Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

SÖLVI OG SAMFÉLAGSMÁLIN

Sölvi Tryggvason hefur skrifað ágæta pistla á Stundinni um Búddasið og sálgæslu. En skrif hans um íslensk samfélagsmál eru heldur lakari.

Hamingjan sanna

Hann  misskilur t.d.   þær hamingjurannsóknir sem eiga að sýna að Íslendingar séu næst hamingjusamasta þjóð heims (Sölvi: «Heimsmeistarar í hamingju og geðlyfjanotkun», Stundin, júní).

Hann virðist halda  að þetta séu skoðanakannanir þar sem menn eru spurðir «ertu hamingjusamur/hamingjusöm?»

Svo er ekki, þetta eru í raun farsældarrannsóknir þar sem vegnir eru saman þættir á borð við heilbrigði og ævilengd. Íslendingar koma mjög vel út í rannsóknum á slíku.

hér

Sölvi og hagtölurnar

Í síðasta tölublaði Stundarinnar birtist pistill eftir Sölva sem ber heitið «Fólkið er ekki firrt».

Hann ber ekki brigður á þær hagtölur sem sýna að kaupmáttur launa hafi aukist og margt skánað í efnahagslífinu.

En hann virðist halda að sú staðreynd að skoðanakannanir sýni að 35% vilji kjósa hálfgerðan anarkistaflokk (Pírata)  sé einhvers konar áfellisdómur yfir þessum tölum, þær hljóti að vera villandi.

Hann nefnir þann möguleika að Íslendingar séu svo heimtufrekir að þeir sætti sig ekki einu sinni þann efnahagsbata sem hagtölurnar eiga að sýna.  

Hann viðurkennir að þetta kunni að vera rétt og að Íslendingar hafi vanist miklum lífsgæðum miðað við íbúa flestra annarra landa.

Auðlindir

En hann reynir að bjarga sér fyrir horn með því að segja að ekki séu nein haldbær rök fyrir því að Íslendingar eigi að bera sig saman við milljónaþjóðir sem engar náttúruauðlindir eigi.

Af samhenginu má ráða að hann telji að miklar náttúruauðlindir Íslands ættu að gera íbúana miklu ríkari en þessar auðlindasnauðu milljónaþjóðir.

Þetta er út í hött, miklar náttúruauðlindir eru engin sjálfkrafa ávísun á auðæfi, talað er um «bölvun náttúruauðlindanna».

Bæði vegna þess að spilltir valdsmenn og viðskiptamenn geta hirt allan ágóðann, þetta þekkist vel í Afríku

Það er ákveðin hneigð í þessa átt á Íslandi.

En íslenskar auðlindir eru með ósköpum gerðar að eins og stendur er erfitt að nýta þær með fullnægjandi hætti.

Hingað til hefur ekki fundist nein fiskveiðistefna sem nýtir fisk með sama pottþétta hættinum og olíutækni getur nýtt olíu.

Það er erfitt að skilgreina eignarétt á fiski, hann  syndir þangað sem honum lystir.

Olían er aftur á móti staðbundin  og yfirleitt ekki vandkvæðum bundið að skilgreina eignaréttinn.

Ef kvótakefið kemur veg fyrir að Íslendingar verði allir fokríkir vegna fiskveiða þá má spyrja hvers vegna þeir urðu ekki snarauðugir á árunum fyrir kvótakerfi.

Svipað  gildir um orkuna, það er ekki fyrr en hægt verður að leggja sæstrengi og flytja rafmagn í gegnum hann  með hagnaði úr landi að kleyft verði að nýta orkuna með sama ábatasama hætti og Norðmenn nýta olíu.

Slæm eru erlend orkufyrirtæki, sægreifar  og rotnir íslenskir pólitíkusar. 

Samt er minn rökstuddi grunur sá að  þessi tæknilegu vandkvæði á nýtingu íslenskra auðlinda vegi  mun þyngra.

Ísland býr yfir möguleikum en það er ekki sjálfgefið að hægt sé að nýta þá möguleika að ráði eins og stendur.

En áfram um lífskjör og auðlindir: Fjöldi landa sem eiga litlar náttúruauðlindir eru mjög velstæð, nefna má Singapúr, Holland  og Danmörku.

Í þessum löndum hafa menn bætt kjör sín með viti, ekki náttúruauðlindastriti.

Misskilningur Sölva um dreifingu lífsgæða

Sölvi virðist ekki skilja greinarmuninn  á tekjudreifingu annars vegar,  auðs/eigna-dreifingu hins vegar.

Hagstofan segir að tekjujöfnuður á Íslandi sé mikill en Sölvi telur sig geta afsannað það með tilvísun til þess að auðs- og eignadreifing sé ekki ýkja jöfn.

Mér sýnist að Sölvii  viti ekki  að auðs- og eignadreifing á íslandi er  litlu ójafnari en sú sænska og danska, ég hef áður nefnt tölur um það og vísa til fyrri skrifa.

Bókstaflega alls staðar á hnettinum á lítill hluti manna megn eigna en það stafar meðal annars af því að fyrirtæki eru yfirleitt í eigu fárra.

Hér

Það þarf ekki endilega að vera að öllu leyti neikvætt, ég held ekki að það mundi þjóna hagsmunum neytandans að matvöruverslanir væru í höndum fjölda smákaupmanna en ekki stórfyrirtækja.

 Svo fremi stórfyrirtækin keppi hvert við annað.

Menn geta átt miklar eignir en snartapað á þeim, haft engar tekjur af þeim. Meðal annars þess vegna  er mikilvægt að greina milli tekjudreifingar annars vegar, auðs- og eignadreifingar hins vegar.

Tilfinning sem sannleiksvitni

Svo er sem Sölvi  telji að tilfinningar almennings  geti afsannað staðhæfingar um staðtölur.

Almenningi finnist að dreifing lífsgæða sé orðin mjög ójöfn og kaupmáttur hafi ekki aukist, það  sé sönnun þess að svo sé.

En almenningur trúði því lengi að jörðin væri flöt, sú staðreynd að almenningi fannst það gerir staðhæfinguna um flatneskju jarðar ekki sanna.

Almenningur trúði því líka að útrásin væri svakakúl og kaus um besta auðmanninn í kjöri Fréttablaðsins.

Útrásin varð ekki hótinu betri fyrir vikið.

Hvað kaupmáttinn varðar þá er tilfinning almennings skárra leiðarhnoða en hvað snertir ójöfnuð.

 Ríkisstjórnin heldur því á lofti að nú sé kaupmáttur jafn mikill og 2007, jafnvel meiri.

En hún   athugar ekki að samanburðurinn við 2007 er ekki fullnægjandi.

Í dag er stór hluti þjóðarinnar á hálfu kafi í skuldafeni, honum  er kaupmáttaraukningin  lítil búbót.

Það kæmi mér ekki á óvart þótt þessi hópur hneigist til að styðja Pírata, lái honum hver sem vill.

Hver er firrtur? (lokaorð)

Ríkisstjórnin er hvað þetta varðar illa firrt enda þekkja ráðherrarnir tæpast þá sem dýpst sukku í fenið.

En Sölvi er ekki síður firrtur, hann neitar að horfast augu við staðreyndir. Það þótt hann sé augljóslega meir en kýrskýr.

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni