Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

ÓNÝTUNGAR (FYRRI HLUTI)-Er allt ónýtt á Íslandi?

Menn kannast flestir orðið „ónytjungur“, sem þýðir „sá sem ekki er til neins nýtur“. En þeir þekkja örugglega ekki nýyrði mitt „ónýtungur“.

Ónýtungarnir geta vel verið nýtir borgarar.

Þeir standa á því fastar en fótunum að allt sé ónýtt á Íslandi og boða þessa skoðun í bloggfærslu eftir bloggfærslu, blaðagrein eftir blaðagrein, á Eyjunni, í Kjarnanum, á feisbók, á síðu fylkisflokksins, á síðu Fréttatímans. (til dæmis hér)

Ekki er nóg með það, heldur keppast ónýtungar  við yfirbjóða hvern annan í móðursýkislegri fordæmingu á íslenskum stjórnmálum og efnahagslífi.

Það nýjasta nýtt er að meint yfirstétt vilji skófla lýðnum úr landi og ráða nýja, ódýra útlenda alþýða.

Íslendingar séu þrælar banka- og sægreifa.

(sjá hér)

Ef svo er þá eru þeir feitir þrælar því meðalþyngd þjóðarinnar er allmikil.

Að gamni slepptu skal játað að víða er pottur brotinn á ísa köldu landi,  samt eru  rök ónýtunganna handónýt.

Við munum sjá m.a. að flest bendir til þess að tekjum og eigum sé alls ekki ójafnar dreift á Íslandi en í nágrannalöndunum, að hag- og lífssæld sé tiltölulega mikil. Einnig að kvótakerfið sé ekki alillt þótt slæmt sé.

Í síðari hluta mun ég rökstyðja að flóknar ástæður séu fyrir lágu tímakaupi og lánavanda, ekki bara rugl ráðamanna heldur líka óráðsía og óraunsæi almennings.

Lífssæld mikil á Íslandi

„Íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn“ syngja Stuðmenn. Enda lifa þeir lengur en karlar í öðrum Evrópulöndum.

Auk þess er ungbarnadauði á Íslandi með þeim minnsta sem um getur.

(hér)

Samkvæmt alþjóðarannsóknum er hvergi betra að vera kona en á Íslandi. (hér)

Önnur alþjóðarannsókn sýnir að Ísland sé fjórða besta land heimsins fyrir ellilífseyrisþega. (hér)

Sjá má að staðtölur benda til þess að lífssæld sé mikil á Íslandi, með þeirri mestu í heimi, gagnstætt því sem ónýtungar ímynda sér.

En slá ber varnagla, staðtölur eru ekki heilagar. Hafa ber þetta hugfast er menn lesa þessa færslu og þá næstu, statistík kemur mjög við sögu.

Tekjum ekki ójafnt skipt, kaupmáttur jafn mikill og 2007

Eins og gefið var í skyn viðurkenni ég að margt mætti betur fara á Íslandi, ella væri ég illa blindur.

Til dæmis sitjum við uppi með ónýta ríkisstjórn silfurskeiðunga sem gefur auðmönnum makrílkvótann o.s.frv, o.s.frv..

En þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir hefur silfurskeiðungunum ekki tekist að koma í veg fyrir að tekjur hafa jafnast síðan fyrir hrun, alltént ef trúa má staðtölum.

Heldur ekki að tekjum sé jafnar skipt á Íslandi en annars staðar, ef marka má tölur frá OECD. (hér)

Heldur ekki að eigna- og auðsdreifing sé álíka jöfn eða ójöfn og í Danmörku og Svíþjóð, samkvæmt m.a. tölum frá fjármálaráðurneytinu (eigna- og auðsdreifing á Norðurlöndum er reyndar fremur ójöfn miðað við aðrar þjóðir, Finnland er undantekningin sem sannar regluna).

Tekju- og eignaójöfnuður hafi vissulega aukist á útrásarárunum en dregið hafi úr ójöfnuði eftir hrun (hér).

Hér ber að staldra við og svara spurningunni um hvers vegna auðs- og tekjudreifingu séu tvennt ólíkt.

Svarið er einfaldlega að menn geta átt miklar eigur en tapað á þem,haft engar tekjur af þeim. Menn geta líka haft firna há laun án þess að eiga miklar eigur.

Nýjar tölur frá hagfræðideild Landsbankans sýna að kaupmáttur launa sé orðinn ögn meiri en á blómaskeiðinu 2007.

Hagfræðideildin segir líka að launamunur hafi minnkað, kaupmáttur láglaunafólks sé nú meiri en 2007, kaupmáttur hátekjufólks heldur minni.

(hér)

Einnig er atvinnuleysi með því alminnsta í OECD-ríkjum (hér).

En á þetta vilja ónýtungar ekki hlusta.

Þeir vilja bara hlusta á sig sjálfa segja hvað þjóðin sé fátæk og arðrænd, hlusta á sitt eigið sjálfsvorkunnsemis-væl.

 „Human kind cannot bear very much reality“, yrkir nóbelsskáldið T.S.Eliot.

Blame it on Mame

Annað skáld, litlu lakara, orti „Blame it on Mame“. Og dúndurgellan Rita Hayworth söng lagið í myndinni um hana Gildu girnilegu.

 Í þessum bráðsmellna texta er sagt frá konu nokkurri sem Mame heitir og er kennt um margt sem miður hefur farið í sögu mannkynsins.

Ónýtungar kenna líka öðrum um allt sem miður hefur farið á Íslandi, meint fátækt þeirra sjálfra er því að kenna að Gyði…ég meina sægreifar, spilltir stjórnmálamenn og bisnessgaurar, hafi rænt þá fé.

En af hverju er þá tekjudreifing á Íslandi svona jöfn? Eru þessir meintu ræningjar svona slappir við ránin?

Kannski þeir taki hvorki of eða van fremur en þeir Kaspar, Jesper og Jónatan forðum.

Ólíkt valdastétt Rússlands, 111 einstaklingar eru sagðir eiga 35% af þjóðarauð Rússa. (hér)

Það samsvaraði því að tíundi partur af einstaklingi ætti 35% af íslenska þjóðarauðnum.

Svo slæmt er ástandið ekki á Fróni, fjarri því.

Kvótakerfið ekki alillt, þótt slæmt sé

Mér leiðist að þurfa að verja kvótakerfið en það er ekki án sinna kosta. Sameiginleg rannsókn íslenskra og norskra sjávarútvegsaðila sýndi að íslenska kerfið væri skilvirkara en hið ríkisstýrða, norsk kerfi. (hér

Aukin samþjöppun auðs í sjávarútvegi er ekki bara af hinu illa þótt hún hafi gert sægreifana allt of volduga.

Þessi stóru útgerðarfyrirtæki nútímans standa af sér storma miklu betur en smáfyrirtæki fortíðarinnar.

Þeim þurfti alltaf að redda af almannafé því þau voru stöðugt á hausnum. Eilífar gengisfellingar voru neyðarúrræðin til að bjarga þessum litlu útvegsfyrirtækjum frá hruni.

Þess utan olli stöðugt fjáraustur í sjávarútvegsfyrirtækin því að þau urðu að e.k. heroínistum sem biðu bara eftir ríkisstyrkjum í stað þess að bæta reksturinn.

Almenningur borgaði með kaupmáttarskerðingu, bæði vegna gengisfellinga, og vegna hærri skatta.

Nefna má að Þorsteinn Pálsson hefur haldið því fram að kvótakerfið hafi bætt kjör almennings að því leyti að það hafi styrkt gengi krónunnar og með því komið í veg fyrir kjararýrnun vegna gengisfellinga. (hér)

Þetta kann að vera rétt.

Eitthvað hljóta sægreifarnir líka að borga í skatta og laun svo ekki verður sagt að þeir stingi öllum ofurgróðanum í vasann.

En það gerir kvótakerfið ekki hótinu réttlátara, m.a. vegna þess að það virðist leiða til fákeppni sem er mjög af hinu illa.

Ekki er nóg með að gjafakvóti sé óréttlátur, ekki er ósennilegt að hann dragi úr skilvirkni, kannski vegna þess að gjafir geta skekkt markaðinn.

Það þýðir að kvótakerfið gefur og tekur hvað skilvirkni varðar: Þótt aukin stærð fyrirtækja kunni að auka skilvirkni þá kann gjafakvótinn að draga úr henni.

Hvað sem því líður þá er gjafakvótinn í reynd ríkisstyrkur, á kostnað almennings. Sagt er að sægreifarnir hafi á útrásarárunum veðsett kvóta með þeim hætti að við hafi legið að Íslendingar misstu þjóðarauðlind sína.

Til að gera illt verra bendir margt til þess að sægreifarnir geti hirt einhver ósköp af auðlindarentu.

Alltént segir Jón Steinsson það, reyndar án þess að geta heimilda (hér).

Talsmenn sjávarútvegsins mótmæla þessu og segja að gróði sjávarútvegsins í heild sé minni en sú renta sem Jón segir að makrílveiðar muni afkasta (hér).

Um þetta skal ekki dæmt, aðeins sagt að hafi Jón á réttu að standa er um að ræða fé sem gæti komið almenningi til góða en gerir ekki vegna hins rangláta kerfis.

Einhvers konar uppboðskerfi og veiðigjald er líklega besti kosturinn.

 (vilji menn yfirvegaða umfjöllun um sjávarútvegsmál skal bent á skýrslu auðlindanefndar). (hér)

 Ríkisstjórnin hafði gullið tækifæri til að bjóða upp makrílkvótann en kaus að gefa sægreifunum hann.

Sem sagt, kvótakerfið er í megindráttum af hinu illa en hefur samt vissa kosti.

Menn verða að skilja að fátt er alillt eða algott, líklega hefur uppboðsskerfið sína ókosti svo vart rís ný jörð úr Ægi (!!)  þótt það kerfi verði innleitt.

Það er engin konungsleið til betri lífskjara, svo snúið sé út úr frægri tilvitnun í stærðfræðinginn Evklíðos.

Niðurstöður fyrri hluta

Niðurstaðan hlýtur að vera sú að lífssæld sé allmikil á Íslandi.

Tekjum virðist tiltölulega jafn skipt og eignum ekki ójafnar skipt en í Svíþjóð og Danmörku.

Gagnstætt því sem ónýtungar ímynda sér. Þeir halda að kvótakerfið sé næsti bær við helvíti en svo slæmt er það ekki þótt nógu slæmt sé.

Kannski næsti bær við hreinsunareldinn.

Í síðari hluta mun ég beina sjónum mínum að launa-, lána- og græðgismálum.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni