Lýðræði eða þekkingarræði?
Þegar ég var á gelgjuskeiðinu las ég og félagar mínir bók um mannshugann sem AB gaf út. Þar var mikið rætt um greindarmælingar og þótti okkur þær merkar. Einn félagi minn setti fram þá tillögu að atkvæðisréttur yrði tengdur greindarvísitölu, sá sem hefði greindarvísitöluna 100 fengi eitt atkvæði, sá sem hefði 140 fengi 1,4 atkvæði og svo framvegis.
Þessi tillaga er í anda svonefnds þekkingarræðis (e. epistocracy) en hugmyndin um það á sér gamlar rætur, ekki sist hjá Platoni. Heimspekingurinn John Stuart Mill var vissulega talsmaður lýðræðis en taldi rétt að atkvæði velmenntaðs fólks fengju meira vægi en atkvæði pöpulsins.
Jason og gullna þekkingarræðið.
Bandaríski stjórmálafræðingurinn Jason Brennan hefur blásið nýju lífi í þessar hugmyndir og boðar þekkingarræði sem jafnframt varðveiti ýmsa af kostum lýðræðisins.
Hann bendir á að fáfróðir kjósendur lyfti lýðskrumurum á borð við Trump til æðstu valda, segi Bretland úr Evrópusambandinu og stuðli að ættbálkavæðingu bandarískra stjórnmála. Sú væðing komi í veg fyrir skynsamlega samvinnu flokkanna.
Brennan er hófsamur frjálshyggjumaður, einn þeirra sem kennir sig við hjartahlýja frjálshyggju (e. bleeding heart libertarianism). Eins og frjálshyggjumanni sæmir gerir hann lítið úr lýðræðinu, sérhver kjósandi hafi nánast enga möguleika á að hafa áhrif á úrslit kosninga. Álíka mikinn möguleika og að vinna allrahæsta vinninginn í happdrætti.
Þess vegna hafi kjósandinn engan hvata til að kynna sér stjórnmál vel, hann geti fullt eins notað kosningarétt sinn til að fá útrás fyrir fordóma sína. Stjórnmálaþáttaka sé ekki mikilvæg fyrir fólk almennt enda geti hún gert menn heimska og illgjarna.
Kosningaréttur sé ekki meðal mannréttinda, gagnstætt t.d. málfrelsi en slíkt frelsi veiti einstaklingnum vald yfir sjálfum sér, kosningarétturinn vald yfir öðrum. Þannig sé kosningaréttur andstæður frelsisréttindum en þau veiti mönnum vald yfir sjálfum sér, ekki öðrum. Það sem meira er, þegar meirihlutinn tekur ákvörðun tekur hann ekki bara ákvörðun fyrir sig sjálfan heldur fyrir minnihlutann, börn, útlendinga o.s.frv. Til að gera illt verra efli lýðræðið vald meirihlutans en ekki einstaklinganna sem mynda þann meirihluta.
Kjósendur séu almennt illa upplýstir, skoðanakannanir sýni að meirihluti bandarískra kjósenda viti ekki hvaða flokkur hafi meirihluta á þingi. Og í forsetakosningunum árið 2000 kom í ljós að minnihluti aðspurðra vissi að Gore vildi frjálsar fóstureyðingar og öflugra velferðarkerfi, gagnstætt Bush.
Þess utan hafi skoðanakannanir sýnt að bandarískir kjósendur hafi almennt aðra sýn á efnahagsmál en hagfræðingar. En til þess að taka skynsamlega afstöðu til stjórnmála verði menn að hafa lágmarksþekkingu á hagfræði og stjórnmálafræði.
Athygli vekjandi er sú staðreynd að Brennan hafnar þeirri frjálshyggjuskoðun að kjósendur noti bara atkvæðisrétt sinn til að skara eld að eigin köku. Rannsóknir sýni að kjósendur séu glettilega lítið sérgóðir.
Frá lýðræði til þekkingaræðis
Brennan segir að lýðræði sé aðeins tæki, ekki takmark. Það sé bara tæki til skilvirkrar stjórnunar, sé til betra tæki þá beri að nota það og sálga lýðræðinu. Sumir telji að kosningaréttur sé ekki aðallega réttur til þess að stuðla að skilvirkri stjórn heldur réttur sem tjái að allir einstaklingar hafi jafn mikið ágæti. En ekki sé ljóst að svo sé, fullt eins megi tjá jafngildi allra manna í ljóði.
Ríkisstjórn hljóti að hafa að markmiði að stuðla að friði, vernda almannagæði og stuðla að réttlæti. Til þess verði hún að vera skilvirk, hún verði það ekki sé hún jafngildi kvæðis.
Bót í máli sé að fróðir kjósendur hafi kerfisbundið aðrar skoðanir á þessum málum en hinir fáfróðu, án tillits til kynferðis, kynþáttar eða tekna. Hinir fróðu sé jafnan fylgjandi frjálsri verslun, hnattvæðingu, innflytjendum og frjálslyndri lagasetningu. Þeir séu líka fjarri því að vera sérgæðingar, rannsóknir sýni að hinir fróðu séu tilbúnir til að efla hag hinna verst stæðu. Því séu litlar líkur á að stjórn hinna fróðu leiði til þess að þeir skari eld að eigin köku, á kostnað hinna fáfróðu.
Þekkingarræði felist í því að vald hinna fáfróðu sé takmarkað. Kosningarétt mætti takmarka með þeim hætti að menn yrðu að þreyta próf um pólitíska þekkimngu, réttinn öðlist menn bara ef þeir nái prófinu.
Einnig mætti hugsa sér að allir fullorðnir borgarar hefðu kosningarétt en þeir, sem nái prófinu, fái aukaatkvæði.
Þriðji möguleikinn sé sá að kosningar verði með núverandi lýðræðissniði en hópur fróðra manna hafi neitunarvald þegar um lagasetningu sé að ræða. Til dæmis gæti hópur efnahagssérfræðinga haft neitunarvald um lagasetningu sem varðar efnahagslífið.
Fjórði möguleikinn sé sá að allir borgarar megi greiða atkvæði en verði um leið að taka þekkingarpróf. Síðan séu atkvæðin veginn og metinn á grundvelli þekkingar kjósenda og staðtölufræðingar kveði svo á um hvaða niðurstaða hefði orðið ef kjósendur hefðu almennt verið vel upplýstir. Sú niðurstaða verði niðurstaða kosninganna. Þetta segir Brennan að sé vel framkvæmanlegt.
Einnig sé ekkert mál að hanna þekkingarpróf, notast mætti við próf sem menn verða að þreyta til að geta orðið bandarískir ríkisborgarar. Reyndar mætti ákveða með lýðræðislegum hætti hvernig prófið ætti að verða, lýðræði geti virkað vel í slíkum málum.
Gagnrýni mín á Brennan
Hugmyndir Brennans eru merkilegar en engan veginn hafnar yfir gagnrýni. Ég reifa hér gagnrýni mína í ellefu liðum.
1. Við höfum enga tryggingu fyrir því að hinir fróðu noti ekki vald sitt til að skara að eigin köku. Það þótt Breannan fullyrði hið gagnstæða.
2. Það að ákveða hvaða skilyrði yrðu að vera fyrir því að menn fengju kosningarétt gæti orðið hrossakaupaatriði. Ýmis af vandkvæðum lýðræðis gætu komið við sögu, t.d. að niðurstaðan af atkvæðagreiðslu um skilyrðin yrði niðurstaða sem enginn eiginlega vildi.
3. Stjórnmál fjalla að miklu leyti um það sem ætti að vera, ekki það sem er, um siðaboð, ekki staðreyndir. Margir heimspekingar eru þeirrar hyggju að óbrúanlegt bil sé mili staðhæfinga um staðreyndir og siðaboða. Frá raunhæfingunni (staðhæfingu um staðreyndir) «meirihluti kjósenda telur rétt að leyfa fóstureyðingar» leiði ekki siðaboðið «það á að leyfa fóstureyðingar». Sé óbrúanlegt bil milli þessa tvenns þá gerir þekking á staðreyndum menn ekki endilega vel hæfa til pólitískra ákvarðana.
4. Mörg af þeim hugtökum sem leika mikilvægt hlutverk í pólitískum ákvörðunum eru gildishlaðin hugtök. Hugtakið um morð er slíkt hugtak, það er hugtak um það að svipta menn lífi með óréttmætum hætti. Það er álitamál hvort fóstureyðingar eru morð eða réttlætanleg svipting lífs. Sá sem telur fóstureyðingar vera morð hlýtur að telja að morðtíðni vestanhafs hafi aukist verulega eftir að Bandaríkin leyfðu fóstureyðingar. Sá sem fylgir frelsi til fóstureyðinga verður að telja að morðtíðnin hafi þvert á móti minnkað.
Þannig ræðst ágæti margra raunhæfinga af gildismati enda er stór hluti af staðreyndum um samfélagið gegndreypa af gildismati.
Er ég að segja að gildismat og siðaboð séu öldungis huglæg, jafnvel smekkbundin? Nei, til er hlutlægt gildismat, t.d. er það ekkert smekksatriði að segja um hníf að hann sé góður ef hann bítur vel og er óryðgaður. Þess utan hafa raunhæfingar gildismat að forsendu. Að staðhæfa eitthvað í fullri alvöru þýðir að maður telji að staðhæfingin byggi á góðum rökum en orðið «gott» er gildisyrði. Þá á að jafnaði að vera hægt að finna út hvort tiltekin rök séu góð eða slæm.
Einnig kom boð ýmis konar við sögu staðhæfinga, menn gætu ekkert staðhæft nema það sé fremur regla en undantekning að þeir fylgi því boði að setja fram staðhæfingar sem þeir telja vit í. Þess utan er ekkert vit í siðaboðum nema þau séu framkvæmanleg en til þess að skera úr um það verða menn að þekkja staðreyndir.
Samt er engin formúla fyrir því hvaða pólitískt gildismat eða siðaboð séu réttmæt og engin ástæða til að ætla að mikil menntun geri menn vel hæfa til að skera úr um það. Nema hvað varðar spurninguna um það hvort siðaboð séu framkvæmanleg.
Þess utan gæti ég haft á röngu að standa um siðaboð og gildismat, kannski eru þau handan allrar skynsemi. En þá skiptir menntun engu máli þegar pólitískt gildismat og siðaboð eru annars vegar.
5. Mörg af þeim hugtökum, sem skipta pólitík máli, eru heimspekilegs eðlis en ekki eru til neinar traustar aðferðir til að leysa heimspekileg vandamál. Frelsishugtakið er eitt þessara hugtaka, sumir fræðimenn telja að frelsi sé fjarvera þvingana, aðrir að frelsi sé máttur til gjörða, enn aðrir að það sé fjarvera drottnunar. Ekki er til nein 100% örugg aðferð til að ráða frelsisgátuna.
Hér kunna reyndar þekkingarræðismenn að eiga leik á borði. Verða kjósendur ekki að vera sæmilega fróðir um heimspeki til að geta sagt eitthvað af viti um frelsishugtakið?
6. Brennan virðist trúa því að fræðigreinar á borð við hagfræði og stjórnmálafræði bjóði upp á hlutlæg sannindi en það er engan veginn ljóst (hann virðist þjakaður af hagfræðidýrkun frjálshyggjunnar). Margt bendir til að þeim gangi illa að samhæfa sértækar kenningar og reynslugögn, sá vandi virðist hrjá öll félagsvísindi að sálfræði meðtalinni.
Sé þetta rétt þá eru þeir sem mikla þekkingu hafa á þessum fögum ekki miklu betur færir um að taka skynsamlegar ákvarðanir um tæknilegar hliðar stjórnmála en hinir ómenntuðu.
Athugið líka að hafi öfgafullir póstmódernistar á réttu að standa um að vísindi séu félagsleg sköpunarverk hagsmuna og gildismats þá er tómt mál að tala um hlutlæga þekkingu á samfélaginu.
7. Brennan hefur tröllatrú á skynsemi menntamanna. En einn gagnrýnandi hans bendir á að meirihluti háskólamenntaðra, hvítra karlmanna í BNA styðji loddarann og lýðskrumarann Donald Trump (Crain 2016).
Og ekki er langt síðan æði drjúgur hluti menntastéttarinnar (alla vega í Vestur-Evrópu) fylgdi marxisma sem frjálshyggjumaðurinn Brennan hlýtur að telja harla vonda speki.
Í dag eru mjög margir menntamenn, ekki síst í Bandaríkjunum, fylgjandi öfgafullri, pólitískri rétthugsun. Varla hugnast Brennan það.
Telji menn að hinir gáfuðu eigi að stjórna þá ættu þeir að líta á rannsóknir kanadíska sálfræðingsins Keith Stanovich en hann segir að gáfumenn séu ekki endilega skynsamir. Hann kemur með ýmis dæmi um slíkt, trú ofurgáfaðra einstaklinga á fáránlegar kreddur. Einnig nefnir hann til sögunnar nóbelshafa í efnafræði sem trúað hafi því að honum hafi verið rænt af geimverum og að HIV veiran valdi ekki alnæmi.
Nú er sálfræði vissulega ekki traustust fræðigreina en Stanovich gæti hafa rambað á sannleikann.
8. Brennan vanmetur ýmsar jákvæðar hliðar lýðræðis: Það gefur mönnum kost á að losa sig við valdsmenn sem misnota vald sitt. Í öðru lagi fara lýðræðisríki sjaldan (jafnvel aldrei) í stríð við hvert annað. Í þriðja lagi hefur nóbelshagfræðingurinn Amyarta Sen leitt athyglisverð rök að því að ekki verði hungursneyðir í lýðræðisríkjum (Sen 1999: 154). Í fjórða lagi bendir ýmislegt til þess að lýðræði stuðli að hagvexti (Acergolu 2004).
Menn geta deilt um hvort hagvöxtur sé af hinu góða og tæpast er hægt að sanna svo óyggjandi sé að hungursneyðir og stríð séu af hinu illa. Benda ber á að þeir fræðimenn, sem hér er vitnað í (Sen og kó), stunda samfélagsfræði og þau eru ekki verulega traust.
9. Kenningin um þekkingarræði gæti haft hættulegt fordæmisgildi. Kenningin gæti verið á því sem heimspekingar kalla «braut hinna hálu raka (e. slippery slope arguments). Smám saman gæti trú á þessa kenningu hverfst í sannfæringu um réttmæti þess að takmarka atkvæðisrétt við fleira en menntun, t.d. eign en slík takmörkun hefur löngum verið frjálshyggjumönnum kær (t.d. Hannes 1999: 253) (Brennan er elitísti eins títt er um frjálshyggjumenn).
Kenninguna um þekkingarræði má misnota, t.d. beittu rasistar í Suðurríkjunum þekkingarræðisrökum til að svipta svertingja kosningarétti. Sá réttur var takmarkaður við þá sem kunnu að lesa en margir svertingjar voru ólæsir enda sáu rasistarnir til þess að þeir fengju litla eða enga menntun.
10. Til framkvæma hugmyndir Brennans yrði að breyta samfélaginu í tilraunastofu, reynslan af slíku er ekki góð. Kommúnistaríkin voru tilraunastofur, einnig Síle á dögum Pinochets. Sporin hræða.
11. Kenningin um að almennur kosningaréttur tjái jafngildi einstaklinga er ekki arfavitlaus. Slíkur réttur kann að efla samstöðu manna en skortur á slíku getur leitt til ófarnaðar.
Bæta má við að ástralska fræðikonan Lisa Hill telur lausnina á vanda fáfræðinnar þá að skylda menn til að kjósa eins og gert er í Ástralíu. Það kerfi hafi leitt til þess að ástralskir kjósendur kynni sér stjórnmál betur en kjósendur annars staðar á hnettinum. Kerfið eigi þátt í að gera Ástralíu að landi með tiltölulega miklum efnahagslegum jöfnuði. Vandi flestra lýðræðisríkja sé ekki ofurvald meirihlutans heldur þess minnihluta sem drattast á kjörstað. Ekki skal lagður dómur á það hér.
Ég vil benda á einn mögulegan kost þekkingarræðis: Slíkt kerfi gæti orðið hvati þess að menn kynntu sér stjórnmál vel. Með því gætu þeir öðlast meiri stjórnmálaréttindi og kannski hærri "status" í samfélaginu. Það yrði ef til vill gæðastimpill á mönnum að þeir hefðu mikil stjórnmálaréttindi og því kappsmál margra að afla sér þeirrar þekkingar sem með þyrfti til öðlast þessi réttindi.
Lokaorð
Hugmyndir Brennans um þekkingarræði eru athyglisverðar en engan veginn skotheldar. Svo má minnast orða Churchills um að lýðræðið sé versta hugsanlega stjórnarformið að öllum hinum undanskildum.
Heimildir.
Daren Acergolu 2004. Democracy Causes Growth. http://www.nber.org/papers/w20004.pdf
Jason Brennan 2016. “Against Democracy”. The National Interest.
Caleb Crain 2016: „The Case Against Democracy“ The New Yorker.
https://www.newyorker.com/magazine/2016/11/07/the-case-against-democracy
Hannes Hólmsteinn Gissurarsson (1999): Stjórnmálaheimspeki. Reykjavík : Hið íslenzka bókmenntafélag.
Lisa Hill. 2017. „Against Epistocracy: For True Democracy“. The Critique. http://www.thecritique.com/articles/against-epistocracy/
Amartya K. Sen. 1999. Development as Freedom. Oxford: Clarendon Press.
Athugasemdir