Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Rorty, Hillary og hvítir verkakarlar

 Í lok síðustu aldar skrifaði bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty bók

sem ber heitið Achieving Our Country. Þar átelur hann bandaríska vinstrimenn fyrir að einblína á samsemdarpólitík, málefni kvenna og minnihlutahópa. Þeir krefjist þess að menn  viðurkenni  rétt manna til að vera öðru vísi en hinn meðalhvíti heteró karl.

Það er gott og blessað segir Rorty en þeir gleyma efnahagsmálum, gleyma verkamönnum og hugsa ekki um millistéttina sem berst í bökkum. Og hugsi alls ekki um æ veikari stöðu verkalýðsfélaganna. Til að gera illt verra séu vinstrimenn andsnúnir hvers kyns þjóðernis- og föðurlandshyggju. Það geri þá  óvinsæla meðal almennings.

Tillaga Rortys er sú að bandarískir vinstrimenn dusti rykið af verkalýðsbaráttu með kratísku sniði um leið og þeir gerist hófsamir föðurlandsvinir.

Kosningarnar

Hvað gerðist í nýafstöðnum forsetakosningum? Í merkilegri grein í The Washington Examiner segir að Hillary og teymi hennar hafi hunsað hvíta verkalýðinn. Þegar hún fór í kosningaferðalög til ríkja á borð við Óhió og Pennsylvaníu hafi hún bara haldið fundi í stórborgum þar sem minnihlutahópar eru fjölmennir, en ekki í smábæjum þar sem hvítt verkafólk hefur það skítt vegna þróunar síðustu áratuga.

Gagnstætt Hillary hafi Bill Clinton skilið vandann og tuðað um nauðsyn þess að hyggja að hvítu verkakörlunum. En teymi Hillarys hafi vart hlustað á hann eða afgreitt tal hans sem hjal í gömlum karli. Bill hafi ekki látið segjast heldur farið upp á sitt eindæmi til smábæjanna í ryðbeltinu og haldið þar fund eftir fund. Hann hafi í ræðum sínum  sagst skilja vanda þeirra enda sjálfur alinn upp á svipuðum slóðum. Allt kom fyrir ekki, Hillary og teymi hennar voru handviss um að leiðin til sigurs væri að benda á galla Trumps og láta konur og minnihlutahópa fylkja liði með Hillary.  Því fór sem fór.

Lokaorð

Rorty dó fyrir níu árum. Ætli hann sitji einhvers staðar fyrir handan og tauti "hvað sagði ég?"

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni