Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Stundin, fréttir og pólitísk hlutdrægni

Ég hef líkt Donald Trump við Andrés Önd.

Ég ætla ekki að bera Andrés Magnússon saman við nafna sinn öndina.

Andrés er skýr maður.

En oft skjöplast skýrum, honum skjöplast illa  í nýlegri fjölmiðlarýni sem hann reit í Viðskiptablaðið.

Hér

Þar segir hann að Stundin reki pólitík í fréttaflutningi og hafi annað eins ekki sést síðan á dögum Þjóðviljans sáluga.

Hlutleysiskenningin um fréttir

Orð hans verða ekki skilin öðruvísi en að hann telji að djúp sé staðfest milli pólitískra skoðana annars vegar, pólitískra frétta hins vegar.

Pólitískar fréttir megi og eigi að flytja með öldungis hlutlausum hætti, hlutlausum miðað við pólitískt gildismat, kannski allt gildismat.

Köllum þetta „hlutleysiskenninguna um fréttir“ og lítum hana gagnrýnum augum.

Hlutleysiskenningin gagnrýnd

Ekki geta allir viðburðir heimsins talist fréttnæmir en fréttamenn verða að ákveða hvaða viðburðir séu það fréttnæmir að þeirra skuli getið á tilteknum fréttamiðli.

Hugtakið um fréttnæmi er gildishlaðið hugtak, í því er innibyggt mat.

Það sést best á því að orðið „fréttnæmi“ stigbeygist eins og önnur gildisyrði: Fréttnæmt, fréttnæmara, fréttnæmast.

Samanber það hvernig erki-gildisyrðið „gott“ stigbeygist: Gott, betra, best.

Þetta þýðir að ef fréttamenn telja tiltekin viðburð fréttnæman, eða fréttnæmari en annan viðburði eða fréttnæmastan allra viðburða þá fella þeir gildisdóma.

Að stunda fréttmennsku getur því ekki verið hlutlaust miðað við gildismat þar eð gildisdómar eru fólgnir í því að birta sumar fréttir en ekki aðrar, fjalla meir um tiltekna viðburði en aðra, láta hjá líða að nefna aðra viðburði  o.s.frv.

Ekki er til nein formúla fyrir því hvað teljist mikið eða lítið fréttnæmt, eða alls ekki fréttnæmt.

Það þýðir að fordómar ýmsir geta leikið mikið hlutverk þegar fréttnæmis-mat er annars vegar. Sumir, jafnvel allir,  þessara fordóma geta hæglega verið pólitískir.

Norskt gildismat um Ísland

Tökum dæmi: Norska blaðið Aftenposten lét hjá líða að nefna mótmælaaðgerðirnar á Íslandi þann 17 júní síðastliðin.

Það var sem sagt ekki fréttnæmur viðburður að mati blaðsins. Allir sem þekkja „umfjöllun“ norskra fjölmiðla um íslensk málefni vita að þetta er ekki tilviljun.

Norskum blaðamenn hegða sér eins og pólitískir viðburðir á Íslandi séu algerlega óinteressant.

Ísland sé vart pólitísk stærð heldur fornsagna-leikfangaland Noregs, byggt krúttlegum bangsmennum.

Með þessu er felldur pólitískur dómur um íslenska pólitík og  íslenskt samfélag.

Fréttir og sannleikskrafan

Þá kann einhver að segja að hvað sem líði spurningunni um mat á mikilvægi frétta þá  sé fréttamennska eftir sem áður seld undir sannleikskröfuna.

Fréttamanni  ber að hafa það sem sannara reynist og þar með stefna að því  að fréttaflutningur hans sé hlutlægur.

En ekki er hægt að hafa það sem sannara reynist nema að fella í reynd þann gildisdóm að sannindi séu betri en ósannindi.

Þess utan er sannleikurinn háll sem áll.

Jafn ólíkir heimspekingar og Hans-Georg Gadamer og Karl Popper leiða veigamikil rök að því að reynsla okkar geti ekki verið forsendulaus, jafnvel ekki fordómalaus.

Án þess að hafa eins konar innibyggð, lituð gleraugu gætum við ekki haft neina reynsluþekkingu.

En liturinn á gleraugunum kann líka að gera reynslu okkar villandi, liturinn gæti verið pólitískur litur.

Pólitískt gildismat gæti því hæglega litað bæði reynslu manna af viðburðum og eins frásagnir fréttamanna af þeim.

En það þýðir ekki að fréttamennska hljóti að vera á valdi pólitískra fordóma, með gagnkvæmu aðhaldi og umræðu geta menn reynt að draga úr vægi þeirra, reynt að nálgast einhvers konar lágmarks-hlutlægni.

En ekki er víst að það takist, kannski eru allir sem taka þátt í umræðunni á valdi einhverja stórfordóma sem blinda þeim sýn.

Hlutlægni

Samt hlýtur einhver lágmarkshlutlægni að vera möguleg.

Ég get ekki staðhæft það sem ég staðhæfi um fréttir og gildismat án þess að gera þá kröfu að það sem ég segi sé satt og á einhvern hátt hlutlægt.

En hlutlægni er ekki það sama og sannleikur, vel er hægt að hugsa sér hlutlæga kenningu  (eða frétt) sem er ósönn. Kenningar (og fréttir) eru fallvaltar, geta hæglega verið ósannar.

Hugtökin um réttlæti og hlutlægni skarast, ef til eru hlutlægar kenningar eða fréttir þá einkennast þær af sanngirni.

Í hlutlægum fréttaflutning (ef slíkt er mögulegt) er reynt að gæta jafnvægis, til dæmis greina frá andstæðum sjónarhornum á viðburði, án þess að mismuna neinum aðila.

En að reyna að vera sanngjarn er að reyna að vera réttsýnn og réttlátur.

Réttlæti er siðferðileg dyggð, megindyggð hins pólitíska siðferðis.

Því siðferðilegar deilur stjórnmálanna fjalla um meinta réttláta skiptingu lífsgæða.

Efnaleg gæði eru ekki einu gæðin sem um ræðir, réttindi ýmis konar, t.d. kosningaréttur getur verið lífsgæði.

Einnig möguleikinn á að taka þátt í opinberri umræðu, t.d. geta greint frá sinni reynslu af pólitískum viðburðum með þeim hætti að fréttmenn taki tillit til þessa sjónarmiðs.

Er nóg að fréttamenn hlusti á greinargerð lögreglunnar um mannvígin í Ferguson?

Væri réttlætinu fullnægt ef  þeir tækju ekkert tillit til þess sem íbúarnir þar segja um málið?

Sanngjarn fréttaflutningur krefst þess að því réttlæti verði fullnægt.

Þannig verður ekki dregin skörp markalína milli hugmyndarinnar um hlutlægan fréttaflutning og hugmyndarinnar um pólitískt/siðferðilegt  réttlæti.

Að staðhæfa að eitthvað sé réttlátt er að fella gildisdóm, hér sjáum við enn eitt dæmi um hvernig gildismat hlýtur að hafa áhrif á fréttaflutning.

Lokaorð

Við þurfum ekki að trúa á gamlar kommakreddur um að allt sé pólitík til að skilja að tík þessi leynist víðar en margur hyggur.

Það er ekkert ginnungagap milli fréttaflutnings og gildismats, fréttamennsku og stjórnmála, öðru nær.

 Gildismat vefst með ýmsum hætti inn í fréttaflutning, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni