Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

ÞRÆLAHALD, IÐNVÆÐING, EINKAFRAMTAK

Karl Marx talaði  um frumstæða upphleðslu auðmagns sem forsendu iðnvæðingar á Vesturlöndum. Kalla megi hana „erfðasynd kapítalismans“, sagði  Marx hæðnislega. Brottrekstur bænda af almenningi í Bretlandi og víðar um lönd hafi verið ein af forsendum þessarar auðmagnsupphleðslu.  Vestræn nýlenduveldi hafi farið ránshendi um nýlendur og notað ránsfengin til fjárfestinga (Marx (1972): 790-858 (24 og 25 kafli).

Var þrælahald forsenda iðnvæðingar?

Sumir segja að þrælabúskapur Breta hafi lagt grunninn að breskri iðnvæðingu. Gróðinn af þrælasölunni hafi verið fjárfestur í því sem með tíð og tíma varð breska iðnveldið (Einar Már Jónsson (2012): 164-167, 524).

Kenning þessi mun eiga sér   rætur í rannsóknum sagnfræðings frá Trinidad. Sá hét Eric Eustace Williams og varð fyrsti forsætisráðherra landsins (samkvæmt t.d. Lichtheim (1971): 51-53). 

Eduardo Galeano var á sömu línu og Williams. Hann segir m.a. að Watt hafi getað fundið gufuvélina upp vegna þess að hann naut stuðnings kaupmanna sem grætt höfðu á þrælasölu (Galeano (1979): 98).

En hér er  um er að ræða harla umdeilda kenningu. Til dæmis segir Seymour Drescher að hún eigi sér formælendur fáa nú til dags. Sagt sé að Williams hafi stórlega ofmetið gróðann af þrælasölu og þrælahaldi. Hann hafi  ekki séð að stór hluti hennar fór í eyðslu eða fjárfestingar á karabísku eyjunum.

Sumir segi að þrælaverslun Hollendinga hafi seinkað iðnvæðingu Hollands. Svo sé bent á að portúgalska hagkerfið hafi staðnað þrátt fyrir (eða vegna þess) að Portúgalar stunduðu þrælaverslun lengur en aðrir Vesturlandabúar (Drescher (2000): 81-98).

Aðrir fræðimenn feta í fótspor Williams og segja að breska þrælasalan og þrælahaldið  hafi verið með þeim  hætti að þetta tvennt  varð iðnaðnum til framdráttar, ólíkt þrælaverslun annarra Evrópuþjóða (Inkiori (2002).

Nefna má að Arabar þrælkuðu  milljónir Afríkubúa, sumir segja átján milljónir eða  u.þ.b. jafn marga og  Vesturlandabúar þrælkuðu en á miklu lengra tímaskeiði  (t.d.  Pinker (2012): 235). Samt varð engin iðnbylting í arabískum  löndum.

Í upphafi nýaldar þrælkuðu arabískir sjóræningjar meira en milljón Evrópubúa, þar á meðal nokkra Íslendinga (tyrkjaránið).  Sjóræningjarnir  arabísku rústuðu heilu strandhéröðin í sunnanverðri Evrópu (t.d. „Hvide slaver“). Þrátt fyrir það  iðnvæddist Evrópa, ekki Norður-Afríka.

Þrælaverslun í boði einkaframtaks.  

Nú kann vinstrisósíalisti að rísa til andmæla og segja að ég nefni ekki að þrælaverslunin mikla hafi farið fram á tiltölulega frjálsum markaði en hann sé skilgetið afkvæmi vestrænnar menningar.

Hann getur vitnað í ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari sem segir að þrælasalan hafi verið í boði einkafyrirtækja,  sem sóttust eftir gróða, ekki voldugra konunga og vondra rasista. Hann segir beinum orðum:

„The slave trade was not controlled by any state or government. It was a purely  economic enterprise, organised and financed by the free market according to the laws of supply and demand“ (Harari (2014): 169-170).

Þetta hugsa ég að sé rétt, einkaframtak og markaðsfrelsi geta verið skelfileg kúgunaröfl, einkaframtak í þrælaverslun kostaði milljónir manna lífið og svipti enn fleiri frelsi sínu. Eins og Tage Erlander mun hafa sagt þá getur  markaðurinn verið lipur þjónn en harður húsbóndi. Hann getur verið frelsandi en líka stundum þrúgandi. 

Það fylgir sögunni að ég  gleymdi þessari kenningu  Hararis þegar ég gagnrýndi þá staðhæfingu  Karls Th Birgissonar að einkaframtakið gerði sjaldnast mikið af sér nema með fulltingi stjórnmálamanna. Hafi Harari á réttu að standa þá er staðhæfing Karls nánast fáránleg.

Nú er röðin komin að  frjálshyggjumönnum að andæfa boðskap mínum. Þeir gætu sagt  að þrælkun sé frelsissvipting og því sé mótsagnarkennt að kalla þrælaverslun „frjálsa“.

Vandinn er sá að frjáls markaður er tæpast framkvæmanlegur. Algert markaðsfrelsi hefur að forsendu að ekki séu til nein fyrirtæki, allir gerendur hafi jafnan aðgang að upplýsingum, allir gerendur hafi fullkomna yfirsýn yfir alla kosta en fullkomin yfirsýn er ekki möguleg.

Þótt frelsið á þrælamörkuðunum hafi verið að nokkru marki  takmarkað var það að flestu öðru leyti síður takmarkað en markaðsfrelsi jafnan er. Engin velferðarlöggjöf eða bönn við hringamyndun takmarkaði frelsi þrælamarkaðina, gagnstætt mörkuðum nútímas.

Lokaorð.

Ég hallast að því að Harari hafi á réttu að standa en er efins um ágæti þeirrar staðhæfingar að þrælabúskapur   hafi verið forsenda vestrænnar iðnvæðingar.

Hvað sem því líður þá er þrælahald glæpur gegn mannkyninu, það er enn við lýði hér og hvar á hnettinum og ber að berjast gegn því með oddi og egg.

Heimildir:

Drescher, Seymour (2000): “Capitalism and Slavery: After Fifty Years”, í Cateau, Heather og Corrington, Selwyn H.H. (ritstjórar): Capitalism and Slavery Fifty Years Later. New York: Peter Lang, bls. 81-98. 

Einar Már Jónsson (2012): Örlagaborgin. Reykjavík: Ormstunga.

Galeano, Eduardo  (1979): Latinamerikas åpne årer (þýðandi Arne Hem). Ósló: Pax.

Harari, Yuval Noah (2014): Sapiens. A Brief History of Mankind. London: Vintage Books.

“Hvide slaver“, https://www.dr.dk/Gymnasium/Historie/Historie_foer_1914/hvide_slaver/hvide-slaver.htm. Sótt 7/4 2015.

Inkiori, Joseph E. (2002): ”The Atlantic World Slave Economy and the Development Process in England, 1650-1850”, Urhobo Historical Society. http://www.waado.org/nigerdelta/documents/slavery/slaveryanddevelopment-inikori.html. Sótt 5/12 2012.

Lichtheim, George (1971): Imperialism. Harmondsworth: Penguin.

Marx, Karl  (1972): Capital. Book One (þýðendur Eden og Cedar Paul).  New York: Everyman‘s Library.

Pinker, Steven (2012): The Better Angels Of Our Nature. Harmondsworth: Penguin.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu