Raforkan og frjálshyggjan (annarlegir hagsmunir, heimskulegar hugsjónir)
Stundin birtir í dag napra úttekt á íslenskri auðlindastöðu: Ef við hefðum auðlindurentu að norskum sið yrðu orkufyrirtæki að borga sjö milljarð krónur á ári. Í stað þess eru skattar stöðugt lækkaðir á fyrirtæki sem að auki flytji arðinn úr landi með klækjum. Ekki virðist slík auðlindastefna ríða fyrirtækjum í norskum raforkuiðnaði á slig. Því má ætla að fyrirtæki starfandi á Íslandi séu fullfær um að borga auðlindarentu.
Annarlegir hagsmunir
Oft er talað eins og annarlegir hagsmunir einir hafi ráðið stefnu stjórnvalda í þessum málum. Það er sennilega að einhverju leyti rétt, Kárahnjúka-uppákoman mun hafa verið byggðastefnurugl og tilraun Framsóknar til að kaupa atkvæði á kostnað skattgreiðenda. Orkan var seld erlendum stórfyrirtækjum á spottprís um leið og fallegri náttúru var spillt. Fleiru var kannski spillt, sumir segja að erlend stórfyrirtæki hafi hreinlega keypt sér talsmenn á Íslandi, ekki sel ég það dýrara en ég keypti það. Ekki heldur þá staðhæfingu að sumum stjórnmálamönnum hafi einfaldlega verið mútað af stórfyrirtækjunum.
Heimskulegar hugsjónir
En ég held samt að hugsjónir, nánar tiltekið frjálshyggju-kreddutrú hafi ráðið miklu. Ráðamenn virðast í fúlustu alvöru hafa trúað á brauðmolakenningu frjálshyggjunnar: Fái stórfyrirtækin gott rekstrarumhverfi og lága skatta munu allir Íslendingar fá bætt kjör fyrir vikið. En reynslan sýnir annað, ekkki nýtur íslensk alþýða arðs sem komið er úr landi með bellibrögðum.
Önnur kredda sem pólitíkusar virðast trúa á er frjálshyggjukenningin um dásemdir hnattvædds markaðar. Álfyrirtækin eru hnattvæddir markaðsgerendur og því ætti starfsemi þeirra að vera öllum í hag samkvæmt kenningunni.
En frjálshyggjumennirnir skilja ekki mikilvægi ósamhverfni í aðgengi að upplýsingum og valdi. Álfyrirtækin hafa getað blekkt Íslendinga vegna þess að þau hafa betri aðgang að upplýsingum um hvernig snuða megi skattayfirvöld og að auki vald til framkvæmda. Fyrirtækin eiga líka nógan auð til að múta valdhöfum. Ósamhverfnin og mútuvaldið gerir að verkum að tómt mál er að tala um frjálsan markað, slíkur markaður er vart framkvæmanleg draumsjón.
Norðmenn eru kratar fram í fingurgómana og því ekki ginnkeyptir fyrir frjálshyggjukreddum. Það er ein meginástæða þess að þeirra raforkustefna er skynsamlegri en sú íslenska.
Lokaorð
Annarlegir hagsmunir og heimskulegar hugsjónir eru miklir skaðvaldar. Einkum og sérílagi þegar hvorttveggja kemur til.
Athugasemdir