ÓNÝTUNGAR (ANNAR HLUTI)-Launamál o.fl.
Ég ákvað að skipta færslunni í þrennt, ekki bara tvennt þar eð síðari hlutinn var orðinn ógnarlangur. Í þessum hluta hyggst ég beina sjónum mínum að launamálum.
Í þriðja og síðasta hluta verða græðgi, lánamál og samsæriskenningar í fyrirrúmi.
Munur á auðs- og eignadreifingu
En fyrst ein athugasemd. Fólk virðist halda að nýlegar tölur um auðs- og eignadreifingu á Íslandi séu tölur um dreifingu þjóðartekna.
Tíu prósent þjóðarinnar er sögð eiga 75% auðs- og eigna, menn halda að þetta þýði að þessi 10% hirði 75% tekna.
Það er tóm vitleysa, auður og eigur eru annað fyrirbæri en þjóðartekjur.
Til dæmis eru húseignir sem keyptar voru fyrir 2014 ekki hluti af þjóðartekjum þess árs.
En þær geta verið hlutar af stóreign tiltekins auðmanns, eign sem hann kann að hafa engar tekjur á árinu 2014.
Þess utan geta menn átt miklar eignir en tapað á þeim. Einnig geta menn haft miklar tekjur en sóað þeim í vitleysu, eignast ekkert.
Þess vegna ber að greina milli auðs- og eignadreifingar annars vegar, tekjudreifingar hins vegar.
Tekjudreifing og auðs/eignadreifing á Ísland og víðar
Ég einfaldaði málið mikið í síðustu færslu, nefndi ekki að það eru til ýmsir reikningsmátar á jafnt auðs- sem tekjudreifingu. Hinar einu, sönnu staðtölur eru ekki til.
Ég nefndi tölur frá fjármálaráðuneytinu sem eiga að sýna að auðs- og eignadreifing í Danmörku og Svíþjóð sé svipuð og á Íslandi.
En samkvæmt tölum Crédit Suisse (sem ekki er með tölur frá Íslandi) frá 2014 á ríkasti tíundi hlutinn í Noregi, Danmörku og Svíþjóð um 66-68% auðs- og eigna.
Ég veit ekki hvort Crédit Suisse notar sömu reikniaðferðir og þær sem notaðar voru til að mæla auðs- og eignadreifingu á Íslandi.
Stefán Ólafsson segir að ríkasti tíundi hlutinn hafi árið 2013 átt 70% auðs- og eigna, heldur lægra hlutfall en í Bandaríkjunum og litlu meira en á hinum Norðurlöndunum.
(hér)
Samt benda allar staðtölur til þess að tekjum sé tiltölulega, jafnvel mjög, jafn dreift á Íslandi.
Ég nefndi bara tölur OECD frá 2010 þar sem Ísland var talið hafa jöfnustu tekjudreifingu heims.
Í áðurnefndri færslu nafna míns Ólafssonar má finna tölur sem sýna að Ísland sé meðal 4-5 tekjujöfnustur landa heims.
Aðrar tölur sem byggja á öðrum gögnum og reikningsaðferðum setja Ísland í allt frá þriðja til sextánda sæti hvað tekjujöfnuð varðar.
Taka ber fram að rannsóknin sem setur Ísland „bara“ í sextánda sæti byggir á tölum frá 2006, á útrásartímanum þegar tekju- og auðsdreifing varð skyndilega mun ójafnari en fyrr og síðar.
(hér)
(og hér)
Athugið að meira að segja í þeirri tekjudreifingarrannsókn þar sem Ísland lendir bara í sextánda sæti er landið sagt búa við meiri jöfnuð en Frakkland, miklu meiri jöfnuð en Bretland og litlu minni jöfnuð en Finnland.
Samkvæmt nýjum tölum um þjóðarframleiðslu á mann eru Íslendingar í 21 til 36 sæti, allt eftir reikningsaðferðum.
Það aðeins fáeinum árum eftir hrunið mikla, þjóðarframleiðslan á mann er samkvæmt öllum þremur rannsóknunum meiri en í Bretlandi, Finnlandi og Frakklandi.
Auðsdreifing og lág laun
En af hverju er þá grunnlaun (dagvinnulaun) fremur lág á Íslandi?
Er tiltölulega ójafnri auðs- og eignadreifingu að kenna hve lág þessi laun eru?
En Sviss hefur samkvæmt Crédit Suisse skýrslunni litlu jafnari auðs- og eignadreifingu en Ísland (10% eiga 72%)
Samt kannast enginn við annað en að almenningur njóti góðra kjara í Sviss. Alla vega er þjóðarframleiðsla Svisslendinga á mann frá þeirri áttundu til sextándu mestu í heimi samkvæmt áður nefndum rannsóknum.
Hugsum okkur tvö lönd: Í landi A er urmull smákaupmanna, í landi B er verslun að mestu í höndum stórra búðakeðja, þó án þess að um einokun sé að ræða. Keðjurnar keppa af hörku hver við aðra.
Að öllu jöfnu ætti verðlag að vera lægra í B en A vegna stærðarhagkvæmni, venjulegu fólki til hagsbóta.
Það þýðir að þótt auð- og eignadreifing sé ójafnari í B en A þá kann hagur almennings í B að vera skárri.
Af framansögðu má draga þá ályktun að tiltölulega ójöfn auðs- og eignadreifing þurfi ekki endilega að skerða kjör manna.
Því er ekki sennilegt að auðs- og eignadreifing á Íslandi sé orsakavaldar lágra dagvinnulauna (nánar um það hér að neðan).
Vald auðsins
En verði ekkert gert til að draga úr valdi auðkýfinga er hættan sú að þeir beinlínis taki að skammta launþegum laun úr hnefa.
Ríkra-ríkisstjórnin verður að víkja og það verður að reyna að jafna auðsdreifinguna.
Það þótt hún sé kannski ekkert ójafnari en í Sviss og Svíþjóð.
Mjög ójöfn auðsdreifing gerir auðmenn of valdamikla þó hún byggi ekki endilega á arðráni á alþýðunni. Valdið getur hins vegar leitt til arðráns.
Lág grunnlaun
Einhver kann samt að spyrja hvort það sé ekki „the usual suspects“ (sægreifunum og spilltum pólitíkusum o.s.frv) að kenna hve lág grunnlaun (dagvinnulaun) eru á Íslandi.
Því er til að svara að ekki er allt sem sýnist á Íslandi. Íslenskir launþegar þiggja oft spúslur frá vinnuveitendum sínum, spúslur sem ekki eru beinlínis laun. Slíkt er lítt þekkt í í nágrannalöndunum.
Til dæmis fá íslenskir háskólakennarar að nafninu til töluvert lægri grunnlaun en norsk starfssystkini þeirra.
En nánari aðgæsla sýnir að svo einfalt er málið ekki. Háskólakennarar á Íslandi fá borgað fyrir birtingar fræðigreina og bóka, sú greiðsla fer beint í vasa þeirra sem aukatekjur.
Ekki hér í Noregi, hér fer greiðsla fyrir birtingar í sérstakan sjóð og fjármagnar sá sjóður aðeins ferðir á ráðstefnur, bókakaup o.s.frv.
Menn verða að leggja fram alls konar reikninga og sannanir til þess að fá ráðstefnuferðir og bókakaup endurgreidd.
Þetta fé er sem sagt ekki hluti af tekjum norskra háskólakennara, gagnstætt þeim íslensku.
Því verður ekki annað séð en að minni munur sé á tekjum háskólakennara í Noregi og Íslandi en ætla mætti við fyrstu sýn.
Í Noregi gildir prinsippið „what you see is what you get“, ekki á Íslandi.
Annað dæmi um það sem ég nefni „spúslur“ er hin svonefnda fasta, óunna yfirvinna sem algeng er á Fróni. Óþekkt meðal norskra.
Hinu verður ekki neitað að íslenskt láglaunafólk sem ekki á möguleika á spúslum er í heldur vondum málum.
Alltént skilst mér að opinber grunnlaun séu lægri á Íslandi en t.d. í Danmörku sem litla olíu á. Hvað veldur, hafa vondir auðvaldsseggir rænt íslenska alþýðu?
Ég er ekki viss, voru laun hlutfallslega hærri á Íslandi áður kvótakerfið kom til? Ég held ekki.
Kannski væru laun hærri ef betur hefði verð staðið að samningum við erlend álfyrirtæki, þ.e. ef rétt er að þau hlunnfari Íslendinga.
Alla vega segja íslensk grunnlaun lítið um raunverulegar tekjur manna, spúslurnar gera að verkum að þær eru meiri en virðist við fyrstu sýn.
Í ofan á lag vinna Íslendingar mun meir en nágrannaþjóðirnar sem veldur því að kaupmáttur tekna er litlu eða engu minni en á hinum Norðurlöndunum.
Áður nefndar tölur um þjóðarframleiðslu á mann sýna að hún er litlu minni á Íslandi en í Danmörku og Svíþjóð.
Hinn olíuríki Noregur sker sig úr, þar þjóðarframleiðslan mun hærri olíunnar vegna.
Athuga ber að drjúgur hluti norskrar þjóðarframleiðslu fer beint í olíusjóðinn. Auk þess er mun dýrara að lifa í Noregi en á hinum Norðurlöndunum.
Samkvæmt upplýsingum OECD í apríl 2015 er mun ódýrara að lifa á Íslandi en í Noregi en verðlag er svipað eða ögn hærra á Íslandi en í hinum þremur löndunum.
Það vöru- eða þjónustumagn sem myndi kosta 111 dollara á Íslandi kostar 134 dollara í norska sæluríkinu.
Skattar eru töluvert lægri á Íslandi en í þessum löndum.
Samkvæmt tölum frá stofnuninni Eurostat frá 2013 tekur ríkið til sín tæp 49% af dönskum tekjum, 45% af þeim sænsku, tæp 44% af þeim finnsku, 43% af norskum tekjum en bara 36% af íslenskum tekjum.
(ekki má samt gleyma að velferðaríkið er gjöfulla á hinum Norðurlöndunum, heldur ekki að Íslendingar losna við útgjöld til hermála).
Í ofan á lag sýna áður nefndar tölur að tekjum er ekki ójafnar skipt á Íslandi en í þessum lönd þremur.
Lítil framleiðni á Fróni
Á móti kemur að framleiðni á unna klukkustund er mun minni á Íslandi en í nágrannalöndunum.
Um leið er mikið framleitt því talsvert mikið er unnið og og alllengi.
Af hverju bara „talsvert“ og „alllengi“?
Ástæðan er sú að OECD segir að Íslendingar vinni minna en meðaltalið í OECD, minna en Írar, Kanar, og Ítalir en álíka mikið og Kanadabúar.
Voru ekki ónýtungarnir að tuldra um vinnuþrældóm á Íslandi?
Slíkur þrældómur tíðkast víða meðal þróuðustu ríkja heims, kannski að Írland, BNA, Ítalía og Kanada séu gjörónýt lönd líka.
Vissulega vinna Íslendingar mun lengur hinar Norðurlandaþjóðirnar að Finnum undanskildum.
En þessar þjóðir vinna klárlega minna en flestar aðrar OECD þjóðir.
Margir telja að þessar þjóðir vinni alltof lítið og ógni með því framtíð sinni. Einnig að háir skattar geti orðið norrænu efnahagslífi skeinuhætt (sjá t.d. bók Michaels Booth The Almost Nearly Perfect People).
Hvað sem því líður þá gefur augaleið að erfitt er að hækka tímakaupið mikið nema framleiðnin á unna klukkustund aukist.
Illmögulegt er að kenna hinu tiltölulega skilvirka sjávarútvegi um litla framleiðni.
Ekki heldur tækniskorti, Íslendingar eru mjög drjúgir að verða sér út um nýja, skilvirka tækni.
Hvað veldur lítilli framleiðni?
Ég held að skýra megi þessa litlu framleiðni með tilvísun til ýmissa þátta.
Einn þátturinn eru takmarkanir á samkeppni, sumar af mannavöldum, aðrar vegna fjarstöðu landsins.
Ekki verður auðvaldinu illa kennt um allar takmarkanir á samkeppni sem teljast mega vera af mannavöldum.
Enginn kannast við auðkýfingar hafi mikilla hagsmuna að gæta í landbúnaði en hann er sem kunnugt verndaður gegn samkeppni, beint og óbeint.
Annar þáttur er röng stefna verkalýðshreyfingarinnar sem lengi barðist fyrir háum eftir- og næturvinnutaxta en hunsaði nánast dagvinnutaxtana.
Á hinum Norðurlöndunum borgaði sig ekki að vinna mikla yfirvinnu því hún var sköttuð í topp.
Á Íslandi hefur yfirvinna verið miklu síður sköttuð, mönnum var ekki refsað skattalega fyrir yfir- og næturvinnu.
Ástæðan var hugsunarháttur almennings. Vinnusemi var talin æðst allra gæða, menn sem vildu ekki vinna endalaust fram á rauða nótt voru taldir föðurlandssvikarar.
Þessi hugsunarháttur hefur breyst en syndir hinna ofurvinnusömu feðra og mæðra koma niður á Íslendingum nútímans.
Vítahringir hinna lágu launa
Ég tel líka að skýra megi hin lágu grunnlaun að all nokkru leyti með tilvísun til þriggja vítahringja.
Einn hringurinn er vítahringur hins ódýra vinnuafls, það er ódýrt fyrir atvinnurekendur að ráða fólk og því er hlutfallslega mjög stór hluti Íslendinga í vinnu.
Meðal þeirra er allstór hópur sem ekki er sérlega framleiðin og væri á opinberu framfæri í Skandinavíu.
Þessi óframleiðni hópur dregur úr meðalframleiðni á hverja unna klukkustund á ísa köldu landi.
Annar vítahringurinn er vítahringur hins íslenska agaleysis. Ég hef orðið áþreifanlega var við að menn fara meira í pásur, fara fyrr í kaffi og síðar úr mat o.s.frv. á íslenskum vinnustöðum en þeim norsku.
Fólk sem þekkir vinnustaði í báðum löndum staðfestir þetta.
Hið sama gerir fólk sem þekkir bæði íslenska og danska vinnustaði, að þeim ógleymdum sem þekkja jafnt íslenska sem ameríska vinnustaði.
Eftirfarandi flökkusaga kann að vera sönn: Fyrir 30-40 árum var sett yfirvinnubann á höfninni. Mönnum til furðu kom í ljós að hafnarverkamenn gátu unnið sömu verk á átta tímum sem þeir áður unnu á tíu tímum.
Af hverju held ég að þessi flökkusaga kunni að vera sönn? Einfaldlega vegna reynslu minnar og margra annarra af agaleysinu á íslenskum vinnustöðum.
Agaleysið verður vart skrifað á reikning hinna illgjörnu peningamanna, þeir hljóta að tapa á því að meintir þrælar þeirra slugsi í vinnunni.
Almenningur verður að súpa seyðið af agaleysi sjálfs síns í mynd lægri grunnlauna.
Þriðji vítahringurinn er vítahringur þreytunnar. Menn þurfa að vinna mikið til að hafa það sæmilegt.
Þeir eru því oft þreyttir í vinnu og afkasta minna en ef þeir ynnu aðeins átta tíma á dag.
Einn liður í vítahring þreytunnar er undir-vítahringur græðginnar.
Menn vinna mikið, ekki bara vegna, neyðar heldur líka vegna græðgi. Eins og stendur í kvæðinu um hana Lóu litlu á Brún:
"Hann vinnur eins og hestur
og hún hefur sjaldan frí
því Lóa þarf að fá sér fötin ný..."
Íslendingar gera miklar kröfur til lífsins, meiri en Norðmenn, Svíar og Danir (ég búið í löndum þeirra öllum og þekki þjóðirnar þrjár).
Þessir þrjár þjóðir vilja fremur meiri frítíma en hærri tekjur, þessu var lengi öfugt farið á Íslandi þótt margt bendi til þess að viðhorf Íslendinga sé að breytast.
Græðgisvinnan veldur þreytu sem aftur veldur minni afköstum, minni framleiðni á hverja unna klukkustund.
Menn fá ekki mannsæmandi tímakaup nema framleiðnin á unna klukkustund sé sæmilega mikil.
Miklu nánar um græðgi í næstu færslu.
Niðurstöður annars hluta
Ég hóf mál mitt á að ræða um dreifingu lífsgæða. Tekjudreifing á Íslandi er vissulega tiltölulega jöfn en blikur eru á lofti hvað auðs- og eignadreifingu varðar.
Best væri ef hana mætti jafna. Besta leiðin er að losa sig við ríkra-ríkisstjórnir.
Svo tók ég að ræða launamál og rökstuddi að tekjur Íslendinga séu meiri en ætla mætti við fyrstu sýn. Litlu eða engu minni en á hinum Norðurlöndunum að Noregi undanskildum.
Samt er dagvinnukaupið of lágt en það á sér ýmsar skýringar, m.a. í lítilli framleiðni.
Hún kann að stafa takmörkunum á samkeppni, rangri stefnu verkalýðsfélaga fyrr á tímum og allra handa vítahringjum.
Auðvitað gæti auðvaldið líka hafa um vélt en ég sé ekki í fljótu bragði hvernig.
Athugasemdir