Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Noregur, Svíþjóð og þrúgandi sáttamenning

Ég bjó í Svíþjóð einn vetur,  þá sextán vetra sveinn. Eitt sinn átti ég orðastað við íslenskan lækni sem þar hafði búið um nokkurt skeið.

Við ræddum umræðumenningu Svía.

Hann sagði „þeir sem taka þátt í opinberri umræðu í Svíþjóð eru eins og hluti af læmingjahjörð, þeir hlaupa allir í sömu áttina“.

Náið skyldmenni mitt horfði á sjónvarps-umræður sænskra flokksleiðtoga rétt fyrir þingkosningar.

Eftir smá stund sagði hann stundarhátt, auðheyranlega hneykslaður  „þeir eru allir sammála!“

                                          Skandínavar og einsýni

Ekki virðist Svíþjóð hafa breyst mikið ef marka má nýjan pistil Inga Freys Vilhjálmssonar hér á Stundinni.

Hér  

Hann talar um þrúgandi pólitíska rétthugsun í Svíþjóð, einnig um hve almennar kratískar sættir séu meðal pólitíkusa.

Hann nefnir gagnrýni norska rithöfundarins Karl Ove Knausgård en  sá líkir Svíum við eineyga kýklópa.

 Þessi gagnrýni kemur úr hörðustu átt. Norðmenn eru að vísu ekki eins rétthugsandi og Svíar, samt er einsýnis-þrýstingur litlu minni í Noregi.

 Flokkarnir hér eru meira eða minna sammála um ágæti kratismans, Fremskrittspartiet var með frjálshyggjuhneigðir og fékk bágt fyrir. Flokkurinn var nánast ofsóttur.

Ríkissjónvarpið var fyrir nokkrum mánuðum með umræðuþátt þar sem vinstrifrömuður að nafni Magnus Marsdal átti að rökræða við hægrikonuna Kristinu Clement.

 En þau voru alveg sammála um ágæti velferðaríkisins, aðeins ósammála um einhver smámál. Svíarnir hefðu ekki getað gert betur.

Einn starfsbræðra minna  lærði í Bandaríkjunum um skeið og gat upplýst norskan kunningja um að þess væru mörg dæmi þar vestra að menn fengju læknisþjónustu á nóinu, á sviðum þar sem Norðmenn þyrftu að bíða mánuðum saman eftir lækningu.

Norðmaðurinn neitaði að trúa honum, það var gefið fyrirfram að hið norsk/skandinavíska velferðar-heilbrigðiskerfi væri betra á allan hátt  en ameríska heilbrigðiskerfið.

Vandamálið er ekki kratisminn eða velferðarríkið, þau hafa margt sér til ágætis.

Vandinn er gagnrýnisleysið.

                                        Þrúgandi sáttamenning

Víkur nú sögunni tuttugu ár aftur í tímann. Þá var fyrrum utanríkisráðherra, Torvald Stoltenberg, sáttasemjari Sameinuðu þjóðanna í Bosníustríðinu.

Hann hélt blaðamannafund með norskum blaðamönnum og sagði að allar þjóðirnar á þessum slóðum væru Serbar.

 En hann bað blaðamennina að þegja yfir  þessu. Og viti menn, þeir hlýddu!

Bosnískur flóttamaður í Noregi, Safet Huseinovic að nafni, hafði pata af þessu og gekk milli norskra fjölmiðla og bað þá um að gera málinu skil.

 En hann mætti alls staðar luktum dyrum nema á pinkulitlu nýnorskublaði.

Loksins komust erlendir fjölmiðlar í málið og þá söðluðu norsku fjölmiðlarnir um, heimtuðu jafnvel afsögn Stoltenbergs.

Huseinovic sagði að það ríkti hættuleg sáttamenning í Noregi.

(hér)

Gagnstætt Svíþjóð þá hefur sáttamenningin norska þjóðernislegar hliðar.

Stoltenberg var „okkar maður“ á alþjóðavettvangi, því hlífðu blaðasnápar honum.

Samanber hrifning Íslendinga af „okkar mönnum á alþjóðavettvangi“, útrásargaurunum.

                                       Smugusættir

Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra, var „okkar alþjóða-kona“ enda sagði mér íslenskur blaðamaður, sem oft sat blaðamannafundi með henni, að norsku blaðamennirnir hefðu flatmagað fyrir henni.

Haustið 1994 var Brundtland á kosningafundi í Norður-Noregi. Hún mun hafa verið spurð hvað henni fyndist um skoðanir Íslendinga á Smugumálinu.

Íslendingar sem staddir voru á fundinum sögðu að hún hefði sagt „ég hlusta ekki á músatíst frá Norður-Atlantshafinu“ („Jeg hører ikke på musekvekk fra nordatlanteren“).

Þessi fregn barst til Íslands og mun Jón Baldvin hafa sagt aðspurður í beinni að sé svo þá hljóti músin að vera ógnarstór því Norðmenn telji að hún hafi étið einhver reiðinnar býsn af þorski í Smugunni.

Hvað sem því líður þá var mér vitanlega ekki minnst á þetta mál í norskum fjölmiðlum.

 Enda voru almennar norskar sættir um að Norðmenn hefðu á réttu að standa í Smugudeilunni.

Bæði Brundtland og fleiri ráðherrar kölluðu Íslendinga „veiðiþjófa“ og töluðu eins og til væru alþjóðalög um eignarhald á fiskistofnum.

Enginn leiðrétti þennan misskiling, enginn hneykslaðist á því að heil þjóð væri þjófkennd og það fyrir fiskerí á slóðum  sem Norðmenn höfðu (með semingi að vísu) viðurkennt að væri opið hafsvæði.

Ekki þar fyrir að veiðar Íslendingana voru siðlausar og hefðu aldrei átt að eiga sér stað, sorglegt dæmi um ofurveldi sægreifanna.

En það var a.m.k. deilt um málið á Íslandi, það er varla hægt að tala um deilur í Noregi um Smuguna utan þess að Íslandsvinurinn Ivar Eskeland tók málstað  Íslendinga.

Svo skrifaði ég grein um málið  sem var hafnað af öllum stærstu dagblöðunum, loksins birt í litlu kommablaði.

Norskir fjölmiðlar héldu uppi áróðurskothríð gegn Íslendingum, sérstaklega norska ríkissjónvarpið.

Engum virtist þykja það hneykslanlegt.

Fréttamenn og pólitíkusar komust upp með tala eins og Svalbarðasvæðið væri almennt viðurkennt, það þótt næstum ekkert aðildaríki Svalbarðasamningsins hefði viðurkennt það.

                                                      Bænahúsavinstrið

Á síðustu áratugum hefur orðið til ný/gömul vinstristefna í Noregi, stefna sem ég kalla „bænahúsavinstrið“.

Þetta er sekúlariseruð útgáfa af gamla norska heimatrúboðinu, bænahúsamennskunni.

Heimatrúboðsmenn fóru í hrönnum til fjarlægra landa að kristna heiðingjana, bænahúsavinstrið fer til sömu landa að boða trú á velferðaríkið og stilla til friðar. 

Þetta vinstralið náði  undirtökum  í norskum fjölmiðlum, um svipað leyti og   íslenskt hægra-auðvald öðlaðist ofurvald í íslenskum fjölmiðlum. Summa lastanna er stöðug.

Skoðanakönnun meðal norskra blaðamanna, sem gerð var upp úr aldamótum,  sýndi að 33% þeirra studdu Verkamannaflokkinn en  37%  kusu SV, bróðurflokk Vinstri grænna.

Sá flokkur hefur undir 10% fylgi almennt í Noregi. Sem sagt, borgaralegu flokkarnir voru bara studdir af 30% blaðamanna en smá flokkur til vinstri hafði mest fylgi allra flokka.

(hér)

Alla vega er áberandi vinstrislagsíða á fjölmiðlum hér, Aftenposten sem áður var borgaralegt blað er nú orðið að nokkru leyti vinstrikratískur  rétthugsunarbleðill.

Fyrir kosningarnar 2013 hófu  nokkrir blaðamanna Aftenpostens herferð gegn hægriflokkunum. Blaðamaðurinn Yngve Ekern býsnaðist yfir því að flokkarnir skyldu vilja afnema risaháan ostatoll sem Stoltenbergstjórnin bar ábyrgð á (Ekern (2013): ”Tollfri taktikk” Aftenposten 23 /11).

 Ekkert land verndar landbúnað sinn eins mikið og Noregur en hann er nánast friðhelgur, lítið er um opinbera gagnrýni á landbúnaðarstefnuna.

Hægriflokkarnir vildu auka svigrúm einkaðila í skólarekstri og rauk þá blaðakona Aftenpostens, Mona W. Clausen,  upp til handa og fóta.

Hún fór til Svíþjóðar þar sem skólar hafa verið einkavæddir í stórum stíl. Gagnrýndi  hún einkavæðinguna harkalega og vitnaði  bara í sænsk skoðanasystkin  sína.

Við fengum ekki einu sinni að vita hvernig sænska hægristjórnin verði einkavæðinguna (Mona W. Claussen (2013): ”Vips, så var skolen og helsestasjonen borte”, Aftenposten 14/7).

Ekki skortir pólitíska rétthugsun hjá norskum blaðamönnum. Ári áður en Malala fékk friðarverðlaunin ræddi blaðakona Aftenpostens,  Kristin Solberg, um þann möguleika að verðlaunin féllu henni skaut.

Solberg hneykslaðist mjög á því, þetta væru vestræn verðlaun, gegnsýrð af vestrænum hugsunarhætti. (Solberg (2013): ”En vestlig pris”, Aftenposten 12/10).

Spurt er: Myndu austræn friðarlaun falla Pútín og leiðtogum IS í skaut?

„Fréttaflutningur“ frá ísrael og Palestínu er kapítuli út af fyrir sig. Heimatrúboðið elskaði Ísrael, bænahúsavinstrið elskar Palestínu.

Menn muna kannski bardagana í palestínsku flóttamannabúðum í Jenin. Fréttaritari NRK, Lars Sigurd Sunnanå, upplýsti sjónvarpsáhorfendur um að Ísraelsher hefði drepið þúsundir óbreyttra borgara í búðunum.

(hér)

En svo komst rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna að þeirri niðurstöðu að aðeins 52 einstaklingar, flestir með vopn í hönd, hefðu fallið.

(hér)

Spyrja má hvaða heimildir Sunnanå hafði haft fyrir máli sínu, Palestínumenn höfðu sagt að um fimm hundruð óbreyttir borgarar  hefðu verið drepnir af Ísraelum.

(hér)

Kokgleypti Sunnanå   áróðri þeirra?

Mennta- og listamenn í Noregi eru ekki síður á valdi bænahúsavinstrisins en blaðamenn.

Fyrir fáeinum ár varð smjörþurrð í búðum og er það mál manna að hálfeinokun mjólkursamsölunnar TINE hafi verið orsakavaldurinn.

En eins og áður segir má helst ekki gagnrýna landbúnaðarstefnuna norsku.

Þekktur leikari, Espen Skjønsberg, skammaði landa sína í sjónvarpsviðtali fyrir að kvarta yfir smjörleysinu. Það bæri vitni um græðgi.

Bænahúsavinstrið er nefnilega einkar púrítanskt.

Menntamaður af þess kyni, Dag Hareide, hefur mælt með því að Norðmenn gefi þriðja heiminum olíusjóðinn (Hareide (2015): «Hva ville Jesus sagt om oljefondet?» Aftenposten 25/2).

Hann er reyndar ekki eini bænahúsavinstrungur sem þannig hugsar.

Annar vinstrimenntamaður, prófessor Thomas Hylland Eriksen, segir að „Afghanir“ (les: Talíbanar) vilji losna við erlend hernámslið, rétt eins norska andspyrnuhreyfingin á stríðsárunum (Hylland Eriksen (2013): ”En overopphetet klode”, Morgenbladet 6-12 september).

 Spurt er: Grýttu Norðmennirnir ótrúar konur í hel?

Vandinn er sá að bænahúsavinstrið hefur algert frumkvæði í allri umræðu meðal norskra menntamanna.

Frjálshyggjusinnaðir menntamenn eru varla til, í norskum menntaheimi ríkja þrúgandi vinstrisættir.

Vandinn er ekki vinstrimennska, hún hefur margt sér til ágætis.

Vandinn er pólitísk einhverfa.

 

                                                         Lokaorð

Hannes Sigfússon orti um „líf, meðfærilegt eins og vindlakveikjari“.

Skandínavísk líf eru svo lítið þannig, menn eru óþarflega meyrir og sáttfúsir.

Í Noregi eru almennar sættir um að rétt sé að stunda útilíf og skíðagöngu.

Lífstíll Norðmanna er sennilega enn einsleitari en lífsstíll Íslendinga og einn meginliðurinn í norsku útgáfunni af skandinavískri sáttamenningu.

Þetta er fylgifiskur hins skandinavíska lögmáls frá Jante: Enginn má skara fram úr, enginn má heldur vera verri en hinir.

En þessu fylgir líka samstaða, traust, ögun og heiðarleiki.

 Án sáttamenningar og jantelögmáls hefðu Norðmenn aldrei lyft Grettistaki olíuauðsins. Nánar um það síðar.

                                            

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni