Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Til varnar hámenningu

Um þessar mundir er verið að ganga að hámenningarbíóinu Bíó Paradís dauðu. Því er þarft að staldra við og velta því fyrir sér hvort hámenning eigi sér nokkra réttlætingu. En fyrst verðum við að gaumgæfa þau hugtök sem við notum: Er hugtakið um hámenning gildishlaðið með þeim hætti að niðurstaðan sé gefin fyrir fram, hið háa er gott?

Kannski ættum við að tala um h-menningu í stað hámenningar til að gera orðið síður gildishlaðið. Tekið skal fram áður en lengra er haldið að þótt ég hyggist verja h-menningu hér þá er ég enginn andstæðingur lágmenningar (l-menningar). Mér finnst stundum gaman að hlusta á einfalda gamla slagara eða dreifa huganum með glápi á fremur lágkúrulega  spennuþætti.

Næst hljótum við að spyrja hvort hlaupið sé að því að draga skýr mörk milli há- og lágmenningar. Bandaríski fræðimaðurinn Lawrence Levine hafði ýmsar efasemdir um það og benti á að leikrit Shakespeares hefðu  á árum áður ekki bara verið hámenningaratriði heldur líka hluti af afþreyingar- og alþýðumenningu. Nefna má að óperur voru Hollywoodmyndir nítjándu aldarinnar, jafnt háir sem lágir höfðu áhuga á þeim.

Og hvort er hún Björk blessunin hámenningar- eða lágmenningarlistakona? Er Game of Thrones bara afþreying eða líka stórvelsögð saga um eðli stjórnmála og mannskepnu? Hvað um Simpsons, nú eða Sopranos, eða Seinfeld? S-in þrjú eru alls ekki bara afþreyingarþættir heldur má í þeim finna snjalla ádeilu og (í Sopranos) athyglisverða persónusköpun. 

Hvað sem því líður er hægt að benda á skólabókardæmi um há- og lágmenningu. Tólftónaverk eftir Arnold Schönberg eru góð dæmi um hreinræktuð hámenningarverk, ofurhetjumyndir sem Hollywood fjöldaframleiðir eru dæmi um hið gagnstæða.

Hámenning og hástéttir.  

Franski fræðimaðurinn Pierre Bourdieu sagði að hámenning væri  tæki betri borgara til að aðgreina sig frá pöplinum. Aðalmálið hjá sérhverjum hópi manna  væri að finna eitthvað það sem aðgreindi þá frá öðrum, inntakið skipti minna máli.

Í þessu sambandi hef ég velt því hvers vegna börn frægðarfólks eru skírð svo asnalegum nöfnum, heitir ekki sonur Beckhams og Victoriu „Brooklyn“? Hiltonhótelaerfinginn heitir sannarlega „Paris“. Er ekki meginatriðið í slíkum ónefnum að aðgreina krakkagríslingana frá lágstéttaryrmlingum? 

Hvað sem því líður þá á kenning Bourdieus um hámenningu betur við Frakkland og Bretland en ýmis þau lönd þar sem stéttskipting er síður skörp. Á Norðurlöndum, ekki síst Íslandi, hefur verið nokkuð sterk hefð fyrir hámenningaráhuga hjá alþýðu manna.

Nægir að nefna allan þann sæg íslenskra skálda og rithöfunda sem komið hefur úr þjóðardjúpinu.  Steinn Steinar var verkamaður, Steinar Sigurjónsson réri til fiskjar, Bólu-Hjálmar, Kristján fjallaskáld og Örn Arnarson voru bláfátækir og ekki var mulið undir hana Skáld-Rósu.

Fá dæmi eru um slík alþýðuskáld meðal Frakka, Þjóðverja og Breta. 

Kostir hámenningar.

 Í ofan á lag er hægt að rökstyðja ágæti hámenningar. Heimspekingurinn John Stuart Mill hélt því fram að munur væri á megindum (e. quantity) nautna og gæðum (e. quality) þeirra. Þekki menn tvo kosti og finnist annar kosturinn gefa ekki bara meiri heldur betri nautn þá hljóti þeir að taka þann kost fram yfir hinn. Þeir sem þekki bæði hámenningu og lágmenningu hafi flestir þá reynslu að sú fyrrnefnda veiti dýpri nautn. Því sé hægt að telja þá fyrrnefndu betri.

En auðvitað má finna margt að rökfærslu Mills. Hann styður sig ekki við nein reynslurök, ekki er hægt að útiloka að kerfisbundnar rannsóknir sýni að flestir fengju dýpri nautn af tyggigúmmípoppi en tólftónaverkum.

Annar heimspekingur, Martha Nussbaum, setti nýskeð saman bók til varnar húmanískum fræðum og nefnist hún Not for Profit. Singapúrmenn héldu lengi að engin ástæða væri til að kenna lista- og menningarfög í skólum, það hlyti að nægja að kenna ungmennum praktísk fög. En þeir komust að því að kennsla í lista- og menningarfögum gæti gert nemendur þjálli í hugsun og betri starfskrafta fyrir vikið.

Nefna má að fyrir þrjátíu árum las ég grein í norsku blaði þar sem sagt var frá dönsku fyrirtæki. Það var við að fara á hausinn og brugðu eigendur á það ráð að ráða sérfræðing til að bjarga því. Sá hóf starf sitt með því að reka alla verk- og viðskiptafræðinga og ráða í þeirra stað fólk með próf í lista- og menningarfögum. Og sjá! Fyrirtækið blómstraði. Aðspurður sagði sérfræðingurinn  ástæðuna þá að margir verk- og viðskiptafræðingar væru formúlumenn en menningar- og listafólkið oft frumlegt og þjált í hugsun. Bókvitið verður í askana látið.

Hámenning í hættu

Það litlum vafa undirorpið að hámenning er í hættu. Rannsóknir víða um lönd, þ.á,m. í Bandaríkjunum og Frakklandi sýna að lestur bóka minnkar, sérstaklega meðal ungmenna. Rannsókn á vegum National Endowment of the Arts sýndi að  frá 1982 til 2002 hafði  lestur fagurbókmennta minnkað um 18% meðal Bandaríkjamanna, meðal ungmenna 18 til 24 ára var minnkunin 28%. Rannsóknir í Frakklandi sýndu að hlutfall þeirra Frakka sem lásu fleiri en 25 bækur á ári hafði lækkað úr 22% árið 1973 í 12% þrjátíu árum síðar. Um íslenskar hliðstæður þarf vart að fjölyrða.

Þar eð ekki ódrjúgur hluti hámenningar birtist í bókum má ætla að þessi lestrarminnkun geri hlut þeirrar menningar minni en áður. Tölur um sölu platna sýna að frá um 1965 til 2000 minnkaði hlutur sígildrar tónlistar verulega. En hafa ber í huga að á þessu tímabili jókst mjög hlutfall þeirra sem keyptu plötur, því er ekki gefið að hlutur sígildrar tónlistar hafi minnkað mikið. En hver sá sem fer á klassíska tónleika eða á óperusýningar kemst ekki hjá því að sjá allar biðukollurnar, þ.e. hina gráhærðu. Það sjást varla ungmenni á slíkum viðburðum, fyrir fjörutíu árum var hlutfall þeirra mun meira, a.m.k. ef eitthvað er að marka mína reynslu. 

Hámenningin á fyllsta rétt á sér en er í bráðri hættu. Því ber að verja hana og berjast gegn hinni nýju, menningarsnauðu villimennsku tölvuleikjanna og tyggigúmmípoppsins. Lágmenning á vissulega rétt á sér en hún virðist flæða yfir alla bakka og drekkja hámenningu.

Sú var tíðin að rétt var að berjast fyrir réttinum til að rokka í réttunum en nú hefur rokktengd tónlist unnið algeran sigur. 

(heimildir fyrir  tölulegu upplýsingingunum,  sem hér eru nefndar, er að finna  í grein minni "Pragmatism and Popular Culture. Shusterman and the Challenge of Visual Culture" sem birtist í Journal of Aesthetic Education árið 2007).

Lokaorð.

Niðurstaðan er sú að hámenningarmenntun geti verið efnahagnum til framdráttar og að hámenning sé ekki endilega hástéttaratriði. Það má jafnvel rökstyðja þá kenningu að hámenning hafi margt  sér til ágætis, einnig að hún sé í bráðri hættu og rétt sé að verja hana gegn villimennskunni nýju.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni