Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Oftraust í Noregi?

 Ég hef oft áður nefnt að norski hagfræðingurinn Alexander Cappelen telur að traust sé mesta auðlind Norðmanna. Alltént hafa þeir ríka ástæðu til að treysta hver öðrum, hinu opinbera og einkafyrirtækjum.  Enda sagði Þjóðverji einn með nokkrum rétti að Noregur væri eitt fárra landa þar sem stjórnmálamenn séu flestir í því að efla hag landsmanna, ekki skara eld að eigin köku.

Norðmenn  aka af tillitssemi, Íslendingar svína eins og þeim sé borgað fyrir það. Norðmenn standa í biðröðum eins og siðaðir menn, Íslendingar troðast og frekjast, þeir troðast mest sem völdin og auðinn hafa. 

Frændur vorir í Noregi  sýna mikla samvinnuhæfni og skipulagsgáfu, Íslendingurinn getur vart unnið með sjálfum sér, hvað þá öðrum. Og ekkert skipulagt.

En öllu má ofgera, Norðmenn hafa magir hverjir  hneigð til oftrausts og nánast barnalegrar vissu um að allt gangi nokkuð vel í samfélaginu. Eins og ég hef margsagt ríkir þrúgandi sáttamenning í Noregi, menn eru almennt sáttir um hvað beri að ræða og yfir hverju beri að þegja. Kúrdi nokkur sem búið hefur í Noregi um áratuga skeið sagði við mig  „það er geysmörgu sópað undir teppið í Noregi“.

Norðmenn eru að jafnaði ekki ýkja gagnrýnir á samfélagið, t.d. verður varla sagt að opinbert fjáraustur í landbúnað sé gagnrýnt, hvað þá sú leiða ráðstöfun að framboðslistar flokka séu ákveðnir af fámennum flokksnefndum.

Barnaverndarmál

Nýlega hafa komið upp hneykslismál í Noregi sem eiga sameiginlegt að hafa verið afhjúpuð af erlendum aðilum. Fyrst ber að nefna barnaverndarhneyksli sem ég hef reyndar skrifað talsvert um. Það var ekki farið ræða að ráða um meinta valdníðslu norsku barnaverndarnefndarinnar fyrr en eftir mikil alþjóðleg mótmæli gegn henni. Í ofan á lag dæmdu alþjóðlegir dómstólar gegn barnaverndarnefndinni í fjölda mála.

Hvers vegna þessi sofandaháttur, hvers vegna var ekki verulega umræða um málið fyrr  en erlendar aðilar létu til sín taka? Svarið er að minni hyggju oftraust, alltof margir Norðmenn gefa sér að þeirra stofnanir virki með kórréttum hætti, hið  norska gildismat sé hið eina rétta.

NAV

 Nú er mikið hneykslismál í gangi í Noregi sem varðar stofnun sem heitir NAV, Norsk arbeids- og velferdsforvalting (spannar m.a. tryggingarstofnun). Stofnunin hafði hunsað eða misskilið ESB reglur sem heimila fólki, sem þiggur opinberar bætur, að dveljast annars staðar en í Noregi.

Það makalausa er að dómstólarnir norsku hunsuðu/misskildu sömu reglur og dæmdu 36 manns í fangelsi fyrir að búa erlendis á bótum. Tvö þúsund og  fjögur hundruð manns var gert að skila bótafé vegna sama meinta brots. Svo gerist að alþjóðadómstólar dæma þessu fólki í vil og komast að þeirri niðurstöðu að NAV og norsku dómstólarnir hafi gerst brotlegir við lögin.

Athugið sáttamenninguna, skriffinnar NAV og dómarar gengu  í takt, belgfullir af oftrausti á hver öðrum. Athugið að þessi mál voru vart rædd í Noregi áður en dómarnir féllu.  Athugið hið vélræna við þetta, það eru stofnanirnar sem valta yfir einstaklingana, ekki gjörspilltar klíkur og drullusokkar eins og á Íslandi.

Þessu til sannindamerkis má benda á "afrek" Statsbygg, byggingarstofnunar norska ríkisins. Sú stofnun hefur fengið þá flugu í höfðuðið að allir ríkisstarfsmenn eigi  að fá nákvæmlega si og so mikið skrifstofurými. Helst vill stofnunin láta háskólakennara sitja í opnum skrifstofurýmum sem er gjörsamlega fáránlegt því fræðimennska krefst aðgengis að góðum bókakosti og næðis. Í mínum háskóla var komið á opnu skrifstofurými og nokkrum fjölda kennara hent út af skrifstofum sínum og í þetta rými. Afleiðingin varð sú að flestir þeirra tóku að vinna heima. 

Í þessu tilviki hefur ekki skort mótmæli en hið vélræna Statsbygg situr við sinn keip. Valtar yfir allt og alla. 

Allir Serbar?

Ég hef áður nefnt það þegar Torvald Stoltenberg, þá sáttasemjari í Bosníustrríðinu  bað norska blaðamenn um að þegja yfir því sem hann sagði á blaðamannafundi „þeir eru allir Serbar“. Og blaðamennirnir hlýddu, þótt blöðin hefðu getað grætt stórfé á að slá þessu upp.

Bosníumaðurinn Safet Huseinovic gekk með þessar upplýsingar  frá Pontíusi Pilatusi til Heródesar, frá fjölmiðli til fjölmiðils en mætti alls staðar lokuðum dyrum (pinkublað á nýnorsku,  Dag og tid, nefndi reyndar málið).

Það er ekki fyrr en erlendir aðilar komust í málið að norskir fjölmiðlar sáu að sér og upplýstu Norðmenn um þennan makalausa blaðamannafund. „Upphefðin kemur að utan“ segir máltækið, „gagnrýni kemur að utan“  gildir um þessi þrjú mál sem hér er getið.

Þróunarlíffræði og Noregur

Bandaríski þróunarlíffræðingurinn  David Sloan Wilson heldur því fram að samstaða Norðmanna gefi þeim forskot á aðrar þjóðir og beitir þróunarlíffræðilegum rökum því til sönnunar. Sennilega rétt, án trausts enginn olíusjóður.

En hann virðist ekki athuga eitt: Í dýraríkinu getur eiginleiki sem er kostur í lífsbaráttunni á einu tímaskeiði breyst í ókost á öðru tímaskeiði. Hinir risavöxnu írsku hirtir höfðu mjög stór horn, þeir sem stærstu hornin höfðu fjölguðu sér meira en aðrir og unnu því sigur í lífsbaráttunni. En þetta leiddi til þess að smám saman urðu hornin svo stór að þeir gátu vart borið þau. Afleiðingin varð sú að dýrategund þessi dó út.

Að breyttu breytanda er traust Norðmanna mikil auðlind á margan hátt en getur verið skaðvænlegt  þegar traustið fer úr böndum. Hóf er best í öllu.

PS Skylt er að geta þess að ekki eru allir fræðimenn sammála um að hornastærð hafi orðið hjörtunum að aldurtila, þeir telja að ýmsir aðrir þættir hafi komið til. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni