Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

ÓNÝTUNGAR ( ÞRIÐJI HLUTI)-Græðgi, lánamál o.fl

Ég sagði í lok síðustu færslu að ég hygðist ræða græðgis- og lánamál í þriðja og síðasta hluta Ónýtungabálks.

Græðgin

Dæmi um íslenska græðgi er sú staðreynd að íbúðir eru mun stærri á Íslandi en í Svíþjóð. Staðtölur sýna að meðal-Íslendingur hefur til umráða tíu fermetrum meira íbúðarrými en meðal-Svíinn.  

(hér eru sænskar tölur)

(og hér eru íslenskar tölur)  

Þetta þýðir að íslenska vísitölufjölskyldan hefur 40 fermetrum meira rými til umráða en sú sænska, það er að segja eina litla íbúð.

Ó, hve íslenski þrællinn á bágt!

Ragnar Þórisson skrifaði athugasemd við DV blogg mitt þar sem hann hélt því fram  að ef Íslendingar hefðu sætt sig við sama íbúðarrými og Svíar þá ætti landslýður 960 milljarða króna aukalega.

Sé þetta rétt þá hefðu menn  getað tekið út þetta fé í mynd minni eftir- og næturvinnu og hærri grunnlaunum. Í stað þess að reisa sér hurðarás um öxl.

En því má ekki gleyma að íbúða-geðveiki Íslendinga á sér rætur í verðbólgu fyrri tíma. Á verðbólguskeiðinu mikla  urðu menn að fjárfesta í steinsteypu því verðbólgan át allan sparnað.

Karl Marx sagði að fortíðin hvíldi eins og mara á hugum lifandi manna, verðbólgudraugurinn gengur aftur í hugum íslenskra íbúðakaupenda, löngu eftir að menn töldu sig hafa verið kveðið hann  niður.

Gamlir ósiðir hverfa seint.

Lánið er valt

Íbúðalánagræðgi Íslendinga kann að leiða til þess að vextir á lánum hækka, ekki bætir það kjörin.

Lánageðbilun útrásaráranna kann líka að hafa leitt  til hærri vaxta, menn héldu að góðærið myndi vara að eilífu  og tóku lán í samræmi við það.

Áróður bankamanna gerði illt verra, þeir lofuðu fólki gulli og grænum skógum bara ef það tæki himinhá, verðtryggð lán og/eða myntkörfulán.

Mikið er grenjað út af verðtryggingu lána og talað eins og hún sé dæmi um hve ónýtt Ísland sé. Menn gleyma að hún var neyðarráðstöfun á verðbólguárunum, þá voru lán að heita ókeypis „þökk“ sé verðbólgunni.

Hagfræðingurinn Már Wolfgang Mixa segir að á tímabili (1999-2007) hafi verðtryggingin verið lántökum í hag vegna þess að þá hækkuðu laun mun meira en verð.

En hrunið hafi valdið því að staðan breyttist skyndilega, laun stóðu í stað en verðlag hækkaði og fólk með verðtryggð lán lenti í vondum málum.

Hann bendir á að verðtrygging lána hafi þá hættu í för með sér að lánveitandi freistist til að veita meiri lán en góðu hófi gegnir enda beri hann enga áhættu verðbólgusveiflum.

Lánþeginn beri þau einn.

(hér)

Bæta má við að þetta er sjálfssagt ein skýringin á skuldavandanum, bankarnir hafa haft hag af að telja mönnum trú að þeir gætu tekið ofurlán.

(sennilega er kominn tími til að afnema verðtrygginguna, er hún ekki orðin að skrímsli? Enda afkvæmi verðbólgudraugsins).

Ekki verður lántakendum sjálfum kennt um það gengishrap sem olli því að myntkörfulánin urðu illviðráðanleg.

Samt er  almenningur á Íslandi  ekki alsaklaus af lánaruglinu, hann átti að skilja að ekkert góðæri getur varað að eilífu og að vel mætti taka óverðtryggð lán í ríkari mæli en hann gerði.

Stór hluti Íslendinga  lenti í skuldagildru í kjölfar hrunsins. Ekki bara vegna gengishruns og klækja illra bankamanna,  heldur óraunsæis þeirra sjálfra, barnalegrar sannfæringar að góðærið myndi vara að eilífu.

Þeir eru engu síður  þrælar eigin heimsku og græðgi en bankanna illu.

En  þeir skella skuldinni á aðra og ímynda sér að allir venjulegir Íslendingar eigi við við sama  skuldavanda að etja og þeir.

En af hverju voru verðtryggð lán hagstæð lántakendum á löngu tímabili? Af hverju mistókst bönkunum slæmu að arðræna þá á þessu skeiði?

Af hverju fór fjöldi skynsamra Íslendinga með meðaltekjur sér hægt hvað skuldsetningu varðaði og er því  í góðum skuldamálum? Margir þeirra tóku aðallega óverðtryggð lán.

 Af hverju tókst íslensku bönkunum vondu ekki að féfletta þetta fólk?

Til að gera illt verra þá halda ónýtungar  að skuldavandinn  sé séríslenskt fyrirbæri og dæmi um það hve ónýtt landið sé.

En af hverju gerðist það sama í Noregi eftir bankahrunið 1990? Af hverju lenti fjöldi norskra stórlánþega í skuldagildru?

(hér)

Af hverju endurtók sagan sig  í Danmörku eftir hrunið 2008?

(hér)

Eru Noregur og Danmörk kannski líka handónýt?

Bankahrun, hvort sem það á sér stað á Íslandi, Noregi eða Danmörku bitnar með einum eða öðrum hætti á lántakendum.

Alltént eru margir   Íslendingar  í græðgis-sjálfheldu.

Lána-, bíla- og íbúðagræðgi á tímaskeiði T0 er borguð með hærri vöxtum og lægri launum á tímaskeiðinu T1.

Bílagræðgi

Tökum bílagræðgina. Eftir að lúxustollar á bílum voru afnumdir í lok níunda tugarins keyptu Íslendingar sér bíla í stórum stíl.

Í kjölfar þess snarfækkaði farþegum í strætisvögnum sem leiddi til fækkunar ferða sem gerði að verkum að bílaeign varð nauðsyn.

Sumir  telja sumir að bílabrjálæðið sé neyðarúrræði vegna lélegra almenningssamgangna.

En þeir skilja ekki að fyrst varð bílaspreninging, sem olli verri almenningssamgöngum,  sem aftur gerði bílinn að möstinu mesta.

Sem sagt, vítahringur.

Sagt hefur verið að á stöðum eins og Álftanesi séu litlar  almenningssamgöngur, íbúarnir neyðist til að reka bíla.

En byggðist Álftanes  að ráði fyrir en eftir bílasprenginguna? Bjó nokkur þar fyrir 1990  nema forsetinn og Hannes skáld Pétursson?

Eða skyldi strætisvagnaskortur valda því að fólk í 2000 kaupstað úti á landi fer milli húsa í bílum?

Eitthvað hlýtur slíkt að kosta, er furða þótt íbúarnir séu blankir um mánaðarmótin?

Tala má um vítahring bíladellunnar

Í nýlegri alheims-úttekt voru Íslendingar  taldir vera með fjórðu mestu einkabílaeign heims,   miðað við fólksfjölda, eina norræna þjóðin sem komst í hóp tíu efstu þjóða.

(hér)

Sama er upp á teningnum þegar  um vélvædd ökutæki, Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem eiga  hlutfallslega flest slík ökutæki.

(hér)

Margir Íslendingar halda að meðalfjölskylda komist ekki af án a.m.k. tveggja bíla og hegða sér í samræmi við það.

En staðreyndin er sú að það er hægt að nota leigubíla í stað bíls númer 2, t.d. þegar um stórinnkaup er að ræða.

Menn þurfa að taka ansi marga leigubíla mánaðarlega til að ná upp í kostnaðinn við bíl númer 2.

Með þessu móti myndi mikið sparast, sparnaðinn  mætti taka út í mynd minni vinnu.

Tískugræðgi

Tískugræðgi alltof margra Íslendinga gerir illt verra, þeir hlaupa á eftir sérhverri nýrri tískubólu og nota stórfé til þess arna.

Muna menn fótnuddstækjadelluna?

Hefur það engin áhrif á afkomu manna að þeir hendi  peningum í tískurugl?

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma eru Íslendingar  mun duglegri við slíkt  en nágrannaþjóðirnar.

Græðgi og óráðsía of margra  Íslendinga  er enn ein skýring þess að ýmislegt fer miður á Íslandi.

Sú staðreynd að Skandínavar eru til muna varkárari í fjármálum kann að vera  ein af skýringum þess að grunnlaun þeirra eru hærri en íslensk grunnlaun.

Ekki allir gráðugir

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að ég geri mér ljósa grein fyrir að ekki eru nærri því Íslendingar haldnir græðgi.

Sumir eru líka of fátækir til að hafa ráð á græðgi.

Hér á Stundinni hefur birst athyglisverð úttekt á högum hinna allra fátækustu sem sagðir eru eiga vart  til hnífs og skeiðar.

En þetta er engan veginn séríslenskt vandamál, víða um lönd er sagt að fátækum fjölgi,  meira að segja í hinum ofurríka Noregi.

(hér)

„(Van)sælt er sameiginlegt skipbrot“.

Sök valdhafa og ríkisbubba

Því  má heldur ekki  gleyma  að hversu gráðugir sem venjulegir Íslendingar kunni að vera þá eru viðskiptamenn, sægreifar og ýmsir pólitíkusar sennilega enn  gráðugri.

Þeir eiga alla vega fleiri möguleika á að fá útrás fyrir græðgina en meðal-Jón(a).

Spilling og frændhygli þessara pótintáta skaðar efnahagslífið. Hún á eflaust þátt í minni afköstum á unna klukkustund,  fyrir utan allt annað sem að henni er.

Hefðu bankarnir verið seldir best-bjóðendum, ekki bestu vinum,  væri efnahagurinn í betri málum og grunnlaun líklega hærri.

Þess utan bendir ýmislegt til að illa hafi verið staðið að orkumálum, Íslendingar jafnvel snuðaðir um stórfé af erlendum orkurisum.

Ef þetta er rétt þá hafa ráðamenn á Ísland leikið illa af sér, afleikurinn kostað þjóðina stórfé.

En þetta kann að vera ónýtunga-hjal.

Þess utan má ekki falla í þá ónýtunga-gryfju að halda að Ísland sé meiriháttar spillingarhít.  Vissulega er landið spilltara en nágrannalöndin en þau eru  með síst spilltu löndum heims.

Spilling á Íslandi er lítil  miðað við spillingu í löndum eins og Grikklandi eins og sjá má

hér.

Það er mikilvægt að sjá heildarmyndina, bera Ísland saman við önnur lönd.

Einnig að sjá heildarmyndina af launaruglinu, sjá skaðvænlegt atferli jafnt valdsmanna sem alþýðu á skerinu guðsvolaða.

Samsæri og tapa-tapa-leikir

Ónýtungar virðast trúa því að laun geti ekki verið lág  nema vegna þess að einhver steli peningunum.

Þeir sem þannig hugsa  trúa því einatt  að samfélaginu sé stjórnað af samsærum og allir félagsleikir sé núllsummuleikir, þ.e. leikir þar sem einn  getur ekki tapað nema annar vinni og öfugt.

Þessi hugtök eru ættuð úr leikjafræði (e. theory of games)  sem kastar ljósi á margt í mannlífinu. Í þessum fræðum eru búin til líkön, einatt stærðfræðileg. Mannlegum athöfnum og afleiðingum þeirra er líkt við leiki.

(hér)

Samkvæmt þessum fræðum eru  leiknir margir aðrir leikir í samfélaginu,  ekki bara núllsummuleikir, heldur líka t.d. tapa-tapa-leikurinn þar sem báðir aðilar tapa.

Spænska ríkisvaldið fór ránshendi um Suður-Ameríku, rændi  gulli og silfri og flutti góssið heim. Afleiðingin varð óðaverðbólga og gjaldþrot ræningjans, spænska ríkisins.

Báðir „leikendur“ töpuðu, spænska ríkisvaldið og frumbyggjar Suður-Ameríku.

Láglaunaleikirnir íslensku er dæmi um tapa-tapa-leik. Lágu launin stafa vart af arðráni eða samsærum nema í litlum mæli.

Þau  eru fremur ekki-ætluð (e. unintended) afleiðing af gjörðum fjölda manna, bæði í nútíð og fortíð.

Til að skýra hvað ekki-ætluð afleiðing af gjörðum er skulum við líta á eftirfarandi dæmi:

Fjöldi manns vill fá lán til íbúðakaupa. Afleiðingin er sú að vextir á lánum hækka.

En það var ekki ætlun hinna einstöku einstaklinga, þvert á móti má ætla að þeir hafi viljað sem lægsta vexti. En ekki-ætluð afleiðing af gjörðum þeirra allra var að vextir hækkuðu.

Margt  af því sem gerist í samfélögum á sér rætur í flóknum, ekki-ætluðum  afleiðingum af vali fjölda manna.

Yfirleitt er ekki skynsamlegt að skýra viðburði með tilvísun til samsæra.

Heimspekingurinn Karl Popper bendir á að samfélög séu yfirleitt of flókin til þess að þeim verði stjórnað af samsærum.

Þess vegna sé ekki líklegt að á bak við yfirborð samfélagi leynist hópar samsærismanna sem togi í spottana og stjórni fólki eins og strengjabrúðum.

Vissulega gerist oft að samsæri eigi sér stað en þau misheppnist yfirleitt vegna þess að þekking samsærismanna sé takmörkuð, þeir sjái ekki fyrir óvænta atburði og geti ekki haft fullkomna yfir hin margþætta samfélagsveruleika.

Þannig hafi samsæri nasista á endanum misheppnast.

Bæta má við að samsærið um að gera ákveðna aðila ráðandi í íslenskum bankaheimi (einkavinavæðingin) mistókst á endanum því flókin efnahagsferli ollu því að bankarnir fóru á hausinn.

Þau ferli voru afleiðingar  af ekki-ætluðum gjörðum fjölda manns.

Helstu niðurstöður þriðja og síðasta hluta

Sýnir ekki hin mikla bílaeign og hið rúmgóða húsnæði að Íslendingar búa við allmikla hagsæld, gagnstætt því sem ónýtungar halda?

Stefán Ólafsson leggur fram staðtölur sem sýna þetta svart á hvítu. Um leið bendir nafni minn réttilega á að Íslendingar þurfi að vinna helst til mikið að öðlast þessi gæði.

(hér)

Í annarri færslu leggur Stefán fram staðtölur sem sýna að tekjudreifing hefur jafnast mikið eftir útrásartímann. Nú sé Ísland með 4-5 tekjujöfnustu ríkjum heims.

Auð- og eignadreifing hafi jafnast síðan 2010, nú eigi ríkast tíundi hlutinn "bara" 70% auðs- og eigna, litlu eða engu meir en sami hluti á hinum Norðurlöndunum.

(hér)

Græðgi hefur löngum verið talin löstur, græðgi er einn helsti löstur alltof margra Íslendinga, jafnt hárra sem lágra.

Hún skaðar afkomu manna, bíla- og íbúðagræðgin er Íslendingum dýr.

Ein birtingarmynd græðginnar er lánagræðgi, bæði fíkn almennings í lán og útlánafíkn bankanna.

Lánaruglið á Íslandi er flókið fyrirbæri en hrunið er þó helsti orsakavaldurinn. Á sama hátt lentu margir Norðmenn og Danir í lánavanda eftir bankakreppur í löndum sínum.

Almenningur í þessum þremur Norðurlöndum er ekki án sektar, hversu mikil sem sök banka- og ráðamanna kunni að vera.

Við lifum á öld fjöldans, þess vegna má helst ekki gagnrýna almenning, benda á hvernig hann ber hrís á eigið bál.

Hann er ekki endilega fórnarlamb samsæris hinna ríku og voldugu.

Enda er yfirleitt ekki skynsamlegt  að skýra samfélagsferli með tilvísun til samsæra, þótt Dan Brown geri það í sínum illa skrifuðu skáldsögum.

Fremur ber að skýra þessi ferli með tilvísun til ekki-ætlaðra afleiðinga af gjörðum fjölda manna.

Lokaorð

Ég mun ekki afla mér vinsælda með  færslunum um ónýtunga.

 En ég er vanur hafa storminn í fangið, ég varaði við útrásinni  í Silfri Egils fyrir tæpum áratug og fékk bágt fyrir.

Ég sagði að útrásarbankaliðið  vantaði reynslu af alþjóðaviðskiptum, því væri líklegt að illa færi.

Einnig varaði ég hvað eftir annað við auknu  valdi auðsins, fyrst í Moggagrein árið 2004 þar sem ég fordæmdi jafnt Davíðs- sem Baugsliða.

(hér)

En  það mátti ekki nefna auðvald á útrásarárunum fremur en snöru í hengds manns húsi. Og alls ekki aukna misskiptingu auðs og tekna.

Nú má ekki tala um annað. Það þótt flest bendi til að sú misskipting sé nú mun minni en á útrásarárunum.

Múgheimska ónýtunga er ekkert annað en  spegilmynd af múgheimsku útrásaráranna.

Heimspekingurinn Bertrand Russell sagði „Fylgdu ekki fjöldanum til illra verka“.

Látum það verða kjörorð þessa bloggs á Stundinni, á þessari stund sem  á ókomnum  stundum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni