"Oops, I did it again", geng óbundinn til kosninga
“Oops I did it again, gæti íslenski stjórnmálaforinginn raulað, geng enn einu sinni óbundinn til kosninga. Þetta þýðir að við kjósendur vitum varla hvað við erum að kjósa, alla vega þau okkar sem kjósum mið-vinstri. Erum við að kjósa vinstristjórn, mið-vinstri eða jafnvel mið-hægri-stjórn? Í raun og veru takmarka stjórnmálamenn kosningarétt okkar með því að gefa ekki upp fyrir kosningar með hverjum þeir vilja mynda stjórn.
Þjóðverjar óbundnir
En áður en lengra er haldið skal upplýst að þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri fremur en svo margt annað sem miður fer á Fróni. Þjóðverjar kjósa í dag og flokkarnir ganga að vanda óbundnir til kosninga. Kratar og kristilegir demókratar sitja saman í ríkisstjórn en keppa samt við hvor aðra. Merkel mun nánast örugglega vinna en engin veit hvaða flokka hún muni taka með sér í ríkisstjórn. Verða það kratar áfram eða frjálslyndir ásamt græningjum? Eða einhverjir aðrir? Í hinum sextán sambandsríkjum þýska sambandslýðveldisins hafa verið reynd tíu mismunandi stjórnarmynstur. Það þýðir að svo að segja allir flokkar hafa verið stjórn með öllum öðrum.
Skandínavar bundnir
Má ég heldur biðja um þá skipan mála sem orðið hefur til í Skandinavíu eftir að krataflokkarnir misstu sitt alveldi? Fyrir kosningar í þessum heimshluta taka flokkarnir skýrt fram með hverjum þeir vilja mynda stjórn eða hvaða stjórnarmynstur þeir styðja. Hinn sósialliberali norski flokkur Venstre vill ekki i ríkisstjórn en sagðist fyrir kosningar myndu styðja Ernu Solberg sem forsætisráðherra. Kjósendur flokksins vita hvað í boði er, gagnstætt íslenskum og þýskum kjósendum.
Lokaorð
Væri ekki ráð að leggja þrýsting á íslenska stjórnmálaforingja og krefja þá sagna um með hvaða flokkum þeir vilja vinna?
Athugasemdir