alltaf verið gert í, við getum sagt, í góðri meiningu, þ.e.a.s. að menn hafa verið að reyna að ná fram réttmætri niðurstöðu og það ... réttlátri niðurstöðu ætlaði ég að segja. Og ég held að það sé í sjálfu sér í yfirgnæfandi tilfellum sem það hefur tekist. Og við gerum þetta nú ekki ein. Það er búið að vinna fólk við þetta í allmörg ár. Þjóðfundur lagði línurnar. Nú, æskuvinur minn og skólabróðir, var minnst á hann hérna áðan, ég var nú með honum niðri á Austurvelli og hélt ræður hjá honum og hann, svo sem átti þátt í þessu líka, að koma þessu, skapa þetta andrúmsloft. En ég held það sé nú í sjálfu sér með fleira sem að hefur orðið til þess að menn settust niður og ákváðu það að þessi vinna yrði unnin. Það er mikið lengra ferli sem að hefur átt sér stað, heldur en það. Þó svo kannski að hrunið og allt sem að í kringum það var, og það sem að hefur komið fram, hafi ekki í raun og veru hjálpað okkur að fólkið hefur starfað með okkur, og hefur orðið til þess að við höfum náð þessari niðurstöðu. Og ég treysti því og trúi að það ástand sem að hefur verið ríkt í þessu samfélagi og það sem við höfum verið að horfa á, og ég tala nú ekki um síðustu daga, það verði enn frekar til þess að þetta nái fram að ganga sem að við leggjum til. Ég segi já og er svo sem búinn að segja já í nokkra daga, og er mjög fylgjandi því að þetta nái fram.

SN
Ómar Ragnarsson.

Ómar Ragnarsson
Já, góður formaður og aðrir sem hér eruð og heyrið okkar mál. Ég er búinn að segja já 114 sinnum og mig munar ekkert um að bæta því 115. við. Ég vil bara segja þetta, svo lengi sem við lifum, skiptast á skin og skúrir. Hafi dregið eitthvað ský fyrir sólu í starfi okkar, þá hefur okkur alltaf tekist að víkja því frá. Okkur tókst að víkja frá stóru skýi hér, á tiltölulega skömmum tíma, þegar tekið er tillit til alls. Ég trúi því, minn góði vinur og félagi, Örn Bárður, að skýið sem að þú sérð núna yfir, að það verði farið frá á morgun, við höfum heilan sólarhring til þess. Og vil bara segja, það er friður yfir þessari stjórnarskrá, „látum ei mótlætið buga okkur, heldur brýna, brosum og elskum og látum ljós okkar skína. Þá fara öll ský á burtu, við horfum fram á hamingjudag, og hress við skulum nú taka þann slag, fylkjum liði fólkinu í hag, frelsi, jafnrétti, samkomulag.“

SN
Kæru vinir.
Það kannski þarf ekki að vera nafnakall núna eftir það sem hérna ... eftir allar ræðurnar. En ég fer samt í það, mér finnst þægilegra að standa hérna aðeins við það, þetta er búið að vera langur fundur. Og ég ætla að kalla nöfnin upp í stafrófsröð:

Andrés Magnússon: Ég er samþykkur.
Ari Teitsson: Segir já.
Arnfríður Guðmundsdóttir: Ég segi já.
Ástrós Gunnlaugsdóttir: Já.
Dögg Harðardóttir: Já.
Eiríkur Bergmann Einarsson: Já.
Erlingur Sigurðarson: Já, já.
Freyja Haraldsdóttir: Auðvitað já.
Gísli Tryggvason: Já.
Guðmundur Gunnarsson: Já.
Illugi Jökulsson: Já.
Íris Lind Sæmundsdóttir: Já.
Katrín Fjeldsted: Já.
Katrín Oddsdóttir: Jahá.
Lýður Árnason: Já.
Ómar Þorfinnur Ragnarsson: Já.
Pawel Bartoszek: Ég segi já.
Pétur Gunnlaugsson: Ég segi já.
Salvör Nordal, segir já.
Silja Bára Ómarsdóttir: Ég segi já.
Vilhjálmur Þorsteinsson: Já.
Þorkell Helgason: Já.
Þorvaldur Gylfason: Já.
Þórhildur Þorleifsdóttir: Já, svo sannarlega.
Örn Bárður Jónsson: Ég segi já.

[Klappað mikið og lengi]

SN
Kæru vinir.
Síðasta ráðsfundi er að ljúka og við höfum lokið atkvæðagreiðslu, 25-0.
Mig langar að þakka ykkur hjartanlega fyrir frábært samstarf. Þetta er búið að vera gríðarlega skemmtilegt, eins og þið hafið öll sagt, lærdómsríkt, og mikil forréttindi að fá að vera hér og ég þakka ykkur það mikla traust sem þið hafið sýnt mér og stjórninni í okkar störfum. Mig langar, mörg ykkar hafa nefnt starfsfólk Stjórnlagaráðs, við höfum haft á að skipa frábæru starfsfólki og mig langar til að nefna Þorstein [Fr. ] Sigurðsson framkvæmdastjóra, nefndarsviðið allt, þar sem hefur verið Agnar Bragi Bragason, Andrés Ingi Jónsson, Guðbjörg Eva Baldursdóttir og nú síðast Valborg Steingrímsdóttir, undir frábærri, styrkri stjórn Sifjar Guðjónsdóttur. Síðan er það Finnur [Magnússon] og hans tæknifólk, og Snæbjörn Aðils, sem hefur hjálpað okkur að senda fundina út og séð um alla tæknivinnuna, sem hefur verið gríðarlega mikilvæg, og allt það samstarf sem við höfum átt við samfélagið í þessu opna ferli sem við höfum verið í. Og þar hefur líka verið Berghildur Erla [Bernharðsdóttir], og það er alltaf hættulegt þegar maður byrjar að nefna nöfn, þá gleymir maður einhverjum, en ég bið ykkur að afsaka, ég er svo sem alveg viss um að ég gleymi einhverjum. En þær Ágústa [Karlsdóttir] og Svanhvít [Bragadóttir] og Marta [Kristjánsson] uppi, prófarkalesarinn hún Guðrún [Björk Kristjánsdóttir], Ásgerður [Einarsdóttir] og Egill [Arnarsson], og fleiri og fleiri. Þetta hefur verið gríðarlega góður og öflugur hópur og mig langar til að þakka ykkur alveg sérstaklega einstakt samstarf. ... og Friðrik [Atlason] og Brynjar [Örn Ragnarsson], já fyrirgefið þið. Og já, ég er örugglega, eins og ég segi, að gleyma einhverjum. Við erum núna, eins og þið hafið sagt öll, við erum að skila þessu til þjóðarinnar, okkar plaggi, nú fær það sjálfstætt líf, nú eru það hugmyndirnar okkar sem fá vængi. Og mig langar að þakka ykkur enn og aftur og slít hér með okkar síðasta formlega ráðsfundi. Kærar þakkir.

[Klappað]“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni