Nietzsche fer til Noregs og Íslands
Heimspekingurinn Friedrich Nietzsche var búinn að liggja í sinni djúpu gröf í hundraðogfimmtán ár, hafði reyndar horfið heiminum fyrr.
En svo gerist árið 2015 að hann vaknaði allt í einu til lífsins við að risastór krumla greip um hann og lyfti honum upp úr gröfinni. Hristi hann þannig að moldin hreinsaðist af honum.
Eins og menn grunar þá varð hann ansi undrandi yfir þessari uppákomu, hann hélt sig vera kirfilega dauðann. Hann hrópaði „hvað er að gerast?“
Þrumurödd svaraði „ég hef vakið þig til lífsins til að ráða ákveðna gátu“.
„Hvaða gátu?“
„Þá hvort kenna megi norskt og íslenskt siðferði við annað hvort það sem þú kallaðir„herrasiðferði“ eða „þrælasiðferði“.
„Æjá, ég skrifaði víst eitthvað um þetta áður en ég fór yfir um.
Bíddu nú við, herrasiðferði, það var hið upprunalega siðferði drottnara sem ekki duldu drottnunargirni sína, voru óhræddir að viðurkenna að þeir teldu sig borna til valda. Þeir dáðu aflið og lífsgleðina, voru lífsins meginn.
En skríllinn öfundaði drottnarana, gerði uppreisn gegn þeim. Nýtt siðferði tók við, þrælasiðferðið.
Samkvæmt henni eiga menn að vera auðmjúkir og bljúgir, allir eiga að vera jafnir.
En í reynd þýðir þetta að sumir verða jafnari en aðrir. Hræsnisfullir prestar tóku völdin svo lítið bar á. Þeir trúðu því sjálfir að þeir væru valdalausir en stjórnuðu skrílnum í reynd með stöðugum umvöndunum og siðaprédikunum.
Þannig fékk lýðurinn stöðugt samviskubit og beygði sig í duftið fyrir prestunum og hinu lífsfjandsamlega þrælasiðferði.
Ekki má túlka orðið „prestur“ bókstaflega, hundheiðnir pólitískir rétttrúnaðarmenn geta fullt eins talist prestar.“
Þrælasiðferði í Noregi
Röddin svaraði: „Gott, nú flyt ég þig til Noregs, ég læt þig læra norsku á einu andartaki. Hókus—pókus læri Nietzsche norsku!“.
Krumlan grípur nú Nietzsche og sendir til Noregs, hvar hann dvelur þar um nokkra hríð.
Röddin kemur að máli við hann og spyr „jæja, hvernig er siðferðið í Noregi?“
„Þrælasiðferði án nokkurs vafa, í Noregi ríkir harðsoðinn jafnaðarhyggja sem kennd er við lögmálið frá Jante.
Samkvæmt því mega menn ekki vera öðru vísi en aðrir og alls ekki skara fram úr en þeir mega heldur ekki vera lakari eða fátækari en Meðaljón(a).
Áður ríktu bænahúsaprestar yfir lýðnum, nú ríkir póltískur rétttrúnaður, heiðinn útgáfa af bænahúsakristninni.
Rétttrúnaðarmenn stjórna með stöðugum móraliseringum og aðfinnslum.
Tökum smjörkreppuna miklu sem dæmi. „Þökk“ sé hálfgildings einokun mjólkursamsölunnar TINE varð smjörþurrð í Noregi skömmu fyrir jól í kringum 2010.
Þekktur leikari skammaði Norðmenn fyrir að kvarta yfir smjörþurrðinni, það væri dæmi um græðgi. Græðgi er hið argasta Jante-laga-brot.“
Herrasiðferði á Fróni
„Jæja“, svaraði röddin, „þá er komið að því að senda þig til Íslands. Hókus-pókus, læri Nietzsche íslensku!“
Nietzsche dvelur nú á Fróni um nokkurt skeið. Að þeirri dvöl lokinni hittir hann röddina á ný.
„Hvað segirðu um siðferðið á þessu guðsvolaða skeri?“ spyr röddin. „Herrasiðferði af verra taginu“, svarar þýski heimspekingurinn.
„Græðgi þykir þar góð og keppast jafnt háir sem lágir um að næla sér í sem mest góss, sigra í lífsgæðakapphlaupinu (það orð er ekki hægt að þýða á norsku).
Menn vaða yfir hvern annan fullir af frekju og ofstopa enda lítur sérhver Íslendingur á sig sem réttborinn drottnara.
Ekki eru ráðamenn betri, þeir eru ófeimnir við að hygla sjálfum sér og ættingjum sínum, gefa auðvaldsherrum kvóta o.s.frv.
Ég hef uppgötvað á Íslandi að herrasiðferðið er ekki eins gott og ég hélt, það er ekki fremur lífsins meginn en þrælasiðferðið. En þar sem ég er dauður get ég ekki unnið úr þessari gagnrýni.
Kannski að núlifandi heimspekingar, t.d. Stephan Schneiwald, úps, ég meina Stefán Snævarr, geti unnið þetta skítverk fyrir mig.“
Þannig mælti Friedrich Nietzsche rétt áður en hann skreið ofan í gröfina og drapst á ný, steindrapst.
Og röddin steinþagnaði.
Athugasemdir