Waterloo, fyrir 200 árum
Í dag, átjánda júní, eru tvö hundruð ár liðin síðan orrustan mikla við Waterloo var háð. Þar laust saman herjum Napóleons, Frakkakeisara, og andstæðinga hans.
Frakkar biðu frægan ósigur.
Forveri Hitlers eða umbótamaður?
Spurt er: Voru þetta ekki bara makleg málagjöld, var Napóleon ekki forveri þeirra Stalíns og Hitlers?
Svarið er Nei með stórum staf.
Vissulega var Napóleon einræðisherra en hann var í megindráttum fremur upplýstur einræðisherra en hitt.
Þessu til sannindamerkis má nefna að þegar hann hertók Norður-Ítalíu nokkru áður en hann náði völdum veitti hann mönnum trúfrelsi, gaf Gyðingum full mannréttindi og leysti upp hin illræmdu gettó.
Sama var upp á teningnum þegar hann frelsaði Möltu undan oki Jóhannesarriddara. Múslimar og Gyðingar fengu fullt trúfrelsi og lénsveldið var afnumið.
En spillir ekki allt vald, varð ekki Napóleon valdníðingur eftir valdatökuna? Það er ofmælt, hann gerði Frakkaveldi að réttarríki með lagasetningu sinni.
Eini stóri gallinn við lög Napóleons er karlrembuhneigð, hann var ekki korsískur ættbálkahöfðingi fyrir ekki neitt! Konur voru réttlitlar samkvæmt lögum Napóleons.
Þetta er einn af svörtu blettunum á ferli hans.
Þá spyr einhver hvort hann hafi ekki “fundið” lögregluríkið “upp” í félagi við hinn skuggalega lögreglustjóra Fouché.
Svarið er að lögregluveldi Napóleons var í mildara lagi, fáir pólitískir fangar. Napóleon fór jafnan mildum höndum um andstæðinga og keppinauta.
Yfirleitt jókst frelsi í þeim löndum sem Napóleon lagði undir sig, t.d. var veldi rannsóknarréttarins hnekkt á Spáni.
En honum tókst að fá Spánverja upp á móti sér með klaufaskap, hroka og andstöðu við kirkjuna.
Hernám Spánar er annar svarti bletturinn á ferli Napóleons, Frakkar gerðu sig seka um hryðjuverk í landinu.
Mistökin miklu voru innrásin í Rússland, þá virðist Napóleon hafa verið kominn með hreint stórmennskubrjálæði.
En hann lofaði rússneskum bændum afnámi ánauðar og hefði sennilega unnið stríðið við tsarinn hefði hann gert meira í að bæta réttarstöðu bænda.
Þriðji svarti bletturinn á ferli Napóleons var þegar hann leyfði þrælahald í nýlendunum að nýju en byltingarmennirnir frönsku höfðu bannað það.
Fjórði svarti bletturinn var Haití.
Hinn stórmerki leiðtogi blökkumanna þar í landi, hernaðarsnillingurinn Toussaint L‘Ouverture, hafði losað landið við franska nýlendukúgun, afnumið þrælahald og komið á upplýstu stjórnarfari.
En Napóleon sendi her til landsins og lét handataka L‘Ouverture sem veslaðist upp og dó í frönsku fangelsi.
Saga Haití hefði kannski orðið önnur ef Napóleon hefði látið landið í friði.
Lokaorð
Til að meta feril Napóleons verða menn að hafa í huga hvernig veröldin var á hans dögum.
Vart voru til eiginleg lýðræðisríki, vísir var að lýðræði í löndum eins og Sviss og Bretlandi, en þó var hann stærstur í Bandaríkjunum.
En þar nutu blökkumenn, indjánar og konur engra lýðræðisréttinda, flestir blökkumenn voru þrælar.
Í Bretlandi nutu auð- og aðalsmenn einir lýðræðislegra réttinda. Þeir áttu líka einkarétt á frama í embættiskerfi og her. Í Bandaríkjunum höfðu hvítir menn einir slík réttindi.
Gagnstætt Frakkaveldi þar sem allir karlmenn nutu þessa réttar.
Hinu verður ekki neitað að Bretar og Bandaríkjamenn höfðu mál- og prentfrelsi, slíku var ekki til að dreifa í veldi Napóleons.
Ófrelsi á þeim sviðum var fimmti svarti bletturinn.
Hvað sem svörtu blettinum líður þá verður ekki séð að Napóleon hafi verið forveri þeirra Stalíns og Hitlers. Þeirra veldi var einn allsherjar svartur blettur.
Napóleon hafði sínar upplýstu hliðar, sína ljósu bletti.
P.S. Þeir sem vilja lesa jákvæða umfjöllun um Napóleon geta litið í bók Hermann Lindqvist Napóleon sem til er í íslenskri þýðingu. Veilan við bókin er að hana vantar fræðilega kjölfestu, um er ræða fjörlega skrifað alþýðufræðirit.
Einnig geta menn lesið hér forvitnilegt viðtal við breskan sagnfræðing sem ber blak af Napóleoni.
Þeir sem kunna frönsku geta lesið neikvæð skrif um franska keisarann í riti Lionel Jospin Hið napóleonska mein (Le mal napoléonien).
Þessi fyrrverandi forsætisráðherra telur að margt af því slæma við Frakkland sé arfur frá dögum Napóleons, það gildi m.a. um hina miklu miðstýringu.
Gallinn við bók Jospins er sá að það vantar tilvísanir í heimildir.
Skemmtilega rökræðu um þessi mál má finna
Athugasemdir