Samvinnuhæfni
Lesendur muna kannski að ég skrifaði færslu um gagnrýni Paul Krugmans á hugmyndina um samkeppnishæfi ríkja. Í þessari færslu hyggst ég velta því fyrir mér hvort vit sé í því að tala um samvinnuhæfni samfélaga. Ætla má að samvinnuhæfni sé lítil í löndum þar sem blóðugar borgarastyrjaldir geisa, mikil í landi eins og Noregi þar sem menn sammæltust um að koma á olíusjóði. Og hafa hefðir fyrir samvinnu á mörgum sviðum, t.d. í mynd svonefnds „dugnad“ sem ekki þýðir „dugnaður“ heldur „sameiginlegt átak“. Sem dæmi um „dugnad“ má nefna að norskir foreldrar mæta einatt um helgar til að vinna fyrir íþróttafélög sem börn þeirra eru í.
Traust, samvinna, hagkvæmni
Eins og áður hefur komið fram í mínum skrifum þá bendir margt til þess að traust í samfélögum sé efnahagslega hagkvæm. Ég hef nefnt rannsóknir norska hagfræðingsins Alexander Cappelens en hann telur mikið traust Norðmanna helstu auðlind þeirra. Hann segir að Rússar væru 70% auðugri ef traust væri jafnmikið þar eystra og í Noregi. Fátt dregur meir úr trausti en efnahagslegur ójöfnuður, a.m.k. ef menn hugsa nokkurn veginn eins og nútímafólk á Vesturlöndum gerir (hugsa má sér mikið traust í ójafnaðarsamfélagi þar sem menn eru aldir upp í því að treysta hinum auðugu í blindni). Ætla má að menn vinni betur saman ef þeir treysta hver öðrum vel, samanber hefð Norðmanna fyrir trausti og samvinnu. Það voru almennar sættir í Noregi um að setja olíusjóðinn á laggirnar. Engir sjálftökumenn sem reyndu að hrifsa til sín góssið, engir frekjuhundar sem heimtuðu að fénu yrði varið til uppbyggingar á uppáhaldssviðum þeirra (frekjuhundanna). Margir Íslendingar þjást af ofurtrú á meintan frjálsan markað, einhverju sinni lenti ég í ritdeiliu við eyjubloggara, gott ef ekki hann Bölmóð sem spáð hefur hruni á Íslandi síðustu sjö ár. Böli karl hélt því fram að ástæðan fyrir betra efnahagsgengi Norðmanna en Íslendinga væri meira markaðsfrelsi í Noregi. Vissulega væri norska ríkið umsvifamikið í efnahagsmálum en Staoil væri rekið eins og einkafyrirtæki á markaði. Gegn þessu er eftirfarandi að segja: Í fyrsta sýna staðtölur ýmissa hægriþankaveitna að markaðsfrelsi sé meira á Fróni en í Noregi, sjá t.d. nýjar tölur frá Heritage Foundation. Í öðru lagi ríkir ríkisfyrirtækið Petero yfir Staoil og öllum olíubransanum norska, ríkissiðanefnd olíubransans hefur líka allmikil völd og hefur neytt Statoil til að hætta við arðbærar en siðlausar fjárfestingar. Í þriðja lagi á ríkið 35% af öllum hlutabréfum í Noregi, í fjórða lagi er landbúnaðurinn nánast ríkisrekinn og fákeppni, jefnvel einokun, á mörgum sviðum o.s.frv. Á velmektardögum kratanna fyrstu árin eftir stríð var stundaður áætlunarbúskapur í Noregi og harðsvíruð haftastefna mörkuð. Lengi var bannað að flytja inn bíla. Samt (eða þess vegna) stóðu Norðmenn sig nokkuð vel efnahagslega eins og sjá má af tölum um verga landsframleiðslu á mann á þessum árum (hér). Var ástæðan mikil samvinnuhæfni? Íslendingur sem dvaldi í Noregi skömmu eftir stríð talaði mikið um öflugan samvinnuanda, menn vildu vinna saman til að reisa landið úr rústum stríðsins. Á sama tíma dældi Kaninn fé yfir Ísland með þeim afleiðingum að samfélagið snarspilltist, sérhver einstaklingur reyndi að kærkja í sem mest amerískt góss. Samvinnuhæfnin fór fjandans til, hafi hún verið einhver fyrir. Lítið á umferðamenningu á Íslandi, alltof margir hamast við að svína með þeim afleiðingum að allir tapa. Í Noregi taka bílstjórar tillit til hvers annars, þeir vinna saman í umferðinni og allir vinna.
Wilson, Noregur, samstaða, sættir
Víkur nú sögunni til bandaríska þróunarlíffræðingsins David Sloan Wilsons. Hann heldur því fram að mikil samstaða Norðmanna gefi þeim efnahagslegt forskot á þjóðir þar sem samstaðan er minni. Þetta er sennilega rétt. En gallinn við boðskap þeirra Cappelens og Wilsons er sá að þeir athuga ekki að kostnaður kunni að vera af trausti og samstöðu. Hinn stóru og miklu horn sem karlkyns hirtir á Írlandi höfðu juku vissulega kynþokka þeirra en voru um leið skaðvænleg. Þau urðu svo þung að dýrin gátu ekki lengur gengið með góðu móti. Er ekki að orðlengja að írsku hirtirnir dóu út. Traust, sáttamenning og samvinnuhæfni Norðmanna leiðir að minni hyggju til minna einstaklingsframtaks og minni metnaðar. Samstaða Svía er heldur minni en Norðmanna sem kann að vera skýringin á því að sænsk einkafyrirtæki eru mun öflugri en þau norsku. Nægir að nefna Spotify, IKEA, Volvo og Hennes & Moritz. Norskir menntamenn eru oft einkennilega metnaðarlausir, margir þeirra fórna akademískum frama fyrir venjulegt norskt líf sem einkennist af skíðagöngum og bústaðarveru. Ég hef ástæðu til að ætla að þetta metnaðarleysi megi finna víða í norsku samfélagi, Norðmenn segja margir hverjir að þjóðina skorti „vinnerkultur“, sigurvegaramenningu.
Lokaorð
Hinar miklu sættir Norðmanna eru forsendur samvinnuhæfni sem er efnahagslega hagkvæm. En það er kostnaður af sáttum eins og öðru, eins og ég hef margnefnt þá hafa sættirnar norsku þrúgandi og kúgandi þætti.
Finna ber kjörvægi milli samvinu og samkeppni.
Athugasemdir