Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Var John Locke talsmaður mannréttinda?

Hákon Helgi Leifsson skrifaði  ágæta ádrepu um trúfrelsi í Stundinni nýlega. Hann segir að heimspekingurinn John Locke  (1632-1704) hafi verið einn upphafsmanna frjálshyggju og  verið talsmaður borgarlegra réttinda, ekki síst trúfrelsis. 

 Af samhenginu má ráða að Hákon Helgi notar „borgaraleg réttindi“ í merkingunni „mannréttindi“. En málið er ekki eins einfalt og hann virðist halda. Eitt er fyrir sig að Locke vildi hvorki  leyfa kaþólska trú né guðleysi.

Annað er að margt bendir til þess að hann hafi talið að einungis auðmenn og aðalsmenn væru fullgildir borgarar sem njóta skyldu þeirra réttinda sem Hákon Helgi kallar „borgaraleg“. 

MacPherson um Locke

Locke er umdeildur eins og aðrir hugsuðir, t.d. kennir  kanadíski stjórnmálafræðingurinn C.B. MacPherson kenningar hans við yfirstéttarhyggju. 
Hann  hélt því fram að stjórnmálahugmyndir Lockes einkenndust af eigna-einstaklingshyggju (e. possessive individualism). Réttindi séu í huga Lockes eignaréttindi, þ.á.m. eignaréttur einstaklingsins á sjálfum sér.

En Macpherson segir að þessi kenning sé í reynd  stéttbundin. Þegar  Locke tali um réttindi og frelsi manna eigi hann við "réttindi og frelsi eignamanna", ekki hins eignalausa fjölda. 

Nefna má að heimspekingurinn Bertrand  Russell hélt því fram  að Locke hafi litið á eignamenn eina sem eiginlega samfélagsborgara (Russell (1945): 630).

Macpherson segir að sú hugmynd hafi verið landlæg á dögum Lockes að verkamenn væru ekki hlutgengir á opinberum vettvangi. Þeir hefðu ekki fullþróaða skynsemi. 
Ósennilegt sé að Locke hafi hugsað róttækt öðruvísi enda tali hann eins og verkamenn geti ekki verið virkir samfélagsborgarar.

Þá skorti pólitíska skynsemi, hana hafi eignamenn einir. Allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir (Macpherson (1962): 194-262). 

Einar Már  Jónsson ræðir túlkun MacPhersons í bókinn Örlagaborginni og gefur  sér að hún sé kórrétt en um það deila hinir lærðu. Hann nefnir ekki aðrar túlkanir (Einar Már (2012): 95-105, 521).

Þess má geta  að Atli Harðarson skýtur skildi fyrir Locke í ritdómi um bók Einars Más. Hann bendir á að Locke hafi sagt beinum orðum að eignarréttur hlyti að víkja fyrir rétti manna til lífs (Atli (2012): 79).

Mér er spurn: Útilokar það að hugmyndir Lockes um frelsisréttindi séu að öðru leyti stéttrbundnar? 

Locke og yfirstéttahyggjan

Ég hygg að sannleikskjarni sé í þessari túlkun Macphersons en geri mér ljósa grein fyrir því að ekki eru til órækar sannanir fyrir henni (liggja slíkar sannanir á lausu?). 
Athugum eftirfarandi tilvitnun í Locke: ”Þannig verður grasið sem hross mitt bítur, torfið sem húskarl minn sker og málmurinn sem ég gref úr jörðu…mín eign…” (Locke  (1986): 69 (§ 22).  

Takið eftir að talað er um hrossið og húskarlinn á sama hátt. Athugið að veröldinni er lýst frá sjónarhorni þess sem hefur húskarl, ekki sjónarhorni húskarlsins.
 Auk þess ver Locke ákveðna tegund þrælahalds. Þrælka má stríðsfanga sem teknir eru í réttlátu stríði. Þeir séu settir undir löglaust vald húsbónda. Sem þrælar geti þeir ekki eignast neitt, því geti þeir ekki verið samfélagsborgarar þar eð hlutverk samfélagsins sé að vernda eigur (Locke (1986): 117 (§ 85). 

 Í umfjöllun sinni um uppeldi beinir Locke  sjónum sínum aðallega að uppeldi ungra séntilmanna. . Hann talar um það að móta ”… a gentleman as he should be…” (Locke (1692): § 93). 

Enn fremur segir hann “This is what I have thought concerning the general method of educating a young gentleman;…(Locke (1692): § 133). 
 
Ekki eitt orð um hvernig ala beri upp konur og lágstéttakarla, enn og aftur virðist sjónarhorn Lockes stéttbundið, í ofan á lag kynbundið. 

Sú staðreynd að Locke var hálfgildings frjálshyggjumaður þarf ekki að breyta neinu um stéttarhyggju hans.

Frjálshyggjumenn hafa margir hverjir verið þeirrar hyggju að eignamenn einir eigi að njóta kosningaréttar og kjörgengis.

Hannes Gissurarson, veltir því fyrir sér í fúlustu alvöru hvort takmarka mætti kosningarétt við lágmarkseign einstaklinga (Hannes (1999): 253). 
„Kristilega kærleiksblóminn spretta, kringum hitt og þetta“.

Lokaorð

Locke til varnar má segja að hann hafi verið barn síns tíma eins og við. 
Það er ekki fyrr en um miðja átjándu öld (jafnvel síðar) að vestrænir andans menn tóku að skilja að konur og lágstéttafólk ættu að njóta mannréttinda. 

Helstu heimildir:
Atli Harðarson (1998): „Hámarksríki, lágmarksríki og málamiðlun Lockes“, í Vafamálum. Ritgerðum um stjórnmálaheimspeki og skyld efni. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls. 137-170.
Einar Már Jónsson (2012): Örlagaborgin. Reykjavík: Ormstunga.
Hannes Hólmsteinn Gissurarsson (1999): Stjórnmálaheimspeki. Reykjavík : Hið íslenzka bókmenntafélag. 
John Locke (1692): Some Thoughts Concerning Education. http://www.fordham.edu/halsall/mod/1692locke-education.asp. Sótt 5/12 2012. 
John Locke (1986): Ritgerð um ríkisvald (þýðandi Atli Harðarson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
C.B. Macpherson (1962): The Political Theory of Possessive Individualism. Hobbes to Locke. Oxford: Oxford University Press. 
Bertrand Russell (1945): The History of Western Philosophy. New York: Simon & Schuster. http://www.ntslibrary.com/PDF%20Books/History%20of%20Western%20Philosophy.pdf. Sótt 6/4 2015. 
http://en.wikipedia.org/wiki/A_Letter_Concerning_Toleration. Sótt 2/5 2015.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni