Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Þrír heimspekingar

Mér er minnisstæð heimsókn bandaríska heimspekiprófessorsins Richards Rorty til Íslands fyrir mörgum árum. Hann sagði þá söguna af því hversu erfitt nýbökuðum heimspekidoktorum, jafnvel frá Princetonháskóla þar sem Rorty kenndi lengi, veittist að landa störfum við sitt hæfi í háskólum. Og þá gerðist það öllum að óvörum að einn nýbakaður heimspekidoktor frá Princeton fékk starf á lögreglustöðustöð í afskekktri og örfoka sveit í Texas. Og viti menn: Árið eftir barst telefax frá Texas til Princeton: Eigið þið annan?

Sem minnir mig á söguna af hagfræðiráðunautinum sem réðst á vegum Alþjóðabankans í Washington til Papúu Nýju-Gíneu, lands sem liggur norðan við Ástralíu. Árið eftir barst bankanum símskeyti frá Port Moresby sem er höfuðborgin: Ráðgjafinn var góður STOP Gerið svo vel að senda annan.

Peter Singer

Ástralski heimspekiprófessorinn Peter Singer starfar í Princetonháskóla eins og Rorty gerði og leggur einkum fyrir sig siðferðileg álitamál. Hann lítur svo á að bólusetning eigi að vera skylda alveg eins og lagaskyldu ber til að spenna á sig bílbelti. Ástralar riðu á vaðið fyrir hálfri öld þegar þeir innleiddu bílbeltaskyldu. Sumir andmæltu lagasetningunni og sögðu réttilega að hún fæli í sér frelsisskerðingu. Mótrök stjórnvalda voru þau að bílbelti bjarga mannslífum. Flest lönd skylda menn nú til að spenna beltin sem eru talin hafa bjargað 370.000 mannslífum – Íslandi eins og það leggur sig! – í Bandaríkjunum einum saman. Munurinn er sá að bílbeltaskylda skerðir frelsi manna einkum til að vernda þá sjálfa en bólusetningarskylda skerðir frelsi manna ekki bara til að vernda þá sjálfa heldur einnig til að vernda frelsi annarra, frelsi undan hættunni á að veikjast af skæðri drepsótt.

Bólusetningarskyldan er að því leyti annars eðlis en bílbeltaskyldan. Fólk sem hefur slasazt í bílslysum sitjandi á beltunum en hefur komizt lífs af, það sér eftir að hafa ekki spennt beltin alveg eins og óbólusett fólk sem hefur smitazt af kórónuveirunni og veikist sér eftir að hafa ekki þegið bólusetningu. Skyldan og frelsisskerðingin í báðum dæmum helgast af þeirri staðreynd að margt fólk tekur ákvarðanir sem það sér eftir síðar, ákvarðanir sem varða líf og dauða.

Harry Frankfurt

Hér er annar heimspekiprófessor í Princeton. Harry Frankfurt birti metsölubókina On Bullshit (Um þvætting) 2005. Hann spyr fyrst: Hvað er lygi? Það vitum við öll. Lygi er vísvitandi uppspuni, ósannindi. Menn ljúga þegar þeir fara með rangt mál af ráðnum hug. Þvættingur er annars eðlis. Sá sem ber fram bull og þvætting hallar ekki réttu máli af ásettu ráði heldur hefur hann yfirleitt ekki haft fyrir því að kynna sér staðreyndir málsins. Hann lætur það þó ekki aftra sér. Hending ein ræður því hvort það sem bullarinn segir er rétt eða rangt. Lygarinn hefur það fram yfir bullarann að lygarinn hefur kynnt sér staðreyndir enda gæti hann ekki annars hallað réttu máli vitandi vits. Bullarinn þarf ekki að vita neitt: hann bara bullar.

Hvor er þá verri, bullarinn eða lygarinn? Hér má vart á milli sjá. Þvættingur getur sýnzt vera sakleysið sjálft, engin alvara á bak við hann, ekki heldur óvild, en hann getur eigi að síður valdið miklum skaða með því að dreifa röngum upplýsingum, ruglingi og ranghugmyndum eins og reynsla síðustu ára vitnar sárlega um. En stundum býr illvilji að baki og víkur þá sögunni að þriðja heimspekingnum.

Aaron James

Bandaríski heimspekiprófessorinn Aaron James kennir í Kaliforníuháskóla í Irvine. Hann birti bókina Assholes: A Theory 2012, djúpskyggnt fræðirit um drullusokka. Bankakreppan 2008 kom honum á bragðið.

Og nú er þessi metsölubók hans komin á hvíta tjaldið. Þar er fjöldi fólks leiddur fram (heimspekingar, lagaprófessorar og leikarar, þar á meðal John Cleese) til að leggja drög að sundurliðaðri flokkun drullusokka. Þeir færa rök að því að í húsi drullusokkanna eru margar vistarverur líkt og í deildaskiptu sjúkrahúsi. Eitt einkenni drullusokksins er að allir vita að hann er drullusokkur en hann hefur þó sjálfur enga innsýn í vandann. Lagaprófessorar lýsa því í myndinni hversu stórfyrirtæki, einkum bankar og fjármálafyrirtæki eins og vogunarsjóðir, eru sneisafull af drullusokkum sem er hversdagsorð um það sem sálfræðingar kalla siðblindingja og ég kalla stundum siðvillinga. Eitt er að villast og annað að sjá ekki handa sinna skil.

Ítalski hæstaréttardómarinn Piercamillo Davigo sem er eða var formaður ítalska dómarafélagsins kemur fram í myndinni. Hann sagði fyrir nokkru: Ítalskir stjórnmálamenn eru ekki hættir að stela, þeir eru bara hættir að skammast sín. Þannig er Ítalía. Aðrir Ítalar sem koma fram í myndinni fjalla um vandann sem hlýzt af því þegar drullusokkar sem stjórna stórfyrirtækjum fá sig ekki sadda þar heldur færa sig upp á skaftið og taka til við að stjórna löndum, eins og til dæmis Silvio Berlusconi og Donald Trump.

Segi menn svo að heimspeki sé gagnslaus. Auk alls hins góða sem heimspekin hefur um árþúsundir fært heiminum hefur hún nú leitt til þess að orðið drullusokkur (eða asshole eins og það heitir á ensku) er orðið að viðteknu, þjálu og þörfu hugtaki í fræðaheiminum og viðskiptalífinu. Enn er von.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni