Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Þinghúsbruninn 1933 = Árásin á bandaríska þinghúsið 2021

Nasistarnir létu kveikja í Ríkisþingshúsinu þýska og notuðu brunann sem afsökun fyrir herlögum. Adolf Trump er ábyrgur fyrir árás stormsveita sinna á Þinghúsið bandaríska þinghúsið og kann að nota hana sem afsökun fyrir setningu herlaga. Lögreglan gerir einkennilega lítið til að stöðva skrílinn. Hvað veldur? Mun valdaránið takast? 

Nú þykist Trump ætla að virða úrslit kosninganna en hann lýgur stanslaust, gæti verið að slá ryki í augu fólks. Rænt völdum allt í einu. 

Ýmsir fitja sjálfsagt upp á trýnið þegar ég líki honum við Hitler, er það ekki ansi þreytt og ofnotuð samlíking? Vissulega en hún á að mörgu leyti mjög vel við  Trump.

Menn halda kannski að Hitler, gagnstætt Trump, hafi haft heildstætt hugmyndafræðikerfi en svo er ekki. Hann hafði ekki heildstætt hugmyndafræðikerfi heldur  vissar kreddur sem hann trúði á með ofstopa. 

Gyðingahatrið var í fyrirrúmi auk  almenns rasisma,  þýskrar heimsvaldastefnu, lýðræðisfjandskapar, andkommúnisma og sjálfsdýrkunar, sannfæringu um að forsjónin hefði kosið hann til veita Þjóðverjum forystu. 

Í mörgum mikilvægum efnum voru  Hitler og nasistarnir  með óskýra stefnu, jafnvel enga stefnu. Sovétríkin höfðu fastmótað hugmyndafræðilegt kerfi sem spannaði allan veruleika. Fastmótað heimspekikerfi og fastmótaðar hugmyndir um trúarbrögð.

En meðal heimspekinga sem studdu nasista voru menn með ólíkar skoðanir. Nefna má Martin Heidegger af skóla fyrirbærafræði og tilvistarspeki og Ernst Mally, einn af frumherjum rökgreiningarheimspeki. Þessir heimspekiskólar eru að jafnaði andstæðir.

Stefna nasista í trúmálum var heldur ekki skýr, eini fastinn var hatrið á Gyðingdómi. Sumir nasistar fylgdu "þýskri" kristni, aðrir voru kaþólikkar, enn aðrir guðleysingar, enn fremur voru sumir fylgjandi germanskri heiðni.

Nasistar voru heldur ekki stefnufastir í efnahagsmálum, þeir hófu ferill sinn á víðtækri einkavæðingu, aðallega til að styrkja fjármál ríkisins. Síðar komu þeir á takmörkuðum áætlunarbúskap í samvinnu við stórfyrirtæki í einkaeign. Í þeim fróma tilgangi að undirbúa Þýskaland undir stríð.

Nasistar voru pragmatískir í efnahagsmálum, kreddulausir. 

Trump er heldur ekki stefnufastur í efnahagsmálum. Annars vegar lækkar hann skatta ríkisbubba og stórfyrirtækja, hins vegar kemur hann verndartollum á. 

Trump virðist áhugalaus um trúarbrögð, trúir á mátt sinn og meginn.  Hann  veit varla havð heimspeki er.

En hann trúir staðfastlega á vissar kreddur, þá að rétt sé að byggja múra við landamæri, að erlendar þjóðir féfletti Bandaríkin, að Bandaríkin eiga að hafa forgang (America first) og að hann sjálfur sé kjörinn af forsjóninni (hann sagði beinum orðum: I am the chosen one).

Í ofan á lag virðist hann vera rasisti og fjandmaður lýðræðis, rétt eins og Hitler.  Nefna má að hann bað innanríkisráðherra Georgíuríkis um að útvega sér 11780 atkvæði, "útvega sér" getur ekki þýtt neitt annað en að búa til atkvæði. 

Í öðrum efnum er hann tækifærissinni  alveg eins og Hitler. Og sem sá síðarnefndi er hann sjúklega sjálfhverfur.

Hitler notaði stöðu sín að auðgast, varð margfaldur milli á valdaskeiði sínu. Trump hefur líka reynt að nota embætti sitt til auðgunar, á G7 fundi fyrir nokkrum árum kom hann með þá tillögu að næsti fundur yrði haldinn í Mar-a-Lago, greni hans í Flórída. 

Rétt eins og Hitler æsir hann múginn til illra verka á fjöldafundum,  rétt eins og skríll Hitlers dýrkar skríll Trumps hann.

Rétt eins og Hitler gefur Trump oft ýmislegt í skyn og lætur skrílinn um að botna það sem hann segir og framkvæma illvirki. Ekki virðist sem Hitler hafi beinlínis lagt til að Gyðingum yrði útrýmt en gaf það svo hressilega í skyn að senditíkur hans framkvæmdu ódæðið.

Trump sagði ekki beinum orðum að ráðast skyldi inn í Þinghúsið en túlka mátti gjamm hans sem hvatningu til þess.

Rétt eins og Hitler getur Trump vart myndað heillega setningu en talar í frösum, klisjum og upphrópunum, gargar fremur en talar. 

Rétt eins og Hitler gerir Trump út á samsæriskenningar og virðist trúa sumum þeirra, rétt eins og hans þýski sálufélagi. 

Enn eitt sem þeim er sameiginlegt er andúð á menntun og menntamönnum. Trump hlustar ekki á rök vísindamanna fyrir hlýnun jarðar og dró úr fjárframlögum til grunnrannsókna sem eru hryggjarstykkið í bandarískri hátækni. 

Hitler stuðlaði að fækkun stúdenta, nasistabroddar áttu það til að halda skammaræður yfir stúdentum og hrósa sér af því að hafa aldrei lesið bók. 

Nasistar töluðu um "die Lügenpresse" (lygadagblöðin), Trump um "fake news media", falsfrétta-fjölmiðla. Hver er munurinn?

Repúblikanaflokkurinn er orðinn hálffasískur, 45% stuðningsmanna flokksins  sögðust í skoðanakönnun styðja árásina á Þinghúsið. Hartnær þrír fjórðuhlutar þeirra trúa því að kosningasvindl hafi átt sér stað, stuðningsmenn Hitlers kokgleyptu öllu blaðrinu í honum. 

Hitler endaði ævi sína í neðanjarðarbyrgi og vildi helst taka mannkynið með sér í dauðann. Hvíta húsið er orðið neðanjarðarbyrgi Trumps, hann væri vís með að ýta á kjarnorkuhnappinn enda kolgeggjaður rétt eins og Hitler.

Guð forði okkur frá þessu menni. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu