Skáldsvanur. Birgir Svan og ljóð hans
Birgir Svan Símonarson er huldumaðurinn í íslenskri ljóðlist. Hann hefur gefið allar sínar bækur út sjálfur, þær eru vart til sölu í bókabúðum og hafa fæstar verið sendar til ritdóma.
En huldumönnum í þjóðsögunum er oft lýst sem hæfileikamönnum, hið sama gildir um Birgi Svan sem að minni hyggju er eitt albesta skáld minnar kynslóðar.
Fyrsta bók hans kom út árið 1975 og fjallaði um veruleika verbúðanna og frystihúsanna. Sama stef og svipuð er að finna í næstu bókum hans. En á níunda tug aldarinnar breytir hann um stíl og viðfangsefni, ljóðin verða persónulegri, ljóðrænni og draumkenndari, mun síður pólitísk og hversdagsleg.
Ljóðið, ástin, stjórnmálin, náttúran, hvunndagurinn og mannlífið í öllum sínum margbreytileika eru Birgi hugstæð. Í kveðskap hans má finna innileika, ekki síst í ástarljóðunum, en líka harðsoðna heimsádeilu og hressilegt háð og skop.
Lítum nú á nokkur meginstef í kveðskap hans.
Að yrkja um ljóðið og bíða eftir orðum
Ljóðlistin er honum hugstæð, í ljóðinu Með bláum handklæðum í bókinni Fjall í hvítri skyrtu frá 2003 yrkir hann svo:
„Ljóðið er fallvatn
sem öskrar á virkjun.“ (bls. 11)
Bæta má við að sum ljóð eru umhverfiseyðandi, rétt eins og Kárahnjúkavirkjun. En ekki ljóð Birgis, þau eru umhverfisbætandi hugvirkjanir.
Birgir yrkir stundum um ljóðskáld og hlutskipti þeirra. Í ljóðinu utandeild í bókinni eftir atvikum (2011) segir:
„sumir segja að ljóðskáld
séu svolítið skrítin
og spili utan deilda…“ (bls. 22)
Síðar í kvæðinu segir um skáldin:
„þau anda ofan í hálsmál
sleikja sólina eins og íspinna
gera vinnu að leik
leik að vinnu…“
Nokkru síðar segir:
„ég hef séð ljóðskáld
breyta sér í lax
synda mót straumnum…“
Enn yrkir Birgir um skáldin í Ljóð í bókinni Stormfuglum frá 1987. Hér birtist það í heild sinni:
„að breyta heiminum
með ljóði
er líkt því
að stöðva hraðlest
með berum höndum
slíkt er aðeins
á færi skálda.“ (bls. 49)
Í ljóðinu Hlutverk ljóðskáldsins í bókinni Laufseglum frá árinu 2000 segist ljóðmælandi bíða
„…eftir orðum
til að múra með
upp í gatið á ósonlaginu
orðunum sem sameinar trúarbrögð
orðunum sem stöðva bráðnun pólanna
og eyða hatri manna
orðum sem lækna sjúkdóma
orðum sem má sitja í eins og rútsíbana.“ (bls. 11)
Og í Þremur línum í ljóðabókinni Tveggja fugla tíst frá 2019 yrkir skáldið svo:
„Ég bíð eftir því að orðin
setjist á línurnar
eins og söngfuglar“ (bls. 10)
Bíða ekki öll skáld slíkra orða? Hefur nokkurt íslenskt skáld ort betur um þessa bið en Birgir?
Nema kannski Hannes Sigfússon, „Djúpt sefur þú í djúpi mínu“ yrkir hann (líklega) um ljóðorðin sem láta bíða á eftir sér (í ljóðinu Vetrarmyndum úr lífi skálda í ljóðabókinni Sprek á eldinn).
Hugvíkkandi ljóð
Góð ljóð geta eflt skynjun manna, fengið þá til að sjá veröldina með nýjum og ferskum hætti. Þau geta víkkað hugann.
Mörg af ljóðum Birgis eruhugvíkkandi og skyneflandi. Raddæfingar í Laufseglum er eitt slíkra ljóða, þar stendur:
„Þessi síða er þerripappír
sem drekkur í sig þúsund tár
í slíkan efnivið má einnig móta bros…“ (bls. 47)
Og síðar í kvæðinu segir:
„Láttu dropa af besta ilmvatninu þínu
drjúpa á síðuna og gefðu bókina
einhverjum sem talar án orða…“ (bls. 48)
Sjá menn ekki blaðsíður í ljóðabókum með nýjum hætti, þökk sé kvæðinu?
Í bókinni Sniglapósti frá árinu 1995 má finna afbragðsgott ljóð sem kallast Næturljóð. Það hefst svo:
„Steinrunna menn kann að dreyma dans
þótt þeir hafi aldrei dansað.
Það skilur þunglynt fjallið
firna vel.
Kviksetta menn kann að dreyma flug
þótt hvorki bjóðist vængur né leiði.
það skilja grettistökin
þykkjuþung…“ (bls 11)
Hér gefst lesanda kostur á að sjá menn og fjöll með nýjum hætti, sjá þau síðarnefndu sem vitibornar verur, þá fyrrnefndu sem dauða hluti. Í ljóðinu Ár svínsins í Sniglapósti yrkir Birgir svo:
„Bara að við gætum einnig
afklæðst holdinu hvunndags
og látið skína í náungakærleikann.“ (bls 19).
Í þessu kvæði hressir Birgir upp á gamla og kannski „banal“ hugsun um að við mættum sýna öðrum meiri umhyggju. Við sjáum þessa hugmynd með ferskum hætti í krafti frumlegrar ljóðmyndar.
Kvæðið Frumefni í Frumefnahatti frá 2016 er sérlega hugvíkkandi. Skáldið spyr hvort allt sem við skynjum sé ljóð ýmissa gerða:
„Ljóð í föstu formi, rennandi eins og vatn, svífandi eins og ský“ (bls. 8).
Gnótt er af frábærum ljóðum í Sniglapósti, í kvæðinu Bara segir:
„Að við gætum setið í myrkri
og borðað nýja uppskeru af grjóti
setið í myrkri og látið kalt vatn
renna um æðar hússins.“ (bls. 16)
Túlka má fyrstu tvær ljóðlínurnar sem tjáningu á þeim draumi að geta gert hið ómögulega. Svipuð hugsun er tjáð í ljóðabálknum Á mölinni í Fjall í hvítri skyrtu:
„þegar ég sit í sjónvarpsstólnum
óska ég mér stundum fjarstýringar
sem skiptir yfir á önnur tilverustig.“ (bls. 37)
Ljóðlistin og tilvist mannsins
Þau ljóð Birgis, sem ég kenni við hugvíkkun, fjalla flest um tilveru mannsins en hann yrkir um hana með ýmsum hætti, ekki endilega hugvíkkandi. Þannig yrkir hann um lífið í Skjól í Fjall í hvítri skyrtu frá 2003:
„Lífið með stórum staf
Er munaður sem veitist ekki öllum
Oft er dauðinn eina skjólið“ (bls. 24)
Svona yrkir hann um æviskeiðin í Þönkum í Áningarstaði augnabliksins (2005):
„Æskan dregur dám af skýjum
ellin sver sig
í foldarætt.“ (bls. 23)
Maðurinn kann að vera einn og yfirgefinn í guðlausum heimi. Birgir segir svo í Heiminum í kverinu Vatnið gengur í svefni (1993):
„sjálfur himnafaðirinn horfinn
án þess að skilja eftir
nýtt póstfang“ (bls. 9).
Í Hávamálum er ort um góðan orðstír sem lifir manninn. Birgir bregður á leik og yrkir svo í Kaffi á kýrunnarstöðum í Fjalli í hvítri skyrtu:
„Í dag var skuggi minn útlægur ger
megi vörn hans verða frækileg
eftirminnileg hans síðustu orð“ (bls. 45)
Hæðnin skín í gegn. Skugginn birtist aftur í Samleið í Sniglapósti:
„Loks geng ég skugga minn uppi
og æ síðan
eigum við samleið“ (bls. 43)
Í sömu bók í ljóðinu Dagur er hæðst að sjálfsblekkingu mannsins:
„Stórkostlegt minnið
geymir aðeins bestu árgangana
í kælum sínum“ (bls. 20)
Gleymskan og minnið togast á í mannlegri tilvist, í Let it be í Laufseglum stendur:
„Tíminn er gras
í skóm gleymskunnar“ (bls. 23)
Náttúran og ferðalögin
Birgi er náttúran hugstæð, einnig yrkir hann talsvert um ferðalög og staði. Í Dagleiðum í Sniglapósti segir frá ferð til Landmannalauga:
„Fuglar breytast í þögn
og gera sér hreiður
í hjörtum manna“ (bls. 24)
Í kvæðinu rölt í eftir atvikum segir:
„ilmur úr blóðbergi
svörðurinn kveður
fífli og sóleyju
saknaðarljóð“ (bls. 10)
Í Gjalddögum má finna þessar ljóðlínur:
„hægt fetar sólin sig
fetar sig hægt niður af himninum
svalt hafið leikur um geirvörtur
hár hennar flýtur drykklanga stund
rauðagull í yfirborðinu“ (bls. 43)
Birgir yrkir líka um heimsóknir til erlendra borga, ekki síst í Áningarstað augnabliksins. Kannski ekki það besta sem hann hefur ort.
Hvunndagur
Birgir hefur afar næmt skyn á töfra hvunndagsins, svo yrkir hann í sömu bók í ljóðinu Í dag (í Laufseglum):
„Rignir hljóðlaust
þessu ósýnilega efni
sem dagar eru sniðnir úr“
Og síðar í kvæðinu:
„Í loftinu fótatak
þess sem aldrei verður“
Eyðum við ekki öll alltof miklum tíma í að hlusta á þetta háværa fótatak?
Í Laufseglum getur að líta skemmtilegt kvæði sem ber heitið Akstur, það hefst svona:
„Í heiðaþokunni hugsa ég gjarna hlýlega
til málaranna sem mála
miðlínur þjóðvega…“ (bls. 12)
Hvunndagurinn er ekki alltaf töfrandi. Í Kennd í kverinu Fótmál frá 1983 segir:
„mannýg herbergi
hafa mig á hornum sér“ (bls. 39).
Menn verða ekki að hafa noju til þekkja þessa kennd.
Hvað er hvunndagur án hvíldar, svefns og drauma? Svona yrkir Birgir í ljóðinu hvíld í bókinni eftir atvikum:
„afklæðist orðum
legg þau frá mér
snyrtilega
eins og föt
undir nótt…“ (bls. 12)
Um svefn og drauma yrkir Birgir í Gjalddögum:
„ég æpi uppúr svefni
Í nótt mun ég þræða
Svitaperlur af enni mér
Uppá ósýnilegan þráð
Og gef henni í morgungjöf“ (bls 37)
Ástin og innileikinn
Ástin gerir vart við sig í þessum ljóðlínum. Ég hef þegar sagt að mörg kvæða Birgis einkennist af innileika, það gildir ekki síst um ástarljóð hans.
Tveggja fugla tíst er ástarljóðabók, í kvæðinu Nánd segir:
„Vildi að við værum
svo náin
að við gætum gengið
gegnum hvort annað“ (bls. 13)
Ljóðið Frjáls faðmlög hefst svona:
„Ég gisti í höfði þér
geng í svefni
síðla nætur
Tek lyftuna niður
í hjartað“ (bls. 12)
Í Laufseglum getur að líta ljóðið Brúðkaupsnótt sem reyndar fjallar kannski helst um brúðkaup manns og náttúru. Þar stendur:
„Við leggjum ekki nafn ástarinnar
við skransölu…“ (bls. 9).
Í Sniglapósti má finna Ástarljóð, þar yrkir Birgir svo:
„Og í stað þess
að hverfa í fjöldann
legði ég kvöldstjörnu
að fótum þér“ (bls. 41).
Í bókinni Fótmál má finna ljóðið Landnám. Það hefst svo:
„við nemum land á holdsins
heitu mörkum“ (bls. 9)
Í Raddæfingum í Laufseglum stendur:
„Síðan geymir afrit
Af vörum þeirra sem þú hefur elskað
Gleymdu ekki að uppfæra“ (bls. 50)
Í Maður í rauðu í Líflínum frá 1985 segir:
„hjartað er fljúgandi diskur
frá ókunnri plánetu“ (bls. 13)
Er ekki ástin undrið eina? Er hún ekki fljúgandi diskur sem nemur fólk á brott, skilar þeim aftur hálfrugluðum? Rétt eins og sá fljúgandi diskur sem Bakkus stjórnar.
Hann stjórnar reyndar hinni síður rómantísku hlið kynlífsins. Birgir lýsir henni með skemmtilegum hætti í Eftir ball í Fótmálum, þar er skyndikynnum líkt við skák, báðir aðilar kunna byrjunarleikina vel rétt eins og stórmeistarar taflsins.
„hratt endataflið
fullnæging formsatriða
í dauðu jafntefli“ (bls. 22).
Snjöll lýsing á því innantóma við skyndikynni. Skáldið gefur okkur kost á að sjá þau með nýjum hætti, sjá þau með gleraugum taflsins.
Heimsádeila, verbúðarlíf og pólitík
Heimsádeilan er hvað skírust í æskuverki hans Gjalddögum frá árinu 1977. Ljóðin mynda eina heild, kvæðabálk, innblásið flæðiljóð þar sem dregin er upp áhrifamikil mynd af naprari hliðum nútímans. Bálkurinn hefst á magnaðri lýsingu á bílferð:
„Í glottandi baksýnispegli
teygja úr sér andfúlar hraðbrautir
bílar tæta með hjartslætti
útúr nývöknuðum úthverfum
Andvari rennir votri túngu
eftir straumlínu bílsins…“ (bls. 9)
Síðar í bálknum segir:
„Þegar ég hrópaði- ég vil breyta bæta bylta
voru þeir langt komnir með að betrekkja fjallgarðana
bursta tennurnar í sjávarhömrunum“ (bls. 35)
Umbótakröfur drukkna í síbylju neyslugræðginnar.
Fyrstu ljóðabækur Birgis voru að mörgu leyti pólitískar, þær fyrstu tvær eru lýsingar á lífinu í verbúð (bækurnar heita Hraðfryst ljóð og Nætursöltuð ljóð, gefnar út 1975 og 1976).
Birgir heggur í sama knérunn í Ljóðum úr lífsbaráttunni (1980) en í Stormfuglum frá 1987 yrkir hann um sjómennskuna, ekki síst hennar hörðu og grimmu hlið. Í Bakborðsmönnum segir að þeir
„vanrækja
tilfinningaskylduna…“ (bls. 26).
Í Sjómenn segir um þá að þeir séu
„rótlausir drumbar
sem velkjast
í úfnu mannhafi…“ (bls. 32).
Ljóðabálkurinn Farvegir frá 1988 er með heimsádeilusniði, þar segir:
„er sjómennska flótti frá raunveruleikanum
eða raunveruleikinn flótti frá sjómennskunni“ (bls. 49)
Ágætis uppgjör við sjómannsrómantíkina sem grasseraði á æskudögum okkar Birgis.
Hvað um það, í Nætursöltuðum ljóðum yrkir skáldið um þrælavinnuna á planinu:
„loðna í máli manna
bátarnir koma af djúpinu
belgfullir
þróarrými á þrotum
vaktavinna í gullgerðinni
skuggaverur skara í auga eldsins
endalausir sólarhringar
menn gleyma hvað þeir heita…“(Silfur hafsins á blaðsíðu 12 í safnritinu Á fallaskiptum, 1989)
Ögn eins og Bubbi án gítars, ljóðabók hans (Bubba) Hreistur fjallar reyndar líka um verbúðarlíf, segja má að hann kveðist á við Birgi.
Þótt vægi stjórnmála hafi minnkað mjög í kveðskap Birgis þá birtast við og við pólitísk ljóð í bókum hans. Ljóðið Stríð í Áningarstaði augnabliksins (2005) er ort í hæðnistóni. Þar segir að okkur beri að fagna gjöreyðingarstríði, heimurinn yrði miklu betri ef mennirnir hyrfu (bls. 19).
Í sömu bók má finna kvæðið Í upphafi var orðið :
„…Berlínarmúrinn var
að stofni til hlaðinn úr orðum“ (bls. 25)
Vel mælt! Orð eru til alls fyrst, líka til að fremja pólitísk ódæðisverk.
Mun beinskeyttara er Opið bréf til Sharons í sömu bók á blaðsíðu 18. Þar er hæðst að stefnu Ariels Sharons og kannski stefnu Ísraels almennt.
Birgir hefur samið talsvert af ljóðrænum örsögum, þær eru margar hugvíkkandi. Í Örsögu 1 í Tveggja fugla tísti segir frá því þegar allt samfélagið er orðið kvótavætt, „…flestum lífsgæðum úthlutað miðað við „veiðireynslu“.“ (bls. 43). Þeir sem hafa yndi af fjallgöngum fá úthlutað „esjukvóta“ og get selt öðrum kvóta að ganga á Esjuna. Hið pólitísk háð leynir sér ekki.
Lokaorð
Steinn Steinarr sagði einhvern tímann um ungskáld síns tíma að það skorti lífshættu í ljóðin þeirra. Birgir er eitt af fáum skáldum minnar kynslóðar sem stundað hefur öll algeng störf til sjós og lands og þekkir lífshættu af eigin raun. Hún er tjáð í lífsbaráttuljóðum hans. Ljóð hans eru mun fjölbreyttari en ljóð flestra meginskálda af sömu kynslóð.
Bestu ljóð Sigurðar Pálssonar eru vissulega meðal þess besta sem ort hefur verið á íslensku síðustu áratugina. En þau er ögn eintóna, sjálfum sér lík, einatt hressileg, sjaldan döpur. Þau eru yfirleitt ekki mjög persónuleg og virðast sjaldnast verulega einlæg.
Birgir hefur fleiri strengi á sinni hörpu. Ljóð hans eru stundum einlæg, stundum fjarlæg, oft persónuleg en stundum hæðin og ópersónuleg. Þau eru á köflum glettin, stundum döpur, við og við pólitísk, oft draumkennd. Og eins og sjá má af tilvitnunum hér að ofan þá má finna í kvæðum hans fallegar og frumlegar ljóðmyndir og myndhvörf.
Svanurinn er ljóðrænastur fugla, Birgir Svan er sannnefndur skáldsvanur.
Athugasemdir