Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Roll over, Chuck Berry! Beethoven 250 ára

Muna menn teiknimyndasögurnar um Charlie Brown og vini hans? Ein persónan var smástrákurinn Schroeder sem alltaf spilaði á píanó og beið spenntur eftir afmælisdegi Beethovens. Hann ku vera þann 16 desember. En ég hyggst taka forskot á sæluna og hylla meistarann því á þessu ári verða 250 ár síðan hann fæddist.

Honum var stirðari um stef en Mozart og þurfti ekki mikið til. Tónlist hans hefur ekki sama flæði og léttleika og tónlist Mozarts, hún er ekki   eins heiðrík og tónlist Bachs. En  Beethoven var jafnvel frumlegri en þessir tveir meginsnillingar, tónverk hans  einkennast af sjálfstjáningu sem var ný í tónlistarsögunni.

Athugið hikið í sumum tónverkum, t.d. í byrjun Für Elise,  það er eins og píanóleikarinn sé að velta fyrir sér hvernig halda eigi áfram. Alveg nýtt og frumlegt, rétt eins og þær miklu andstæður sem finna má í verkum hans, andstæður sem virðast endurspegla andstæður í persónuleikanum.

Enda Beethoven barn nýrra tíma, tíma einstaklingshyggju, frumleikahyggju  og borgaralegra samfélagshátta. Þetta þrennt var samofið.

 Josef Hayden, sem var kynslóð eldri en Beethoven, var eins konar hirðtónskáld hins volduga ungverska aðalsmanns,  furstans Nicolas von  Esterhazy. Hann var skuldbundinn til að semja tónlist við ýmis tækifæri, gott ef ekki á afmælisdegi gæludýra furstans.  Þess utan  bjó hann  í höll furstans, Esterhaza, en sá átti næstum hálft Ungverjaland.

En samningar Beethovens voru annars eðlis, í þeim kemur fram mikil lotning fyrir hinum innblásna snillingi. Samningsaðilar þakka innvirðulega fyrir að mega njóta snilldar hans.

Göfgar sígild tónlist menn, skána menn við að hlusta á Beethoven? Ekki skorti Hitler og félaga hans áhuga á klassískri tónlist, ekki síst tónlist hins meinta germanna, Beethovens. Þarf að segja að hún hefur tæpast göfgað þá?

Í Clockwork Orange, bæði bók og mynd, fær þorparinn Alex innblástur til illra verka í tónlist tónsnillingsins  sem hann kallar „Ludwig van“. Sem sagt Beethoven.

Líkast til eru áhrif tónlistarinnar bundin  við persónuleika hvers og eins.

Alla vega var Chuck Berry skemmtilega ögrandi á sínum tíma þegar hann í lagi sínu Roll over Beethoven lýsti frati á Beethoven og sinfoníur og boðaði trú á rokk og rull. Samt er sígild tónlist, ekki síst sú sem Beethoven samdi, margþættari og dýpri en önnur tónlist.

Með fullri virðingu fyrir rokki getum við sagt og sungið með sann: „Roll over Chuck Berry!“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu