Skattar, ofbeldi og Nozick
Pawel Bartoszek, Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Jón Steinsson bergmála gamla frjálshyggjufrasa um
að skattlagning sé ofbeldi. Bergmálið hefur valdið talsverðum taugatitringi en heimspekingurinn Ásgeir Berg Matthíasson svarar því með hófstilltum og yfirveguðum hætti. Hann bendir á að fullt eins megi telja einkaeignaréttinn ofbeldi. Virði maður hann ekki á maður á hættu fangelsisvist eða aðra refsingu. Talið um sköttun sem ofbeldi hafi að forsendu að einkaeignarétturinn sé náttúruréttur, óháður mannasetningum. En engin ástæða er til að telja að svo sé, einkaeignarrétturinn byggir á fremur skynsamlegum mannasetningum. Niðurstaða Ásgeirs Bergs er sú að tómt mál sé að tala um einkaeignrétt óháðan lögum og samfélagi en nákvæmlega það sama gildir um skattlagningu. Ef skattlagning krefst valdbeitingar þá gegnir nákvæmlega hinu sama um einkaeignaréttinn.
Eins og talað úr mínu hjarta. Eða er það ofbeldi þegar menn eru skikkaðir af löggjafanum til að aka á hægri akrein? Af hverju bannar hið illa ríki mönnum að keyra á vinstri akrein eða á gangstéttum?
Sjálfseign og Nozick
Lítum á kenninguna um náttúrulegan (hlutlægan) einkaeignarétt, óháðan mannasetningum (lögum, siðvenjum, samkomulagi). Sú kenning á sér gamlar rætur, m.a. hjá breska heimspekingnum John Locke. Bandaríski heimspekingurinn Robert Nozick dustaði rykið af þessari kenningu og bætti við, boðaði náttúrulegan einkaeignarétt í bókinni Anarchy, State and Utopia (Stjórnleysi, ríki og staðleysa). Burðarásinn í boðskap ritsins er sá að einstaklingar hafi náttúruleg réttindi sem takmarkast aðeins af réttindum annarra einstaklinga (Nozick 1974: Anarchy, State and Utopia, bls. ix). Við eigum okkur sjálf, hendur okkar, augu og sjálf (t.d. Nozick 1974, bls. 206). Réttmætar eigur tilheyri manni með sama hætti og augu hans og eyru. Allt sem menn framleiða úr efniviði sem þeir hafa eignast án valdbeitingar sé þeirra eign. Sama gildi um hluti sem þeir hafa framleitt í samvinnu við aðra svo fremi menn vinni saman af frjálsum, jafnvel fúsum, vilja. Samvinnan sú megi heldur ekki skerða frelsi þeirra sem ekki eiga hlut að máli. Tilkallskenningin
Þessi er grundvöllur kenningar Nozicks um réttlæti en sú nefnist "tilkallskenningin" (e. the entitlement theory). Kjarni hennar er að sá sem eignast tiltekið X í samræmi við réttlætisreglur eigi tilkall til X. X geti til dæmis verið ónumið land sem enginn á tilkall til. Svo gerist að persónan A slær eign sinni á landið án þess að beita aðra valdi (Nozick 1974, bls. 178-182). Þá hafi A eignast landið í samræmi við aflaregluna (e. original acquisition of holdings). Skiptareglan (e. transfer of holdings) kveður á um að menn geti eignast X í samræmi við rétttlætisreglur um skipti. Samkvæmt þeim reglum geti persóna A sem á tilkall til X gefið, selt o.s.frv. persónu B (eða hverjum sem er) gripinn ef A þóknast. B hefur eignast X í samræmi við skiptaregluna þá og því aðeins að B hafi ekki beitt A ofbeldi til að eignast X. Þriðja reglan er reisnarreglan (e. rectification of injustice in holdings). Hlutverk hennar er að leiðrétta ranglæti fyrri tíma. Þriðja reglan er reisnarreglan (e. rectification of injustice in holdings). Hlutverk hennar er að leiðrétta ranglæti fyrri tíma. Kenning Nozicks er nefnilega söguleg. Það þýðir að ekki sé nóg að líta á ástand mála í augnablikinu til að ákvarða hvort dreifing eigna sé réttlát. Saga tiltekinnar eignar skeri úr um hvort meintur eigandi hennar eigi í reynd tilkall til hennar (Nozick 1974, bls. 150-155). Tökum dæmi: Gummi sjoppueigandi gefur Sigga tíkall af fúsum og frjálsum vilja. En hvorugur þeirra veit að Gummi eignaðist tíkallinn vegna þess að þjófur keypti af honum lakkrís. Þjófurinn stal tíkallinum frá listamanni sem lifir á ríkistyrkjum. Því eiga hvorki Gummi, Siggi, þjófurinn né listamaðurinn tilkall til tíkallsins. Nozick snýr út úr frægri Marx-tilvitnun og segir “frá sérhverjum eins og hann kýs, handa sérhverjum eins og hann er kosinn” (“from each as they choose, to each as they are chosen”) (Nozick 1974, bls. 160). Dreifing eigna og tekna sé sem sagt réttlát þá og því aðeins að hún hljótist af frjálsu vali manna, jafnt í fortíð sem samtíð. Enginn, allra síst ríkið, hafi rétt til að breyta þeirri dreifingu þótt hún sé mjög ójöfn og fjöldi manns búi við sult og seyru.
Þversagnir Nozicks
Lítum nú gagnrýnum augum á spekimál Nozicks. Séu Bandaríkin land sem einfaldlega var stolið af frumbyggjum þá eru allar eigur og tekjur Bandaríkjamanna illa fengin. Ekki nóg með það, þá myndu eigur og tekjur Vesturlandabúa (jafnvel flestra jarðarbúa) vera illa fengin því við kæmumst ekki langt án þeirrar tækni sem Bandaríkjamenn hafa skapað. Sama væri uppi á teningnum ef auður vestrænna ríkja ætti sér rætur í nýlenduráni fyrri tíma og/eða ef Vesturlandabúar lifðu á því að arðræna þriðja heiminn. Nozick viðurkenndi að eigur og tekjur manna væru að ekki óverulegu leyti illa fengnar. En honum yfirsást annað mikilvægt atriði sem nýsjálenski heimspekingurinn Susan Okin Moller kom auga á. Ef við eigum allt sem við framleiðum úr eigin efniviði þá hljóta konur að eiga börn sín og geta gert hvað sem þeim lystir við þau, étið þau, selt þau, þrælkað þau o.s.frv. Það þýðir einfaldlega að allir menn eru eign mæðra sinna (Okin Moller 1989: Justice, Gender, and the Family, bls. 74-88). Þannig falla sjálfseignarrökin á eigin bragði, þau leiða til þversagna: menn eiga sjálfan sig algerlega en um leið eiga mæður þeirra þá algerlega. Köllum þetta „þversagnir sjálfseignarinnar“.
Lokaorð
Þversagnakennd rök eru einskis virði, þar af leiðandi eru sjálfeignarrök Nozicks liðónýt. Engin lifandi leið er að grafast fyrir um hvaða eigur og tekjur menn eiga réttmætt tilkall til samkvæmt kenningum Nozicks, engin leið er að beita reglum Nozicks annars staðar en í draumaheimi ofstækisfullra frjálshyggjumanna. Sé ekki til betri aðferð en sú nozickska til að rökstyðja að einkaeignaréttur sé náttúruréttur þá má telja ofbeldiskenninguna um skatta ranga. Að kalla sköttun „ofbeldi“ er álíka gáfulegt og það að kalla alla einkaeign „þjófnað“.
Athugasemdir