Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Sannleikurinn um Sjálfstæðisflokkinn – og lygin um Sósíalistaflokkinn

Greinin sem fer hér á eftir birtist í fjórum hlutum í Nýju dagblaði 31. marz, 1. apríl, 2. apríl og 5. apríl 1942. Höfundar greinarinnar er ekki getið í blaðinu. Ritstjóri blaðsins og eigandi var séra Gunnar Benediktsson rithöfundur. Greinin birtist hér aftur þar eð ég tel hana eiga erindi við nútímann og vitna í hana í samnefndri grein minni „Sannleikurinn um Sjálfstæðisflokkinn“ sem birtist í Stundinni á morgun, 10. desember.

Á hverjum sunnudegi birtir Morgunblaðið Reykjavíkurbréf. Bréf þessi skrifa ýmsir af stærri spámönnum Sjálfstæðisflokksins, en þó oftast Magnús Jónsson prófessor í guðfræði og Valtýr Stefánsson ritstjóri. Á s.l. sunnudag voru bréf þessi óvenjulega hreinskilin, sennilega hefur Magnús skrifað þau. En hvað sem um það er, þá er víst að höfundurinn hefur fundið þörf hjá sér til að skrifa og hann birtir, þó að nokkru leyti undir rós sé, meginatriðin úr stefnu þeirri, sem Thorsfjölskyldan hefur ákveðið að flokkurinn skuli fylgja í nánustu framtíð – hann birtir sannleikann um Sjálfstæðisflokkinn, og auðvitað um leið lygina um höfuðandstæðinginn, Sósíalistaflokkinn, sem hann kallar kommúnistaflokk, því það er einn augljósasti sannleikurinn um Thorsaraforustuna í Sjálfstæðisflokknum, að um andstæðinga sína segir hún aldrei satt orð, – Thorsararnir hafa ekki til einskis verið með Jónasi –.

En nú skulum við snúa okkur beint að Reykjavíkurbréfunum.

„Breyttir tímar“

Þessi bersöglisræða Reykjavíkurbréfannna hefst á kafla um breytta tíma, þar segir svo:

„Síðan fjárhagur almennings og ríkissjóðs batnaði, sækir sýnilega í hið sama gamla horf. Nú finnst öllum illindamönnunum þeim sem þurfa að berjast með kjaftinum, baknaga, rógbera og níða náungann, að nú megi taka upp hina sömu þjóðlegu iðju með fullu offorsi og ákafa, til þess að vinna upp þau tæifæri, sem kunna að hafa verið ónotuð, meðan ofurlítið var dregið úr deilunum, vegna tómahljóðsins í ríkisfjárhirslunni.“

Svo mörg eru þau orð. Hvað finnst yður um orðbragðið, finnst yður ekki höfundurinn muni sóma sér vel á fremsta bekk „illindamanna“? Getur nokkrum dulizt, að einmitt hann telur sig nú þurfa „að berjast með kjaftinum, baknaga, rógbera og níða náungann“?

Ef einhver skyldi enn ganga þess dulinn, þá þarf hann ekki annað en að lesa það, sem síðar verður upp tekið af hans eigin orðum síðar í þessari grein, til að augu hans opnist.

En hvenær var það, sem þessi forustumaður Sjálfstæðisflokksins taldi rétt að gera ofurlítið hlé á „baknaginu“, „rógburðinum“ og „níðinu“ um „náungann“?

Það var hérna á árunum, þegar Kveldúlfur skuldaði bönkum þjóðarinnar 8-10 milljónir króna – það var þegar Landsbankinn var búinn að fá einni fjölskyldu tvöfalt stofnfé sitt til umráða, þá var dregið úr „baknaginu“, „rógburðinum“ og „níðinu“ um þá stjórnmálamenn sem talið var líklegast að hægt væri að blekkja til þess að svíkja umbjóðendur sína, stefnu sína og þjóð sína og ganga í hið mikla „heimavarnarlið“ Thorsaranna, sem hafði það hlutverk að bjarga völdum einnar fjölskyldu, völdum hennar yfir fé og framleiðslutækjum.

Hvert sporið öðru stærra hefur verið stigið í þessa átt. Skattfrelsi stórútgerðarinnar, verðfelling krónunnar, bann við kauphækkunum o.s.frv. og nú þegar markinu er náð og augu sumra þeirra, sem létu blekkjast eru að opnast, kemur nöðrukyn Sjálfstæðisflokksins rægjandi, níðandi og bakbítandi hvern þann sem ekki stígur dansinn frammi fyrir altari Kveldúlfs.

Á réttu íslenzku máli hljóðar klausan, sem að framan er birt úr Reykjavíkurbréfunum þannig:

„Síðan fjárhagur“ Kveldúlfs og annarra stórgróðafyrirtækja „fór að batna, sækir sýnilega í hið sama gamla horf. Nú finnst öllum“ þjónum Thorsaraættarinnar, „þeim sem þurfa að berjast með kjaftinum, baknaga, rógbera og níða náungann, að nú megi taka upp hina sömu þjóðlegu iðju með fullu offorsi og ákafa“.

Þetta er einn þáttur úr sannleikanum um Sjálfstæðisflokkinn, það er fyrsti þáttur, en fleiri koma á eftir í eðlilegri atburðaröð.

„Stefnumiðið“

Næsti kafli bersöglisræðunnar heitir „stefnumið“. Kaflinn hefst þannig:

„Hér skal í fám orðum vikið að þeim stefnumiðum, sem þjóðin verður að aðhyllast fyrr eða síðar, ef hún á að reynast þess megnug að ráða sér sjálf.

Aðalframleiðslugreinar vorar, sjávarútvegur og landbúnaður, þurfa að geta unnið saman, svo óskyldar sem þær eru í eðli sínu. Sjávarútvegurinn verður að vera þess megnugur að styðja landbúnaðinn. Þeir sem í sveitunum búa og vinna þar hin erfiðu störf, sem oftast gefa lítið í aðra hönd, verða að nota vald sitt og aðstöðu í þjóðfélaginu til þess að tryggja frjálst athafnalíf þeirra, er sjóinn sækja. Með gulli hafsins og engu öðru verður framtíð sveitanna tryggð“.

Hvað á höfundur Reykjavíkurbréfanna við, þegar hann talar um „frjálst athafnalíf þeirra er sjóinn sækja“? Á hann við, að sjómenn eigi að hafa frjálsræði til að selja vinnuafl sitt eftir því sem þeir bezt geta á hverjum tíma? Á hann við að sjómenn ráði því hvernig útgerðin er rekin, sem þeir vinna við? Á hann við að þeir eigi að ráða arðskiptingunni?

Það kann að virðast broslegt að varpa svona spurningum fram svo ótvírætt sem staðreyndirnar svara þeim neitandi. Það vita allir, að þegar leiðtogar Sjálfstæðisflokksins tala um frjálst athafnalíf, meina þeir ótakmarkað athafnafrelsi til handa stóratvinnurekendum, samfara stórfelldum takmörkunum á athafnafrelsi verkalýðsins og annarra launþega, þeirra frjálsa athafnalíf er athafnalíf gerðardómslaganna.

Sveitirnar eiga að „nota vald sitt og aðstöðu í þjóðfélaginu til þess að tryggja frjálst athafnalíf þeirra er sjónn sækja“.

Hvaða „vald“ og hvaða „aðstaða“ er það, sem sveitirnar eiga að nota?

„Vald“ þeirra og „aðstaða“ á vettvangi stjórnmálanna byggist á því, að kjördæmum er þannig skipt í landinu, að eitt atkvæði í sveit hefur margfalt meiri áhrif á skipan Alþingis en eitt atkvæði í kaupstað. Að leiðrétta þetta misrétti, sem er á milli sveitamanna og kaupstaðabúa, hefur á máli Morgunblaðsins heitið baráttan fyrir réttlætismálinu. Sósíalistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn hafa verið sammála Sjálfstæðisflokknum um að slík leiðrétting væri sannarlegt réttlætismál. Meginþorri sanngjarnra manna úr sveit og við sjó hefur einnig verið þessu sammála, andstaðan gegn réttlætismálinu hefur öll komið frá leiðtogum Framsóknarflokksins, sem eiga völd sín á þingi ranglætinu að þakka.

Nú er það komið á daginn, að leiðtogum Sjálfstæðisflokksins er orðið ljóst, að barátta þeirra fyrir hagsmunum stríðsgróðamannanna er svo andstæð vilja alls almennings einnig innan Sjálfstæðisflokksins, að þeir eiga þess enga von að geta haldið þeim völdum, sem þeir nú hafa í þjóðfélaginu, nema með því að styðjast við rangláta kjördæmaskipan. Og hvernig hugsa þeir sér að framkvæma þetta?

Blátt áfram með því að gera bandalag við afturhaldið innan Framsóknarflokksins gegn „réttlætismálinu“ og tryggja sér um leið atbeina þess sama afturhalds, í baráttunni gegn hagsmunum launastéttanna og fyrir hagsmunum stríðsgróðamannanna.

Ekki leikur það á tveim tungum að meginþorri Sjálfstæðismanna vill halda fast við „réttlætismálið“ svo kallaða, alveg eins og það er víst að til eru þeir menn innan Framsóknarflokksins, sem vilja koma á fullkomnu réttlæti hvað kjördæmamálið snertir, niðurstaðan er því sú að Morgunblaðið boðar og viðurkennir í fyrsta sinn það, sem Nýtt dagblað hefur margsinnis bent á, að stríðsgróðaklíka Sjálfstæðisflokksins ætlar nú að leita á náðir Framsóknarflokksins um atbeina til þess að halda völdum í landinu.

Samstarfsgrundvellinum er lýst í framangreindum ummælum Reykjavíkurbréfs um stefnumið Sjálfstæðisflokksins. Grundvöllurinn á að vera þessi:

Hina ranglátu kjördæmaskipun á að nota til þess að tryggja Jónasardeild Framsóknarflokksins og Thorsdeild Sjálfstæðisflokksins meirihlutaaðstöðu á Alþingi. Bændur í dreifbýlinu á að reyna að kaupa til fylgis við þetta bandalag með því annars vegar að halda launastéttunum í þrældómsfjötrum, svo að þær geti ekki fengið það kaup, sem þeim ber og þær þurfa, þetta á að vera agn fyrir stórbændur, sem hafa margt verkafólks í þjónustu sinni; við smábændur á hins vegar að segja: það gerir ekkert til þó búin ykkar beri sig ekki, með „gulli hafsins“ skal hallinn bættur.

Varla er hægt að hugsa sér fráleitara og svívirðilegra „stefnumið“ en fram kemur í þessari yfirlýsingu.

Fráleitt er það að því leyti, að því er slegið föstu að sveitarbúskapurinn verði ekki rekinn nema með styrk frá sjávarútveginum, þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt, hver atvinnugrein þjóðarinar verður auðvitað að bera sig út af fyrir sig, og vel geta þeir tímar komið að óvíst sé hvorri greininni vegnar betur landbúnaði eða sjávarútvegi. Svívirðilegt er það að því leyti að hér er á lævíslegan hátt verið að bjóða sveitamönnum mútur til þess að ganga í lið með milljónamæringum kaupstaðanna, í baráttu þeirra gegn athafnafrelsi launþeganna, það er verið að bjóða þeim mútur til þess að veita þessum milljónamæringum aðstöðu til þess að sölsa undir sig ennþá meira af auðæfum þjóðarinnar, fleiri skip, fleiri verksmiðjur, fleiri jarðir. Svo eiga bændurnir einn góðan veðurdag að vakna við þann vonda draum, að jarðirnar þeirra séu komnar í eign þessara sömu millljónamæringa, þær hafa verið keyptar fyrir „gull hafsins“ og þegar svo er komið, geta milljónamæringarnir sagt „haf þú bóndi minn hægt um þig“.

Annað aðalstefnumálið

Þegar höfundur Reykjavíkurbréfs hefur þannig fagurlega lýst því hlutverki, sem sveitunum er ætlað í hinni miklu baráttu fyrir hagsmunum stríðsgróðamanna og völdum Thorsættarinnar, bregður hann sér aftur til sjávarsíðunnar og lýsir öðru aðalstefnumáli Sjálfstæðisflokksins.

Honum segist svo frá:

„Annað aðalstefnumálið okkar verður að vera það, að sameina hagsmuni verkamanna og vinnuveitenda. Illvígir spákaupmenn stéttabaráttunnar halda því fram að þetta sé ógerningur. Þeir óska þess, að atvinnurekendur níðist á þeim sem selja vinnu sína, svo verkafólk tapi sjónar á því, að allir, sem að sömu framleiðslu vinna, við sama fyrirtæki, eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Þróun bæjarmálanna hér í Reykjavík hefur verið þyrnir í augum rógberanna því hér hefur lífið sjálft afsannað fullyrðingar þeirra stéttarógsmanna. Fjöldinn allur af þeim mönnum, sem vinna hin erfiðu störf á hafinu eða stunda hættuminni vinnu í landi, hafa á undanförnum árum komizt að raun um, að velgengni atvinnufyrirtækjanna er velgengni verkamannanna, hrun framleiðslufyrirtækja skapar eymd og bágindi verkafólks“.

Þessi ummæli eru ekki tekin hér upp af því að þau séu á nokkurn hátt nýstárleg, þetta er gömul plata, sem Morgunblaðið er búið að spila nokkur þúsund sinnum. Aðferðina lærði það á sínum tíma af Jónasi Jónssyni.

Að þessu sinni þykir heldur ekki ástæða til að ræða um þá takmarkalausu fölsun, sem felst í öllu tali Sjálfstæðisleiðtoganna um „flokk allra stétta“ því verkin hafa talað svo skýru máli allt frá 9. nóvember 1932 til 8. janúar 1942 þegar gerðardómslögin voru útgefin, að engum sem sjáandi sér getur blandazt hugur um fyrir hvaða stétt flokkur þessi berst. Og það sem verkin segja er þetta: Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir sérhagsmunum og þjóðfélagsforréttindum hinna auðugustu. Morgunblaðið má svo spila gömlu plötuna sína eins oft og það vill, þjóðin er hætt að heyra til hennar, því rödd verkanna talar hærra.

Að þessu sinni þykir rétt að minna með örfáum orðum á hvað fyrir Sjálfstæðisleiðtogunum vakir þegar þeir tala um „velgengni atvinnufyrirtækjanna“.

Morgunblaðs-„rógberarnir“ svo að notað sé hið prúðmannlega uppáhaldsorð Reykjavíkurbréfahöfundarins, eru búnir að syngja sönginn um flokk, sem vilji fram kalla hrun atvinnufyrirtækjanna svo oft og lengi, að til eru einfeldningar, sem eru í raun og veru farnir að trúa því að slíkir flokkar séu til. Einstaklega kunna þeir menn lítið í listinni að skammast sín ofan fyrir allar hellur í hvert sinn er þeir bera annað eins fleipur og það í munni sér, að vissir stjórnmálaflokkar vilji að atvinnulífið sé í rústum og að skortur og neyð standi við hvers manns dyr. En það er til svo auðvirðilegur stjórnmálaflokkur á Íslandi, að hann hefur gert þessa skefjalausu lygi að sín áróðursefni, og þessi flokkur heitir Sjálfstæðisflokkur. En hvað er sannleikur í þessum efnum?

Við sósíalistar beygjum okkur fyrir þeim röksemdum reynslunnar, að atvinnufyrirtækin hafa ekki veitt verkalýðnum sæmilega afkomu á undanförnum áratugum.

Við spyrjum hvað þessu valdi. Á jörðin ekki nóg af gæðum til þess að fæða og klæða alla?  Á íslenzk mold og íslenzkur sjór ekki nóg gæði til þess að veita þeim hræðum, sem hér búa, það sem þær sannarlega þurfa til að lifa góðu lífi? Bókstaflega allir svara þessu játandi.

Hvers vegna lifa þá þúsundir manna við atvinnuleysi og skort í þessu ágæta landi?

Við sósíalistar erum sannfærðir um að ástæðan er sú, og sú ein, að framleiðslutækin eru rekin með eiginhagsmuni fyrir augum, en ekki alþjóðar hag.

Togararnir í Reykjavík eru reknir til þess að vissir menn, sem kallast eigendur þeirra geti grætt, en ekki til þess að fullnægja atvinnu- og framfærsluþörfum verkamanna og sjómanna hér í bæ.

Af þessum ástæðum hafa togararnir orðið „fúaduggur og ryðkláfar“ þegar eitthvað hefur gengið ver með fisksöluna, af þessum ástæðum hafa skipin verið seld burtu á sama tíma. Af þessum ástæðum hefur „gulli hafsins“ verið sólundað á hinn viðurstyggilegasta hátt, af drambgjörnum og illa menntuðum útgerðarmönnum. Af þessum ástæðum hefur öllum afrakstri góðáranna verið sólundað á fávíslegasta hátt en töp hinna erfiðari ára verið þjóðnýtt.

Á þessu þarf að verða breyting, segjum við sósíalistar.

Á þessu má engin breyting verða, segja Sjálfstæðismenn.

Á þessu viljum við sósíalistar breytingu af því að við viljum velgengni atvinnufyrirtækjanna, sem skapi öruggan grundvöll fyrir afkomu þjóðarinnar, og veiti hverjum einstaklingi hennar mannsæmandi lífsframfæri.

Á þessu vilja Sjálfstæðismenn engar breytingar af því að þeir vilja stórgróða einstaklinga án alls tillits til þess hvað líður hag heildarinnar. Þegar Morgunblaðið talar um „velgengni atvinnufyrirtækjanna“ þá þýðir það á réttri íslenzku stórgróði stóratvinnurekenda, og þegar það talar um „hrun framleiðslufyrirtækjanna“ þá á það við, að framleiðslutækin komist í hendur hinna vinnandi stétta og að þau verði rekin með þeirra hag fyrir augum og sníkjudýrin verði þurrkuð af þeim, og er það talar um að þetta „hrun“ „skapi eymd og bágindi“ þá á það við að Thorsararnir og sálufélagar þeirra geti ekki rakað hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum í sinn eigin sjóð, þegar þeir, sem erfiða hafa naumast í sig og á.

Þetta er nú einn þátturinn af sannleikanum um Sjálfstæðisflokkinn, hann heldur í sér líftórunni á hugtakarugli og hugtakafölsun, hann lýgur lýtum og smán á andstæðinga sína til þess að hylja þá staðreynd, að hann er þrengsti og auðvirðilegasti stéttarflokkur þjóðfélagsins, því stéttin sem hann berst fyrir er fámennur hópur stríðsgróðamanna, hópur, sem er fámennnari en milljónirnar sem hann hefur rænt af hinum stritandi fjölda.

Við höfum rifjað upp tvö meginatriði úr bersöglisræðu Reykjavíkurbréfa frá síðasta sunnudegi.

Við höfum séð þann sannleika blasa við okkur að valdhafar Sjálfstæðisflokksins hyggjast að nota „vald og aðstöðu“ þeirra sem í sveitunum búa til þess að tryggja forustu Thorsættarinnar í landsmálum. Þá sem í sveitunum búa á að ginna til þjónustu við þessa mjög svo virðulegu ætt með því að heita þeim „gulli hafsins“ til þess að jafna metin á hinum eilífa taprekstri sem Morgunblaðið telur óumflýjanlegt að reka í sveitunum. Umbúðalaust sagt höfum við séð þann sannleika, að nokkur hluti af forustuliði Sjálfstæðisflokksins hyggst að gera fullkomið bandalag við Framsóknarflokkinn og njóta með honum í fullu bróðerni ávaxta ranglætisins og tryggja þar með völd Jónasar-Thors klíkunnar.

Í öðru lagi höfum við séð hvernig þessir herrar fara að því að „baknaga, rógbera og níða“ – svo notuð séu þeirra eigin orð – andstæðinga sína; hvernig þeir brengla hugtökum og falsa staðreyndir, þegar þeir finna hinn málefnalega grundvöll brenna undir fótum sér.

Og nú erum við komnir að þriðja atriði bersöglisræðunnar, og gefum höfundi Reykjavíkurbréfa orðið.

„Þriðja atriðið“

„Þeim mun minni sem þjóðin er, fáliðaðri og vanmegnugri til þess að geta nokkurntíma látið á sér bera að gagni með fjármunum sínum, þeim mun nauðsynlegra er henni að eiga sér menningarlíf, sem veitir henni borgararétt í samfélagi þjóðanna.

En þeir menn, sem helga líf sitt hinum andlegu störfum, og á þann hátt vinna að ómetanlegum verðmætum í þágu alþjóðar, verða líka að skilja að það er þeirra líf og þeirra hagur, að frjáls og heilbrigð efnahagsstarfsemi fái að njóta sín í landinu. Er þess skammt að minnast, að efnahagur þjóðarinnar var svo aumur, að skáld vor og andans menn voru oft sveltir eða þeim gefið á gadd, mest vegna þess, að hér var öll efnahagsstarfsemi lömuð, viðskipti fjötruð og þjóðin efnalega ósjálfbjarga“.

Þetta er þá þriðja atriðið. Það veit að þeim sem helga líf sitt „andlegum störfum“, skáldum og rithöfundum, málurum, myndhöggvurum o.s.frv.

Alþingi hefur falið Menntamálaráði, undir forustu Jónasar Jónssonar, að meta afrek þessara manna, og launa þau af fé þjóðarinnar.

Það hefur ekki vakið neina almenna undrun þó Jónas Jónsson hafi framkvæmt þetta á gjörræðisfullan hátt, annars hefur aldrei verið af honum vænzt. Greining hans á listamönnum í kommúnista og ekki kommúnista er í fullu samræmi við hans sjúklega sálarástand. Heift hans í garð þeirra listamanna, sem honum hefur einhvern tíma sinnazt við er í fullu samræmi við brjálæðiskennda langrækni hans. Viðleitni hans til að fótum troða og svelta þá listamenn, sem honum eru andvígir í skoðunum, viðleitni hans til að vista alla slíka menn „utangarðs“ í þjóðfélaginu, og öll sú heift, sem fram hefur komið í þessari viðleitni hans, er í fullu samræmi við hina þjóðkunnu, sjúklegu heiftrækni hans.

En nú er okkur birtur sá sannleikur, að veikleiki Jónasar hefur vitandi vits verið tekinn í þjónustu valdaklíkunnar í Sjálfstæðisflokknum. Nú vitum við að allt tal leiðandi Sjálfstæðismanna um svívirðilega framkomu Jónasar í garð listamanna hefur verið fals eitt og fláttskapur; nú vitum við að Jónas hefur með allri sinni baráttu gegn róttækum listamönnum aðeins verið að framkvæma vilja Thorsklíkunnar í Sjálfstæðisflokknum. Jónas er hið mikilvirka verkfæri; hann á ófyrirleitnina, hann á hugkvæmnina, hann á hina brjálsæðiskenndu heiftrækni, sem með þarf til að framkvæma það sem auðvirðilegar smásálir Sjálfstæðisleiðtoganna þrá í anda og sannleika, en afneita með vörunum. Allt þetta hefur höfundur Reykjavíkurbréfanna opinberað.

Þjóðin þarf að „eiga sér menningarlíf sem veitir henni borgararétt í samfélagi þjóðanna“, segir höfundur Reykjavíkurbréfa mikið rétt.

En mennirnir sem eiga að veita henni þennan „borgararétt í samfélagi þjóðanna“, skáldin og listamennirnir, þeir verða líka að „skilja það að það er þeirra líf og þeirra hagur að frjáls og heilbrigð efnahagsstarfsemi fái að njóta sín í landinu“, svo segir höfundur Reykjavíkurbréfa. Vel mega hér allir skýr orð skilja, og hefðu þau ekki einu sinni þurft að vera svona skýr til þess að allir hefðu skilið.

Listamönnum á samkvæmt þessu því að eins að vera líft í landinu að þeir „skilji“ og boði í „list“ sinni stefnu Morgunblaðsmanna í atvinnumálum. Þeir eiga að syngja einkaframtakinu lof og dýrð í ræðu og riti. Þeir eiga að vegsama og prísa „harðduglega framkvæmdarstjóra“. Þeir eiga að gera þá sem „týna eignum“ „bjargráðafélaganna“ á dularfullan hátt, en finna sjálfir á jafn dularfullan hátt stórfellda fjársjóðu, sér og föðurlandinu til blessunar, að þjóðhetjum. Þeir eiga að boða skoðanir þeirra, sem ráða í þjóðfélaginu, vinir ríkisstjórnarinnar eiga að vera vinir listamannannna, óvinir hennar þeirra óvinir, skoðanir hennar þeirra skoðanir. Og sjá, ef allt þetta verður þá verður Jónas Jónsson látinn gefa þeim á garða, en vei þeim sem ekki krýpur fram í auðmjúkri lotingu, hans hlutverk er hið ömurlegasta, honum verður hárað á gaddinn „utangarðs“ í þeirri von að sterkviðri og stórhríðar kenni honum að betur sé líkamanum borgið með því að syngja föður Ólafi og syni hans lof og dýrð í Síonskór „innangarðsmanna“.

Annars er hin sameiginlega stefna Sjálfstæðisflokksins og Jónasar Jónssonar gagnvart skáldum og listamönnum ekkert nýtt fyrirbrigði. Höfuðóvinur alls afturhalds á öllum öldum, og í öllum löndum, hafa verið skáld, listamenn og aðrir þeir sem um andlegt atgjörvi hafa verið fjöldanum höfði hærri.

Það eru þessir menn, sem hafa verið í forustusveit mannkynsins á leið þess um eyðimerkur fávizku og vanþroskans, til hinna fyrirheitnu landa farsældar og menningar.

Lítilfjörlegar og þröngsýnar smásálir, á borð við Ólaf Thors og Jónas Jónsson, hafa aldrei látið á sér standa að móta gullkálfa og biðja lýðinn að stíga dans um þá, ef verða mætti að roði gullsins glepti fólkinu sýn svo það missti sjónar af merki foringjanna, og hávaði trúða og trumbuslagara yfirgnæfði rödd leiðtoganna. Það hefur aldrei skort andleg úrhrök gædd hæfileikum Jónasar og Ólafs sem hafa hrópað til lýðsins í hvert sinn er hann hefur sótt fram til meira frelsis og meiri menningar. Snúum við, hverfum til kjötkatla Egyptalands, hverfum aftur að þrældómi manna.

Það eru menn af þessari gerð sem hafa ofsótt spámenn og spekinga allra landa og alda. Það eru menn af þessari gerð sem hafa hnepppt þá í fangelsi, það eru menn af þessari gerð sem hafa drepið þá, það eru menn af þessari gerð sem blóð brautryðjendanna hrópar á og þá hvað hæst þegar þeir svívirða minningu þeirra með loftköstum varanna, á sama tíma sem þeir leitast við að svelta eftirmenn þeirra á „gaddinum“ utan við „garð þjóðfélagsins“.

Nítjánda öldin skildi þessa eilífu baráttu afturhalds hvers tíma gegn afburða gáfum, afburða snilli og afburða manngöfgi, öllum öldum betur. Og baráttan fyrir andlegu frelsi varð aðalsmerki aldarinnar.

Ávöxtur þessarar baráttu varð auðvitað meiri framfarir, meiri sókn fram á við til menningar og manngöfgi en áður voru dæmi til.

Að því hlaut að koma að þessi sókn yrði háð á kostnað auðvaldsþjóðfélaganna á núverandi þróunarstigi. Að því hlaut að koma að framverðir menningarbaráttunnar sæju, hve heimskulegt það þjóðskipulag er, sem við búum við. Að því hlaut að koma að þessir sömu framverðir sæju að þetta skipulag getur ekki rúmað þá menningu, bræðralagsins, sem koma skal, og þegar að þessu marki var komið, var komið að hagsmuna- og valdaaðstöðu yfirstéttanna, þá bjuggust þær til varnar, og brenndu allar frelsishugsanir nítjándu aldar á báli.

Þessi varnarbarátta afturhaldsins gegn framsókn skálda, listamanna, spekinga og spámanna heitir fasismi, þessi barátta er hin andlega pest nútímans, barátt gegn þessari pest er háð af hreysti og hugprýði, og hún mun verða sigursæl, en hinir sýktu breiða út sýklana eftir bezt getu, þeir hafa féð og önnur þau tæki, sem með þarf til þess að útbreiða hina andlegu pest, og hér á Íslandi hafa þeir í þjónustu sinni forustusveitir tveggja stjórnmálaflokka, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, þessar forustusveitir sækja nú fram af meira kappi og ákafa en nokkru sinni fyrr, undir forustu Jónasar Jónssonar og Ólafs Thors, í baráttunni fyrir hinni andlegu pest sem heitir fasismi.

Við höfum nú séð, hvernig höfundur Reykjavíkurbréfa ætlast til að hægt sé að kaupa sveitirnar fyrir „gull hafsins“ til þess að nota „vald sitt og aðstöðu“ til framdráttar fjölskyldusjónarmiðum Thorsættarinnar og hvernig hann með takmarkalausri hugtakafölsun ætlar að reyna að blekkja nokkurn hluta hinnar vinnandi stéttar við sjóinn til þjónustu við sama sjónarmið og loks hvernig hann í anda Hitlers og að fyrirmynd Jónasar ætlar að koma sér upp málaliði hagyrðinga og myndgerðarmanna, en svelta skáld og listamenn, og nú komum við að „skrítnu fyrirbrigði“. Höfundur Reykjavíkurbréfa hefur orðið.

„Skrýtið fyrirbrigði“

„Í þeim erjum, illindum og rógi sem dafnar nú með þjóðinni, hefur komið upp eitt skringilegt fyrirbrigði. Kommúnistar eru farnir að tala um samstarf við aðra flokka. Þykjast þeir tala sem umboðsmenn fyrir íslenzkan verkalýð, fyrir bændur og hver veit hvað.

En þessum herrum, kommúnistum, er rétt að segja það, að þá sögu má endurtaka í þeirra eyru eins oft og verða vill, að þeir hafa aldrei verið, eru ekki og verða aldrei í augum íslenzkra manna annað en erindrekar erlendra einræðisherra. Þeir hafa verið hlýðnir flugumenn Moskva-stjórnarinnar, sem aldrei hafa getað átt sjálfstæða skoðun í sínu vesæla höfði, heldur hafa orðið að dansa eftir þeim fyrirskipunum, sem áróðursmenn Rússa hafa lagt fyrir þá. Íslenzkir hagsmunir, sjálfstæði landsins og  velferð þjóðarinnar er þessum lágskríl einskis virði, samanborið við það að geta unnið hinum rússnesku yfirboðurum gagn“.

Svo mörg eru þau orð Morgunblaðsins, og eru þau vissulega rétt nefnd „skrýtið fyrirbrigði“. Það er sannarlega skrýtið fyrirbrigði, hvað Morgunblaðið endist lengi til að tyggja þessa máttlausu þvælu um Sósíalistaflokkinn. Er ekki jafnvel Morgunblaðsmönnunum orðið ljóst, að þeir eru búnir að syngja sönginn um „flugumenn Stalíns“ og „fyrirskipanir frá Moskva“ o.s.frv., svo oft og títt að þeir eru fyrir löngu orðnir hlægilegir fyrir í augum allra vitiborinna manna. Er ekki jafnvel þesssum vesalings mönnum ljóst, að þeir gera sig hlægilega með því að látast reka upp stór augu, þegar Sósíalistaflokkurinn talar um „samstarf við aðra flokka“?

Þeir vita þó, vesalings mennirnir, að Sósíalistaflokkurinn hefur á stefnuskrá sinni að sameina alla íslenzka alþýðu til sjávar og sveita í baráttunni fyrir bættum kjörum og aukinni menningu. Þeir vita að meginþorri Alþýðuflokksmanna vill eiga samstarf um þessi mál við Sósíalistaflokkinn, þeir vita að mjög mikill hluti Framsóknarmanna er sama sinnis og þeir vita ennfremur að kjósendur Sjálfstæðisflokksins streyma nú þúsundum saman yfir til Sósíalistaflokksins. Þeir vita að þessi samfylking fólksins, sem vel getur fengið sitt ytra form í opinberri samvinnu Sósíalistaflokksins við fleiri eða færri og meiri eða minni hluta þessara flokka, telur það sitt fyrsta verkefni að koma fjármálum og atvinnumálum þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll, en það þýðir auðvitað að brjóta á bak aftur vald stríðsgróðaklíknanna, en efla að sama skapi völd verkalýðshreyfingarinnar og samvinnuhreyfingarinnar, það þýðir raunhæfa baráttu gegn dýrtíðinni og róttækar tilraunir til þess að tryggja öllum vinnufærum mönnum verk að vinna við arðgæfa vinnu þegar „ástandsvinnan“ þverr. Það þýðir að gert verður átak með sameinuðum kröftum þjóðarinnar til þess að tryggja öllum, sem ekki eru vinnufærir rétt til fullra framfærslulauna, það þýðir í sem fæstum orðum sagt að fjármunum þjóðarinnar verður varið til þess að fullnægja þörfum fjöldans, að atvinnulíf þjóðarinnar verður rekið með sama markmiði fyrir augum, en sjónarmið einkabrasksins verður útilokað.

Það er ósköp góðlátleg tilraun til að drepa einingarvilja þjóðarinnar á dreif að kalla hann „skrítið fyrirbrigði“. „Finnagaldurinn“ og „utangarðsstefnan“ var þó á sínum tíma dálítið hressilegri tilraun, sem stefndi að sama marki, þó að hún endaði þannig að allir þeir, sem þátt tóku í henni sýndu þann mannsbrag að skammast sín, undanskildar eru þó tvífættar verur, sem ekki kunna að skammast sín. Allir kannast við afstöðu Jónasar Jónssonar og Jónasar Guðmundssonar.

Lygaklausur Morgunblaðsins um Stalín, Moskva og Sósíalistaflokkinn hafa nú gefið okkur tækifæri til þess að minnast á nokkur meginatriði úr stefnu sósíalista, en það er þó ekki fyrst og fremst það, sem þær gáfu tilefni til, nei síður en svo. Allur áróðurinn um hinn íslenzka „lágskríl“ – sósíalistana og fylgismenn þeirra – er sunginn með undirleik, sem opinberar á listrænan hátt, sannleikann um Sjálfstæðisflokkinn, og sá sannleikur er margfalt ljótari en lygin um Sósíalistaflokkinn.

Hér er kafli úr þessum undirleik Morgunblaðsins við lygasönginn um sósíalista.

„Svo halda þessir menn, að þeir geti komið sér í mjúkinn hjá þjóðinni þessa stundina, af því að upp er risinn í heiminum annar kúgari og ofbeldismaður, sem tekur sjálfum Stalín fram í yfirgangi og grimmdaræði. En munurinn á þessum mönnum er í augum okkar Íslendinga sá, að Hitler er sterkari í svipinn og því meira hataður meðal frjálshuga manna, af því að hann rétt þessa stundina er hættulegri frelsinu í heiminum en Rússinn.

Svo gerast þessi viljalausu verkfæri rauða einræðisins svo freklega heimsk að halda að þeir geti þvegið af sér landráðastimpilinn af því að ýmsir líta svo á, að nasistaharðstjórnin sé nær bæjardyrum okkar í dag en einræði kommúnista“.

Hér er allbert talað. Það þarf ekki einu sinni að lesa á milli línanna til þess að sjá þann sannleika, að Morgunblaðið á enga ósk heitari en að rauði herinn bíði ósigur í baráttunni við nasistahersveitir Hitlers. Og það þarf því síður að lesa á milli línanna til þess að sjá að Morgunblaðið er sama sinnis eins og Jónas Guðmundsson í því að líta á það sem hlutverk Breta og Bandaríkjamanna að beina vopnum sínum og liðsafnaði gegn Sovétríkjunum þegar veldi Hitlers er fallið, ef rauða hernum skyldi auðnast að vinna bug á því.

Engum, sem fylgzt hefur með skrifum Morgunblaðsins og hugsunarhætti fjölmargra af forustumönnum Sjálfstæðisflokksins finnst þetta „skrýtið fyrirbrigði“. Allir slíkir menn vita að stríðsgróðamenn Morgunblaðsklíkunnar eiga ekkert föðurland Allir vita að ekkert er til þessa heims né annars, sem þessir herrar selja ekki hiklaust ef hagnaður er í aðra hönd. Að kalla þá landráðamenn væri hlægilegt, þegar þess er minnzt að Snorri Sturluson hlaut það heiti fyrstur Íslendinga og á síðustu tímum hefur það verið notað í ræðu og riti sem einskonar viðurnefni þeirra, sem fremstir standa í frelsis- og þjóðernisbaráttu íslenzkrar alþýðu, – nei, íslenzk tunga á sem betur fer ekkert orð sem lýst geti viðurstyggð þess hugsunarháttar sem er hinn rauði þráður í baráttu Sjálfstæðisflokksins.

Hver getur látið vera að minnast þess, hvernig leiðtogar Sjálfstæðisflokksins hafa ekið sér á bakinu að fótum hvers þess einræðisherra, sem þeir hafa fundið „peningalykt“ af?

Hver getur látið vera að minnast þess að þessir herrar hafa hafið málaferli og ofsóknir gegn mönnum fyrir að „tala illa“ um Hitler og Mussolini!?

Hver er það er ekki man öll hróp þeirra um að markaðir okkar væru í veði í Þýzkalandi og Ítalíu ef sannleikur var sagður um Hitler og Mussolini?

Hver er sá sem ekki man tryllingsóp þessara manna, þegar íslenzk alþýða vildi sýna hug sinn til lýðræðissinnanna á Spáni, með því að senda nokkrar krónur til þess að styrkja þá í baráttunni gagn fasistanum Franco?

Hversu þrotlaus var þá ekki söngur Morgunblaðsins um landráð þeirra, sem vildu vinna lýðræðinu á Spáni gagn?

Hver er sá, sem ekki skilur, að þau vesælu þý, sem að baki Morgunblaðsins standa, birtast sem auðvirðileg skriðkvikindi við fætur hvers þess valds, sem sterkust hefur tökin á mörkuðum og fjármálum á hverjum tíma, og þá er auðmýktin mest þegar valdhafinn er svívirðilegastur böðull og einræðisherra.

Þessir aumingjar skríða nú um stund fyrir auðdrottnum Bretlands og Bandaríkjanna, en með hálfu meiri auðmýkt og hálfu meiri ánægju myndu þeir skríða að fótum Hitlers, ef hann hefði völdin hér á landi.

Úr því að Morgunblaðið velur þann kostinn að syngja stöðugt sama lygaóðinn um sósíalista, sama þvættinginn um „landráð“ þeirra og „Stalín-þjónustu“, þá verður það að vera við því búið að sannleikurinn verði sagður um flokk þess og starfsmenn þess og það alveg afdráttarlaust. Að þessu sinni skal nokkuð undan dregið, þó ef til vill sé það ekki rétt, en eigi að halda umræðunum lengur áfram í þessum tón, þá skulu þjónar Hitlers verða leiddir út úr herbúðum Morgunblaðsins mann fyrir mann og afhjúpaðir án allrar vægðar. Morgunblaðið getur valið. Ef það vill taka upp siðaðra manna vinnubrögð og láta af sínum þrotlausu lygum um Sósíalistaflokkinn, þá þykir rétt eftir atvikum að láta sumt af því sem satt er um Sjálfstæðisflokkinn kyrrt liggja, því sannleikurinn um Sjálfstæðisflokkinn er margfalt ljótari en lygin um Sósíalistaflokkinn.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni