Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Fjórar tilgátur um spillingu og einn fróðleiksmoli

Spilling er ekki auðvelt rannsóknarefni þar eð ríkir hagsmunir eru eðli málsins samkvæmt bundnir við að halda henni leyndri.

Fjórar tilgátur um spillingu blasa þó við sem verðug athugunarefni, studdar skýrum reynslurökum utan úr heimi.

1. Fyrirtæki sem múta erlendum stjórnmálamönnum múta jafnan einnig innlendum stjórnmálamönnum.

2. Fyrirtæki sem múta stjórnmálamönnum á valdastólum múta jafnan einnig stjórnarandstæðingum til að tryggja þögn um múturnar.

3. Fyrirtæki sem múta stjórnmálamönnum greiða mútuféð helzt inn á leynilega bankareikninga í erlendum skattaskjólum frekar en að reiða þá fram í brúnum umslögum með gamla laginu.

4. Pappírstætarar duga ekki lengur til að eyða sönnunargögnum í mútumálum þar eð gögnin eru jafnan geymd á vefþjónum sem áhugasöm yfirvöld geta ævinlega tryggt sér aðgang að nema um sé að ræða kyrfilega verndaða vefþjóna t.d. í Rússlandi. Kýpur dugir ekki lengur sem felustaður, ekki frekar en Panama.

Fróðleiksmolinn.

Kristján Pétursson löggæzlumaður í Keflavík birti sjálfsævisögu sína Margir vildu hann feigan 1990. Þar lýsir hann m.a. hermanginu og þá um leið olíumálinu, umfangsmesta fjársvikamáli síns tíma, sem hann fékk frið til að upplýsa ásamt öðrum og lyktaði með fangelsisdómi og fjársektum. Kristján lýsir því hvernig reynt var að múta honum með gulli og grænum skógum til að fella rannsókn málsins niður (bls. 95–97). Hann stóðst mátið. Honum var bolað úr starfi.

Kristján meldaði sig í heimsókn til mín, bláókunnugs manns, til að segja mér alla sólarsöguna af þessu máli og öðrum áður en hann félli frá. Ég gaf dómsmálaráðherra skýrslu um heimsókn Kristjáns til mín. Ég lýsti þessum fundum í ritgerð minni Samstæð sakamál í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2018.

Það er þjóðsaga, sagði Kristján mér, það er mýta, að mútur tíðkist ekki á Íslandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni