Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Oops, I did it again...Kommar gera sömu mistökin aftur og aftur (fyrri hluti)

Friðmey Spjóts (Britney Spears) söng sem frægt er orðið í orðastað stelpunnar sem gerði sömu mistökin aftur og aftur, lék sér að hjörtum pilta.

Æði margir vinstrisósíalistar eru andleg skyldmenni stelpugæsarinnar. Þeir lágu flatir fyrir alræðisherrum og fjöldamorðingjum á borð við Stalín og Maó, hlustuðu ekki á gagnrýni en kokgleyptu áróður alræðisins.

Í landi Kremlarbóndans, Stalíns,  væri „líbblegur litur í túni/og  laukur í garði hans“  kvað einn þeirra, Halldór Laxness.

Og hvað gera vinstrisósíalistar nútímans? Þeir verja sumir  einræðisherra á borð við Assad, Maduro og Pútín, Kremlarbóndann  nýja.

Í þessum fyrri hluta ræði ég fyrst hneigð margra kommúnista til að bera í bætifláka fyrir Pútín enda rímar nafnið við Lenín og Stalín. Þá kemur röðin að fasisma í Evrópu austanverðri.

Svo lýkur fyrsta hlutanum með tilraun minni til að hrekja kenninguna um að NATÓ ógni Rússlandi.

Í síðari hlutanum er marxismi og hugtakið um heimsvaldastefnu til umræðu.

Af gömlum vana beini ég sjónum mínum að Þórarni Hjartarsyni í báðum hlutunum einnig kemur skoðanabróðir hans Jón Karl Stefánsson nokkuð við sögu.  

En áður en lengra er haldið skal tekið skýrt fram að fjöldi vinstrisósíalista lætur ekki blekkjast af rússneskum fagurgala heldur tekur   einarða afstöðu gegn innrásinni.

Einnig skal bent á að fjöldi hægrimanna flatmagar fyrir einræðisherranum í Kreml.

 Pútín í stað Stalíns og Maós.

Eins og sönnum kommúnista sæmir slær Þórarinn  aldrei neina varnagla, sýnir engin merki um efasemdir.

Hann talar eins og sá sem valdið hefur,   svo vitur að hann þarf yfirleitt ekki að rökstyðja mál sitt. Eins og fleiri af sama sauðahúsi er hann  vissan holdigervð.

Hann   skrifar af illa dulinni hrifningu um Pútín sem hafi komið festu á rússneskt samfélag og losað það undan amerísku ofurvaldi.

Ekki eitt orð um að olígarka-arðránið hélt (og heldur) áfram, vel mögulega með virkri þátttöku Pútíns sjálfs.

Ekki neitt um efnahagslega stöðnun landsins á síðustu tíu árum.

Ekki stafkrókur  um það hvernig harðstjórinn  lagði Tséténu  og Aleppó í eyði.

Gott dæmi um endurtekningaráráttu vinstrisósíalista, fyrr á árum þögðu kommúnistar um illvirki framin í kommúnistaríkjunum.  „Við héldum að Eyjólfur myndi hressast“ sagði nóbelsskáldið frá Laxnesi.

Skylt er að geta þess að sumir  hægrimenn þegja einatt um skammarstrik Vesturlanda eða verja með ómerkilegum útúrsnúningum.  

Einnig ber að nefna að strangt tekið hefur Þórarinn fordæmt innrás Rússa en flýtt sér að segja að  hún væri  „eiginlega“ sök Bandaríkjanna (ég hef áður svarað þessari kenningu Þórarins). 

Að skella skuldinni á Kanana er gamall kommakækur. Hann hefði gott af að lesa bók Önnu Politkovskaju um stríðið í Teséténu, Ferð til helvítis (Politkovskaja 2001).

Þar lýsir hún því hvernig her Voldemorts  Pútíns óð um landið myrðandi, rænandi og nauðgandi, rétt eins  og hann gerir nú í Úkraínu.

Norski liðsforinginn Jørn Buø  þekkir her þennan vel eftir margra ára starf sem hersendifulltrúi (no. militærattaché) í Rússlandi. Hermenn séu aldir upp í ofbeldismennsku og farið sé með nýliða eins og dýr enda ríki algert stigveldi í hernum.

Vegna þessa  hegði þeir  sér sem dýr á vígvellinum.

Sósíalistanum Þórarni dettur ekki í hug að nefna að margir telja að Pútín harðráði  hafi sölsað undir sig gífurlegan auð.

Fyrrum náinn samstarfsmaður hans, hinn svonefndi, „bankastjóri Pútíns“,  Sergei Púgasjóv, segir græðgi, öfund og ósannsögli  meginþættina  í skapgerð hans. Hann hafi í upphafi feril síns heimtað 200 milljónir dollara í mútur vegna ólíusamninga.

Bandaríski viðskiptahöldurinn, Bill Browder, heldur því fram að Pútín og félagar hans hafi stolið billjón (e. trillion) dollurum (þúsund milljörðum!) frá rússneska ríkinu.

En þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti það, ég veit ekki hvort til séu haldbærar sannanir fyrir fullyrðingum Browders og Púgasjóvs.

Nefna má að í bók sinni um Pútín segjast þau Fiona Hill og Clifford Gaddy ekki vera viss um að Pútín sé þessi margfaldi milljarðarmæringur sem hann er sagður vera  (Hill og Gaddy 2015).

Kannski er valdið  sá eini auður sem hann girnist.

Mayday og Maidan.

Þórarinn og Jón Karl Stefánsson afgreiða  Maidanuppreisnina í Kænugarði sem lið í heimsvaldastefnu Bandaríkjanna.

En hvaðan skyldi þessi skoðun vera ættuð? Beint og milliliðalaust frá Kreml, að éta frasana ómelta upp úr Kremlverjum er gamall kommakækur.

Einu heimildirnar sem Þórarinn  vitnar í er upptaka af samtali bandarísks sendiherra við undirkontórista í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Þau ræða hvaða stjórnmálamenn væru æskilegir  meðal forystumanna  landsins.

 Timothy Snyder túlkar samtalið svo að þau hafi gert ráð fyrir því að Rússaleppurinn Viktor Janúkevitsj yrði áfram forseti en hinir „æskilegu“ fengju sæti í stjórn.

Þórarinn virðist halda að  samtalið  sanni að Kanar hafi ráðið því hverjir tækju við af honum. En þetta sannar í besta lagi  að Bandaríkjamenn vildu minnka áhrif Rússlands í landinu og auka sín eigin, aukin áhrif er ekki það sama og alveldi.

Samtalið sannar alls ekki að Bandaríkjamenn hafi stjórnað Maidanuppreisninni.

Hvers vegna vildi Obama ekki senda Úkraínumönnum vopn eftir hernám Rússa á Krímskaga og Donbass? Hefði Maidanuppreisnin verið liður í meintu heimsvaldabrölti Kana þá hefði hann styrkt her þeirra með ráðum og dáð. 

Eða hvers vegna tóku hundruð þúsundir manna þátt í uppreisninni? Var allur þessi fjöldi á mála hjá hinu illa ameríska auðvaldi?

Og af hverju kusu Úkraínumenn gegn Rússaleppum í kosningunum á árunum eftir uppreisnina? Bendir það til þess að þeir allir, tugir milljóna manna,  hafi verið á launaskrá  hjá CIA?

Eða kannski frekar til þess að Maidanuppreisnin hafi verið sönn alþýðuuppreisn, uppreisn gegn gjörspilltum, stjórnlyndum,  stjórnmálamanni sem var Rússadindill og því landráðamaður af verri gerðinni?

Alla vega segir Snyder það, víðfrægur sagnfræðingur  sem er læs á rússnesku, pólsku og úkraínsku (Snyder 2018:125-131).  

Eftir fall Janúkevitsj var almenningi boðið í skoðunarferðir um hallir hans sem hann hafði eignast fyrir almannafé.

Á Maidan sendu Úkraínir „mayday“ til heimsins, svo slæmt var ástandið í landinu.  

Síðara heimsstríð og fasismi hér og hvar.

Þórarinn  talar eins og Rússland eitt hafi löggiltra öryggishagsmuna að gæta, ekki þau fyrrum kommúnistaríki sem leituðu skjóls hjá NATÓ af ótta við Rússa.

Þessa öryggishagsmuni  Rússa verði að skilja í ljósi síendurtekinna innrása í landið, innrás Hitlers hafi kostað 27 miljónir þeirra lífið.

En hann gleymir því að Úkraína og Hvítarússland voru líka fórnarlömb innrásarinnar, 5-7 milljónir Úkraínumanna féllu í stríðinu, 2.2. milljónir Hvítarússar.

Í ljósi þessa hljóta Úkraínumenn að hafa jafnmikilla öryggishagsmuna að gæta og íbúar hins heilaga Rússlands. Ekki síst vegna þess að þetta er ekki fyrsta innrás Rússa í landið.

Bæði réðust þeir 2014 og eins um 1921 þegar þeir eyðilögðu hið sjálfstæða Úkraínuríki sem varð til 1918, fyrst kannski mest sem þýskt leppríki, síðar sem sjálfstætt ríki. 

Á stríðsárunum  reis sjálfsstæðisher Úkraínu sem barðist bæði við Þjóðverja og  sovéska skæruliða (heimild mín er Encyclopedia Britannica, ögn traustari heimild en þeir Þórarinn).

Þetta sýnir að sjálfsstæðissinnar í Úkraínu voru  margir hverjir andsnúnir Þjóðverjum, þótt sumir hafi verið  nasistum hliðhollir  framan af, jafnvel lengur.

Samkvæmt Britannicu héldu ýmsir Úkraínumenn, sérstaklega í vesturhlutanum, að Þjóðverjar væru bandamenn þeirra gegn Póllandi og Sovétríkjunum.

Úkraínumenn höfðu harma að hefna gegn Moskvuvaldinu sem olli  skelfilegri hungursneyð með því að ræna úkraínska bændur afurðum sínum.

Þeir  kalla mannfellir þennan „Holodomor“  en um 3 1/2 til 5 milljónir  dóu úr hungri. Kalla má yfirgang Rússa í dag „hinn nýja Holodomor“.

Samkvæmt fréttum stela þeir korni og landbúnaðarvélum að gömlum, stalínískum og nasískum  sið (nasistar óðu stelandi og myrðandi um Evrópu, Rússaher fetar í fótspor þeirra).

Nýlega sagði þýska vikuritið Der Spiegel að skósveinn Pútíns, rússneskur ráðherra,  hefði sagt beinum orðum að héðan í frá yrðu Úkraínumenn að borga fyrir rafmagn frá úkraínsku kjarnorkuveri sem Rússar hafa lagt undir sig.

Svona hegða bíræfnir þjófar sér, heimta að fórnarlamb þjófnaðarins borgi þjófunum!

Rússar eru sagðir hafa flutt 1.2 milljónir Úkraínumanna nauðungarflutningum til Rússlands, Stalín og Hitler hefðu ekki getað gert betur.

Víkjum aftur að stríðsárunum. Það kom fljótlega á daginn að nasistar  vildu gera Úkraínumenn að þrælum, drepa eða reka stóran hluta þjóðarinnar úr landi.

Þýskir landnemar áttu að taka yfir, öðlast „Lebensraum“, þ.e. landrými, sem var hinn voti draumur nasista. Þetta olli því að sjálfsstæðissinnar snerust flestir gegn nasistunum.

Stepan Bandera var einn þeirra sem trúði því ranglega að Þjóðverjar myndu stuðla að úkraínsku sjálfsstæði. Hann komst því í ónáð hjá nasistunum sem stungu honum í fangelsi.

Þrátt fyrir það  hefur  Bandera líklega verið e.k. fasisti, eins fylgismenn hans margir hverjir. 

En hið sama gildir um uppáhaldsheimspeking Pútíns, Ivan Iljín. Hann mun hafa staðið fyrir því að jarðneskar leifar Iljíns  yrðu fluttar til Rússlands og lagði blómsveig á gröf hans (Snyder 2018: 58-59).

Sá  boðaði nokkurs konar trúarlegan fasisma sem skipaði rússnesku þjóðinni í hásæti, hún væri útvalin þjóð og ávallt saklaus, allt illt væri öðrum þjóðum að kenna.

Þetta „rökstuddi“ hann m.a.  með furðulegum pælingum um að hið eina góða sem til hafi verið væri heildin sem til var áður en Guð tók upp á þeim ósóma að skapa heiminn. Með því hefði hann mölvað hin eina, sanna altæka sannleika.

Mannheimar væru brotakenndir og tilraunir manna til skapa heild væru dæmdar til að mistakast  (orðið „þvæla“ á vel við þessi ósköp).  

Rússland væri sérstakt land, handan tímans (!!!), því landi skyldi stjórnað af alvöldum, útvöldum,  einstakling. Það var því tæpast tilviljun að Iljín, uppá haldið hans Pútíns,     fagnaði valdatöku nasista í Þýskalandi.

Samt hvetur af-nasistavæðarinn og senditík Pútíns, Dmitri Medvedev, rússneska æsku að lesa þennan hrylling.

 Önnur senditík sama harðstjóra, Valerí Súrkov,  mun  hafa nútímavætt „kenningar“ „heimspekingsins“. Til að gera illt verra munu „úrvals“-rit Iljíns hafa verið gefin öllum meðlimum Pútínflokksins og sérhverjum ríkisstarfsmanni í landinu   (sjá t.d. Snyder 2018: 16-35 og víðar).

Snyder gengur svo langt að telja stefnu Pútíns vera  mjög í anda hins fasíska Iljíns (Snyder er sérfræðingur í sögu Rússlands og Austur-Evrópu).

Reyndar nefnir hann til sögunnar fleiri fasíska „hugsuði“ sem áhrifavalda á Pútín.  Einn þeirra er enn á meðal vor, Alexander Dúgin ( Snyder 2018: 88-90). Hann boðar fasisma beint og milliliðalaust.

Svo  segir í enskri þýðingu á grein hans: „In distinction  to rigid Marxist-Leninist dogmas, Russian national socialism proceeds from an understanding of social justice which is characteristic exactly for our nation, for our historical  traditions, our economic ethics“ (Dúgín 1997).

Það fylgir sögunni að rússneski hershöfðinginn Andrei Vlasov,  sem var stríðsfangi Þjóðverja, afréð að berjast með þeim. Hann skipulagði rússneskan her sem taldi 1 ½ milljón manns og barðist gegn Sovétmönnum.

„Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“, Þeir Þórarinn og Jón Karl   ættu að tala  minna um meintan fasisma í Úkraínu og beina sjónum sínum að þeim  rússneska.

Þórarinn  vænir Úkraínumenn um nasistadaður en nefnir engar heimildir fyrir máli sínu, Jón Karl myndast þó við tilvísanir í heimildir.

Alltént segist Pútin vilja af-nasistavæða Úkraínu en skerðir ekki hár á höfði rússneskra heil- eða hálfnasista, t.d. meðlima hreyfingarinnar Rússneska heimsveldið (e. Imperial Russia Movement).

Hvað þá á höfði  Wagnerhersins   en hann mun  skírður í höfuðið á uppáhalds tónskáldi Hitlers.

Stofnandinn, Dmitri Utkin, er sagður  hafa nasískar skoðanir en sést hefur til hans á myndum af boðum í Kreml, samkvæmt nýlegum heimildarþætti um  Wagnerherinn.

Í þættinum er staðhæft að hernefna þessi sé  hluti af valdavél Kremlbóndans.

Þórarinn býsnast yfir því að Jón Trausti Reynisson skuli leyfa sér  þá ósvinnu  að líkja Pútín við Hitler.

En ég rökstuddi kerfisbundið í nýlegri færslu að vel mætti kenna Pútín grimma við fasisma og vitnaði í heimildir sem sýna hvernig hann hefur daðrað við fasisma illans Iljíns og dólgsins  Dúgíns. Snyder er sama sinnis.

Þórarinn  og Jón Karl mega mín vegna kvaka til eilífðarnóns um meintan nasisma í Úkraínu. Sá hefur löngum verið plagsiður kommúnista að klína  nasistastimplinum  á ólíklegasta fólk. Án raka, án sannana.

En Þórarinn  hefði getað nefnt ýmsar heimildir máli sínu til stuðnings,  ekki er laust við Úkraínumenn hafi daðrað við minningu Banderas.

Í Lviv getur að líta  styttu af honum, þar í borg og í Kænugarði eru stræti skírð í höfuðið á honum og er það Úkraínumönnum til lítils sóma.

Þeim til varnar skal bent á að hægriöfgamenn hafa nánast ekkert fylgi í landinu, fengu minna en 3% atkvæða í síðustu þingkosningum (meiri en helmingur Rússa styður fasista-Führerinn  í Kreml).

 Það bendir til þess að daðrið við Bandera eigi sér þjóðernislegar, ekki nasískar rætur.  Kannski gildir slíkt hið sama um daður Pútíns við Iljín og Dúgín.

Kannski trúir hann bara á mátt sinn og meginn.

 NATÓ engin ógn við Rússland!

Þórarinn hefur ekki fyrir að nefna þessar staðreyndir en býsnast þess meir yfir meintri útþenslu NATÓ og meintri ógn við hið heilaga Rússland.

Því er til að svara að fyrir 2014 voru engir erlendir NATÓ hermenn í Eystrasaltsríkjunum. Fyrir ári  var tala þeirra  segi og skrifa rúmlega 3000. Nær má geta hvort þeir hafi getað ógnað hinu heilaga Rússlandi.

Eftir innrásina fjölgaði þeim nokkuð og eru nú 7700 talsins (en kannski auðvaldið falsi tölurnar, hann Þórarinn þekkir vélabrögð þess öðrum mönnum betur).

Meðan ég man, árið 2019 voru hvorki meira né minna en 5000 erlendir NATÓ hermenn í Póllandi, augljóslega mikil ógnun við Rússland.

Þeir hefðu bara þurft að leggja Hvíta-Rússland fyrst undir járnhæl BNA og þramma svo til Moskvu. 

Að gamni slepptu þá skal minnt á það sem segir fyrri færslu um rök  Mary Elise Sarotte  fyrir því að því að NATÓ hafi aldrei lofað Rússum því að fyrrum kommaríkjum yrði hleypt inn í bandalagið (Sarotte 2021).

Mikael Kasjanov, fyrrum forsætisráðherra Pútíns, segir að hann viti mæta vel að NATÓ ógni Rússlandi ekki. Allt hjal Pútíns um slíka ógn sé yfirvarp eitt.

Ekkert bendir til þess að rússneskumælandi fólki sé mismunað í Úkraínu, forsetinn hefur jú rússnesku að móðurmáli.

Athugið líka staðhæfingar rússnesku áróðursvélarinnar um að Úkraínuher beri ábyrgð á dauða 14000 óbreyttra borgara í Donbass á árunum 2014 til 2022. 

Sameinuðu þjóðirnar segja þetta rangt, 11000 hinna föllnu hafi verið hermenn rúmur helmingur Rússar, tæpur helmingur Úkraínumenn. 

Sama heimild, Sameinuðu þjóðirnar sögðu árið 2017 að 1.8 milljón Donbassbúa hafi flúið til hinna hluta Úkraínu, bara 600000 til Rússlands. 

Segja má að Donbassbúar hafi með þessu greitt atkvæði með  fótum, með áframhaldandi aðild að Úkraínu. 

Í þættinum um Wagnerherinn segir rússneskur  Wagnerliði að hann hafi barist í Donbass löngu fyrir innrásina.

Snyder segir að 2014 hafi Donbass verið tekinn yfir af her Kremlarbóndans sem hafi skotið á Úkraínuher með eldflaugum frá Rússlandi sjálfu.

 Þegar 2014 hafi  rússneski herinn komið sér fyrir í Donbass en þóst vera mannaður innfæddum. Rússneskur ríkisborgari hafi verið gerið fylkisstjóri í öðru fylkjanna.

Og hópur Rússa í Donbass hafi opinberlega viðurkennt að vera meðlimir leyniþjónustu rússneska hersins, GRU (Snyder 2018: 169).

Sé þetta rétt höfðu Úkraínumenn fyllsta rétt til að verjast þegar 2014 og gera loftárásir á hið hernumda Donbass.

Í ljósi þess sem hér segir má ætla að hin raunverulega ástæða Pútíns sé önnur en þær  sem hann nefnir. Hann hefur hvað eftir sagt að Úkraínumenn væru ekki eiginleg þjóð heldur Rússar, hann fór þegar að syngja þann söng fyrir áratug (Snyder 2018: 111-112 og víðar).  

Einnig hafi hann sagt í tímaritsgrein að stofna skyldi Evrasíubandalag  sem  næði frá Vadivostok til Lissabon og lúta skyldi  rússneskri forystu  (Snyder 2018: 82).

Hafi hann meint það sem hann sagði þá getur draumurinn um þetta makalausa bandalag ekki kallast annað en „heimsvaldastefna í anda Hitlers“

(Þórarinn staðhæfir án raka að Kanar stefni að heimsyfirráðum en Snyder vitnar beint í heimsyfirráðaskrif Pútíns í tímaritsgrein!).

Enda virðist frummarkmið innrásarinnar hafa verið Anschluß, að  fá Úkraínu heim ins Reich (þessa frasa notuðu nasistar um innlimun Austurríkis í Þýskaland).

Harðstjórinn í Kreml varð að gefast upp á því í bili og jarmar nú um nauðsyn þess að hernema Donbass. Stríðið gæti verið tæki hans til að leiða athygli Rússa frá efnahagslegri stöðnun og gríðarlegri misskiptingu auðs.

Snyder  segir að Pútín viti að hið gjörspillta Rússland geti aldrei keppt við Vesturlönd hvað lífsgæði varðar.

Hann bregði því á það ráð að reyna að veikja þau sem mest til að gera stjórnkerfi þeirra sem minnst aðlaðandi fyrir þegna sína. Annars væri voðinn vís, Rússar gætu fundið upp á þeim ósóma að heimta lýðfrelsi, réttarríki og minni ójöfnuð! (Snyder 2018: 196 og víðar).   

Kenning Snyders er umhugsunarvekjandi en ekki studd reynslurökum fremur en flestar staðhæfingar Þórarins og Jóns Karls. 

Alla vega er harðstjóranum  líkast til illa við lýðræðisþróun Úkraínu. Þrátt fyrir alla sína miklu galla er Úkraína mun frjálsara samfélag en Rússland.

Þórarinn  gerir mikið úr því að þrír kommúnistaflokkar voru bannaðir árið 2015. En nefnir ekki að þeir voru bannaðir á þeim forsendum að með því að styðja aðskilnaðarsinna hafi þeir framið landráð.

Auðvitað gæti þetta verið yfirvarp, um það skal ekki dæmt.

Þórarinn  segir að stjórnarandstaða sé nánast engin í landinu. Staðreyndin er sú að helsti stjórnarandstöðuflokkurinn var hálfvegis bannaður eftir innrásina að þeim forsendum að hann væri innrásarmönnum hliðhollur.

En þingmenn hans sitja enn á þingi en hafa endurskírt flokk sinn.

Alla vega er eðlilegt að banna eða takmarka starfsemi fimmtu herdeildar í landi sem verst innrásarher.  Samt  verður ekki útilokað  að um átyllu  hafi verið að ræða, Úkraínumenn eru ekki hafnir yfir gagnrýni fremur en aðrir.

Enda er þjóðin, rétt eins og sú rússneska, þjökuð af spillingu. Meðal beggja þjóða  vaða olígarkar uppi en Rússland er einræðisríki, ekki Úkraína.

Samkvæmt nýjum tölum Reporters without Borders  er prentfrelsi ekki upp á marga fiska í Úkraínu, landið er í 106 sæti hvað slíkt frelsi varðar.

En í Rússlandi sé  prentfrelsi enn minna, landið er 155 sæti.

