Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Makrílfrekja sægreifanna og þríflokkabandalag 2021

Mér varð óglatt þegar ég frétti af nýjustu uppákomu sægreifanna. Nokkrir þeirra heimta nú milljarða af ríkissjóði vegna þess að þeir telja sig hlunnfarna um makrílkvóta. Þessi krafa er sett fram á tímum þegar alvarleg efnahagskreppa er í nánd og ríkissjóður þarf á öllu sínu að halda til að efla atvinnuvegi og heilbrigðiskerfi. Hafa sægreifarnir ekki fengið nóg af almannafé? Mál er að linni, mál er að gjörbreyta kvótakerfinu almenningi í vil. En slíkar breytingar eru ekki mögulegar svo lengi sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sitja í ríkisstjórn.

Því miður hafa íslenskir stjórnmálaflokkar þá leiðu áráttu að ganga óbundir til kosninga. Það  vill verða til þess að þeir myndi stjórn með þeim sem best býður, án tillits til hugmynda og hugsjóna. Þessu verður að breyta, tillaga  mín er sú að Samfylkingin, Píratar og Viðreisn geri með sér kosningabandalag í næstu kosningum. Þeir geri málefnasamning fyrir kosningar og skuldbindi sig til að rjúfa ekki samstöðuna. Fari einn í ríkistjórn fari þeir allir, verði einn utan stjórnar verði þeir það allir.

Meginatriði samningsins ætti að vera breyting á kvóta- og landbúnaðarkerfinu, auk baráttu gegn hvers konar spillingu. Og auðvitað skapa réttlátt kjördæmakerfi, öll atkvæði eiga að vega jafn mikið.

Eins og stendur vantar þessa flokka talsvert upp á að ná hreinum meirihluta saman. En Íslendingar eru nýjungagjarnir og væru vísir með að styðja þennan nýja kost. 

Þríflokkurinn gæti orðið  þríforkur, hárbeitt vopn í baráttunni gegn spillingaröflunum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu