Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Hálft ár af bóklestri (og rúmlega það)

Einhvers staðar ritaði síleski rithöfundurinn Roberto Bolaño að hann væri hamingjusamastur þegar hann læsi (skrif annarra), en ekki þegar hann héldi sjálfur um pennann og skrifaði (eigin verk). Og sem ég slæ þetta inn rámar mig einnig í að Jón Thoroddsen, sá sérstæði höfundur í íslenskri bókmenntasögu, segi einhvers staðar, í smáprósasafninu sínu fína, Flugur, að því fylgi svo mikill léttir að lesa gott bókmenntaverk og hafa ekki þurft að skrifa það sjálfur. Undir báðar fullyrðingar tek ég heils hugar. Mér finnst gaman – raunar best af öllu – að lesa, og þá einkum ef ég þurfti ekki að strita við að skrifa textann sjálfur. 

Og talandi um texta annarra: Mér alltaf fundist svolítið gaman að lesa skrif fólks um skrif annars fólks. Skrif um skrif. Texta sem fjalla um aðra texta (sem fjalla um enn aðra texta og svo framvegis). Ég er sólginn í skrif rithöfunda um bækur annarra rithöfunda og fæ aldrei nóg af því að lesa skrif annarra lesenda um ævi sína sem lesendur. Stundum kýs ég jafn vel heldur að lesa bækur sem fjalla um aðrar bækur frekar en að lesa sjálfar bækurnar sem eru þar til umfjöllunar; gott dæmi væri My Life in Middlemarch, fín bók eftir Rebeccu Mead sem fjallar um ensku 19. aldar skáldsöguna Middlemarch (sem ég hef ekki lesið og hef ekki í hyggju að lesa). Einkennilegt. En svona er þetta bara. Mér finnst gaman að lesa bækur sem fjalla um aðrar bækur.

En kannski fjalla reyndar allar bækur, þegar öllu er á botninn hvolft, um aðrar bækur? Og eflaust er ég, sem vitsmunavera (ef það er þá rétta orðið), ekkert nema samsuða allra bókanna sem ég hef lesið.

Hvað um það. Við félagi minn, Kári Finnsson, höfum í meira en hálft ár haldið úti Leslistanum, vikulegu fréttabréfi sem fjallar einmitt um áhugavert lesefni, hvort sem um ræðir efni á netinu, dagblöð, tímarit – nú, eða bækur. Þá fær einstaka hlað- og útvarp að slæðast inn. Leslistinn er því nokkurs konar dagbók okkar Kára sem lesenda. Hér má skoða sýnishorn af Leslistanum og hér má svo skrá sig (ókeypis) í áskrift og fá bréfið sent glóðvolgt í innhólfið hjá sér á hverjum föstudagsmorgni. Gerðu það ef þú vilt kynnast okkur frekar; eða slepptu því. Og hér er svo vefsíðan okkar. Meðal efnis eru einnig viðtöl við ýmsa aðra lesendur, stundum rithöfunda en einnig fólk af öðrum sviðum; samanlagt mynda þessir góðu lesendur ráðuneyti Leslistans. Markmið okkar er að Leslistinn verði öflugasta fjölmiðlaveldi á Íslandi og síðan á öllum Norðurlöndunum.

Og þarna hef ég sem sagt haldið yfirlit um lesnar bækur síðustu mánuðina; listarnir eru orðnir tuttugu átta talsins og sá tuttugasti og níundi kemur út næsta föstudag, þann sjöunda september. Frá því að ég var unglingur hef ég reynt að halda dagbók um daglega tilveru mína og það með grátlega misheppnuðum hætti; ég á reyndar tugi, ef ekki hundruð skrifbóka – líkt og foreldrar mínir voru minntir á með afar ónærgætnum hætti af minni hálfu nú nýverið þegar þau komu í heimsókn til New York-borgar (þar sem ég bý) og ég píndi þau blygðunarlaust til að ferja með sér aftur til Íslands tvær níðþungar ferðatöskur sprengfullar af pappír. Í nefndum stílabókum er reyndar ekki að finna heila brú. Já, jafnvel þó að ég hafi reglulega punktað niður, með misskáldlegum hætti, ýmis atvik og uppákomur, bæði grínaktuga viðburði og aðra sárari, svo að árum skiptir, þá jaðra dagbækurnar ekki einu sinni við að draga upp sannferðuga mynd af lífi mínu. En kannski þar glitti í kaldhæðnina sem gín yfir öllum þessum skrifum okkar mannanna: við náum aldrei utan um tilveru okkar. Lífið er eitt; bækur eru annað. Og þurfi ég að velja á milli, kýs ég auðvitað – án þess að hika – bækurnar.

Svo að líklega mynda þær, allar bækurnar sem ég hef lesið, heilsteyptari ramma utan um líf mitt en dagbækurnar mínar. Hér koma þær sem ég hef lesið síðasta hálfa árið (og rúmlega það), ef vera kynni að þarna úti leynist einhver sálufélagi, samherji, andlegt systkini mitt sem einnig hefur gaman af því að lesa skrif fólks um skrif annars fólks. Ekki er óhugsandi að viðkomandi uppgötvi þá jafnvel eitthvað spennandi í leiðinni: frekara lesefni. (Eins tökum við hjá Leslistanum glaðir við öllum ábendingum; skráðu þig í áskrift hjá okkur og sendu okkur ábendingu um eitthvað gott – við fögnum öllum skeytum ef frá eru taldar auglýsingar um bækur eftir þig sem eru að koma út í jólabókaflóðinu.)

Og hefst þá lestrardagbókin:

23. febrúar:

The Metaphysical Club (2002) eftir enskuprófessorinn Louis Menand geymir eins konar yfirlit um hugmyndasögu Bandaríkjanna á 19. öld og sýnir hvernig ríkjandi stefnur og straumar menntamanna á þeim tíma lögðu að stóru leyti línurnar að ríkjandi hugmyndum í samtímanum. Bókin er þétt og læsileg, einkum hlutinn þar sem Menand tekur fyrir Þrælastríðið, en eftir því sem nöfnum og ártölum fjölgar og hiti færist í leikana, verður frásögnin svolítið ruglingsleg og krefjandi. Sem er svo sem bara heilsusamlegt og hressandi.

Ég hef einnig verið að rifja upp kynnin við snjáða bók sem ber þann lýsandi titil Roald Dahl: The Collected Stories. Sögurnar hans eru yndislegar: kvikindisskapur og skammleysi persónanna hafa alltaf svo undarlega hressandi áhrif á mig, auk þess sem beinskeyttur stíllinn, og listilega ofnar flétturnar, eru hálf ávanabindandi. Eina skáldsaga Dahls, Uncle Oswald, um hin kynósa frænda, er líka frábær; og fær mig, óhjákvæmilega, til að hugsa til enn annars meistaraverksins, Frásagnarinnar af lífshlaupi mínu (L’histoire de ma vie) eftir heimspekinginn og séníið Casanova.

Elín, ýmislegt er nokkuð stutt skáldsaga sem færði höfundinum, Kristínu Eiríksdóttur, hin íslensku bókmenntaverðlaun nú í janúar síðastliðinn. Af einhverjum ástæðum fíla ég voða sjaldan þær bækur sem fá þessi íslensku bókmenntaverðlaun: mér finnst oft eins og verið sé að verðlauna höfundana fyrir bækur sem þeir skrifuðu nokkrum árum fyrr, og það þá gert undir yfirskini nýju bókarinnar – góð dæmi væru Einar Már (Hundadagar) og Auður Ava (Ör) – og mér fannst hið sama gilda um verðlaunaveitinguna að þessu sinni (Kristín hefði frekar mátt fá verðlaunin fyrir Hvítfeld.) En hvað um það! Allt skínandi fínir höfundar, en ekki verðlaunaðir fyrir sínar bestu bækur.

Síðast en ekki síst ber að nefna Fire and Fury eftir Michael Wolff, bókina umdeildu um Trump. Ég les hana laumulega í símanum mínum í strætó meðan smábarn dottar á bringunni á mér. Ýmsir vina minna sögðust ekki nenna að skauta í gegnum hana vegna þess hversu rækilega hefði verið fjallað um efnistök hennar í fjölmiðlum, en ég blæs á slíkar afsakanir.

2. mars:

Bandaríska ljóðskáldið Mary Ruefle er í miklu uppáhaldi hjá mér. Nýjasta bókin hennar, My Private Property, er safn smáprósa/örsagna, að mestu vel heppnuð. Eftirlætisbókin mín eftir hana er þó án nokkurs vafa safn yndislegra fyrirlestra, Madness, Rack, and Honey, sem ég blaða reglulega í – það er bók sem virkjar stöðugt einhverja sprengikrafta í heilanum, sem virðist vera æ sjaldgæfari reynsla eftir því sem maður gránar og eldist. Ég held raunar svo mikið upp á þessa bók að ég tími varla að segja þér frá henni. En … lífið er, þegar öllu er á botninn hvolft, æfing í því að vera örlátur. Svo að gjörðu svo vel

Í vikunni las ég The Dream of My Return, þýðingu Katherine Silver á skáldsögu eftir Horacio Castellanos Moya, verk sem kom út hjá einu eftirlætisforlaginu mínu, New Directions, árið 2015. Nefnd skáldsaga fannst mér nú bara nokkuð góð – en þó komst hún ekki í hálfkvisti við íslenskun Hermanns Stefánssonar á öðru verki sama höfundar, Fásinnu. Sú þýðing kom út árið 2012 og ég man að ég las hana, uppnuminn, í einni striklotu í flugvél (alltaf best að lesa bækur í einni striklotu í flugvél) og núna vildi ég óska að ég ætti þá reynslu ennþá inni – en ég er einmitt á leið í flug eftir tæpa klukkustund og sit á flugvelli í New Jersey. Hvet þig til að lesa Fásinnu – eða annað eftir Hermann: hann er meðal þeirra alflinkustu í að beita tungumálinu okkar um þessar mundir.

Ô ma mémoire geymir langa, ævisögulega esseyju eftir Stephane Hessel, auk áttatíu og átta ljóða ýmissa skálda, sem Hessel tók saman undir lok ævi sinnar; eitt fyrir hvert aldursár hans. Hessel, sem lést árið 2013, var sendiherra, diplómat og rithöfundur, maður sem lifði af útrýmingabúðir nasista og átti langa og viðburðaríka ævi. Hann var þrítyngdur (þýska, franska, enska) og lýsir í þessari bók mikilvægi ljóðlistarinnar í lífi sínu, þeirri sáluhjálp sem ljóðlistin veitti honum alla tíð og hvernig hún skilaði honum gegnum margvíslegar þrengingar, meðal annars hryllinginn sem hann upplifði í seinni heimsstyrjöldinni. Ljóðin eru ýmist á frönsku, þýsku og ensku (aftast fylgja franskar þýðingar Hessels á þeim ljóðum sem eru á ensku eða þýsku). Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að námsefni í grunnskólum landsins ætti að megninu til að vera utanbókarlærdómur á margvíslegri ljóðlist (segjum 80-90% pensúmsins) og þessi lestur styrkti mig enn í þeirri trú minni. 

9. mars:

Þó svo að Technopoly; the Surrender of Culture to Technology eftir bandaríska samfélagsrýninn Neil Postman hafi fyrst komið út fyrir tuttugu og sex árum, eða 1992, á hún óneitanlega ennþá brýnna erindi við okkur í dag, krúttlegu sæborgirnar sem við erum. Postman er sjálfsagt þekktastur fyrir bókina Amusing Ourselves to Death, þar sem hann benti meðal annars á að heimur samtímans væri nær þvi að líkjast dystópískri veraldarsýn Aldous Huxley í Veröld ný og góð (e. Brave New World), þar sem erfðabreyttum mannverum er markvisst haldið niðri fyrir atbeina ávanabindandi afþreyingarefnis, frekar en 1984 eftir George Orwell, þar sem menn er bældir niður af ríkisvaldinu. Í framtíðinni þurfi ekki að halda fólki frá því að gera uppreisn með járnaga og hörku, því allir verða hnepptir í ljúfan (en ófullnægjandi) sæludoða tæknivímunnar; við tökum bara af okkur sjálfur, streymum fyndnum og/eða spennandi þáttum og skrunum niður handahófskennt algóritmaval tilkynninga og „frétta“. Í Technopoly, sem ekki er síður áhugaverð, rekur Postman hvernig samfélagið hefur þróast frá því að nota og stjórna tækninni yfir í að hálfpartinn stjórnast af tækninni. Postman var þekktur dægurmálarýnir (e. public intellectual) og ekki síður skemmtilegur áheyrnar en aflestrar. 

Þýðandi Föður Goriot (Skrudda: 2017), bendir á það í formála sínum að hér sé komin fyrsta íslenska útgáfan af skáldsögu eftir Honoré de Balzac, „svo undarlegt sem það má heita“, enda Balzac einn af risum evrópsku skáldsögunnar. Ég hef oft skælt svolítið yfir því hversu fátæklegur íslenski bókaskápurinn er af heimsbókmenntum, þó að þar leynist vissulega ótrúlegustu textar – ímyndaðu þér samt ef við ættum til að mynda allan Dickens, Balzac, Proust, Virginiu Woolf og svo framvegis á íslensku – og því fyrirtak að hér sé ráðist í að gera oggulitla bragarbót á þessari vöntun. Sigurjón hefur raunar verið iðinn við kolann upp á síðkastið og sent frá sér tvær aðrar vandaðar þýðingar, á ævisögum eftir Stefan Zweig, annars vegar Erasmus; upphefð og andstreymi(Skrudda: 2015), um Erasmus frá Rotterdam, hins vegar Balzac, um – jah – Balzac. Sú síðarnefnda var mjög fín – og þýðingin afar blæbrigðarík – og nú vona ég að Sigurjón snari til dæmis einnig út ævisögu Zweigs um Montaigne, sem sá austurríski skrifaði í útlegð sinni í Argentínu, skömmu áður en hann batt, ásamt annarri eiginkonu sinni, Lottu Altmann, enda á líf sitt. En höldum okkur við Balzac: Það er hressandi að lesa La Comédie humaine, sagnavefinn sem kaffisvelgurinn franski spann upp í hátt í hundrað sögur, og þar er Faðir Goriot sjálfsagt fínasti upphafsreitur. Sú saga á ýmsa stórskemmtilega spretti; mér verður til dæmis hugsað til ræðunnar sem hinn slóttugi Vautrin flytur framarlega í öðrum hluta, um spillingu Parísarborgar og þau klækjabrögð sem ungir framagosar þurfa að beita til að hysja sig upp framastigann. Þetta er mikill aldarspegill og persónugalleríið nokkuð stórt, allar persónur ljóslifandi þó að þær eigi það til að fjara út í hálfgerðar klisjur í hátíðlegum yfirlýsingum sínum um ástina. Balzac hefur oft verið sakaður um að vera hálfgert rithross, lítill stílisti – en það er ósanngjarnt. Ég viðurkenni þó að ég átti svolítið erfitt með mig í síðustu tveimur hlutum bókarinnar, eflaust vegna þess að ég er líkt og svo margir með áunnin athyglisbrest og Balzac er kannski full slakur á skurðarhnífnum. Undir lokin tekur sagan hverja sápuóperulykkjuna á eftir annarri og við vitum öll að ekkert eyðileggur góða sögu jafnauðveldlega og þegar persónurnar breytast alfarið í umboðsmenn söguþráðarins. Ég skautaði sem sagt leifturhratt gegnum síðustu hundrað síðurnar. En er það ekki bara allt í lagi? Sem sagt: Fínasta bók og glimrandi góð þýðing, þó að prófarkalesarinn hafi stundum aðeins dottað á gæsalappavaktinni.

Haustið 2015 kom út afar falleg bók hjá Bjarti, Veðurfræði Eyfellings, greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum frá árinu 1979, endurútgefin með viðbótum, nýrri orðaskrá og eftirmála höfundar, eftir Þórð Tómasson í Skógum. Sú bók var um margt fróðleg og geymdi orðaforða sem, að sögn höfundar, er nú óðum að tapast. Þórður hefur vísast margt fyrir sér í því; áður skildi vitaskuld á milli feigs og ófeigs í því að geta lýst í ýtrustu smáatriðum veðri og landslagi, en í dag flettum við tíðarfarinu bara upp í Weather á símanum og sjáum að það er annaðhvort rok eða rigning.

Á síðasta ári kom út ný bók eftir Þórð, að þessu sinni hjá Sæmundi, og nú vonar maður bara að sá gamli dæli út nokkrum í viðbótum. Sú nýja er nefnilega ekki síður skemmtileg. Hún nefnist Um þjóðfræði mannslíkamans; fróðleikur um höfuð og hendur dreginn úr djúpi hugans. Þar greinir Þórður, sem orðinn er 96 ára gamall, frá siðum, þjóðtrú og málfari sem tengjast höndum manna og höfði. Ýmis orð hafa stirðnað í málsháttum og orðtökum, svo sem „lurgur“ (hár – „að taka í lurginn á einhverjum“) og svo leynast þarna ótal orð og orðtök, mörg kunnugleg, önnur síður.

Þórður hefur leik á eftirfarandi orðum: „Gamla fólkið í æskubyggð minni nefndi það að leggja hönd á helgan plóg er ráðist var í vandaverk. Eitthvað svipað vakti fyrir mér í tilraun til að gera þjóðfræðilega grein fyrir manninum, höfði hans og hönd.“

Það er til marks um hversu brögðótt og snúin íslenskan er, að þessi góði, ritfæri maður – sem hefur afar notalega höfundarrödd og er þægilegur félagsskapur – kann ekki að fallbeygja orðið hönd. Þó er þetta fyrirbæri, mannshöndin, meginviðfangsefni bókarinnar. Kannski pinku bagalegt? Svo bregðast krosstré sem önnur. Þórði til varnaðar er þó rétt að nefna að hann er samkvæmur sjálfum sér í villunni og heldur eftir því sem ég fæ best séð rangri þágufallsmynd til streitu út alla bókina; sem er vitaskuld í senn ljóður og einhvern veginn æðislegt, bara kósý.

En rétt upp hend sem kann að leiðrétta skyssuna.

16. mars:

Ég brenndi í gegnum I Dreamt I Was a Very Clean Tramp eftir Richard Hell, einn upphafsmanna pönkbylgjunnar í New York, stofnanda Television ásamt Tom Verlaine (Hell sagði reyndar skilið við sveitina árið 1974, þremur árum áður en hún gaf út sína fyrstu plötu) og leiðtoga Richard Hell and The Voidoids, sem var ein mest áberandi pönksveitin í New York undir lok áttunda áratugarins og í upphafi þess níunda, þó að fáir þekki kannski til hennar núna. (Hell er eiginlega þekktastur í dag fyrir að starta nett sjúskuðu hárgreiðslutrendi og það svo sem út af fyrir sig ekkert lítið afrek.) Í bókinni er hann afar yfirlýsingaglaður, jafnt hvað snertir ljóðlist, tónlist eða málaralist, fólk og hegðun þess. Hann er í senn kærulaus og alvörugefinn, bitur og raunsær, og harmar til dæmis að The Sex Pistols, með Sid Vicious í fararbroddi, hafi slegið í gegn í klæðnaði sem Hell ruddi til rúms (rifin föt, stálpinnar, klippingin) og samkvæmt attitúdi sem hann lagði línurnar fyrir – í hnotskurn: allt má fara til fjandans – en skilur um leið hvers vegna; Hell var alltof mikill níhílisti til að njóta nokkurn tímann lýðhylli utan lítilla kreðsa í New York. Hann hóf ferilinn sem ljóðskáld, gaf út litla bæklinga og bækur, rambaði svo inn í tónlistarheiminn án þess að hafa beinlínis nokkra sérstaka tónlistarhæfileika og sagði skilið við þann bransa nokkrum árum síðar, þá nærri dauður úr heróínneyslu og rugli. Þetta er læsileg og grípandi bók, eins konar mótvægi við Just Kids eftir Patti Smith (sem kemur svolítið við sögu), aðra endurminningabók sem hefur notið mikillar athygli og hefur eiginlega breyst í eins konar fylgihlut fyrir listræna hipstera ásamt avókadóbrauði og silkiþýðu mjólkurkaffi. Ég mæli með bók Richards, hann hefur skemmtilega sýn á lífið, er lipur penni, býsna fróður og lifaður, ófeiminn við að rakka hið samþykkta niður – honum finnst til dæmis Sgt. Pepper’s Lonely Heart Club Band með Bítlunum vera vandræðalegt drasl sem gerir lítið úr og skrumskælir rokktónlist og eflaust hefur hann nokkuð fyrir sér í því – og hefja fólk og verk, sem týnst hafa utan alfaraleiðar, inn í sviðsljósið.

Um daginn var ég á vappi um eitt fallegasta bókasafn Reykjavíkur, sem staðsett er í Norræna húsinu (ég fer þangað í hvert skipti sem ég er í borginni), og rak þá augun í sænsku frumútgáfuna af Lífi, list, orðum, eftir Boel Westin, ævisögu hinnar mögnuðu Tove Jansson, sem fitjaði upp á Múmínálfunum frægu, en er einnig höfundur frábærra nóvella, svo sem Sumarbókarinnar, og margra smásagnasafna. Ég las þessa ævisögu um hana fyrir margt nokkru, á ensku (Life, Art, Words), og fannst textinn raunar ekkert afskaplega þjáll eða kræsilegur, en bókin engu að síður áhugaverð; Jansson er meðal minna uppáhaldslistamanna – hún starfaði sem myndskreytir, höfundur og listmálari í sjö áratugi; geri aðrir betur – og ég mæli sannarlega með verkinu fyrir þá sem vilja kafa í líf hennar og afrek meðan þeir súpa teið sitt úr Múmínbollum. Bókin geymir margar myndskreytingar, brot úr bréfum og dagbókum Tove, margvíslegt annað gúmmelaði, og svo er víst aldrei of oft hnykkt á lífsmottói hennar vinkonu okkar, um grunngildin tvö í tilverunni: Iðjusemi og ást.

Höldum okkur við norrænar bókmenntir, en færum okkur frá Finnlandi yfir til Noregs. Ég heillaðist mikið af Þríleiknum eftir Jon Fosse þegar ég las hann fyrir sirka tveimur árum, og nú hefur íslenskur útgefandi þeirra, Dimma, vafið þeim öllum þremur inn í tilboðspakka. Um er að ræða stuttar skáldsögur – AndvökuDrauma Ólafs og Kvöldsyfju – sem best er að lesa í einum rykk. Stíll Fosse er sérstakur, dáleiðandi, draumkenndur, honum tekst að magna upp sterkar tilfinningar og stemningu með fáum strokum, endurtekningum, ljóðrænu og næmi fyrir harmrænu hlutskipti söguhetja sinna fyrr á tímum, og þýðing Hjalta Rögnvaldssonar er til fyrirmyndar. Eina gilda ástæðan fyrir því að lesa ekki þessar bækur væri sú staðreynd að fyrir þær hlaut Fosse Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs – maður á helst að forðast bækur sem hljóta stór og rótgróin verðlaun – en hér er í lagi að gera undantekningu. Eða það finnst mér allavega.

Og þá til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Concord í New Hampshire. „Oftast finnst mér endurnærandi að vera einn. Að vera innan um aðra, jafnvel þá bestu, verður fljótt þreytandi og truflandi. Mér finnst gott að vera einn.“ Þessar ómótstæðilegu línur eru teknar úr Walden (151. bls.) eftir Henri David Thoreau (1817-1862), öndvegisriti sem nú er loksins komið út á íslensku í glæsilegri þýðingu tveggja sénía, þeirra Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur. Það er langt síðan ég las Walden fyrst, þá í útgáfu sem ég dró niður úr bókahillu hjá pabba, harðspjalda bók með sérkennilegum myndskreytingum, einhvers konar tréristum minnir mig, og síðan þá hef ég lesið reglulega í ólíkum útgáfum hennar og ýmist gefið þær eða týnt; sú nýjasta, nú grafin niður í kassa í kjallara í Queens, er með frábærum formála eftir Bill McKibben, höfund The End of Nature, sem fyrst kom út á níunda áratugnum í stuttum ritgerðum í The New Yorker og síðan sem bók árið 1988, og er eins konar grundvallarrit umhverfisverndarhreyfingarinnar, ekki ólíkt Animal Liberation frá 1975, eftir Peter Singer, sem er undirstöðurit dýraverndunarsinna. Walden Thoreaus er hálfgert kamelljón og hefur verið hampað af ólíkum hópum síðan hún kom fyrst út árið 1854, meðal annars notuð sem málsvörn fyrir einstaklingsgildum og sjálfstæðri framtakssemi, síðar flögguðu hippar henni ákaft milli þess sem þeir vögguðu sér við White Rabbit með Jefferson Airplane og innbyrtu eiturlyf, og upp á síðkastið hafa umverfisverndarsinnar vitnað mikið til hennar. Thoreau er stundum líkt við annan merkan höfund, hinn franska Montaigne (1533-1592), sem stundum er kallaður faðir persónulegu esseyjunnar, og ekki að ósekju; ritgerðir beggja bera oft einfalda titla og ekkert svið jarðvistarinnar er þeim óviðkomandi; kaflar í Walden bera heiti á borð við „Einvera“, „Hljóð“, „Vetrardýr“, „Hagsýni“ – uppáhaldstitillinn minn á ritgerð eftir Montaigne er „Um þumalputta“. Skemmst er frá því að segja að íslenska úttgáfan af Walden, sem líkt og Þríleikur Fosses gefin er út af Dimmu, er afar eiguleg; falleg, hörð græn kápa, flúruð, með gylltu letri, síðurnar mátulega rjómagular, eða kannski nær gómsætu smjöri í lit, snotrar myndskreytingar skilja að kaflana og textinn er smekklega uppsettur og leshvetjandi. Og – sem mest er um vert auðvitað – þýðingin frábær. Þessa bók má ýmist lesa í heild sinni eða þá með svipuðum hætti og ljóðabók eða heimspekirit; hvarvetna hægt að grípa niður og komast á flug eða í hugleiðslustillingu. Hún er yndisleg. Thoreau hefur oft verið kallaður sérvitringur, en mér finnst hann svo sem ekkert, ef marka má viðkynni mín við hann í þessari bók og ýmsum öðrum textum eftir hann, auk ævisagna, til að mynda þessari hér sem ég las nýlega, eitthvað tilfinnanlega skrítnari en flest annað fólk sem ég hef umgengist. (Skrítnastur er maður þó auðvitað sjálfur.) Því miður hlaut Walden á dögunum Íslensku þýðingaverðlaunin, en við látum það ekki bitna á bókinni og lítum raunar alfarið fram hjá því.

23. mars:

„Við skulum vakna snemma, glaðvakna, og fá okkur morgunverð eða vera morgunsins verð, varlega og án þess að það raski ró nokkurs, látum gesti koma og fara, látum bjöllurnar hringja og börnin hrópa – ákveðin í að gera okkur dagamun. Af hverju ættum við að gefa eftir og láta berast með straumnum?“ Ég er á ferðalagi um Kaliforníu og hef því mestmegnis verið að lesa í nýja staði, nýtt fólk og landslag. Meðferðis er þó bók sem ég fjallaði lítillega um í fjórða Leslistanum, íslensk þýðing Walden eftir Thoreau, og þaðan eru tilvitnuð orð tekin. Þessi bók, svo falleg og eiguleg, er að mínu viti eitt það albesta sem komið hefur út á íslensku síðustu árin. Maður opnar hana hvar sem er, les nokkrar síður, allt fellur í ljúfa löð. „Við ættum ekki að hittast í svona miklum flýti,“ segir Thoreau á einum stað og það er hárrétt hjá honum. Við ættum ekki að hittast í svona miklum flýti. Slöppum af og njótum návistar hvert annars. Lesum Leslistann hægt.

Af skiljanlegum ástæðum er nefndur Henri David Thoreau einn eftirlætishöfunda annars bandarísks höfundar, Pauls Auster. Og Auster er – eða var allavega – einn eftirlætishöfunda minna þegar ég var yngri. Á táningsárunum las ég hverja einustu bók eftir hann, gróf upp sjaldgæfar útgáfur, reyfara undir dulnefni, ljóð, ritgerðir og svo framvegis. Seinna las ég óþarflega harðorða en þó ekki innistæðulausa grein eftir afar þekktan og áhrifamikinn enskan gagnrýnanda, James Wood – sem er meðal annars ábyrgur fyrir að hafa kynnt Elenu Ferrante fyrir ófáum enskumælandi lesendum og hugsanlega hálfpartinn ýta af stað þeirri metsölubylgju – þar sem hann leitaðist við að afhjúpa Auster sem eins konar póstmódernískan brellumeistara, yfirborðskenndan höfund og hálfgert rithross, klaufskan stílista og gott ef ekki bara ofdekraðan kúkalabba. Ég man að sú grein sló mig aðeins út af laginu; var einn uppáhaldshöfunda minna kannski bara einhver ofmetinn viðvaningur? Wood virðist sólgnari í meistaralega ritaðar setningar (hann heldur til dæmis mikið upp á Saul Bellow og hefur oft hampað ungverska höfundinum László Krasznahorkai, sem mér finnst óviðjafnanlega leiðinlegur) en hreina og klára sögu – þar er Ferrante að vísu undantekning; hún er í senn stílisti, heimspekingur og mikill sagnameistari – og vissulega hefur Wood nokkuð fyrir sér í því að Auster er enginn Nabokov eða Virginia Woolf, hvað þá Halldór Laxness. Samtölin í skáldsögunum hans eru oft teiknimyndalega stirð og óeðlileg og lýsingarnar nokkuð klisjuskotnar, en að sama skapi finnst mér eitthvað kósý við klaufalegheitin. Plús að hann er flinkur sögumaður. Allra nýjustu bækurnar hans, The Winter Journal og Report from the Interior, fundust mér að vísu heldur þunnur þrettándi (nema hvað byrjunin í Vetrarsjúrnalnum er mjög flott), og því kom mér skemmtilega á óvart hversu grípandi og fín nýjasta skáldsagan hans er. Sú nefnist 4 3 2 1, doðrantur upp á hátt í níu hundruð blaðsíður, geri aðrir betur. Í bókinni úir og grúir af klaufalegum samtölum og lýsingum, en einnig skemmtilegu orðalagi, ríkum orðaforða, óvæntum fléttum og furðulegheitum. Auster er sannarlega einhvers konar póstmódernisti (hvað sem það annars þýðir), en líkist einnig um margt skáldsagnahöfundum 19. aldar, ef ekki bara Cervantes og Rabelais, í því hvernig hann fléttar sögur inn í sögur og rembist ekki við að líkja um of eftir raunveruleikanum, heldur leyfir frásagnargleðinni að leiða sig í gönur og henda sér út og suður. Í 4 3 2 1 fylgjumst við með því hvernig líf Archie Ferguson þróast á fjóra ólíka vegu eftir því hvernig tilviljanir móta og breyta lífi hans og fólksins í kringum hann; þaðan kemur titillinn. Strúktúrinn er skemmtilegur, ívið ruglandi á köflum, en truflaði mig þó ekkert. Sögusviðið er Newark, New Jersey og New York, auk þess sem leikar berast líka aðeins til Parísar. Þetta er fínasta bók, að minnsta kosti langt síðan ég hef hrapað svona rækilega inn í söguveröld annars höfundar. Ekki veit ég hvað James Wood finnst um bókina, en við skulum ekkert velta því fyrir okkur, heldur frekar horfa á hann tromma lipurlega á dúkalagt borð, ólífubox úr plasti og hvítan kaffibolla, en Wood er heitur aðdáandi Keith Moon, úr The Who, og hefur einmitt besta ritgerðarsafnið sitt, með þeim frábæra titli The Fun Stuff, á esseyju um tónlistarmanninn ofvirka. Mæli líka með þeirri bók.

Að lokum er ég svo rétt byrjaður að blaða í The Love Object, eftir Ednu O’Brien, sem er virtur írskur höfundur. Smásögur, mér líst bara ágætlega (held ég) á þær. Sjáumst í næstu viku!

30. mars:

Þegar ég er á löngu ferðalagi og fæ að hvíla lúin bein heima hjá vinum og kunningjum, stenst ég sjaldan mátið um að grípa af handahófi bók niður úr hillu; þannig uppgötvar maður oft eitthvað nýtt og óvænt, líkt og raunin var nú fyrir nokkrum dögum þegar ég rataði á The Last American Man eftir Elizabeth Gilbert, höfund hinnar feykivinsælu Eat, Prey, Love. Um er að ræða ævisögu Eustace Conway, bandarísks manns (og hálfgerðrar ofurhetju) sem fluttist sautján ára gamall út í skóg og hefur búið þar síðar, nánar tiltekið á Skjaldbökueyju, Turtle Island. Eustace er í senn ómótstæðilegur og óþolandi, heillandi og hræðilegur; hann lifir 100% utan neyslusamfélags nútímans, veiðir sér í matinn, saumar öll sín föt, byggir öll sín híbýli (hann bjó í meira en áratug í „teepee“-tjaldi) og svo framvegis. Hann er svona maður sem finnur dauðan íkorna úti í vegarkanti, kippir honum með sér heim, fláir hann og notar í súpu. Hann er nýja hetjan mín. Bókin er úthugsuð, fljótlesin og listilega uppbyggð, krökk af eftirminnilegum karakterum. Fyrir margt löngu hlustaði ég á fínt viðtal við Elizabeth Gilbert hér í Longform-hljaðvarpinu og fannst hún virka snjöll, beinskeytt og sjarmerandi, en var þó haldinn vægum fordómum gagnvart (alltof vinsælum!) skrifum hennar. Ég hef til að mynda aldrei lesið Eat, Prey, Love, sem mér skilst þó að sé virkilega skemmtileg (og nú mun ég sannarlega bæta úr því). 

… Og af því að Kári nefndi Borges hér að ofan og dálæti hans á íslenskri tungu og fornsögunum, þá langar mig að minnast snögglega á frábært tvímála ljóðasafn með íslenskum útgáfum af nokkrum ljóða hans, Yfir saltan mar, sem kom út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur árið 2015. Ég endurlas safnið um daginn, þegar ég var staddur heima á Íslandi, og það er betra en mig minnti, eiginlega bara alveg stórfínt.

Unnendur heilagrar ritningar ættu að fagna því að nú má hlaða appi sem geymir Biblíuna á ótal tungumálum, þar á meðal á íslensku, sem er nýlunda. 

6. apríl:

The Red Parts eftir Maggie Nelson er afar vel skrifuð og grípandi frásögn, en um leið virkilega erfið aflestrar. Ég las hana í flugvél, í einni striklotu, og var hálf-vankaður á eftir – viðfangsefnið stendur manni nærri, án þess að ég fari frekar út í þá sálma hér. Maggie Nelson er sjálfsagt þekktust fyrir The Argonauts, og er að mínu viti á meðal áhugaverðari höfunda í Bandaríkjunum um þessar mundir.

Bandaríski ljósmyndarinn Peter Menzel og rithöfundurinn Faith D’Aluiso ferðuðust vítt og breitt út um byggð ból og skrásettu, í mynd og orði, hvað manneskjur ólíkra landa leggja sér vikulega til goggs – útkoman var bókin Hungry Planet, sem kom út árið 2005 og felur í sér samanburð á átvenjum okkar á jörðinni. Niðurstöðurnar eru sjokkerandi (og vissulega oft fyrirsjáanlegar – til að mynda leggur ein bandarísk fjölskylda sér ekkert til munns nema það sé fyrst vafið rækilega inn í plast, og aðrar fjölskyldur borða á viku jafngildi þess sem flest okkar gleypa í sig á nokkrum klukkustundum. Sjón er sögu ríkari.

13. apríl:

Út er komin á íslensku skáldsagan Dagar höfnunar eftir Elenu Ferrante, sem ætti að vera íslenskum lesendum að góðu kunn eftir velgengni Napólí-fjórleiksins magnaða. Það er alllangt síðan ég las Daga höfnunar, sem kom upprunalega út árið 2002 á Ítalíu og er afar hnitmiðuð og kröftug nóvella. Ég las hana á ensku, undir heitinu The Days of Abandonment (frá 2005), en mér skilst að íslenska þýðingin sé mjög fín. Já, dáindisfín bara. Ég man vel eftir því þegar ég las bókina (það voru fyrstu kynni mín af Elenu Ferrante): Ég bjó í París, líklega var þetta árið 2011, og ég var sárveikur, með hita og flensu – líkastur persónu úr skáldsögu eftir Dostojevskí: ungur maður með óráði sem býr við skáldlega eymd og volæði í agnarlítilli skonsu í syndabæli stórborgarinnar – og í rúmlegunni las ég þessa bók. Og vá sko. (Ég hef áður skrifað um dálæti mitt á Ferrante, meðal annars hér.)

Hin kanadíska Rachel Cusk hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli fyrir tvær nýjustu skáldsögur sínar, Outline (2014) og Transit (2017), en þær tilheyra þríleik og lokahnykkurinn, Kudos, er víst væntanlegur. Ég uppgötvaði Cusk fyrst í The Paris Review, sem smábirti Outline í fjórum innslögum, og hún náði mér strax. Rödd Cusk er einstök – rétt eins og rödd áðurnefndrar Elenu Ferrante – en það tók hana, að ég hygg, nokkrar bækur að rata á sinn rétta tón. (Fyrsta skáldsaga hennar, Saving Agnes (1993), er til að mynda með allt öðru sniði og nær hvergi sömu hæðum; einhvern veginn mjög dæmigerð, og svolítið flöt, fyrsta skáldsaga.) Ég skrifa kannski meira um skáldsögurnar hennar síðar, ef mér endist til þess aldur og þrek; sú bók, sem mig langaði að vekja máls á hér, er af sannsögulegum toga og nefnist A Life’s Work; on becoming a mother. Lestu hana endilega. Þar lýsir Cusk, á grátbroslegan og oft pínlega hreinskilinn hátt, trámatískri reynslu sinni af því að verða móðir. Hún ræðst ótrauð á margvísleg tabú og greining hennar, á stöðluðum hugmyndum um móðurhlutverkið, er í senn hvöss og fyndin og tímabær. Cusk sætti á sínum tíma heiftarlegri gagnrýni fyrir þessa bók og var sökuð, af fjölmörgum veimiltýtum til sjávar og sveita, um að vera svolítið kaldlynd og grimm; ófáum alvitringum þótti víst til að mynda óverjandi að viðurkenna að allar þær margvíslegu þolraunir og allur sá argi hryllingur sem hlýst af barnseignum, svo sem svefnleysi, algjör fjarvera frítíma og næðis til að hugsa/lesa/skrifa, sú staðreynd að önnur manneskja situr nú skyndilega stanslaust um mann og krefst þess með skerandi öskrum og góli að maður mati sig, hreinsi burt gubb og þvag og kúk og svo framvegis, sé á tíðum óþolandi eldskírn og að mann langi oft hreinlega að flýja öskrandi upp í næstu lest og endurheimta sitt fyrra líf. Styrkur bókarinnar liggur annars vegar í orðsnilld höfundarins (lýsingar hennar á hlutum og fólki eru afar lifandi og góðar) og þeirri samsvörun sem lesandinn (í þessu tilviki: ég, tiltölulega nýbakaður pabbi) finnur til. Ergelsislegar tilfinningar i í garð barnanna okkar útiloka þó auðvitað ekki að við berum samfara til þeirra yfirþyrmandi ást; öll erum við samsett úr þúsund ósamrýmanlegum tilfinningum og hugmyndum og ef maður áttar sig ekki á því, þá er maður einfaldlega blábjáni. Já, þú last rétt: blábjáni. Þetta er stórskemmtileg bók – stundum þannig að maður hlær upphátt – og virkilega vel skrifuð. Mest fór í taugarnar á mér hversu ljót kápan á minni útgáfu er. Af hverju eru bækur eftir konur oft klæddar upp á svona hallærislegan hátt? Cusk er umfram allt vitsmunalegur höfundur og hún á skilið að verkum hennar sé pakkað inn í smekklegar umbúðir frekar en að ýjað sé að því að hér fari einhvers konar tilfinningaklám og lífstílsspeki sem höfða eigi sérstaklega til hysterískra kvenna. Mæli mikið með þessari bók – einkum fyrir nýbakaða (og eins raunar þaulreynda) foreldra.

20. apríl:

Í vikunni las ég Reckless Daughter eftir David Yaffe, langa og býsna ýtarlega ævisögu um Joni Mitchell. Yaffe fer af innsæi og næmi í gegnum sköpunarverk söngvaskáldsins; tónlistina, textasmíðina, málverkin. Þá kafar hann djúpt, og stundum fulldjúpt, í ástalíf hennar. Bókin er lipurlega skrifuð, örlítið endurtekningasöm og – líkt og flestar bækur – aðeins of löng. Auk þess er aðdáun Yaffe á viðfangsefninu óumdeilanleg; stundum minnir verkið á hálfgerða lofgjörð, aðdáendabréf til Joni. En ber nokkuð að undra það þó að Joni Mitchell heilli höfundinn, er hún ekki besta söngvaskáld 20. aldarinnar? Hér framkallar hún allavega gæsahúð. Og hér er svo langt viðtal við hana, tekið árið 2013. Magnað dót. Joni veitir ekki oft viðtöl, er líkt og svo margt næmt og áhugavert fólk frekar reklúsíf – en mikið yndislega er gaman að hlusta á hana. Beinskeytt, keðjureykjandi, hvöss, snjöll, einstök.

Almennt les ég býsna mikið um loftslagsmál, náttúrufræði og sorp, sem er ekki alltaf hægðalosandi. En hvernig er annað hægt eins og nú árar? Í vikunni dró enn og aftur fram bók sem ég hef lengi frestað að lesa, The End of Natureeftir Bill McKibben, eina þá alfyrstu sem tók á loftslagsbreytingum með hinn almenna lesanda í huga. Líkt og titillinn gefur til kynna, þá er þetta ekki upplífgandi lestur. Á bókarkápunni minni er dauður fugl. Hugmyndin að baki titlinum, um endalok náttúrunnar, er sá að við mennirnir séum ekki lengur lítil peð ofurseld duttlungum náttúrunnar, heldur séum við nú stærsta og áhrifamesta aflið á jörðinni – mengandi strit okkar, allar framfarirnar, hafa gjörbreytt jörðinni á síðustu áratugum. Og hvað tekur nú við? Það er hálf-óhugnanlegt að hugsa til þess. Bill McKibben er meðal annars einn stofnenda hinna merku 350-samtaka, og þetta er góður upphafsreitur að verkum hans og lífsstarfi.

Að lokum langar mig svo að impra snöggvast á bók eftir Ursulu K. Le Guin, No Time to Spare. Le Guin er, eða var (hún lést nýlega), vitaskuld einn þekktasti vísindaskáldsöguhöfundur samtímans. Skáldskapur hennar olli straumhvörfum og stuðlaði að því að höfundar á hennar sviði, þ.e. innan fantasíu- og vísindaskáldskapargeirans, öðluðust meiri virðingu meðal bókmenntaspekinga. (Eða svo er mér sagt.) Margar skáldsagnanna hennar byggjast á æðislega heillandi hugmyndum: Í The Left Hand of Darkness (1969) hafa manneskjur ekki fastmótað kyn, heldur mótast kynhlutverk og -hneigð þeirra af aðstæðum hverju sinni og kemur aðeins fram einu sinni í mánuði. (Mér var gefið eintak af þessari bók nýlega en hef ekki enn lesið hana.) No Time to Spare er raunar fyrsta bókin sem ég les eftir Le Guin. Þetta er ritgerðarsafn, afar rólyndislegur tónn sem svífur yfir vötnum. Það sem einkum sækir á huga Ursulu eru kettir og ellin. Kettir eru snilldarfélagsskapur, einkum fyrir feimið fólk. Og ellin er helvíti. Allt verður svo erfitt. Efstu árin eru hálfgert flugslys. Undir það síðasta hafði Le Guin öðlast sess sem spakvitringur sem tilvalið þykir að vitna í á Internetinu. Þessi ræða hennar, þar sem hún veitir The National Book Awards viðtöku, hefur farið víða. Hið góða fólk hjá The Guardian er svo almennilegt að stafa ofan í okkur hvaða skáldsögur Le Guin við ættum alls ekki að láta framhjá okkur fara. Og hér er svo Paris Review-viðtal við hana.

27. apríl:

César Aira er einn eftirlætishöfunda minna. Núna í vikunni kom út nýjasta enska þýðingin á verki eftir hann, The Linden Tree. Bækurnar hans eru stuttar, innan við hundrað síður. Þær eru kallaðar skáldsögur, en hvað er skáldsaga? Ég las The Linden Tree í einum rykk með bros á vör; þó er þetta kannski ekki besti upphafsreiturinn að verkum hans. Ég get hæglega mælt með öðrum; í sérstöku eftirlæti eru til dæmis The Musical Brain, The Conversations, The Literary Conference, The Miracle Cures of Dr. Aira, An Episode in the Life of the Landscape Painter, Ghosts … Einhver líkti því að lesa Aira við að setja eftirlætishljómsveitina sína á shuffle og hlusta svo bara handahófskennt út í bláinn, sem er nokkuð nærri lagi. Maður getur eiginlega opnað af handahófi hvaða bók sem er eftir hann og tekið að lesa hvar sem er; og því kannski óviðeigandi að leita að góðum upphafsreit. Aira er hæglátur og dreyminn maður, hafði lengi í sig og á með þýðingum af ensku og frönsku yfir á spænsku, en hefur núorðið gefið út fleiri en hundrað bækur í heimalandi sínu, Argentínu, og er í hávegum hafður. Ég get því miður aðeins lesið þau verk hans sem komið hafa út á ensku (hér er listi og stutt æviágrip: hin frábæra New Directions gefur þær út í mjög fallegum útgáfum) og frönsku. Ég vona að Aira fái bráðum Nóbelsverðlaunin, það væri verðskuldað. Þá hoppa ég hæð mína í loft upp af fögnuði og rek höfuðið í þakloftið líkt og Siggi Páls kvaðst hafa gert þegar hann fregnaði að Patrick Modiano hefði hlotið þau. Það er eitthvað fallegt við tilhugsunina um fullorðna karlmenn sem hoppa af gleði yfir því að aðrir fái verðlaun fyrir að skrifa góðar sögur. Hér útskýrir Aira fyrir okkur hvers vegna bókmenntirnar eru æðsta listgreinin.

Og þá yfir í eitthvað allt annað: Af einhverjum ástæðum las ég í vikunni grafísku skáldsöguna Tamara Drewe eftir hina bresku Posy Simmonds. Ég held að konan mín hafi tekið þessa bók á bókasafninu, að minnsta kosti liggur hún hér fyrir framan mig, lesin. Hvaða bók er þetta eiginlega? Og hver er Posy Simmonds? Þetta er sápuóperuleg saga, lauslega byggð á Far from the Madding Crowd eftir Thomas Hardy (sem ég hef ekki lesið). Sagan gerist á notalegu sveitasetri; þangað koma rithöfundar til að skrifa í kyrrðinni, en hver og einn hefur sinn djöful að draga. Og allir verða bálskotnir í titilpersónunni, Tamöru Drewe. Í lýsingunni á bókarflipa segir að Posy Simmonds sé „dáðasti myndasöguhöfundur Breta“. Ekki veit ég hvort það sé satt; ég hafði aldrei heyrt um hana. Og þó … skyndilega rifjast upp fyrir mér að hún er einnig höfundur verksins Gemma Bovary; það er viðeigandi að ég rakst einu sinni á þá bók í sveitahúsi í Frakklandi og las hana þar, í eplailmi. Mundi það bara núna. Ég man samt eiginlega ekkert eftir þeirri upplifun (þ.e. efnisinntaki bókarinnar) og ég er eiginlega líka strax búin að gleyma hinni sem ég las þó bara í gær eða fyrradag. En ég hef sem sagt yfir ævina lesið tvær bækur eftir þessa Posy Simmonds. Ljær það mig yfirbragði kynþokka og dulúðar? Ég sé það núna þegar ég gúgla „Tamara Drewe“ (ég ætti að vera löngu farinn að sofa þar sem ég held í ferðalag eldsnemma í fyrramálið) að þessu meistaraverki hefur verið breytt í kvikmynd. Mæli alveg með þessu.

Og enn yfir í eitthvað allt annað: Fyrir nokkrum árum kom út bókin Skáldið og ástin: Halldór Laxness, bréf til Ingu 1927-1939. Mér varð hugsað til þessa bréfasafns núna í vikunni, á afmæli skáldsins. Reglulega eru settar fram vangaveltur um hvort ungt fólk sé enn að glugga í verk hans. Seilist sautján ára stúlka í frístundagír eftir Sölku Völku? Rabba fjórtán ára drengir í Kringlunni um hin yndislegu upphafsorð Heimsljóss? Ég hef varla búið á Íslandi „síðan ég var krakki“, eins og mig minnir að Halldór lýsi einhvers staðar yfir, og veit því ekki svarið. En ég hef blaðað reglulega í þessu furðulega bréfasafni síðustu árin og haft gaman af því. Hvers vegna er svona skrítin bók gefin út? Sum bréfin eru dásamlega klúðursleg. Skáldið lýsir gagngeru frati á börn og fjölskyldulíf. Auðvitað! Hann fullyrðir að hann þurfi að beina allri orku sinni að andlegum hugðarefnum sínum. Sem betur fer! Hann þeytist um Rússland í þeirri viðleitni að bjarga verkalýðnum frá glötun. Ja, því hver ætti annars að standa í slíku stappi? Hann hamast við að koma bókum sínum til útgáfu vítt og breitt um jarðarkringluna og það kraumar einhver geggjuð orka að baki bréfunum sem lýsa öllu þessu havaríi, ákefð sem manni finnst réttlætanleg og fögur í upphafi 20. aldar en væri einhvern veginn algjörlega óhugsandi í dag (þegar mannkynið slefar upp í 8 milljarða og allt er á heljarþröm – maður yrði bara settur á ofvirknilyf). Þetta er stórskemmtileg bók. Hún er stundum dálítið endurtekningasöm, til dæmis krökk af ófrumlegum ástaryfirlýsingum, sjálfsvorkunn og röfli. En er það ekki bara fínt? Elsku Halldór Laxness. Án hans væri veröldin fátæklegri staður.

Hjá Dimmu var svo að koma út glæný þýðing á skáldsögu eftir Jon Fosse. Fosse skrifar, líkt og fyrrnefndur César Aira, skáldsögur sem eru af afar tempraðri lengd, innan við hundrað síður. Það finnst mér mátulegt. Stuttar bækur, mjög gott. Hér má lesa enskar þýðingar á örtextum eftir Fosse, brotum úr bernsku hans.

4. maí:

Það kom flatt upp á mig, satt að segja, þegar Kazuo Ishiguro fékk Nóbelsverðlaunin nú síðast. Árið á undan hafði aldurhnigið, vestrænt, enskumælandi söngvaskáld verið verðlaunað, og nú hneppti enskumælandi, vestrænn skáldsagnahöfundur (að vísu fæddur í Japan) góssið. Hvaða vestræna, enskumælandi séní ætli fái verðlaunin næst? Mig rámar í að hafa lesið, í námi í London, eina af þekktari bókum Ishiguro, Never Let Me Go, sem gerð var eftir doðaleg bíómynd fyrir nokkrum árum. Bókin var svo sem allt í lagi, hugmyndin áhugaverð, útfærslan nokkuð reyfarakennd, full af ódýrum trikkum og fyrirboðum („Ég vissi ekki enn að tveimur árum síðar myndum við …“ og svo framvegis). Aldrei hefði hvarflað að mér að þar héldi Nóbelsverðlaunahöfundur á penna. Nokkrum árum síðar las ég smásagnasafn eftir Ishiguro, Nocturnes: Five Stories of Music and Nightfall. Sú bók var þolanleg, einkum þótti mér fyrsta sagan, sem gerist í Feneyjum, eftirminnileg. Þó er eitthvað kaldhamrað og dautt við skrif Ishiguro, enda hefur hann lýst því yfir, í viðtali við The Paris Review ef ég man rétt, að hann hefði miklu heldur viljað starfa sem tónlistarmaður en rithöfundur, en því miður hefði tilfinnanlegur skortur á hæfileikum hamlað honum á því sviði. Besta skáldsaga, sem ég hef lesið eftir hann, er The Unconsoled, nokkuð heillandi Kafka-stæling sem tekur með sterkum hætti á alþjóðavæðingu – en er þó í rauninni bara dauft bergmál af skáldsögum áðurnefnds vinr okkar, hans Kafka. Ég hef ekki enn lesið þekktustu skáldsögu Ishiguros, The Remains of the Day, og vil því ekki dæma verk hans of hart, en ég reyndi, á ferðalagi um England fyrir ekki svo ýkja löngu, að lesa nýjustu skáldsöguna sem hann setur nafn sitt við, The Buried Giant. Það var sama deyfðarlega flatneskjan, eftir hundrað blaðsíður einhvern veginn bara lognaðist áhugi minn algjörlega út af og ég held ég hafi týnt bókinni á lestarstöð. Sem var leitt, því mig langar greinilega eitthvað svo mikið að fíla verk þessa manns. En það gerist bara ekki: Í vikunni las ég (af hverju gefst ég ekki bara upp á honum?) fyrstu útgefnu skáldsögu hans, A Pale View of Hills. Las, sagði ég – rembdist í gegnum væri nær lagi. Þetta var alveg merkilega slöpp bók. Að mestu flatur díalógur, plús einstaka snautlegar lýsingar. Næstum hver einasta lína er klisjukennd, kunnugleg. Af hverju les maður svona leiðinlegar bækur? Á kafla leið mér eins og höfundurinn hefði skrifað þessa bók undir áhrifum svefnlyfja – í hið minnsta fannst mér hvergi bóla á skáldskapargáfu – og nú ætla ég bara að vera alveg hreinskilinn: Ég laut í lægra haldi fyrir leiðindunum og bugaðist upp úr miðri bók, fletti bara á hundavaði gegnum restina. Jamm, rosa stuð í lífsins ólgusjó. Er ég svona lélegur lesandi? Er kannski allt morandi í snilld þarna og ég einfaldlega með dempuð móttökuskilyrði? Hvað um það, nú hefur Ishiguro sem sagt fengið Nóbelsverðlaunin. (Mér skilst að hann sé góður „network-ari“.) Þá vil ég nú heldur einn stærsta áhrifavald hans – sem enn er hunsaður af Nóbelsnefndinni – sjálfan Haruki Murakami. Ja, eða þá bara Guðrúnu frá Lundi.

Ég tek eftir því að minningar mínar af bókum tengjast því oft hvar ég var staddur þegar ég las þær: The Idiot eftir Elif Batuman er gott dæmi. Ég las hana í The Catskills, héraði í New York-fylki, og fer strax að hugsa um þytinn í hlyntrjánum, pönnukökur, varðeld undir stjörnubjörtum himni, ullarteppið sem kviknaði í og brunasárið á andlitinu á m… Nei, nei, bara grín. En ég las The Idiot sem sagt á nefndu ferðalagi og var mjög hrifinn af henni, einkum af fyrri hlutanum. Þetta er nokkuð brokkgeng bók, á köflum frábær, stundum allt að því flöt og óáhugaverð; þ.e. akkúrat eins og skáldsögur – allavega sumar skáldsögur – eiga að vera. Styrkur hennar liggur helst í lýsingunum og húmornum; þetta er þannig bók að maður hlær oft upphátt. Ég nenni ekki að lýsa efnisinnihaldi hennar en þemað er að stórum þræði hvernig við höslum okkur völl í ólíkum tungumálum, ólíkum menningarsvæðum, og vandræðagangurinn sem af því getur hlotist. (Sjálfsagt nokkuð sem mér er hugleikið, þar sem ég tala ensku og frönsku dagsdaglega og nota íslensku stundum svo að vikum skiptir einungis í rituðu máli og símtölum við vini, fjölskyldu og ómálga smábarn). Þetta er þroskasaga; samt veit ég ekki hvort nokkur persónanna þroskist eitthvað sérstaklega. Kannski er þetta andþroskasaga? Fyrri bók BatumanThe Possessed: Adventures with Russian Books and the People who Read Them er líka (eins og titillinn bendir til) skemmtileg – einkum hlutinn sem fjallar um Isaac Babel-ráðstefnu – en ég mæli þó frekar með The Idiot sem inngangspunkti.

Talandi um fyndið fólk: Roz Chast er einn fyndasti myndasöguhöfundur sem ég veit um. Hún er í algjöru uppáhaldi hjá mér, á öruggt sæti í úrvaldsdeildinni. Ólíkt Elif Batuman (sem ég hef hitt) veit ég samt ekki hvort ég myndi vilja/þora að hitta hana; ég óttast að henni myndi einhvern veginn takast að drepa mig úr hlátri og það yrði háðulegur dauðdagi. Í vikunni las ég Proof of Life on Earth, úrval af sögum sem að langmestu leyti eru teknar úr The New Yorker. Þetta safn kom út á löngu liðnu tímaskeiði mannkynssögunnar, aftur í fornöld árið 1991, og ég rambaði á fyrir tilviljun á eintakið mitt í bókabúðinni í hverfinu mínu, sem einnig er kaffihús og minnir stundum á sit-com þátt með öllum sínum fastakúnnum. Frábært dót, bæði bókin og kaffihúsið. Besti inngangsreiturinn að verkum Roz Chast væri þó kannski Can’t We Talk About Something More Pleasantgrátbrosleg minningasaga um foreldra hennar, sem voru vægast sagt kynlegir kvistir. Sú skaut Roz Chast upp á stjörnuhimininn í hjarta mér og ég get ekki mælt nógsamlega með henni. Chast birtir vikulega stuttar sögur í The New Yorker. Teiknistíllinn hennar er mjög einkennandi og spes: í senn taugatrekkjandi og notalegur.

11. maí:

Í vikunni rambaði ég fyrir algjöra tilviljun á bók sem nefnist The Way of Jesusog er eftir Jay Parini. Ég seildist eftir gripnum (ég var staddur á bókasafninu) af tveimur ástæðum. Í fyrra lagi hafði ég áður lesið tvær fínar bækur eftir höfundinn; annars vegar ævisögu um John Steinbeck; hins vegar The Last Station, skáldsögu um síðustu daga Tolstojs, sem til er í fínni þýðingu Gyrðis Elíassonar (sem Endastöðin). Ekki hafði ég hugmynd um að Parini væri trúaður maður. Í sem stystu máli, þá fannst mér bókin frábær. Stíll Parinis er skýr, einlægur, þægilegur aflestrar. Hann leitar víða fanga og styðst við ýmsar bókmenntir (einkum er honum T.S. Eliot hugleikin). Titill bókarinnar er lýsandi; hvernig getum við hagað lífi okkur á sama hátt og Jesús? Ég er ekki trúaður, því miður – en mig langar oft til þess, einkum þegar ég þreytist á mannhverfunni sem er orðin svo óumflýjanleg, alltumlykjandi tækninni og tilheyrandi yfirborðsmennsku og materíalisma. Stundum horfir maður í kringum sig og hugsar; hlýtur ekki að vera til eitthvað stærra, æðra, dýpra, merkilegra, en þetta? Auk þess er hollt að lesa reglulega út fyrir eigin þægindaramma.

Hin bókin sem ég las í vikunni nefnist Letters to a Young Farmer. Þetta er safn stuttra esseyja eftir fjölda fólks: bændur, aktívista, kokka, rithöfunda, fleiri. Meðal höfunda er Bill McKibben (nafn hans hefur áður borið á góma hér á þessum miðli), Wendell Berry (sem er ljóðskáld og ritgerðasmiður sem ég held upp á) og Barbara Kingsolver. Ég hef svo sem ekkert í hyggju að gerast bóndi – ekki enn allavega – en þetta er virkilega fróðleg lesning fyrir hvern þann sem hefur áhuga á akuryrkju, matvælum og framtíð matarræktunar á jörðinni. Bréfin til bóndans unga hefjast með tilvitnun í Bréf til skáldsins unga eftir þýska skáldið Rainer Maria Rilke og tekur bygging bókarinnar að nokkru mið af því verki. Það er sjálfsagt viðeigandi, enda virðist starf bóndans og skáldsins eiga það sammerkt að vera eins konar lífsköllun, og sjálfsagt ekki auðveldasta hlutskipti sem hægt er að hugsa sér.

Loks hef ég verið að lesa aftur og aftur fyrir dóttur mína frábæra barnabók sem nefnist Sparky! og er eftir Jenny Offil. Myndskreytingarnar (sem eru yndislegar) gerir Chris Appelhans. Satt best að segja les ég Sparky! eiginlega meira fyrir mig en Ölmu litlu, sem er bara eins árs og kannski fullung fyrir annað eins meistaraverk. Fyrir nokkrum árum las ég aðra bók eftir sama höfund, Dept. of Speculation, og mæli einnig með henni. Söguhetjan þar er frústrerað skáld, móðir sem hefur stóra drauma en nær ekkert að skrifa fyrir amstri eftir að hún eignaðist barnið. Viðfangsefnið rímar vel við frásagnaraðferðina; það er eins og höfundur hripi niður hugmyndir sínar í flýti, en stutt kaflabrotin líkjast oft minnispunktum. Hér er ein eftirminnileg klausa: „My plan was to never get married. I was going to be an art monster instead. Women almost never become art monsters because art monsters only concern themselves with art, never mundane things. Nabokov didn’t even fold his umbrella. Véra licked his stamps for him.

18. maí:

Margir lestrarbræður mínir nefna reglulega að þeir séu í átaki um að lesa fleiri bækur eftir konur. Hjá mér er þessu alveg þveröfugt farið: Ég er að reyna að lesa fleiri bækur eftir karlmenn – einkum eftir kvenlega karlmenn. Min kamp-sextettinn, eftir Karl Ove Knausgaard, fjallar um frústreraðan föður. Var þess virði að lesa þá langloku? Já, já, mér fannst það bara skemmtilegt. Knausgård situr enn ótrauður við skriftir og nýlega kom út í enskri þýðingu Autumn og svo fljótlega á eftir Winter … og heyrðu: stutt ráp um Amazon sýnir mér fram á að Spring er einnig komin út. Og þá má væntanlega næst búast við Summer? Ég hef þegar lesið þær tvær fyrstu. Þetta eru stuttar esseyjur um allt milli himins og jarðar (bókstaflega – handahófskennd dæmi um kaflaheiti eru „niðursuðudósir“, „fingur“, „flöskur“, „hnappar“), skrifaðar til ófæddrar dóttur höfundarins, og þær eru ansi misjafnar, satt að segja. Haustið, þá skrjáfar í laufunum. Veturinn, hann er dimmur og kaldur. Að því sögðu, þá finnst mér eitthvað frelsandi við stíl Knausgård – hann skrifar bara og er ekkert að flækja málin. Ef þú hefur lesið Min kamp-syrpuna og hreinlega getur ekki fengið nóg af Karl Ove Knausgård líkt og virðist gilda um mig – ég álpaðist meira að segja út í að lesa þessa hér – þá er ágætt að grípa í þessi litlu, hversdagslegu smákver.

H Is for Hawk nefnist frumraun Helen McDonald. Sú hefur víst selst afar vel og farið víða. Ég er hálfnaður í gegnum hana og finnst hún virkilega vel skrifuð, áhugaverð og skemmtilega uppbyggð. En Helen tekur sem sagt að sér að ala upp og þjálfa gáshauk. Hér má lesa sér til um bókina.

Önnur – og algjörlega mögnuð – bók sem ég er einnig hálfnaður í gegnum er On the Natural History of Destruction eftir W.G. Sebald. (Á frummálinu: Luftkrieg und Literatur.) Ég hef áður lesið nokkrar bækur eftir Sebald og hrifist af þeim upp að nokkru marki – hvernig hann ber saman með ljósmyndum auglit tveggja þekktra heimspekinga og tveggja apa í Austerlitz – en hann hefur aldrei gripið mig neinum heljartökum. Fyrr en nú. Ég las hálfa bókina í tveimur strætóferðum; í fyrra skiptið með ofvirkt smábarn spriklandi og veifandi og spjallandi linnulaust við alla aðra farþega strætósins í þeirri von að kikkstarta góðu partíi; í seinna skiptið regnvotur og lúinn með stórborgarskán í augum og þá blessunarlega sofandi smábarn á bringunni meðan strætóinn skoppaði yfir óboðlegt malbik New York-borgar. Hvernig lýsir maður svona bók? Sebald kannar hvers vegna ritaðar þýskar heimildir, sem lýsa tráma fólks eftir að 131 þýsk borg var sprengd í tætlur í síðari heimsstyrjaldinni, eru af svo skornum skammti sem raun ber vitni. Sex hundruð þúsund þýskir borgarar létu lífið. Sjö og hálf milljón manns lenti á vergangi. Hvers vegna er hvergi um þetta skrifað af neinu viti? Sebald spyr hvort hér sé um einhver konar kollektífa (vísvitandi/nauðbeygða) amnesíu eða minnisleysi að ræða; hörmungarnar séu ógnvænlegri en við fáum skilið og melt og því stuggar fólk þeim frá sér í eins konar sjálfsbjargarviðleitni og lætur sem ekkert hafi gerst. Margar sögurnar eru algjörlega lygilegar. Ekki spillir að Sebald er í senn óhemju ritfær og virkilega vitsmunagreindur og glöggskyggn – sem er nokkuð sem ekki fer alltaf saman hvað rithöfunda snertir. Þetta er erfið, en nauðsynleg og falleg – og raunar oft mjög fyndin – bók. Ég gæti skrifað heila ritgerð um hana en læt það bíða betri tíma; gott væri að setjast niður þegar ég kemst loks á ellilífeyri og fæ um frjálst höfuð strokið. (Þá ætti mér líka að hafa gefist tími til að klára bókina.) Að jafnaði óttast ég skrifráðleggingar annarra rithöfunda en Sebald hafði margvíslegt gott fram að færa hvað það snertir.

Að lokum: Dostojevskí er auðvitað einn þessara stóru höfunda sem ekki er hægt að hunsa. Og þó … sjálfsagt er ekkert mál að hunsa hann. En það heyrir þó til stórtíðinda að út er komin ný íslensk þýðing á verki eftir hann, í þýðingu Ingibjargar heitinnar Haraldsdóttur og Gunnars Þorra Péturssonar.

25. maí:

Philip Roth, sá merki – og umdeildi – höfundur lést í vikunni, áttatíu og fimm ára að aldri. Blessuð sé minning hans. Þrjár bóka hans hafa komið út á íslensku. Ein er Hin feiga skepna, í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. Mig minnir að það hafi reyndar verið fyrsta bókin eftir Roth sem ég las. Fríða Björk Ingvarsdóttir hefur einnig lesið hana og fjallaði á sínum tíma um þá reynslu sína á síðum Morgunblaðsins. Rúnar Helgi hefur enn fremur þýtt fyrstu bók Roths, Vertu sæll Kólumbus. Þá hefur Samsærið gegn Ameríku komið út í þýðingu Helga Más Barðasonar. Sú bók, sem skaut Roth upp á stjörnuhimininn, var þó Portnoy’s Complaint, sem þótti allsjokkerandi á sínum tíma (hún kom fyrst út árið 1969); þetta er yndislega kraftmikil bók, textinn svo lipur og leikandi að það er næstum hægt að syngja hana eins og popplag, og ég býð mig hér með fram til að snara henni yfir á íslensku, ef einhver er fús til að sponsora það. (Auðvitað ætti þó fremur að fjármagna Rúnar Helga til þess.) Bækur Roths eru býsna margar, og þegar ég renni yfir listann á Wikipedia kemur flatt upp á mig hvað ég hef, í angistarfullri leit minni að lífsfyllingu, lesið margar þeirra. The Breast fjallar um bókmenntafræðiprófessor sem breytist – já – í kvenmannsbrjóst. (Gott stöff.) The Ghost Writer (sem er yndisleg – og kannski góður upphafsreitur fyrir þá sem þekkja lítið til verka Roths) fjallar um ungan og upprennandi höfund sem heimsækir hetjuna sína, virtan, eldri höfund (sem hugsanlega er byggður á Bernard Malamud). Everyman, ein af nóvellunum sem Roth sendi frá sér undir lok ferilsins, segir sögu manns út frá þeim sjúkdómskvillum sem herjuðu á hann yfir ævina. Og svo er það þríleikurinn stóri frá tíunda áratugnum: The Human StainAmerican Pastoral, og Sabbath’s Theater. Og svo allar hinar – mér dettur ekki í hug að telja þetta allt upp. Annar góður upphafsreitur að verkum Roths væri Roth Unbound eftir Claudiu Roth Pierpont (og nei – þrátt fyrir nafngiftina er Claudia ekki skyld umfjöllunarefni sínu). Ég las þessa um það leyti þegar hún kom út (2014) og líkaði vel. Pierpont rekur sig í gegnum höfundarverk Roths bók fyrir bók, á líflegan hátt, og fjallar þar með í leiðinni um ævi höfundarins, helstu hugðarefni hans og efnistök.

Ég var að klára Higher Loyalty; truth, lies, and leadership, eftir fyrrverandi FBI-framkvæmdastjórann James Comey, sem var rekinn úr starfi, með eftirminnilegum hætti, af einni lykilpersónu síðasta hluta bókarinnar, sjálfum Donald Trump (einnig þekktur sem „vondi karlinn“). Bókin kom mér á óvart, satt að segja. Hún er rennileg og léttleikandi, Comey er í senn snjall, fyndinn og geðþekkur, og saga hans býsna viðburðarík. Ekki vissi ég að hann hefði, ásamt konu sinni Patrice, misst eitt barna sinna í dauðann, skömmu eftir fæðingu þess. Slík ör marka vitaskuld lífssýn hans stórlega upp frá því. Þá er reynsla hans frá New York-borg, þar sem starfaði um árabil, af því að kljást og eiga við mafíósa, sett í skemmtilegt – og sláandi – samhengi við kynni hans af Trump. Ýmsar aðrar þekktar persónur koma við sögu – Hilary Clinton auðvitað, Martha Stewart, Donald Rumsfield, George W. Bush, Barack Obama – og Comey virðist vera einstaklega lunkinn að bæði rata upp metorðastigann og ramba í vandræði. Það er auðvitað klisja, en hér svífur svolítill Forest Gump-bragur yfir vötnum. Ef þú hefur áhuga á bandarískum stjórnmálum, lögfræði, því hvernig FBI operar í raun og veru, heimspekilegum vangaveltum sem snerta leiðtogafærni og siðferði – eða bara áhugaverðum æviskeiðum fólks sem hafnar, óvart eða ekki, í sviðsljósinu – þá er hægt að villast á verri slóðir en milli spjaldanna á þessari bók.

Ólíkt mörgum, þá get ég ekki sagt að ég sé mikill aðdáandi Zadie Smith. Mér finnst hún töff týpa, áhugaverður karakter, og gott að vita af henni í veröldinni. En hún skipar svoldið svipaðan sess hjá mér og Jonathan Franzen. Höfundur sem hlýtur mikla athygli, mikið lof – og sumpart fatta ég hvers vegna – en orkar svipað á mig og koffínlaust kaffi. Skárra en ekkert kaffi auðvitað, en samt ekki alveg málið. Ég hef held ég byrjað að lesa allar skáldsögurnar hennar – og gefist upp á þeim öllum. (Sama gildir reyndar um Franzen.) (Ég veit samt ekki alveg af hverju ég byrjaði að þvæla Jonathan Franzen inn í þetta; sorrí.) Ritgerðasafn Zadie Smith, Changing My Mind, sem kom út fyrir nokkrum árum, las ég hins vegar spjaldanna á milli og nú er komið út nýtt safn af ritgerðum eftir hana, Feel Free. Hún er auðvitað ljóngáfuð og það sem ég hef lesið – ég byrjaði bara á bókinni í gær – er steinfínt. Svona hipstersleg gáfnaljósaheimspeki um poppmenningu, t.d. ritgerð sem fléttar saman verkum Justins Bieber og Martins Buber, og svo ýmsir bókadómar úr Harper’s, sem mér fannst gaman að brenna í gegnum, þar sem við Zadie virðumst oft hafa álpast til að lesa sömu bækurnar síðustu árin. Mér finnst hún stundum svolítið tilgerðarleg (setja sig í stellingar) – en það er auðvitað ekkert að því. Allt gott og áhugavert fólk er stundum svolítið tilgerðarlegt. Ég vildi annars óska að fleiri svona bækur kæmu út á íslensku: greindarleg ritgerðasöfn um allt milli himins og jarðar.

1. júní:

Kristín Ómarsdóttir hlaut maístjörnuna fyrir ljóðabók sína Köngulær í sýningargluggum. Þar er ómóstæðileg leikgleði við völd: tungumálið er í senn dótakassi og vopnabúr. Kristín gekk einmitt í ráðuneyti Leslistans fyrir ekki svo ýkja löngu.

Það er varla að ég þori að lesa bækur Þorsteins frá Hamri. Mér líður eins og viðbrögð mín við þeim feli í sér einhvers konar stóradóm yfir sjálfum mér, bæði sem manneskju og Íslendingi. Bara þetta mikla, hljómfagra nafn skýtur óyggjandi stoðum undir að hér fari stórskáld. Í áranna rás hef ég svo sem án þess að slasa mig alvarlega lesið allmörg ljóð eftir Þorstein frá Hamri, bæði eitt og eitt á stangli og jafnvel heilu bækurnar (Hvert orð er atvik finnst mér frábær) og jafnan hrifist af þessu öllu saman – en ég hef hrifist á sama hátt og maður hrífst af skýjakljúfi eða skriðdreka. Hrifningin er blandin lotningu og ótta, jafnvel skelfingu. Fyrir nokkrum árum kom út hnausþykkur, tuttugu kílóa doðrantur með safni ljóða Þorsteins frá Hamri og geymdi einnig skáldsögurnar hans. Ég gerði nokkrar atlögur að skáldsögunum þar en gafst jafnan upp í örvæntingu eftir nokkrar síður. Þvílíkt torf! Mér fannst einhvern veginn augljóst að hér væri ljóðskáld að glíma við skáldsagnaskrif – textinn var ofhlaðinn eins og skemmtiferðaskip sem leggur úr höfn með alltof mikið af mat og víni sekkur á miðri leið undan þyngslunum. Nýlega var skáldsagan Haust í Skírisskógieftir Þorstein frá Hamri endurútgefin af Forlaginu, undir hatti „íslenskrar klassíkur“, og þegar ég var síðast staddur á Íslandi ákvað ég að stela þessari bók frá föður mínum og bæta fyrir syndir mínar með því að lesa verkið. Hermann Stefánsson ritar skemmtilegan formála að þessari íslensku klassík Þorsteins og fer stórum orðum um hversu ógnarlegt meistaraverk bíði lesandans á næstu síðum. Lofgjörð Hermanns var raunar svo skefjalaus að ég neyddist til að leggja bókina frá mér. Sú uppgjöf átti sér stað í Reykjavík og næstu vikur fylgdi bókin mér í bakpokanum mínum vítt og breitt um Kaliforníu. Ég seildist oft eftir henni og hugðist manna mig upp í að tækla verkið í einum hetjurykk, en guggnaði alltaf í suðrænu sólskininu. Eftir að ég sneri heim til New York hefur bókin – sem er raunar örþunn og ætti eftir því að vera fljótlesin – starað ásakandi til mín af skrifborðinu. Og nú sit ég á kaffihúsi að loknum vinnudegi og hef tekið Haust í Skírisskógi hingað með mér; ég hafði hugsað mér að lesa skrif einhvers annars í von um hvíld frá eigin höfði. En ég bara get það ekki. Ég get ekki lesið skáldsögur Þorsteins frá Hamri. Samt myndi ég sjálfsagt, ef ég væri inntur eftir því hver væru mestu skáld Íslands á tuttugustu öld, meðal annars segja: Jah, Þorsteinn frá Hamri. Ég blaða hér og þar í bókinni („Hurðin grenjar á hjörunum,“ „gott er nú að sitja í góðum bíl,“ „Hark mikið og bjástur, stunur og stimpingar“) en virðist hvorki geta skafið upp í mér greind né eirð til að nálgast þetta verkefni systematískt. Á bókarkápu er vitnað til gamallar umsagnar Rannveigar Ágústsdóttur í Dagblaðinu: „Hvílík undur að koma inn í þennan kynjaskóg Þorsteins …“ Bókin hlaut Menningarverðlaun DV á sínum tíma. Hér er hlekkur á hana á síðu Forlagsins.

Ég lá veikur heima einn dag í vikunni, þjakaður af samviskubiti yfir að geta engu komið í verk, og las þá til að dreifa huganum glænýtt smásagnasafn eftir Curtis Sittenfield, You Think It, I’ll Say It. Sittenfield er sjálfsagt þekktust fyrir fyrstu skáldsögu sína, Prep, og enn fremur Eligible, þar sem hún færði Hroka og hleypidóma eftir Jane Austen í nútímalegan búning. Í sem stystu máli fundust mér smásögurnar hennar mjög skemmtilegar. Sittenfield er afar lunkinn sögumaður og flink í að bæði skapa persónur og spinna óvæntar og sniðugar fléttur. Fyrsta sagan, sem fjallar um óvænt skyndikynni prófessors í kynjafræðum við leigubílstjóra sem styður Donald Trump, er frábær, mjög eftirminnileg. (Ég hafði reyndar áður lesið hana í The New Yorker – sem var sjálfsagt ástæða þess að ég svo seildist eftir bókinni.) Önnur virkilega vel heppnuð saga er „Plausible Deniability,“ með afar sniðugri fléttu. Hér er Sittenfield í spjalli um ritstörf sín og lífssýn, á vefsíðu sem ég átta mig ekki alveg á (er þetta búð? tímarit? lífsstíls-eitthvað?). Curtis virðist hafa átt nokkuð náðuga daga ef marka má tóninn í viðtalinu, þar er ekki mikið um tryllingslega angist. Og þó, maður veit auðvitað aldrei! Eflaust er hún mikið kvíðabúnt.

8. júní:

Lokahnykkurinn í skáldsagnaþríleik hinnar eitursnjöllu Rachel Cusk, Kudos, er kominn út. (Fyrri bækurnar tvær eru Outline og Transit; ég hef áður minnst á þær hér á Leslistanum í umfjöllun um enn aðra bók Cusk, A Life’s Work, sem fjallar um móðurhlutverkið.) Ég keypti Kudos strax og færi gafst og brenndi í gegnum hana af áfergju og ofsa; hún olli mér ekki vonbrigðum. Þessar bækur ætti að þýða yfir á íslensku og kannski geri ég það einn daginn, í hárri elli. Rachel Cusk er meðal áhugaverðari höfunda samtímans og nefndur þríleikur ólíkur öllu öðru sem ég hef lesið. Mæli mikið með þessum. 

Í vikunni las ég endursögn Edward st. Aubyn, í skáldsöguformi, á einu þekktasta leikriti Shakespeare, King Lear. Þekkirðu St. Aubyn? Ef ekki, þá leyfi ég mér að fullyrða að þú munt tryllast af gleði þegar þú uppgötvar hann, en hann hlýtur að vera einn alliprasti og stílfimasti höfundur sem nú skrifar á enska tungu. Dunbar nefnist bókin og mér fannst hún stórvel heppnuð, og er ekki er ég einn um það. (Þessi skáldsaga er innslag í Hogarth Shakespeare-röðina þar sem þekktir skáldsagnahöfundar eru fengnir til að matreiða verk Shakespeares upp á nýtt.) Ef þú þekkir ekki st. Aubyn, þá komu fimm stuttar skáldsögur eftir hann út á safnriti árið 2015, undir regnhlífinni The Patrick Melrose Novels, og þær eru geggjaðar. (Ásamt bókum Cusk, sem ég nefni hér að ofan, með betri skáldsögum sem ég hef lesið síðustu ár.) Stíll st. Aubyn er torlýsanleg blanda af ótrúlegri stílkúnst, teiknimyndalegu sprelli, beittu háði og djúpri innsýn í stéttaskiptingu og hugi fólks af ólíkum toga.

Ég skaust í árlegt hóf hjá New Directions-bókaútgáfunni á Manhattan nýlega og þar máttu gestir grípa með sér einn „minjagrip“ úr nokkrum bókahillum. Bókahillurnar stóðu á þröngum gangi og löðuðu vitanlega að sér skara, enda hver maður í þessu samkvæmi óhemju bókhneigður, sem er bæði sjaldgæft og yndislegt, og skapar oft svolítið steikta dýnamík í partíum. Ég vék mér inn á ganginn þrönga til að fínkema hillurnar og fljótlega skapaðist þar algjört stöppuástand, sett saman úr heillandi, innleitnu fólki. Kannski er rétt að taka fram að þrengslin á ganginum fólu ekki í sér stílbrot hvað rúmmál bækistöðva New Directions snerti: hvert rými var níðþröngt og erfitt viðureignar og ég lenti ítrekað í því að hópur þriggja til fjögurra manna á spjalli króaði mig af í óþægilegum stellingum svo að ég festist í prísund bak við blómapott eða varð innlyksa milli veggs og svalahurðar. Líkt og einatt á mannamótum drakk ég hraðar en ég myndi gera ef ég lægi heima í freyðibaði, við kertaljós, og því lyktaði samkvæminu auðvitað með því að ég tók miklu fleiri minjagripi en ætlast var til. (New Directions er nær að gefa út svona margar góðar bækur; ég sá að fjöldamargir aðrir væfluðust einnig um gólf með fangið flengifullt af bókum og áttu í sárustu vandræðum með að pikka út eina. Sjálfsagt jóx hugrekkið með fjölda vínglasa: ég drakk fjögur og tók því fjórar bækur, en hefði betur drukkið átta.) Mig langar að tæpa hér stuttlega á tveimur bókanna sem ég hafði á brott með mér. Aðra hafði ég áður lesið; sú nefnist Written Lives og er ensk þýðing sénísins Margaret Jull Costa á æviágripum ýmissa þekktra rithöfunda, rituðum af Javier Marías. Mig langaði að eignast þessa bók því hún er æðisleg (og mér hefur oft orðið hugsað til hennar síðan ég las hana fyrir mörgum árum): Marías leggur áherslu á skemmtilega skrítna útúrdúra og tiktúrur í ævi og skapgerð viðfangsefna sinna og útkoman er slík að hver höfundur orkar á mann sem grátbrosleg fígúra, ekki síst hinir þekktari, svo sem Hemingway, Nabokov og einkum Kipling. Hinn minjagripinn las ég nú í vikunni: sú bók nefnist Bartleby & Co og er eftir Enrique Vila-Matas, annan spænskan höfund. Fyrir einskæra tilviljun kallast sú bók skemmtilega á við skrásettu lífshlaupin hans Marías: hún fjallar einnig um hina og þessa rithöfunda, nema hvað þemað hér er þögn í bókmenntum, nánar tiltekið ástæða þess að höfundar leggja pennann á hilluna. Titillinn vísar að sjálfsögðu til nóvellu Hermans Melville, Bartleby skrifara, sem kom nýlega út í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar, sem ég á eftir að lesa en hyggst tryggja mér eintak þegar ég sæki fósturjörðina heim nú í júlímánuði. Ég gæti svo sem fjallað miklu ýtarlega um allar þessar bækur hér, en „ég kýs það síður,“ og eftirlæt nú þögninni sviðið. 

15. júní:

Ég hef verið býsna heppinn í vali mínu á bókum undanfarið, einkum hvað varðar skáldsögur. Í vikunni las ég bók sem snart mig djúpt: T. Singer eftir norska höfundinn Dag Solstad. Aðalpersóna bókarinnar er ósköp venjulegur og raunar fremur látlaus norskur bókasafnsfræðingur sem fer nokkuð hljóðlega í gegnum lífið. Á tímum veltir maður því fyrir sér hvort Singer sé nógu áhugaverður til að verðskulda heila bók um sig –– en einmitt þar liggur svo, þegar upp er staðið, styrkur bókarinnar. Hversu margir menn eins og Singer eru ekki til í heiminum? Menn sem lifa lífi sínu í kyrrlátum einmanaleika. Solstad fer meistaralega með söguefnið og tekst á afar sannfærandi hátt að draga af þolinmæði upp mynd af ævi venjulegs manns yfir heilu áratugina. Slíkt er að mínu viti ein stærsta áskorun sem skáldsagnahöfundur getur tekist á við: að fylgja persónu hægt og bítandi í gegnum árin, eitt af öðru, og veita þar með tilfinningu fyrir framgangi, og miskunnarleysi, tímans. Ég hafði áður lesið Professor Anderson’s Night eftir sama höfund –– um 55 ára prófessor sem verður vitni að morði en vanrækir að hafa samband við lögregluna –– og fannst sú góð en ekki jafn hrífandi og þessi. Mun án vafa lesa fleiri bækur eftir Solstad á næstunni.

Plís, vertu tilgerðarleg/ur! Gerðu eitthvað öðruvísi. Það er háskalegra að lesa þykka bók en góna bara á skjáinn. Sýndu dug, djörfung og þor – klæddu þig til dæmis í óreimaða leðurklossa. Sveiflaðu spjátrungslegri regnhlíf í hringi! Notaðu orð á borð við einkanlega, fàgætis, trauðla og et cetera. Allt nema vera dæmigerður kraftkapítalisma-konformisti! Bókin Pretentiousness: Why It Matters eftir Dan Fox fannst mér skemmtileg, og tímabær.

22. júní:

Í You Can’t Catch Death; a daughter’s memoir fjallar Ianthe Brautigan um föður sinn, rithöfundinn Richard Brautigan, sem á sér ágætis aðdáaendahóp á Íslandi og hefur meðal annars komið út í þýðingum Gyrðis Elíassonar. Brautigan var einn eftirlætishöfunda minna á unglingsárunum, þá las ég hvert einasta snifsi sem ég komst yfir eftir hann. Uppáhaldsbókin var The Revenge of the Lawn, eina útgefna smásagnasafnið hans; ég hef örugglega lesið hana tólf sinnum. Unnendur Brautigan munu hafa gaman af þessari bók. Ianthe skrifar í dálítið svipuðum stíl og faðir hennar gerði, kaflarnir eru oftast knappir og ljóðrænir, í senn fyndnir og sorglegir –– grátbroslegir. Falleg bók, að vísu svolítið brokkgeng, og myndin sem hún dregur upp af föður sínum, sem var afar kvalinn og erfiður maður, í senn hrífandi og raunaleg. Ég á svo uppi í hillu aðra ævisögu um Brautigan, eftir William Hjortsberg, Jubilee Hitchiker, tröllaukinn 800 blaðsíðna doðrant sem ég fékk senda með þyrlu í pósti og er, svo kaldhæðnislega sem það hljómar, eins konar antítesa hinna stuttu, ljóðrænu bóka höfundarins sjálfs: Hjortsberg telur upp hvert einasta líkþorn í móðurætt, lýsir hverri freknu í föðurætt. Galin bók –– mjög vel skrifuð en ég mun örugglega aldrei lesa hana alla. Aðdáendur Brautigan hafa þó eflaust einnig gaman af því að kíkja í hana. 

Ég er hálfnaður í  gegnum Bullshit Jobs; a Theory spánýja bók eftir David Graeber, og það einhverja tímabærustu bók síðustu ára. Kannski meira um það síðar — þangað til gef ég Halldóri Armand orðið, í fínum pistli í Lestinni.

Og af því að Færeyjar bar á góma hér að ofan: Mér verður hugsað til frábærrar bókar sem kom út hjá Menningarsjóði árið 1967 og geymir einhverja fallegustu og ríkustu íslensku sem ég hef lesið –– Eyjarnar 18 eftir Hannes Pétursson. Sú lýsir ferð skáldsins til Færeyja árið 1965. Gott að glugga í hana í hálfleik!

29. júní:

Það var í alla staða frekar absúrd reynsla að lesa Heather, the Totality, eftir Matthew Weiner. Höfundur þessarar örstuttu skáldsögu, ef skáldsögu skyldi kalla, er jafnframt maðurinn á bak við Mad Men-þættina vinsælu. Bókin, sem er örþunn, skrifuð í stuttum klausum sem brotnar eru upp með löngu bili, er ekki nema rétt rúmar hundrað blaðsíður og það virkar hálf-rausnarlegt að kalla hana skáldsögu; þetta er löng smásaga (eða kannski frekar „storyboard“ fyrir bíómynd?). Aftan á bókarkápu mæra þekktir listamenn verkið, meðal annars James Ellroy, Michael Chabon, Philip Pullman, Claire Messud og Nick Cave (sjálfsagt allt vinir Weiners?). Aftast eru svo þrjár síður helgaðar „þökkum“, þar sem höfundurinn þakkar samtals 65 nafngreindum manneskjum fyrir hjálpina við skrifin, auk allra hinna „sem eru of mörg til að telja upp“. Allt í allt samsvarar blaðsíðufjöldi bókarinnar því nokkurn veginn aðstoðar- og stuðningssveit höfundarins við skrifin. Þrátt fyrir þessa skínandi fínu sveit hjálparhellna eru bókin allt að því lygilega illa úr garði gerð. Textinn er algjörlega flatur og óinnspíreraður. Persónurnar eru steindauðar á síðunum. Hver klisjan rekur aðra. Það er grátlega illa unnið úr samfélagsádeilunni sem á bersýnilega að vera burðarstólpi verksins. Hvergi vottar fyrir frumlegri hugsun, hvað þá kraftmiklu orðalagi. Risið í verkinu, hápunkturinn, er afgreiddur á svo snubbóttan hátt að ég þurfti að lesa klausuna þrisvar til að ná því hvað væri að gerast, nákvæmlega; ég trúði ekki að höfundurinn hefði ekki orkað að púrra upp í sér meiri innblástur til að tækla þann (örstutta) kafla. Undir lok þakkargjarðarinnar á öftustu síðunum mærir Weiner svo eiginkonu sína og spyr auðmjúkur: „Hvernig má vera að sé slíkur lukkunnar pamfíll [að verja ævinni með jafn æðislegri konu sem sagt]?“ Á innanábrotinu er ljósmynd af Weiner (á einhvers konar fansý vínbar?) í dýrum en hæfilega kasjúal fötum; hann virkar afar vel nærður og pattaralegur og augljóslega, af útliti sínu að dæma, algjörlega ófær um að skrifa skemmtilegt skáldverk. Í því hvað bókin er vond, og eins í því hvað stíllinn er lélegur, hugmyndirnar barnalegar og persónurnar marflatar, minnir hún mig á aðra skáldsögu sem ég man að ég grýtti í gólfið að lestri loknum og lýsti yfir að um væri ef til vill að ræða lélegustu bók sem ég hefði lesið til enda –– The Vegetarian eftir Han Kang, sem ég las á ensku, en síðar kom hún svo út í íslenskri útgáfu. Hvað Heather, the Totality snertir, þá virðast notendur á Goodreads að vísu margir sammála mér: This is a colossally dumb book, skrifar einhver Jennifer til dæmis. Sammála Jennifer!

Stutt viðbót: Í einhvers konar gallsúrri veruleikafléttu –– eða þá staðfestingu þess að samfélagsmiðlarnir njósna auðvitað um skrifskjölin hjá mér –– var fyrsta fréttin, sem blasti við mér þegar ég opnaði FB strax eftir að hafa skrifað umsögnina um Heather, The Totality, hlekkur á frétt um að gömul vinkonahyggist nú leika í einhverju nýju sjónvarpsverki eftir ofannefndan Matthew Wiener. (!) Ég vona sannarlega að Weiner takist betur upp á skjánum en á bókarsíðunni …

Og þá að góðum bókum: Ég las, að vísu í próförk, frábæra bók síðustu helgi, Bókasafn föður míns, eftir Ragnar Helga Ólafsson. Hún kom út á fullu tunglifimmtudagskvöldið 28. júní 2018 nú í vikunni, og voru öll eintök, sem ekki seldust þá, vitanlega brennd á báli. Eigirðu hins vegar völ á að næla þér í (óbrunnið) eintak, þá mæli ég mikið með því. Bókin –– sem vissulega er eftir vin og samherja, tek það fram –– snerti mig óvenju djúpt og tekur með fallegum, persónulegum hætti á stórum (og viðsjárverðum?) breytingum í samtímanum.

Annað ritverk, sem ég hef oft hugsað til í áranna rás og kemur aðeins við sögu í verki Ragnars Helga, er sex binda ljóðasafn Saffó, sem brann til ösku í bókasafnsbrunanum mikla í Alexandríu á sínum tíma, rétt eins og óseldu eintökin af Bókasafni föður míns gerðu nú á fimmtudagskvöldið, samkvæmt reglu Tunglsins forlags. Hið stóra og fallega ljóðasafn Saffó, einstakt í sinni röð, hef ég lesið aftur og aftur í huganum árum saman. Hafirðu möguleika á að nálgast það, þótt ekki sé nema í huganum, skaltu ekki hika.

Lesa, lesa lesa: Skömmu eftir að Oliver Sacks, taugasjúkdómafræðingurinn þekkti, lést árið 2015, kom út sjálfsævisagan On the Move: A Life, sem mér fannst afar vel heppnuð. Þar kynnist maður höfundinum náið. Ég vissi til dæmis ekki að Sacks hefði ungur verið með kraftlyftingadellu; að hann hafði verið samkynhneigður og að mestu í skápnum (skírlífur í meira en þrjátíu ár! –– sögurnar sem lýsa fyrstu þreifingum hans í tilhugalífi eru vægast sagt pínlegar); að hann þjáðist af andlitsblindu og bar einkum kennsl á fólk af rödd þess, hreyfingum, fasi; að hann hefði verið með ástríðu fyrir mótorhjólum og næstum drepið sig í slysi sem hlaust af því áhugamáli; og svo framvegis. Loks var hann algjör graffómaníak og sískrifandi, einkum á stöðuvatnsbakkanum eftir nektarsundspretti í uppsveitum New York.

6. júlí:

Ég las nokkrar bækur í vikunni. Sú fyrsta var Speaking of Faith: Why Religion Matters–and How to Talk About It eftir Kristu Tippet. Sú er býsna þekkt fyrir að halda úti On Being-hlaðvarpinu, en þar laðar hún til sín ótal frábæra gesti og leiðir samræður um andleg efni, lífið og listina. Í nefndri bók lýsir Tippett fjölskyldu sinni, sem var afar kristin, lífi sínu í Berlín á þrítugsaldri og því hvernig hún enduruppgötvaði smátt og smátt trúna. Hún einskorðar sig ekki við kristnar hugmyndir heldur rekur einnig þræði úr búddisma og múhameðstrú, pólitíkina í kringum trúarbrögð og svo framvegis. Þetta er dágott varnarskjal, trúarbrögðunum í hag, og hressileg tilbreyting frá æstum trúleysingjum.

“When it comes to silencing women, Western culture has had thousands of years of practice.” Svo kemst Mary Beard að orði í stuttri bók, Women & Power, sem byggist á fyrirlestrum eftir hana frá 2014 og 2017. Snaggaraleg bók: rökföst, greindarleg, tímabær. Að vanda skoðar Beard Grikkland og Rómaveldi til forna og notar til að bregða birtu á samfélög okkar tíma. Gæti ímyndað mér að ungir lesendur fíli þessa.

Ekki get ég hins vegar mælt jafn sterklega með The Tao of Bill Murray. Það er stórfurðuleg bók, kannski einkum vegna þess að höfundurinn er svo ástfanginn af viðfangsefni sínu að það er hálf vandræðalegt. Bill Murray, sem að sögn höfundar er „hrelligoð samtímans“ (modern day trickster god), hefur á síðustu árum nær alfarið helgað sig því að valda usla hér og þar í heiminum, skjóta upp kollinum óvænt í unglingapartíium og á hamborgarastöðum frekar en að leika í kvikmyndum, og höfundur ýjar ítrekað að því að Murray sýni þannig fram á að hann hafi höndlað einhver djúpstæð sannindi um lífið sem séu okkur leikmönnum hulin og að markmið hans sé að „vekja okkur“ til lífsins. Ég vaknaði ekkert sérstaklega til lífsins við að lesa þessa bók og mæli eiginlega frekar með því að horfa bara aftur á Groundhog Day.

Í síðustu viku fjallaði ég lítillega um Bókasafn föður míns, nýútkomna bók eftir Ragnar Helga Ólafsson. Í kjölfarið varð mér hugsað til fínnar spjallbókar sem ég las fyrir mörgum árum, Til fundar við skáldið eftir Ólaf Ragnarsson, föður Ragnars Helga. Þar lýsir Ólafur kynnum sínum af Halldóri Kiljan Laxness, einkum heimsóknum sínum til skáldsins á Gljúfrastein. Eitt situr alltaf sérstaklega í mér eftir þennan lestur. Ólafur innir Laxness eftir því hvers vegna hann svari einföldum spurningum eiginlega aldrei með smáorðunum „já“ og „nei“. Halldór hugsar sig um og segist á sínum tíma hafa tekið meðvitaða ákvörðun um þetta. Já, kannski væri svolítið lélegt að grípa alltaf til sömu smáorðanna sem við öll eigum á lager og – nei – líklega betra að fitja ævinlega upp á ferskari leiðum til að svara jafnvel léttustu spurningum. Þetta plagaði mig lengi á eftir. Ég hlustaði á sjálfan mig segja „já“ og „nei“ í gríð og erg, margsinnis á dag, og velti oft fyrir mér hvernig ég gæti yfirstigið þessa hugarleti, en rambaði aldrei á neina góða aðferð. Ég hélt sem sagt áfram að segja já og nei. Sé ég eftir því? Nei, nei. Er allt í lagi að segja já og nei? Já, já. En þetta er allavega skemmtileg bók og víðar leitað fanga en einungis í skoðanir Nóbelsskáldsins á eins atkvæðis smáorðum.

Og svo er það rúsínan í pylsuendanum: Ég las hina stórskemmtilegu The Disaster Artist: My Life Inside the Room, the Greatest Bad Movie Ever Made í flugferð. Þessi bók fjallar um gerð kvikmyndarinnar The Room, sem almennt er talin versta mynd allra tíma. Ég man afar vel eftir því þegar ég settist fyrir rúmum áratug niður til að horfa ásamt nokkrum vinum á þessa einkennilegu kvikmynd og þær blendnu tilfinningar sem í okkur bærðust, eða bærðust ekki, að loknu áhorfi. Líkt og alþjóð veit, þá tekur listamaður fjölmargar „listrænar ákvarðanir“ við gerð hvers listaverks, og einhvern veginn tókst Tommy Wiseu, höfundi, leikstjóra, aðalleikara, framleiðanda og listrænum stjórnanda The Room, að taka alltaf ranga listræna ákvörðun. Útkoman sker sig frá öllum öðrum bíómyndum sem litið hafa dagsins ljós. Bókin er vel stíluð og fjörug, sögð af mótleikara og félaga Wiseu, Greg Sestero, með hjálp rithöfundarins Tom Bissell. Ég las hana reyndar á frönsku, þar sem enska frumútgáfan var í útláni í bókasafnsforritinu mínu en ekki sú franska, og það gerði upplifunina ennþá fyndnari, þar sem þýðendurnir hafa þurft að þýða hina frumlegu ensku rödd aðalhetjunnar Tommy Wiseu með sannfærandi hætti, sem er í raun óhugsandi verk. Ef þú hatar að lesa bækur, þá bendi ég á að einnig er búið að gera leikna bíómynd sem byggist á bókinni sem fjallar um gerð upprunalegu bíómyndarinnar.

13. júlí:

Angústúra hefur verið að gefa út afar smekklegar bækur, þýðingar á erlendum verkum þar sem nostrað er við hvert smáatriði. Síðustu helgi las ég Veislu í greninu eftir Juan Pablo Villalobos. Þar nýtir Villalobos algengt sagnatrikk. Sögumaðurinn er mjög naífur, á barnsaldri reyndar, og hljómar eftir því svolítið sakleysislega þegar hann útskýrir hræðilega hluti, svo sem skipulagða glæpastarfsemi, dýr í útrýmingarhættu, karlmennsku og annað skemmtilegt. Fyrir vikið hægt að útskýra einföldustu hluti á barnalegan, og stundum sláandi, hátt. Þetta er ágætis bók – fyndin og stutt, sem oft er kostur – um ungan dreng sem býr ásamt glæpamönnum í afskekktri villu í Mexíkó og þráir að eignast dvergflóðhest frá Líberíu. Mér finnst nú heldur djúpt í árinni tekið að halda því fram að Villalobos sé „einn áhugaverðasti rithöfundur samtímans“, líkt og þýðandinn, María Rán Guðjónsdóttir, gerir í eftirmála, en þýðingin er stórvel gerð og bókin sjálf eigulegur gripur og eflaust bitastæðari afþreying en kvikmyndin Skyscraper með Dwayne Johnson, sem nú er í sýningu á Íslandi og ég óska engum að þurfa að sjá.

Litlu íslensku bókaforlögin gefa út áhugaverðustu bækurnar hér á landi um þessar mundir. Ég hef áður nefnt afar eigulega útgáfu Dimmu á Walden eftir Thoreau, í glæsilegri þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur, og þýðingar á skáldsögum Jon Fosse. Nýlega kom út ný bók eftir Fosse, Ég er Alla, sem mér finnst kannski ekki jafn sterk og fyrri verkin. Öðru gegnir hins vegar um frábært tvímála þýðingasafn Aðalsteins Ásbergs, Heimferðir, þar sem hann þýðir ljóð Christine De Luca úr hjaltlensku. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað þau ljóð hreyfðu við mér; myndirnar eru kraftmiklar, hlýlegar, og bókin í heild afar vönduð. Í sama vetfangi rifjast upp fyrir útgáfa annars þýðingasafns hjá Dimmu, Ummyndanir skáldsins og fleiri ljóð, þar sem Sigurður heitinn Pálsson þýddi valin ljóð hins belgíska Willems M. Roggeman. Þessar bækur leynast þarna úti, maður þarf bara að þefa þær uppi.

Af því að ég nefndi Kurt Vonnegut hér fyrir ofan, þá langar mig að geta skrambi fínnar ævisögu um hann, sem ég las fyrir nokkrum árum. Tilvalin lesning í ferðalagið eða yfir netlausa sumarbústaðarhelgi. Sjáumst í næstu viku!

20. júlí: 

„Ég held reyndar að það sé ekki síst af því að ég á þennan náttúruelskandi föður og er alin upp í sveit að ég hugsa alltaf um náttúruna sem hið stóra lifandi afl, móður allra mæðra sem ekki nokkur maður hefur leyfi til að níðast á. Engin hugsandi manneskja vill af ásettu ráði og með einbeittum vilja meiða móður sína og rústa lífi hennar, jafnvel þótt henni bjóðist fyrir það himinháar peningafúlgur.“

Þessi fallegu og tímabæru ábrýningarorð koma úr Elsku drauma mín, minningabók Sigríðar Halldórsdóttur, sem Vigdís Grímsdóttir hefur skrásett af mikilli kúnst. Mikið sem mér fannst þetta skemmtileg lesning. Sigríður lýsir æskuheimili sínu, Gljúfrasteini, hinum þjóðþekktu foreldrum sínum, Auði og Halldóri Laxness, og rekur sögur af öðrum skyldmennum, vinum, ástmönnum – sumar eru fyndnar, aðrar sárari – og lífi sínu allt frá blábernsku og fram til dagsins í dag. (Sumpart skarast frásögnin við annað áhugavert verk, Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur, sem kom út fyrir nokkrum árum.) Textinn er blæbrigðaríkur og lifandi og Sigríður slær, undir öruggri stjórn Vigdísar, einhvern heillandi tón sem helst út alla frásögnina; að lestri loknum líður manni eins og maður myndi heilsa henni úti í búð. Bók sem ýmist má bruna í gegnum á einni beit eða grípa niður í meðfram öðru.

Í vikunni átti ég allt að því trúarlega reynslu þegar ég blússaði um Borgarfjörð með Bruce Springsteen í eyrunum og söng hástöfum með. Tár streymdu niður kinnarnar á mér. Sem ég grét blygðunarlaust og söng „Thunder Road“ þöndum rómi rifjaðist upp fyrir mér að Bruce gaf fyrir ekki svo margt löngu út ævisögu – hann hefur sjálfsagt fengið vel borgað fyrir að rubba henni af – og ég flengdist hratt í gegnum hana á sínum tíma. Hún geymdi svo sem engar hugljómanir fyrir þá sem vel eru að sér í Springsteen, en þó er sjálfsagt hægt að gera margt heimskulegra en að lesa hana, svo sem kafna á tyggjói eða halda einmanalega fullveldishátíð á Þingvöllum fyrir áttatíu milljónir. 

Mér fannst Tregahandbókin eftir Magnús Sigurðsson eiginlega byggjast á eftirfarandi mótsögn: Maður les bækur til að gera lífið bærilegt – en eftir því sem maður les fleiri bækur, þeim mun óbærilegra verður lífið. Og eins: Maður les til að lina einmanaleika og þjáningu, en eftir því sem maður les meira, þeim mun meira einmana verður maður og þjáðari. Bygging verksins er áhugaverð: þar „ægir saman frumsömdum ljóðum og prósum, launfyndnum hugrenningum og lánstextum sem mynda frumlega og yfirgripsmikla heild,“ líkt og segir á kápu, og ekki fjarri lagi að þar hafi útgefendum tekist að lýsa innihaldinu ágætlega; Magnús vitnar jöfnum höndum í æviminningar íslensks alþýðufólks og heimsþekkt stórskáld, nútímahöfunda og spekinga frá fornum tíma. Sumir frumsömdu textanna eru algjörlega yndislegir, svo sem sá sem lýsir því þegar ráðamenn ríkisins ákveða í hagræðingarskyni að fækka stöfunum í stafrófinu. Mér fannst bókin aðeins brokkgeng – en hér er einhver spennandi tilraun í gangi og ég er viss um að verkið hefur burði til að heilla marga. Magnús leikur sér mikið með útúrsnúninga eða merkingartengsl út frá rími – rétt eins og annar Dimmuhöfundur gerir mikið í seinni tíð: Gyrðir Elíasson – og stundum þykir manni nóg um, leikirnir virka vélrænir. En ég er vís til að lesa Tregahandbókina aftur. Mér finnst hún kallast dálítið á við Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson, sem hér hefur áður verið fjallað um; báðar geyma tilvitnanir úr þjóðlegum fróðleik og hugleiðingar um stöðu og gildi lesturs (og bóka) í samtímanum.

27. júlí:

Mig hefur lengi langað til að reykja að staðaldri. Enn hefur mér þó ekki lánast að temja mér slíkan ávana. Nú má reyndar eiginlega enginn reykja lengur, ekki einu sinni rithöfundar. Eflaust gerir það mannlífið fátæklegra. Rithöfundar eru auðvitað annálaðir keðjureykingamenn og ganga í gegnum ýmsar hremmingar við að losa sig við sígarettuna. Í „The Smoking Section“, ritgerð/smásögu úr When You Are Engulfed in Flames eftir David Sedaris, flyst David meira að segja til Japans í því skyni að reyna að hætta að reykja. Í My Documentseftir Alejandro Zambra er svipuð ritgerð/smásaga, sem nefnist í ensku þýðingunni „I Smoked Very Well“. Góðar sögur úr góðum bókum. Ég veit annars ekki hversu margir hafa ritað viðlíka kveðjubréf til sígarettunnar á íslensku. Mig rámar í að Sigurður Pálsson fjalli talsvert um reykingar sínar í Minnisbók. Á tímabili sat hann víst við og hamaðist við að klára leikrit og reykti þá þrjá pakka á dag. Þá hefur verið hressandi að setja endapunktinn og opna glugga.

Milli vinaheimsókna og sundferða í reykvísku fríi hef ég annars mest verið að fletta í mikilli uppáhaldsbók – C.P. Cavafy: Collected Poems í þýðingu Daniels Mendelsohn. Þetta eru bestu ensku þýðingar sem ég hef fundið á Cavafy – gaman væri að fá ábendingar frá áskrifendum ef þeir þekkja til íslenskra þýðinga á ljóðum gríska skáldsins? – og ekki spilla ýtarlegar skýringar þýðandans og frábær formáli. Í alla staði mjög flott útgáfa. Eitt áhrifamesta ljóð sem ég hef lesið er „Borgin“, hér í þýðingu Edmund Keely (mun síðri frammistaða en hjá Mendelsohn). Þarf nokkuð að yrkja fleiri ljóð?

Svo er ég hálfnaður gegnum skáldsöguna Eileen eftir Ottessu Mosfegh. Ung vinkona mín í útgáfubransanum í New York er forfallinn aðdáandi hinnar ungu Mosfegh og hefur mikið hvatt mig til að lesa hana. En ég er latur. Í vikunni greip ég þó loks Eileen, aðra skáldsögu Mosfegh, og er hálfnaður í gegnum hana – stórskemmtileg. Sagan gerist í ónefndum bandarískum smábæ, X-ville, árið 1964 og er í senn fyndin og nöturleg, drifin áfram af stórskemmtilegri fyrstu persónu-sögumannsrödd.

Nýlega kom út hjá Bjarti, í samvinnu við Opnu, í tveimur bindum verkið Norðlingabók, safn allra sagnaþátta Hannesar Péturssonar, í endurskoðaðri útgáfu. Af því tilefni seildist ég eftir eftirlætis-ljóðabók minni eftir skáldið, Fyrir kvölddyrum. Það er alveg kynngimögnuð bók – og hún mætti mín vegna koma út á hverju ári, um ókomna tíð. Hannes er að vanda kjarnyrtur, en slær drungalegri tón en oft áður. Svona yrkir hann í bók sem kemur út árið 2006:

Hugtækur er þessi garður
þó að haustbliknað falli
lauf og lauf
á lúðar yfirhafnir.

Í raun og veru
mjög viðkunnanlegt hrun.

3. ágúst:

Í blíðskaparveðri í Borgarfirði las ég Mamúsku; sögu um mína pólsku ömmu eftir Halldór Guðmundsson. Sú er með aðeins öðru sniði en ævisaga sama Halldórs um nafna hans Laxness, sem kom út árið 2004; það var mikill doðrantur, en sú nýja er lítil og nett. Bækurnar tvær eiga þó ýmislegt sameiginlegt. Viðfangsefni beggja er æviskeið manneskju sem lifði nær alla tuttugustu öldina, með öllum þeim miklu samfélags- og tæknibreytingum sem þá urðu. Í árlegum ferðum sínum á bókamessu í Frankfurt kynnist Halldór töfrandi veitingakonu sem rekur í kjallara veitingahúsið Rauðu akurliljuna og þangað snýr Halldór aftur, ár eftir ár, ásamt öðrum Íslendingum og ýmsum kynlegum kvistum. Með þeim gömlu konunni tekst vinátta (hún býðst til að gerast amma hans). Mamúska er afar litríkur karakter, hún eldar góðan mat en þó var sjálfsagt mest bragð af nærveru hennar, veitingastaðurinn breyttist í leiksvið. Ég rakst á bloggfærslu sem fangar efni bókarinnar betur en ég gæti get og þar segir meðal annars: „Í raun eru þetta tvær sögur. Annars vegar er saga konunnar sem rekur veitingastaðinn Rauðu akurliljuna og hins vegar er hörmungasaga þjóðanna sem búa við botn Eystrasaltsins.“ Góð bók sem maður les hratt, helst í góðu veðri yfir handverksbjór og veganborgurum (nei, nei, segi sona, líka allt í lagi að sötra bara neskaffi og borða Hraun).

Hin órólegu er heldur frábrugðin Mamúsku, þá bók les maður hægt og helst á degi þar sem ský svífa reglulega fyrir sólu. Maður drekkur viskí eða rauðvín. Höfundurinn, Linn Ullmann, flokkar verk sitt sem skáldsögu, en þó er það byggt á „sönnum“ æviminningum hennar af foreldrum sínum, Liv Ullmann og Ingmar Bergmann. Ég er hálfnaður með frábæra þýðingu Ingibjargar Eyþórsdóttur og hlakka til að lesa framhaldið. Einkum finnst flott að Linn nafngreinir foreldra sína ekki, við vitum að þau eru þekktir listamenn en það er ekki endilega aðalatriðið hér, þetta er ekki slúðurkennd bók í æsifréttastíl heldur alvöru bókmenntaverk sem fjallar um minnið, samband foreldra við börn sín, ljóðræn frásögn en um leið afar læsileg og grípandi. Hin dularfulla Ásta hefur tekið þetta verk fyrir í bókaskáp sínum og þar er efnistökunum ágætlega lýst. 

Þekkirðu Wolinski? Hann var frábær skopmyndateiknari, mjög franskur og hálfgerð karlremba, en einhvern veginn þannig að flestir virðast fyrirgefa honum chauvinismann. Ég fæ alltaf orkubúst af því að fletta Le bonheur est un métier (Gleðin er starfssvið), þykkri yfirlitsbók um feril hans. (Eftir hann liggja, tja, hátt í hundrað bækur?) Ég hálfpartinn svitna við að læða honum inn hér – mér sýnist kynjahlutfallið skakkt hér í bókahlutanum og ég slengi inn frönskum kvennabósa – en það er eitthvað við teikningarnar hans, hugmyndirnar, leikgleðina og endalausan sköpunarkraftinn sem höfðar svo sterkt til mín og veitir alltaf kraft og gleði. Wolinski lést þann 7. janúar 2015 í árásinni hræðilegu á Charlie Hebdo og umrædd bók var gefin út í kjölfarið.

Kristján Árnason, sá mikli bókmenntamaður, andaðist í vikunni. Leslistinn þakkar honum fyrir hans góða starf, meðal annars þýðinguna á Ummyndunum Óvíds. Nýlega kom einnig út afar fallegt ljóðakver, Það sem lifir af dauðann er ástin, úrval ljóðaþýðinga Kristjáns – allt frá Saffó til Philips Larkins – auk fáeinna frumsaminna ljóða. Þetta er flott bók, ekki síður en Hin órólegu, og hefði með réttu átt að hljóta miklu rækilegri umfjöllun. Hvar eru íslenskir menningarblaðamenn? Vill enginn – eða getur enginn – lengur borgað íslenskum pennum fyrir að skrifa um það sem mestu máli skiptir, menninguna?

Að lokum: Ég sit á lestarstöð og skrifa þennan lokahnykk, hér er píanó ætlað almenningi og ung kona er að leika djass, og svo er hér einnig, í seilingarfjarlægð, smásagnasjálfsali. Maður getur valið einnar mínútu, þriggja eða fimm mínútna smásögu, og sjálfsalinn hrækir henni út á litlum strimli. Þetta finnst mér fallegt. En ég kann samt ennþá betur að meta bókabúðir og þær eru úti um allt í París. Ímyndaðu þér: alls staðar bókabúðir. Alls staðar fólk að lesa. Sjáðu fyrir þér slíka framtíð. Er hún möguleg? Við erum framtíðin. Já, í hið minnsta hluti af henni og allt er mögulegt. Bækur, hlýja, hugsun, alls staðar. Það eru boðorð Leslistans. Sjáumst í næstu viku!

10. ágúst:

Ég hef verið í fríi í hitabylgju og ofátsgleði í Mið-Frakklandi og náð að lesa talsvert milli málsverða og síðdegisblunda. Lauk við Hin órólegu eftir Linn Ullmann – sú er aldeilis frábær og þá rifjast upp fyrir manni hversu gaman það er þegar virkilega góðar bækur rata til okkar yfir á íslensku. Linn Ullmann, einn flinkari höfunda Noregs, fjallar á fínlegan og djúpstæðan hátt um foreldra sína, heimsþekkta listamenn (Ingmar Bergmann og Liv Ullmann). Einhver kvartaði yfir því að foreldrarnir hlytu ekki hnífjafnt vægi í verkinu – þau njóta sín reyndar bæði afar vel, finnst mér – og ég verð að segja að mér finnst slík túlkun fela í sér misskilning á eðli bókarinnar og því sem Ullmann liggur á hjarta, en hryggjarstykki verksins eru viðtalsupptökur sem hún gerði ásamt föður sínum aðeins nokkrum vikum fyrir andlát hans, og drifkraftur verksins augljóslega pínleg fjarvera föðurins í lífi dótturinnar (sem er yngst níu barna hans) nær alla tíð og sá sársauki sem af slíku (fjar)sambandi hlýtur að hljótast: viðtölin, og síðar skrif bókarinnar, virðast vera leið Ullmann til að komast nær föðurnum, hinum skapandi karlkyns „snillingi“. Mér fannst áhugavert að lesa þessa bók nær beint á eftir Elsku Drauma mín (eftir Sigríði Halldórsdóttur og Vigdísi Grímsdóttur), þar sem svipað samband dóttur og föður (annars skapandi snillings: HKL) er í brennidepli. Æ, krakkar mínir, það verður sífellt erfiðara að taka alla hina tröllgáfuðu andans afreksmenn tuttugustu aldarinnar alvarlega, menn sem gátu varla hnýtt eigin skóþveng en hömuðust þeim mun ákafar við að útskýra fyrir okkur innsta eðli og ráðgátur tilverunnar. En sumar bókanna þeirra og sumar bíómyndanna voru nú samt svolítið skemmtilegar og standast tímans tönn.

Næst, góðir hálsar, las ég mér til mikillar ánægju skáldsöguna The Tremor of Forgery eftir hina einstöku Patriciu Highsmith, sem sjálfsagt er þekktust fyrir Ripley-bækurnar sínar (þær urðu að vinsælum bíómyndum með generískustu bandarísku karlleikstjörnu allra tíma í aðalhlutverki: Matt Damon) og nú síðast fyrir að hafa skrifað The Price of Salt, sem kom upprunalega út undir dulnefni því Highsmith vildi ekki, eða þorði ekki vegna fortíma þess tíma, bendla eigið nafn við skrif um lesbískt ástarsamband; sú saga var löguð að hvíta tjaldinu fyrir ekki svo ýkja löngu, bar þá titilinn Carol og skartaði Cate Blanchet í aðalhlutverkinu. The Tremor of Forgery er sálfræðileg stúdía sem gerist í Túnis og ber með sér að vera skrifuð fyrir allmörgum áratugum: framan af bókinni sækir verkið einkum spennu í það hvenær og hvort aðalpersónunni berist nú næsta bréf frá New York. Virkilega fín saga með hægri en þungri undiröldu og notalegt hversu góðan tíma Highsmith tekur sér í að byggja upp sögusviðið og persónurnar.

Pénélope Bagieu er franskur teiknari og höfundur, búsett í New York, og þekktasta verk hennar sjálfsagt Culottées; des femmes qui ne font que ce qu’elles veulent. Þar safnar Bagiue saman fjölmörgum sögum um konur sem, líkt og titillinn ber með sér, gera aðeins það sem þær langar – svo mörgum sögum raunar að útgefendur skiptu þeim upp í tvær bækur. Bagieu sækir efni til allra heimshorna (meðal söguhetja er hin finnska Tove Janson) og útkoman ætti að hugnast mörgum. Franska teiknimyndahefðin er svo skemmtileg og sterk, allir lesa myndasögur, grafískar skáldsögur, og þetta smitast líka út í barnabókaútgáfuna, sem er fjölbreytt og metnaðarfull og fjöldamargir flinkir myndskreytarar starfandi.

Maylis de Kerangal er að mínu mati einhver klárasti núlifandi rithöfundur Frakka og þekktasta verk hennar er ein albesta skáldsaga sem ég hef lesið á síðustu árum, Réparer les vivants. (Í röklegum heimi væri löngu búið að snara henni yfir á íslensku.) Bókin gerist á einum sólarhring og fjallar í stuttu máli um hjartaígræðslu: 19 ára brimbrettakappi, Simons Limbres, deyr í bílslysi og í hönd fer hröð og taugatrekkjandi atburðarás. Stíll Kerangal er afar nákvæmur, hún hefur bæði læknavísindin og ljóðrænuna á valdi sínu og ég efast um að nokkur verði svikinn af þessum lestri. (Bókin er til í – eftir því sem ég fæ best séð – afar vandaðri enskri þýðingu, undir aðeins lágstemmdari titli: The Heart.)

Ástin var minn eini munaður, aðeins hún lét mér líða eins og ég væri jafnoki annarra kvenna sem voru ríkari og lánsamari en ég var. The Woman of Rome eftir gamlan uppáhaldshöfund, hinn ítalska Alberto Moravia, er eiginlega sísta bókin sem ég hef lesið eftir hann – ég mæli sérstaklega með Boredom og eins Contempt, sem Jean-Luc Godard gerði eftir þekkta kvikmynd – en þó hjakkaðist ég í gegnum hana. Mig rámar í lýsingu Thors frænda míns Vilhjálmssonar úr einu greinasafnanna hans – ég hef bækurnar hans ekki við við höndina og get því ekki flett þessu upp – þar sem Thor situr, minnir mig, rithöfundaþing á Ítalíu og Moravia gegnir einhvers konar forystuhlutverki og kemur Thor fyrir sjónir sem afar einmanalegur maður, nær útskúfaður þó að hann sé miðpunktur glaums og gleði. Eins kvartar Thor yfir því að bækurnar hans séu of kaldhamraðar, útreiknaðar – en þetta er einmitt það sem heillaði mig svo á sínum tíma þegar ég las Moravia fyrst fyrir nokkrum árum. Eftir því sem ég kemst næst er Dóttir Rómar eina bók Moravia sem færð hefur verið yfir á íslensku. (Ég las hana reyndar, líkt og fram kom hér að ofan, á lingua franca samtímans, ensku.)

Hef svo verið að lesa Le Petit Nicholas eftir Goscinny fyrir dóttur mína. Þessar sögur ættu auðvitað eins að vera til á íslensku og það með hinum óviðjafnanlegu myndskreytingum Sempé.

17. ágúst:

„I am a survivor from the golden age of journalism, when reporters for daily newspapers did not have to compete with the twenty-four-hour cable news cycle, when newspapers were flush with cash from display advertisements and want ads, and when I was free to travel anywhere, anytime, for any reason, with company credit cards.“ 

Svo hefst Reporter, ævisaga Seymours M. Hersch, eða Sy, eins og hann er jafnan kallaður, og kannski væri réttara að tala um starfssögu hans frekar en ævisögu, einkalífið er ævinlega í bakgrunni og eflaust má setja samasemmerki þar á milli, maðurinn virðist ævinlega hafa lifað fyrir starf sitt sem blaðamaður. Hersch er sennilega einhver áhrifamesti og öflugasti blaðamaður Bandaríkjanna á síðari hluta tuttugustu aldar (í hið minnsta að eigin mati, en hann státar augljóslega af tröllvöxnu egói) og hefur ýmist skúbbað eða fjallað rækilega um flest stærstu mál samtímans. Hann skrifaði einna fyrstur manna gagnrýnar greinar (og síðan bók) um tilraunir bandaríska hersins með efnavopn, barðist ötullega gegn Víetnam-stríðinu og afhjúpaði My Lai-fjöldamorðið – ég þurfti stundum að leggja bókina frá mér í þeim kafla – og svona mætti áfram telja. Ekkert hefur verið honum óviðkomandi, hvort sem um ræðir Watergate (hann spilaði þar lykilhlutverk sem blaðamaður NYT), Henry Kissinger, innanlandsnjósnir CIA, Jack Kennedy, 11. september, morðið á Osama bin Laden, Abu Ghraib og pyntingar Bandaríkjahers í Íraksstríðinu, Assad og Sýrland … Bakgrunnur hans er hógværðarlegur. Faðirinn rak lítið þvottahús og drengurinn fór ekki í Ivy League-skóla, gafst upp á námi í Chicago og vann sig svo smám saman upp metorðastigann. Hann starfaði á litlu héraðsblaði, stofnaði annað slíkt sjálfur, landaði síðan starfi hjá Associated Press og endaði á að skrifa fyrir Harper’s, The New York Times, The New Yorker og nú síðast The London Review of Books. Þá hefur hann skrifað í samstarfi við marga af þekktustu ritstjórum bandarískrar blaðamennsku, meðal annars Abe Rosenthal hjá NYT og Tinu Brown og David Remnick hjá The New Yorker. Ég brenndi í gegnum þessa bók á tveimur sólríkum sumardögum og þótti hún stórskemmtileg. Stíllinn ber með sér að Hersch hefur varið ævinni í að fullkomna list sína og hann er naskur sögumaður, hefur geðþekka og notalega nærveru á bókarsíðunni. Afar fróðleg bók fyrir þá sem hafa áhuga á blaðamennsku, skrifum, sögu Bandaríkja á seinni hluta 20. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu og fyrstu. 

Bjartur gefur út frábæra bókaröð sem ýmsir góðir þýðendur og ritstjórar eiga hlut í að setja saman: Smásögur heimsins. Fyrst kom út úrval sagna frá Norður-Ameríka og nú síðast sögur frá Rómönsku-Ameríku – þá síðarnefndu hef ég verið að glugga í að undanförnu. (Smásagnasöfn eru stundum eins og ljóðabækur: maður les þær í smáskömmtum yfir langt tímabil.) Bestu sögurnar eru ekki eftir þekktustu nöfnin – Borges, Marquez, Cortázar – heldur höfunda sem ég kunni lítil deili á fyrir lesturinn. „Tréð“ eftir Maríu Luisa Bombal er til dæmis eftirminnileg og annar góður höfundur, brasílískur, er einnig farþegi um borð, sjálf Clarice Lispector. New Directions gaf fyrir ekki svo ýkja löngu út heildarsafn á smásögum hennar – það er önnur bók sem ég hef verið að lesa í smáskömmtum yfir langt tímabil: frábær – en fyrir nokkrum dögum tók ég mig til og las einnig fyrstu skáldsöguna hennar (á ensku, því miður, ef ég aðeins kynni spænsku); Near to the Wild Heart nefnist sú. Sú kom út þegar Clarice var aðeins 23 ára gömul og hlaut hún mikið lof fyrir frumraunina. Sumpart ber skáldsagan ungum aldri höfundarins merki – svolítið brokkgeng: sumir kaflar frábærir, aðrir þannig að maður flettir hratt yfir þá og roðnar svolítið – en um leið leiftrar bókin af snilld og andagift höfundarins: það er langt síðan mér hefur fundist ég þurfa að strika undir heilu málsgreinarnar í skáldsögu. Ég mun lesa fleiri bækur eftir Clarice og langar einnig að lesa ævisögu um þessa heillandi konu, sem mér finnst ekki síðri höfundur en Borges. En aftur að Smásögum heimsins; mér skilst á áreiðanlegum heimildarmanni að þriðja safnið sé væntanlegt, að þessu sinni með þýðingum á sögum frá Asíu. Það er tilhlökkunarefni.

Ég er annars staddur yfir nótt í íbúð í París þar sem ég á stundum leið um og þá skil ég oft við mig nýlesnar bækur til að létta farangurinn. Nú rek ég augun í tvær kiljur hér í hillu við höfðalagið (ég er á leiðinni í háttinn). Fyrsta ber að nefna The Unwinding eftir George Packer. Það er aldeilis prýðileg bók. Ég hef mælt með henni við ófáa vini og vandamenn og oft gefið hana í gjafir. Góð lesning fyrir þá sem vilja fá innsýn í hvernig bandarískt samfélag hefur þróast á síðustu áratugum. Packer er frábær sögumaður og í bókinni rekur hann ævihlaup nokkurra bandaríkjamanna, bæði þekktra auðmanna á borð við peninga-illmennið Peter Thiel, stofnanda PayPal, og (stuttlega) peningarapparans Jay Z, en einnig fólks af minni efnum, svo sem Tammy Thomas, afrísk-amerískrar konu frá Youngstown, Ohio, sem ekki hefur átt sjö dagana sæla, og Dean Price, sem kemur af fjölskyldu tóbaksbænda í Norður-Karólínu. Þannig fæst smátt og smátt merkilega góður þverskurður af bandarísku samfélagi. Hin bókin, sem leynist hér í hillunni, er Literature Class eftir Julio Cortazar. Ég man ekki alveg hvernig hún rataði á fjörur mínar; mig minnir að ég hafi keypt hana á einhverri agnarlítilli bókamessu í New York. Þetta eru enskar þýðingar á fyrirlestrum sem Cortazar flutti á spænsku í Berkeley árið 1980. Höfundurinn fjallar um eigin bækur, suður-amerískar bókmenntir og pólitík, tuttugustu öldina. Ég man að mér þótti þetta skemmtileg lesning þó að inntakið sitji svo sem ekki mjög sterkt í mér. En ég er líka orðinn svo gleyminn og gamall – komið mál að slökkva ljósin. Góða nótt!

24. ágúst:

Stundum les ég bækur án þess að skilja þær fyllilega en hef engu að síður ánægju af þeim. Fyrir viku las ég í þrúgandi hita og stórborgarmengun heimspekirit eftir mannfræðinginn Marc Augé, The Future, sem einn ráðunauta Leslistans, Fríða Björk Ingvarsdóttir, minntist á í viðtali við okkur nýlega. Hmm, forvitnilegt, hugsaði ég, og tók svo til minna ráða: varð mér úti um eintak. Bókin fjallar meðal annars um áhrif kapítalismans á plánetuna – framtíðarhorfur mannkyns, sem eru bágar – og alþjóðavæðinguna og mikilvægi menntunar í framtíðinni, þörfina á því að komandi kynslóðir sé uppfræddar og meðvitaðar um þau skaðvænlegu áhrif sem við höfum haft á lífkerfi jarðarinnar og að menntakerfið sé starfrækt óháð „kröfum atvinnulífsins“ (að peningahugsun mái ekki endanlega út húmanismann). Augé málar upp allmyrka mynd af samfélögum manna í dag: lýðræði er að mestu einungis við lýði að nafninu til og hin sönnu valdaöfl eru fjárhagsleg; lítil peningaelíta heldur utan um stjórnartaumana og hefur í raun meiri völd en ríkisstjórnir einstakra landa. Og svo framvegis – þetta er sem sagt lauflétt sólstrandarlesning. Annars á ég afar bágt með að súmmera upp efni þessarar bókar í stuttu máli (ég veit ekki einu sinni hvort mér líkaði hún vel eða illa). Víkjum því að öðru áður en þetta verður vandræðalegt.

Guy Delisle vann að S’enfuir; récit d’un otage (Flóttinn; frásögn manns í gíslingu) yfir fimmtán ára tímabil. Bókin er byggð á sannri frásögn Christophe André, sem var rænt við mannúðarstörf í Kákasusfjöllum árið 1997. Farið var með hann til Tsjetseníu og honum haldið í gíslingu í 111 daga. Ég las bókina, sem er líkt og önnur verk Delisle grafísk skáldsaga, í einni striklotu – allir aðrir í húsinu voru sofnaðir svo að ég fékk frið og næði – og mér fannst hún afar sterk. Við dúsum með Christophe í prísundinni ýmist hlekkjuð við miðstöðvarofn eða þá að okkur er troðið inn í kústaskáp; við borðum sömu máltíðina aftur og aftur (þurrt brauð, súpu); við reynum í angist að upphugsa flóttaleiðir. Lesandinn öðlast mikla samúð með gíslinum, sem hefur ekki hugmynd um hvers vegna honum var rænt eða hvað mannræningjarnir hafa í hyggju – tungumálaörðugleikar – alveg þangað til þeir ná loks sambandi við fjölskyldu hans og atvinnuveitendur og krefjast þess að fá eina milljón dollara í lausnargjald. Þetta er bók sem minnir okkur á undur og galdra einfaldra hversdagsnautna. Christophe lætur sig dreyma um að komast aftur heim til Parísar og sitja á kaffihúsi, lesa bók, hlusta á plötu, fara í bíó eða göngutúr, og þegar mannræningjarnir gera vel við hann – gefa honum sígarettu eða kjötbita – er nautnin nær takmarkalaus. Einu hjó ég eftir í þessu samhengi. Allan þann tíma sem Christophe hinn ungi dúsir í gíslingu, leitar hugur hans ekki einu sinni (samkvæmt frásögninni) á kynferðisleg mið. Hátt í fjórir mánuðir í einangrun: ekki einn blautur draumur. Svei mér þá. Nei, hann saknar bara kaffihúsa, bóka, tónlistar. Höfundur verksins, Guy Delisle, er lofaður myndskreytir og höfundur fjölmargra bóka sem oftar en ekki fjalla um ferðalög og búsetu á framandi stöðum (í hugum vestræns fólks) á borð við Jerúsalem og Búrma. Þá hefur hann ritað um ævintýri sín sem (vondur) pabbi. Ég mæli með verkum hans; sumar bókanna hafa verið þýddar yfir á ensku og svo er líka kjörið fyrir þá sem vilja æfa sig í frönskunni að lesa vandaðar teiknibækur.

Og enn um franska teiknara: Ég hef áður lýst hrifningu minni á verkum Joanns Sfar, sem er eitthvert magnaðasta framleiðsluhross á Vesturlöndum hvað snertir listrænar afurðir. Hann hefur sent frá sér ótal (og ótrúlega jafngóðar) myndasögur, en einnig kvikmyndir og skáldsögur. Í Comment tu parles de ton père (Hvernig maður talar um pabba sinn), sannsögu sem einungis geymir ritaðan texta, lýsir hann sambandi sínu við skrautlegan og krefjandi föður, gyðing sem upprunninn var í Alsír og starfaði sem lögfræðingur (og mikill kvennabósi) í Nice. Allir höfundar virðast, fyrr eða síðar, rita bók um föður sinn – ég hef, án þess að það hafi verið markviss stefna, af einhverjum ástæðum lesið aragrúa slíkra bóka upp á síðkastið – og þessi er góð þó hún sé hvorki meðal eftirminnilegustu uppgjöra af slíkum toga né meðal bestu verka Sfar. Betri upphafspunktur af verkum hans væri, að mínu viti, Les carnets de Joann Sfar, einkum ein hinna fyrstu, eða þá kvikmyndin sem hann gerði um ævi Sergé Gainsbourg.

Af ýmsum ástæðum finnst mér alltaf jafn gaman að koma í bókabúðir í Frakklandi (og jafnvel kaupa nokkar vel valdar bækur sem þar eru til sölu). Síðustu daga hef ég keypt allnokkrar – fleiri en tíu en færri en tuttugu – og kemst ekki hjá því að taka eftir verðmuninum á íslenskum og frönskum bókum. Í Les cahiers de Colette, gamalli eftirlætisbúð, keypti ég fimm bækur, tvær nýlegar, þrjár eldri, og samanlagt kostuðu þær minna en ein ný íslensk skáldsaga gerir að jafnaði. Að kaupa franska bók er því ekki stór fjárhagsleg ákvörðun. Dæmi: vinkona okkar eignaðist barn fyrir nokkrum dögum og við keyptum handa henni fjórar skáldsögur sem samanlagt kostuðu helmingi minna en ein ný íslensk skáldsaga. (Að gefa einhverjum fjórar íslenskar skáldsögur kostar álíka mikið og nýtt reiðhjól – eða utanlandsferð.) Þá eru frönsku bækurnar oftar en ekki meðfærilegar og henta vel í vasa; allt er þetta kaup- og leshvetjandi og bendir til þess að bækurnar séu hugsaðar til lestrar frekar en sem stofustáss. Fyrir þá sem eru að deyja úr forvitni, þá eru bækurnar fimm sem ég keypti hjá henni Colette bóksala þessar: Þrjár eftir hina frábæru Maylis de Kerangal (Dans les rapides, Naissance d’un pont (sú er til á ensku sem The Birth of a Bridge) og Tangente vers l’est), Poétique de l’emploi eftir Noémi Lefebvre og Vernon Subutex eftir Virginie Despentes. Eigandi búðarinnar, sjálf Colette, sat við afgreiðsluborðið og spjallaði af innfjálgi við kúnnana. Hún var – að sjálfsögðu – með stóran doðrant, hálf-lesinn, fyrir framan sig. Hún hrósaði mér sérstaklega fyrir að kaupa svona margar bækur eftir „hæfileikaríkar konur“. (Ég hafði ekki áttað mig á því að ég væri einungis að kaupa bækur eftir konur, en varð auðvitað afar upp með mér – og ákvað að minnast sérstaklega á þetta í Leslistanum.) Að svo búnu lýsti Colette því yfir að þrátt fyrir að hún væri eitilharður femínisti, þá þætti henni fáránleg barátta margra femínista fyrir því að nútralísera málfræðilegt kyn í tungumálinu. Í frönsku er karlkyn mjög ríkjandi, rétt eins og gildir – en þó í minna mæli – um íslenskuna. („Hann rignir“ og svo framvegis.) Colette finnst engin þörf á að reka upp herör gegn málfræðilegum hefðum; hér sé um að ræða málfræði, ekki kynjamismunun. Hún bankaði í doðrantinn sem lá opinn fyrir framan hana og sagði að bókin væri eftir unga (og bráðsnjalla) konu sem skrifaði af ástríðu og tilfinningahita um mikilvægi þess að hnekkja málfræðikerfi frönskunnar og velta karlmyndinni úr sessi og hleypa kvenkyninu að í ríkara mæli – og að útkoman væri yfirmáta heimskuleg. Já, þetta fannst Colette út í hött. Hvað þá um gamla klassíska texta? spurði hún. Þarf nú að breyta þeim? Hvað finnst þér? spurði hún og starði á mig, krefjandi á svip. Ég veit svei mér ekki hvað mér finnst, sagði ég. Mér finnst nógu erfitt að mynda óbrogaðar setningar án þess að þurfa í ofanálag að hafa jafn stór og svimandi álitaefni bak við eyrað í hvert skipti sem ég skrifa innkaupalista eða tölvuskeyti. Svipuð umræða hefur auðvitað einnig verið uppi um íslenskuna. Hvað finnst þér, kæri lesandi? Ég er ekki nógu klár til að svara þessu. En hitt veit ég: að ég hlakka til að lesa allar bækurnar sem ég keypti.

31. ágúst:

Las í vikunni þrjár bækur eftir sama höfund: Bill McKibben, einn helsta náttúruverndarsinna Bandaríkjanna, hæglyndan og viðkunnanlegan náunga sem hér má sjá í spjalli við nafna sinn, Bill Maher. Í Eaarth; making a life on a tough new planet fjallar McKibben um þau skaðvænlegu áhrif sem við mannkyn höfum haft á plánetuna og fullyrðir að við getum ekki lengur kallað hana sama nafni og áður: Jörðin verður því Jöörðin. We’re changing the most basic dynamics of the only world we’ve only known, ritar McKibben. Hann er afar rökfastur en um leið fyndinn og þægilegur félagsskapur. Þá er hann flinkur sögumaður, sem gerir honum kleift að slengja statistík framan í andlitið á lesandanum án þess að það verði of yfirþyrmandi. Ekki auðveld lesning, en um leið óumflýjanlegt að kynna sér og hugsa um þessi mál og (vonandi í kjölfarið) breyta því hvernig við högum tilveru okkar.

Í eldra verki, Long Distance; testing the limits of body and spirit in a year of living strenously, tekur McKibben sér ársfrí frá störfum sínum sem rithöfundur, fyrirlesari og aktívisti og helgar sig alfarið stífri líkamsþjálfun líkt og hann væri að þjálfa sig upp fyrir þátttöku á Ólympíuleikunum. Hann er þrjátíu og sjö ára gamall og langþreyttur eftir tíu ár af því að lesa lon og don yfir hausamótunum á fólki um hlýnun jarðar og þau katastrófísku áhrif sem af munu hljótast. (Fyrsta verk McKibbens, The End of Nature, kom út árið 1988 þegar hann var aðeins 28 ára að aldri.) Hann hefur lengi haft mikla unun af útivist, einkum skíðamennsku, og ræður til sín þekktan einkaþjálfara til að teikna upp prógram sem á að fleyta McKibben eins langt og mögulegt er í líkamsþoli og úthaldi. Í ár gerir hann ekkert nema hlaupa, skíða, borða, rækta líkamann. Það sem gerir verkefnið áhugavert er að hann hefur enga sérstaka hæfileika umfram aðra í íþróttum – hann er algjör meðalmaður – en langar engu að síður að sjá hversu langt hann getur komist í því að reyna á skrokk sinn og viljastyrk. Í verkinu leynast ýmsar áhugaverðar hugleiðingar um afreksíþróttafólk, líkamsrækt, hugræn og andleg efni. Frásögnin tekur svo kúvendingu þegar faðir McKibbens greinist með ólæknandi heilaæxli. Orðið „úthald“ öðlast nýjar víddir: eftir því sem McKibben vex þrek sem íþróttamaður, snarhnignar heilsu föður hans og þau fjölskyldan þurfa að sýna þolgæði og styrk meðan þau hjúkra gamla manninum og kveðja hann að lokum fyrir fullt og fast.

Þriðja bókin eftir McKibben er skáldsaga, nýjasta verk hans: Radio Free Vermont; a fable of resistance. Sú kom mér skemmtilega á óvart. Hinn 72 ára gamli útvarpsmaður Vern Barclay stofnar ásamt ungum tölvunörd á Asperger-rófi hreyfingu sem hefur að keppikefli að Vermont-fylki skilji sig frá Bandaríkjunum og lýsi yfir sjálfstæði. Bókin gerist í samtímanum (Trump er forseti) og tekur á ýmsum pólitískum málefnum með gamansömum hætti, einkum þó (að sjálfsögðu) loftslagsmálum. Í dæmigerðum bandarískum bókarviðauka þakka McKibben tugum ef ekki hundruðum manns fyrir aðstoðina við smíði verksins og tekur fram að eiginkona sín, Sue Halpern, sé „alvöru skáldsagnahöfundur“ og hafi aðstoðað hann mikið. En það er enginn viðvaningsbragur á þessu hraða og fyndna verki og reynsluminni höfundar gætu raunar lært margt af lestrinum. Persónur eru skýrar og sympatískar og dregnar upp með snörpum en eftirminnilegum strokum. Höfundinum brennur ýmislegt fyrir brjósti, en hann notar kímni og hraða atburðarás til að miðla boðskapnum, og beitir jafnframt nytsamri brellu: Roskni útvarpsmaðurinn sendir út nokkra hlaðvarpsþætti sem sumir hverjir birtast í bókinni og þar gefst höfundi tækifæri á að láta gamminn geysa og koma frá sér með hressandi og skilvirkum hætti – í grípandi rödd útvarpsmannsins – hugleiðingum sem sliga kynnu bókina ef þær væru settar fram í predikunarstíl alviturs sögumanns. McKibben kallar skáldsöguna sjálfur „fabúlu“, eða dæmisögu, og kveður kostinn við slíkt söguform að þá leyfist manni að læða inn móralskri predikun aftast. Boðskapur verksins sé ekki sá að öll fylki Bandaríkjanna ættu að lýsa yfir sjálfstæði heldur frekar frekar sá að þegar lítilsverðir menn (s.s. Trump og kónar hans) ráðast í stóra og heimskulegar framkvæmdir, þá þurfum við hin að streitast á móti og gera það á eins skapandi og snjallan hátt og okkur frekast er unnt og það án þess að glopra niður þeirri borgaralegu tillitssemi sem gerir lífið í samfélagi við aðra ánægjulegt og gott.

Og viti menn, fjórða bókin. (Ég er í fríi án Internets og hef því nógan tíma til lesturs.) Sú nefnist How Should a Person Be? og er eftir Sheilu Heti, annan Bandaríkjamann. Ég hafði lengi haft í hyggju að lesa Heti – hún gaf fyrir ekki svo ýkja löngu út aðra bók sem mig langar að komast yfir: Motherhood – og upplifunin var nokkurn veginn eins og ég hafði búist við. Heti er eitursnjall og sniðugur – og á köflum ákaflega pirrandi – höfundur. Hér fylgjumst við með söguhetju (samnefndri höfundinum) og nokkrum vinum hennar í Toronto, upprennandi listamönnum sem velta því fyrir sér hvernig manneskju beri að hegða sér, hugsa, líta út – vera. Ýmislegt í strúktur bókarinnar er áhugavert, til að mynda uppskriftir að hljóðrituðum samtölum sem Heti hefur átt við (raunverulega?) vini sína og fléttar svo inn í frásögnina. Ég heyrði í viðtali við Heti að hún hefði tekið að hljóðrita samtöl við vini sína fyrir mörgum árum og að samtölin hefðu svo tekið að lauma sér inn í skrif hennar. Oft eru þetta skemmtilegustu kaflarnir. Ég mæli alveg með þessari bók, en hún er þó sama marki brennd og margar (bandarískar, evrópskar) skáldsögur eftir fólk sem er á aldur við mig (aðeins eldra, jafngamalt, yngra): maður fær stundum á tilfinninguna að aðalpersónurnar séu ekki alveg nógu áhugavert fólk til að verðskulda um sig heila bók.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni