Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Trump, komubannið og Dómaldi Svíajöfur

 Donald Trump afhjúpar andlega vesöld sína og illt innræti dag hvern, til

 dæmis nefnir hann  ekki Gyðinga aukateknu orði í ræðu við athöfn tengda helförinni. Miklu verri er þó sú ákvörðun hans að meina fólki frá sjö múslimskum löndum að koma til Bandaríkjanna. Eitt er fyrir sig að komubannið kann að brjóta í bága við bandarísku stjórnarskrána, samkvæmt henni er bannað að mismuna mönnum vegna trúarbragða. Einnig er bannið líklega lögbrot, samkvæmt „Immigration Nationality Act“, lögum um þjóðerni innflytjenda, má ekki mismuna innflytjendum vegna þjóðernis. Annað er að fjöldi manns þjáist nú vegna komubannsins, fjölskyldum er stíað sundur o.s.frv. Hið þriðja er að engin ástæða er til að ætla að komubannið verndi Bandaríkin gegn hryðjuverkum. Í fyrsta lagi voru þeir sem flugu flugvélunum inn í Tvíburaturnana ekki frá þeim sjö ríkjum sem komubannið nær til, heldur Sádí-Arabíu, Egyptalandi og Líbanon. Þau fáu hryðjuverk sem múslimar hafa framið í Bandaríkjunum á síðustu árum hafa verið framin af fólki sem fætt var og uppalið þar vestra. Trump væri nær að reyna að hindra skólafjöldamorð sem eru nánast árlegir viðburðir í heimalandi hans.  Skólamorðingjarnir eru hreint engir múslimar og ekki erlendir ríkisborgarar. Í öðru lagi mun komubannið fylla múslima hvarvetna réttlátri reiði, sumir þeirra   munu jafnvel hugsa alvarlega um að refsa Bandaríkjunum með hryðjuverkum. Og jafnvel framkvæma. IS-liðar og Al-Kaída menn dansa sjálfsagt stríðsdans af gleði yfir komubanninu. Trump er því beinlínis hættulegur öryggi Bandaríkjanna. Í Heimskringlu segir frá Dómalda Svíakonungi sem Svíar fórnuðu til árs og friðar. Haldi áfram sem horfir mun hálfnafni fórnarlambsins, Donald Trump,  fótumtroða bandaríska stjórnarskrá og lög með þeim hætti að reka verður hann frá völdum, fórna honum til árs og friðar í heiminum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni