Norski auðmenn gefa þjóðinni listaverk o.fl. Hvað gefa íslenskir auðjöfrar?
Í Høvikodden fyrir utan Ósló getur að líta mikið safn nútímalistar sem stofnað var af skautadrottningunni Sonja Henie og manni hennar, auðkýfingnum Nils Onstad. Það ber heitið Henie-Onstad safnið.
Hinn forríki útgerðarmaður Anders Jahre var skattsvikari dauðans en gaf stórfé til vísindarannsókna og fræðimennsku. Annar ríkisbubbi, Christian Ringnes, dældi stórfé í höggmyndalystigarð í Ósló. Í þeirri borg má finna Astrup-Fearnley safnið sem stofnað var af auðmönnum. Ekki má gleyma Christer Sveaas sem er mikill listaverkasafnari og hefur sett á laggirnar listasafn.
Spurt er: Hvað gefa íslenskir auðmenn? Svar: Börnum sínum milljarða sem ættaðir eru að verulegu leyti úr sameign þjóðarinnar. Hafa þessir menn gefið þjóðinni eitthvað annað en langt nef?
Rétt skal vera rétt: Þeir sýndu smálit á stuðningi við baráttuna gegn veirunni ógurlegu og áttu á sínum tíma þátt í byggingu Hörpunnar (var Hörpuféð nokkuð annað en lánsfé?). Mig rekur líka minni til þess annað hvort Silli eða Valdi hafi stofnsett sjóð til styrktar vísindarannsóknum.
En ekki er þetta mikið miðað við rausn norskra auðkýfinga (sem sjálfsagt hafa haft skattahagræði af gjafmildinni!).
Ég er ekkert á móti því að sumir séu ríkari en aðrir en gera ber þá kröfu til peningamanna að þeir láti fé af hendi rakna til almannaheilla.
Einhvern tímann las ég grein eftir Atla Þór Fanndal hvar hann vitnaði í rannsókn sem sýndi að íslensk fyrirtæki og peningamenn tækju mun síður félagslega ábyrgð en fyrirtæki og auðmenn á hinum Norðurlöndum. Ég held ekki að þetta komi neinum á óvart.
Athugasemdir