Yfirheyrslur, misminni og samsæriskenningar. Fyrri hluti. Um norræn sakamál, mest G&G málið.
Í fyrra vor endurlas ég Glæp og refsingu, hina miklu skáldsögu Fjodors Dostojevskí. Hún fjallar um Rodion Raskolnikov sem framdi morð af því hann taldi að landhreinsun hefði verið að hinni myrtu. Hann væri sérstök tegund manna sem væri hafinn yfir lögin.
En Nikulæ nokkur játar á sig morðið þótt hann hafi verið saklaus og virtist trúa eigin sekt. Á endanum játaði reyndar Raskolníkov og var sendur til Síberíu.
Dostojevskí var frægur fyrir sálrænt innsæi, hann sá hér nokkuð sem sálfræðingar hafa verið að uppgötva á undanförnum árum: Minni manna getur blekkt þá svo mjög að þeir trúi því að þeir hafi framið glæpi sem þeir eru saklausir af. Eða öfugt, þeir trúi því að þeir séu saklausir af glæpum sem þeir hafa framið.
Eins og nóbelsskáldið T.S. Eliot orti: „Human kind cannot bear very much reality“.
Ég mun hefja mál mitt á því að ræða gagnrýni á norræn sakamál þar sem því hefur haldið fram að lögreglan hafi gert mikil mistök í rannsókn málanna. Meðal annars hafi yfirheyrslur með játningarmiðaðuðum hætti leitt til þess að sakborningar hafi játað þótt saklausir væru.
Yfirheyrslumátinn (sá játningarmiðaði) hafi kallað fram misminni, sakborningarnir hafi verið farnir að trúa eigin sekt.
Ég bendi á að hið sama gæti vel hafa gerst í Guðmundar og Geirfinnsmálinu (G&G málinu). Lögreglumenn og dómarar hafi trúað því að játningar væru ekta því þeir hafi ekki gert sér grein fyrir að yfirheyrslur gætu skapað misminni.
Kenningin um misminni verður svo rædd, m.a. í ljós gagnrýni á hana. Einnig skal rætt um vanhæfi rannsóknarlögreglumanna á árum G&G málsins.
Í síðari hluta beini ég sjónum mínum að samsæriskenningum um G&G málið. Sýnt verður fram á að samsæriskenningar séu yfirleitt þvæla, slíkt hið sama gildi um G&G samsæriskenningar.
Rökstutt skal að dómarnir í G&G málinu hafi byggt á því sem virtust tæk sönnunargögn þótt síðar kæmi á daginn að veilur væru í þeim. Þeir voru kveðnir upp í samræmi við lög og rétt þótt síðar uppgötvaðist að dómurinn væri líklega rangar, sakborningar líkast til saklausir.
Það er mannlegt að skjátlast, skítur skeður. Alrangt er að dómsmorð hafi verið framið.
Norræn sakamál og játningarmiðaðar yfirheyrslur.
Nú víkur sögunni til Svíþjóðar og Palmemálsins sænska. Margt bendir til þess að rannsóknarlögreglan sænska hafi klúðrað rannsókninni á málinu (rétt eins og sú íslenska á G&G málinu).
Förum til Danmerkur og lítum á mál Henning Haugberg Madsen, alræmds svindlara. Hann hvarf einn góðan veðurdag og var talinn myrtur, tveir menn handteknir og dæmdir fyrir meint morð.
Þeir hafa báðir harðneitað sekt en réttarkerfið situr við sinn keip (reyndar fannst síðar blóð í vörubíl með því sem talið var DNA Haugberg Madsens).
Danska ríkissjónvarpið gerði þátt um málið og var staðhæft að héraðslögreglan, sem sá um rannsókn málsins, hafi ekki verið í stakk búinn til að rannsaka það réttilega.
Þetta minnir ekki eilítið á G&G málið þar sem lögregla hafði hvorki menntun né reynslu til að fást við þess slags mál.
Hið norska Orderudmál minnir líka á G&G málin. Bændahjón með ættarnafnið Orderud fundust myrt á heimili sínu. Skyld- og tengslamenn þeirra voru handteknir og dæmdir fyrir morðið, þótt engar handfastar sannanir fyndust.
Í ofan á lag harðneituðu hinir dæmdu sekt og halda því áfram nú eftir að þeim hefur verið sleppt úr prísundinni.
Lítum á annað norskt sakamál, mál Arnfinns nokkurs Nessets sem var forstöðumaður sjúkraheimilis aldraðra þar í landi. Fyrir tæpum 40 árum var hann dæmdur var fyrir að myrða fjölda sjúklinga með eitri.
En nú gerist að blaðamaðurinn Simen Sætre tók að rýna í málið og segir líklegt að hann hafa alla vega ekki drepið eins marga talið var (Sætre 2020). Á þeim árum hafi verið alsiða meðal lögreglumanna víðast hvar á hnettinum að stunda játningarmiðaðar yfirheyrslur (no. tilståelsesorienterte forhør).
Þrýst og þrýst var á sakborninga með það fyrir augum að fá þá til að láta undan þrýstingnum og játa ef þeir væru sekir, standa við sakleysi sitt væru þeir saklausir.
Sætre segir að nú sé hætt að yfirheyra með þessum hætti enda hafi uppgötvast að það varð oft til þess að sakborningar játuðu þótt saklausir væri. Yfirheyrsluaðferðin leiddi til að þeir rugluðust í ríminu og tóku að trúa sekt sinni.
Þetta hafi gilt um Nesset, hann hafi látið undan þrýstingi við yfirheyrslur og farið að trúa því að hann væri sekur um morð þótt hann væri saklaus.
Svipað hefur verið sagt um hinn meinta raðmorðingja, Svíann, sem kallaði sig „Thomas Quick“, hann hafi ef til vill verið saklaus, þrátt fyrir allt (Store norske leksikon).
Hann var dæmdur á grundvelli eigin játninga en nú er talið að hann hafi verið saklaus af morðunum og hefur hann verið sýknaður af þeim öllum. Það fylgir ekki sögunni hvort hann hafi verið yfirheyrður með játningamiðuðum hætti.
Norski álitsgjafinn Aslak Nore skrifaði nýlegu ádrepu um nokkur norsk morðmál frá lok síðustu aldar. Hann nefnir sérstakleg morðið á ungri stúlku, Birgitte Tengs. Athuganir lögreglu á morðstað hafi verið mjög ábótavant og vart nokkrar handfastar sannanir hafi fundist.
Fljótlega hafi lögreglan tekið að beina sjónum sínu að ofbeldismanni og tapara sem heitir Viggo Kristensen. Löggan hafi beitt alls konar brögðum hinnar játningarmiðuðu yfirheyrslu til að fá hann til að játa.
Þá hafi félagi hans verið tekinn á beinið og honum sagt að ef hann viðurkenndi að Kristensen væri morðinginn þá slyppi hann sjálfur, annars yrði hann sóttur til saka fyrir morðið. Eins og nær má geta „játaði“ stráksi að Kristensen væri sekur og var hann svo dæmdur fyrir morðið.
Réttarkerfið hafi á árum áður lagt ofuráherslu á játningar sem sönnunargögn en nú væri það breytt (Nore 2021).
Sama var í gildi á Íslandi, (meintar?) játningar voru aðalatriðið við dómsúrskurð í G&G málinu enda þá almennt viðurkennt að þær væru meginsönnunargögn í sakamálum.
Athugið að þeir sem gagnrýna meðferð yfirvalda á þessum norrænu sakamálum segja að um mistök hafi verið ræða.
Þeir geipa ekki um dómsmorð og búa ekki til langsóttar samsæriskenningar um þær eins og hávaðamenn hafa gert í sambandi við Guðmundar- og Geirfinnsmálið.
Játningar í G&G málinu (The empire strikes back).
Hvað sem því líður þá er ýmislegt í G&G málinu sem vart verður skýrt með tilvísun til yfirheyrslumáta og meints harðræðis.
Sævar Cieselski og Erla Bolladóttir voru úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna meintra fjársvika í desember 1975. Skömmu síðar leysti Erla frá skjóðunni og sagðist hafa séð Sævar, Kristján Viðar Viðarsson og Tryggva Rúnar bera lík út úr kjallaraíbúð.
Tíu dögum eftir handtöku játaði Sævar morðið á Guðmundi, Tryggvi Rúnar fimmtán dögum eftir sína handtöku (Dómur 1980). Þeir játuðu sem sagt áður en þeir urðu einangrunarvistaðir, sú vist getur því ekki hafa verið orsakavaldur játninganna.
Spyrja má hvort harðræði og játningarmiðaðar yfirheyrslur geti brotið menn svo mikið á svo skömmum tíma að þeir fari að játa upplognar sakir.
Nema að þeir hafi verið neyddir til að játa eða játningarnar hreinlega hafi verið skáldaðar. En fyrir því eru engar sannanir mér vitanlega nema þær að Sævar hélt því fram að hann hafi verið neyddur til að játa (skv Jóni Daníelsson 2016, bls. 150).
En það er ekki rétt að gefa mönnum sjálfdæmi í eigin málum, við höfum enga tryggingu fyrir því að hann hafi sagt satt. Það er alla vega mjög líklega þessi skammi tími frá handtöku til játninga hafi gert að verkum að dómararnir í málinu hneigðust til að trúa því að játningarnar væru ekta.
Sú staðreynd að sakborningarnir drógu játningarnar meira eða minna tilbaka síðar breytti engu um það.
Jafnvel þrælsekir sakborningar eiga það til að afturkalla játningar, til dæmis norski raðmorðinginn Roger Haglund. Hann var ekki tekinn trúanlega, góðu heilli.
Og eins og áður segir harðneita meintir morðingjar Haugberg Madsens og Orderudhjónanna sekt en dómararnir tóku ekki tillit til þess. Samt talar enginn mér vitanlega um dómsmorð í því sambandi.
Ekki má gleyma því að Albert Klan dró ekki framburð sinn tilbaka (mér vitanlega) og Erla ekki í Geirfinnsmálinu fyrr en eftir að réttarhöld í Hæstarétti voru hafin (Dómur 1980, bls 6, Brynjar Níelsson 2019).
Auk þess höfðu sumir sakborninga í G&G málinu reynt að koma sökinni á Klúbbmennina en sakleysi þeirra var sannað. Klúbbmaðurinn Einar Bollason virðist ekki efast um að Erla systir hans hafi logið sökum upp á sig (Einar Bollason 2017).
Og í póstsvikamálinu lugu Erla og Sævar í þeim fróma tilgangi að svíkja út fé (samkvæmt Jóni Danielssyni 2016, bls. 14).
Í ljósi þess var ekki mikil ástæða til að treysta framburði þeirra er þeir afturkölluðu játningarnar. En það útilokar auðvitað ekki að þeir hafi haft á réttu að standa er þeir drógu játningarnar tilbaka og sögðu sig saklausa.
Málið er að dómararnir höfðu enga ástæðu til að trúa þeim.
Svo minnst sé á póstsvikamálið þá er lagi að minnast þess að sumir sakborninganna voru ekki bara dæmdir fyrir manndráp (sem þeir ef til vill voru saklausir af) heldur ýmsu öðru, til dæmis póstsvikum, nauðgun og röngum sakargiftum (Dómur 1980, bls. 378-379).
Þetta ber að hafa í huga þegar menn býsnast yfir ströngum dómum yfir þeim, sum þeirra voru líka dæmd vegna annarra mála en G&G málanna.
Játningamiðaðar yfirheyrslur, misminni og G&G málið.
Það er lítill vafi á að sakborningar í G&G málinu voru yfirheyrðir með sama játningamiðaða hættinum og Nesset, Kristensen, félagi hans og fleiri.
Ekki er ósennilegt að þeir hafi látið undan þrýstingi og játað. Enda hafa þeir kannski verið farnir trúa sekt sinni þótt þeir væru sennilega saklausir.
Rannsóknarlögreglan hefur líklega verið í góðri trú, trúað því að þetta alþjóðlega viðurkennda yfirheyrsluform væri hið eina rétta (það útilokar ekki að sakborningar hafi verið beittir harðræði, ýmislegt bendir til þess).
Sakborningar hlytu að vera sekir úr því þeir játuðu. Með sama hætti hafa rannsóknardómararnir sennilega verið í góðri trú er þeir dæmdu sakborninga í langar einangrunarvistir. Þeir hafi nánast örugglega haldið að slík vist fengi menn til að segja sannleikann, þetta viðurkennir Jón Daníelsson í bók sinni um málið (Jón Daníelsson 2016, bls. 134-135).
En þeir athuguðu ekki að þær gætu brotið sakborninga niður og fengið þá til að játa hvað sem er. Þeir skildu ekki að langar einangrunarvistir mega flokkast undir harðræði.
Engin reynsla var af svo löngum einangrunarvistum á Íslandi, menn voru vanir því að smákrimmar leystu frá skjóðunni eftir tveggja, þriggja daga einangrunarvist.
Auk þess voru sérfræðingar ekki farnir að gagnrýna langar einangrunarvistir, rannsóknardómararnir voru sjálfsagt í góðri trú.
Ekkert var heldur vitað um misminni manna, margir sálfræðingar telja sig nú vita að viðburðaminni manna sé vægast sagt brigðult.
Einn sálfræðinganna, Elizabeth Loftus, hefur rannsakað minni sakborninga, reyndar viðburðaminni almennt. Þegar við rifjum upp atburði fortíðarinnar þá rifjum við ekki upp hinn eiginlega atburð, heldur síðustu upprifjun okkar á honum (Loftus 2014/2016).
En minnið sé eins og Wikipedia, það sé stöðugt að breyta viðburðunum. Viðburðaminnið sé því veikt fyrir þrýstingi.
Loftus segir frá konu sem hafði farið til sálgreinanda; sá sagði henni að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni föður á bernskuskeiði en bælt minninguna. Allt í einu tók konan að muna meintan atburð og var föður hennar stungið inn fyrir vikið.
En svo uppgötvaðist að hann var saklaus, Loftus segir að sálgreinandinn hafi, án þess að ætla sér það, haft þau áhrif á minni konunnar að til varð þessi falsminning (Loftus hafnar sem sagt hinni þekktu kenningu Freuds um bældar minningar).
Sé þetta rétt má ætla að minning um sekt geti skapast vegna játningarmiðaðrar yfirheyrslu þótt það hafi ekki verið ætlun yfirheyrenda. Enda var kenningin um hið viðkvæma minni ekki þekkt þegar sakborningar í G&G málinu voru yfirheyrðir, ekki heldur gagnrýnin á játningarmiðaðar yfirheyrslur.
Gísli Guðjónsson, réttarsálfræðingur, komst svo að þeirri niðurstöðu að játningar í G&G málinu hafi að miklu leyti verið afurð misminnis (t.d. Gísli 2011)
Taka ber fram að kenningar Loftus og annarra misminnissinna hafa verið gagnrýndar talsvert harkalega. Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín Pálsdóttir staðhæfa að rannsóknir Loftus hafi bara farið fram í tilraunastofu og þátttakendur í tilraununum hafi verið einsleitur hópur stúdenta.
Auk heldur hafi þeim bara verið sýnd myndbönd með upptökum af trámatískum viðburðum en ekki athugað hvernig þeir myndu bregðast við raunverulegum atburðum (Guðrún Ebba og Kristín 2020).
Meinið er í fyrsta lagi að Loftus á ekki einkarétt á slíkum kenningum, eins og áður segir hafa Gísli Guðjónsson á sömu línu, einnig sálfræðingurinn Julia Shaw, svo nokkrir séu nefndir (t.d. Shaw 2020). Sýna verður fram á að þær rannsóknir sem þessir aðilar hafa gert og/eða vitna í séu gallaðar. Annars er lítið að marka staðhæfingar þeirra Guðrúnar Ebbu og Kristínar. Í öðru lagi á sálfræði við ýmsa erfiðleika að stríða. Erfitt hefur reynst að endurtaka margar tilraunir hennar (skv t.d. Nosek 2015) (sami vandi er sagður þjaka fleiri fræðigreinar, t.d. hag- og læknisfræði).
Gildir ekki slíkt hið sama um tilraunir þeirra sem gagnrýna misminniskenninguna? Er hlaupið að því að endurtaka þær?
Meira um misminni.
Kannski Loftus hafi á röngu að stand hvað minningar um kynferðislega misnotkun. En hún kann að hafa á réttu að standa um að rnisminni geti orðið afleiðing af streitu sem t.d, orsakast af játningarmiðuðum yfirheyrslum.
Alla vega bendir margt í hverdagsreynslunni til þess að eitthvað sé hæft í kenningunni um misminnið.
Í fyrsta lagi er þekkt að vitni lýsa sama viðburði oft mjög ólíkt, það bendir til þess að viðburðarminnið sé ekki upp á marga fiska.
Í öðru lagi er ekki óalgengt að sé glæpur framinn (alla vega í BNA) hringir fjöldi manns í lögregluna og játar sekt sína, jafnvel þótt útilokað sé að þeir hafi framið glæpinn. Þetta eru andleg skyldmenni Nikolæs!
Í þriðja lagi virðist einhvers konar misminni verða til hjá fólki sem hefur Stokkhólmsheilkennin. Sagt er að þau verði til hjá fólk sem er algerlega á valdi annarra. Það samsami sig kúgurum sínum og samsinni öllu sem þeir segja (Holland 2019).
Slík misminni kunna að hafa orðið til í hugum sakborninga eftir langa og stranga einangrunarvist Þeir gætu þá hafa játað í fúlustu alvöru þótt þeir væru alsaklausir. En svo hafi þeir losnað við heilkennin og séð að játningar voru della.
Hver veit, en þetta er enn ein sálfræðikenningin, kannski eru stoðir hennar veikar.
Í fjórða lagi rekast menn einatt á fólk sem trúir eigin lygum og/eða sér það sem það vill sjá. Nægir að nefna Trump karlinn sem dæmi um mann sem trúir eigin lygum.
Þess utan erum við kannski öll þessu markinu brennd, alla vega þegar um er að ræða mál sem varða heill okkar og hamingju.
Athugið að sé misminniskenningin rétt þá kunna sakborningar í G&G málinu að hafa verið sekir en misminni valdið því að þeir tóku að trúa eigin sakleysi.
Þeir gætu líka hugsanlega hafa ímyndað sér að þeir hafi orðið fyrir barsmíðum í fangavistin, kannski var misminni á ferðinni.
Kannski misminnti Sævar þegar hann hélt því fram að hann hefði verið neyddur til að játa.
En kannski var þetta einfaldlega satt, kannski var þeim misþyrmt, kannski var Sævar beittur nauðung.
Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að einhver þeirra hafi verið sekur í Guðmundarmálinu en ekki í Geirfinnsmálinu, öfugt hafi einn þeirra verið sekur í Geirfinns- en ekki Guðmundarmálinu.
Hinir fjórir hafi verið saklausir af báðum en misminni valdið því að þeir tveir seku hafi trúað eigin sakleysi. Eða þeir hafi verið í „blackouti“ vegna æsings er þeir frömdu morðin, muni því ekki eftir því og telji sig saklausa fyrir vikið.
Trúi ég þessu? Nei, ég tel fremur sennilegt að allir sakborningar hafi verið saklausir en ég vil útiloka sem fæst.
Neita ég því að rannsóknarlögreglan hafi meðvitað beitt sakborninga þrýstingi og harðræði til að fá þá til að játa? Nei, ég útiloka það alls ekki, það gerist margt bak við byrgða glugga á löggustöðum eins og undirritaður hefur mátt reyna.
Ég útiloka ekki að löggurnar hafi verið einum of ákafar að fá fram játningar í þeirri von að þær fengju fyrir vikið stöðuhækkanir og vinsældir. Bæði lögregla og dómarar voru undir miklum þrýstingi frá almenningsálitinu, almenningur heimtaði höfuð sakborninga á fati.
Slíkur þrýstingur getur haft ómeðvituð áhrif á menn, alla vega ef trúa má æði mörgum sálfræðingum (ég hef ekki í huga hinar skáldlegu hugmyndir Freuds heldur ögn jarðbundnari hugmyndir hugfræðinga) (til dæmis Carey 2007).
Kannski var viðlíka þrýstingur á dómarana árið 2018, almenningi hafði snúist hugur og heimtaði nú sýknun sakborninga. Kannski létu þeir undan þeim þrýstingu en með ómeðvituðum hætti.
Vandinn er aftur sá áðurnefndi, sálfræðin á við endurtekningarvanda að stríða. Rannsóknir sem sanna eiga að ómeðvituð áhrif geti breytt atferli og hugsunarhætti, hafa verið gagnrýndar nokkuð harkalega.
Meðal annars segja gagnrýnendur að margar af tilraunum sé ekki hægt að endurtaka (skv. Neuroskeptik 2016).
En það útilokar ekki að sálfræðingar (og jafnvel Freud), hafi rambað á sannleikann þótt tilraunir hafi hingað ekki verið nógu vel útfærðar. Kannski verða í framtíðinni framdar tilraunir og gerðar athuganir sem staðfesta vel bæði þessa kenningu og þá um misminnið.
Lokaorð fyrri hluta.
Ég ræð af líkum að einhver sannleikskjarni sé í misminniskenningunni og að játningarmiðaðar yfirheyrslur og einangrunarvist hafi átt þátt í að skapa misminni hjá sumum, jafnvel öllum, sakborningunum.
En sá skammi tími sem leið frá fangelsun tveggja þeirra þar til þeir játuðu sýnir alltént að einangrunavist skóp ekki allar játningarnar.
Í síðari hluti beini ég sjónum að samsæriskenningum í þessu máli og sýni fram á haldleysi þeirra.
Heimildir:
„Blackouts“, Healthgrades, https://www.healthgrades.com/right-care/brain-and-nerves/blackouts
Brynjar Níelsson 2019: „Guðmundar og Geirfinnsmálið í hnotskurn“, Viljinn.
https://viljinn.is/adsendar-greinar/gudmundur-og-geirfinnsmalid-i-hnotskurn/
Benedict Carey 2007: „Who‘s Minding the Mind?“ New York Times, 31 júlí. https://www.nytimes.com/2007/07/31/health/psychology/31subl.html
Dómur 1980. https://www.rikissaksoknari.is/media/arsskyrslur/Domur-i-mali-Haestrettar-nr.-214.1978.pdf
Einar Bollason 2017. Sjónvarpsviðtal Sigmundar Ernis Rúnarssonar við Einar í Mannamáli.
Gísli Guðjónssson 2011: „Flestir geta játað falskt. Viðtal við Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing“, http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/11/nr/4374 Sótt 5/10 2018.
Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir 2020: „Falskar minningar eða falskar kenningar? Stundin, október, bls. 50-51.
Kimberley Holland 2019: „What is Stockholm Syndrome and Who does it Affect? Healthline, https://www.healthline.com/health/mental-health/stockholm-syndrome
Jón Daníelsson 2016: Sá sem flýr undan dýri. Reykjavík: Mýrún.
Joel Levy 2005: The Little Book of Conspiracies. Thunder Mouth Press.
Elizabeth Loftus 2014/2016: The Malleability of Memory. Open Agenda Publishing (Kindle útgáfa).
Neuroskeptik 2016: „Social Priming-Does it Work after All?“ Discover Magazine 13 október, https://www.discovermagazine.com/mind/social-priming-does-it-work-after-all
Aslak Nore 2021: „Uskyldig dømt? “ Aftenposten A-magasinet nr. 9, 5 mars.
Nosek, Brian og fleiri (2015): “Estimating the reproducibility of psychological science”, Science, Vol. 349. Issue 6251. Sótt 19/3 2018 á http://science.sciencemag.org/content/349/6251/aac4716.full
Julia Shaw 2020: „Do False Memories look Real? Frontiers in Psychology. https://www.frontiersin.org/articles/10.3389/fpsyg.2020.00650/full
Simen Sætre 2020: "Han tilstod 31 drap o.s.frv", Aftenposten A-magasin 9 janúar.
Um Palmerannsókn
Um Haugberg-Madsen málið: https://nyheder.tv2.dk/krimi/2018-05-10-datter-efter-fund-af-bevis-i-drabet-uden-lig-haaber-det-vil-lukke-munden-paa
Um Thomas Quick málið í Store norske leksikon.
Um Orderud málið https://no.wikipedia.org/wiki/Orderud-saken
Um norska raðmorðingjann
https://www.dv.is/fokus/2020/5/16/svarid-vid-staerstu-mordradgatu-noregs-leyndist-hlodunni/
Um endurtekningavandann í vísindum
Athugasemdir