Einnig kemur munur landanna fram í herum þeirra. Rússneski ofbeldisherinn er algerlega miðstýrður. Þjóðfrelsisher Úkraínu einkennist af valddreifingu sem gerir hann mun þjálli en ofbeldisherinn.

Lokaorð fyrri hluta.

Kommum gengur illa að venja sig að vissum kækjum, t.d. þeim að verja einræðisherra sem eru Vesturlöndum andsnúnir.

Einn þeirra er harðstjórinn Pútín en flest bendir til að innrás hans í Úkraínu sé liður í hreinni landvinningastefnu.

Þórarinn og Jón Karl býsnast yfir meintum fasisma í Úkraínu en sjá ekki hreinræktaðan fasisma í stefnu Kremlarbóndans.

Snyder aftur á móti gerir kannski of mikið úr hugmyndafræðihlneigð  Pútíns, of lítið úr mafíumennsku og nakinni valdafíkn.

Samt er Snyder talsvert traustari heimild en þeir Neistabræður. Þeir kokgleypa rússneskan  áróður um að NATÓ ógni Rússlandi.

En þessu er öfugt farið, Rússland ógnar NATÓ.

Komma-gjamm í stórum skömmtum er fram úr hófi þreytandi.

Heimildir

Dúgín, Alexander 1997: „Fascism-Borderless and Red“ https://www.linkedin.com/pulse/syrizas-moscow-connection-fascism-borderless-red-dugin-umland   Sótt 9/4 2022.

Halldór Laxness  1949: „Kremlbóndinn“, í Kvæðakveri. Reykjavík: Helgafell, bls. 97-98.

Hill, Fiona og Gaddy, Clifford 2015: Mr. Putin: The Operative in the Kremlin. Brookings Institution Press.

Politkovskaja, Anna 2001:   En reise i helvete. Rapport fra krigen i Tsjetjenia. Ósló: Pax forlag.

Sarotte, Mary Elise 2021: Not an Inch: The Making of the America Russia Post-Cold War Stalemate. Yale University Press.

Snyder, Timothy 2018: The Road to Unfreedom. Russia. Europe. America. New York: Duggan Books. 

Auk þess ógrynni af netheimildum, þ.á.m. greinar eftir Þórarinn og Jón Karl.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SH
    Sveinbjörn Halldórsson skrifaði
    Stórgóð grein, en hugurinn hvarflar til heimskunnar og undarlega vegu hennar. Það er óskiljanlegt að gamlir kommar styðji valdhafanna í Kreml. Hafa þeir misst af einhverju frá því þeir seldu Stéttabaráttuna? Ríki Pútíns einkennist af hrottaskap hinna ríku, fátækt fólk í Moskvu býr á ruslahaugum. En líkt eins og þeir séu forritaðir eru þeir tilbúnir að verja hrunið hugmyndakerfi í andstæðri mynd. Maður sá auðvitað kúnstir heimskunnar í faraldrinum, og svo þetta! Við erum smám saman að uppgötva, kannski með yfirvegaðri hætti en áður að heimskan er raunverulegt og eyðandi afl.
    1
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Vel mælt, Sveinbjörn. Já þetta er undarlegur andskoti. Heimskan virðist eflast í réttu hlutfalli við aukið upplýsingamagn.
      0
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Með virðingu fyrir ykkur báðum.
    Þá myndi ég kjósa þig Sævra sem arftaki Jóhannesar Björns til að skrifa í hanns anda.
    En auðvita á þínum egin forsendum.
    Það sem gerir þig og J.B. aftirtektarsama er að þið vitnið ávalt í heimildir sem eru ÖLLUM aðgengilegt.
    Ekkert bullshit egin skoðun.
    Kv: SSS
    1
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Bætti þessu inn í færsluna:
    Nýlega sagði þýska vikuritið Der Spiegel að skósveinn Pútíns, rússneskur ráðherra, hefði sagt beinum orðum að héðan í frá yrðu Úkraínumenn að borga fyrir rafmagn frá úkraínsku kjarnorkuveri sem Rússar hafa lagt undir sig.

    Svona hegða bíræfnir þjófar sér, heimta að fórnarlamb þjófnaðarins borgi þjófunum!
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu