Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Listamenn og launin vondu

 Hið árlega gól um listamannalaun hljómar nú á Íslandi, þau eru talin

 mikil blóðtaka skattgreiðanda. Ég mun reyna að sýna fram á að það sé tóm della, eins og flest sem listamannalauna-féndur hafa til málanna að leggja.

Kostnaður af lisamannalaunum = 2800 kr á skattgreiðanda!

Lítum á staðreyndir málsins:  Listamannalaun nema sem svarar hálfum milljarði íslenskra króna, ef mínir útreikningar eru réttir þá nema þau  562.240.000 IKR á þessu ári. Þeir sem stungu fé undan til aflandseyja rændu Ísland um 4.6-15.5 milljarða króna á ári. Upphæðin sem aflandshyskið rændi Íslendinga á ári er því níu til þrjátíu sinnum meiri en það fé sem fer í listamannalaun. Er ekki meiri ástæða til að heimta þá peninga en fjargviðrast yfir listamannalaun? Hvað hirða sægreifarnir í rentu? Hvað  hefur röng stefna í orkumálum kostað almenning? Kolbeinn Óttarsson Proppé staðhæfir að Kárhnjúkaruglið eitt kosti  íslenskan almenning þrjá milljarða á ári, eða sexfalda þá upphæð sem fer í listamannalaun. Hvað mætti bjarga mörgum langveikum börnum fyrir féð sem fór í Kárahnjúkahítina? Segjum að tvö hundruð þúsund manns greiði skatta á Íslandi. Það þýðir að sérhver skattgreiðandi borgi segi og skrifa 2800 krónur árlega í listamannalaun.  Fyrir þá upphæð getur hann keypt hvorki meira né minna en  tvo pakka af frosnum kjúklingabringum í Bónus (1198 kr.  á pakkann) og eitthvað smáræðis fyrir afganginn. Svakalega er þetta mikil blóðtaka fyrir skattgreiðendur!  Einhver Ingó Veðurguð, sem bölvar listamannalaunum í blaðaviðtali, segist hæðnislega heldur vilja borga listamönnum beint úr eigin vasa en að láta skattakerfið um þetta með ærnum tilkostnaði. Einn listamaður fékk eins mánaðar laun, um 350.000 krónur. Það þýðir að Ingó  Veðurguð yrði að borga honum sem svarar rúmri einni krónu, „saltkjöt og baunir, túkall“. Svei mér ef það setti ekki Ingó blessaðan  á hausinn! Við þetta má bæta að ríkið hefur all verulegar skatttekjur af listastarfi, m.a. vegna söluskatts. Sigurður A. Magnússon, rithöfundur,  staðhæfði einhvern tímann að hið opinbera hefði meiri tekjur af listum en sem næmi ríkisstuðningi við þær. Prófessor Ágúst Einarsson hefur rannsakað þessi mál og komist að þeirri niðurstöðu að listir dragi björg í bú, séu íslensku þjóðfélagi efnahagslega hagvæmir. Framlag menningar til landsframleiðslu er 4%, segir Ágúst. Bæta má við að urmull íslenskra bóka er þýddur á erlendar tungur, bæði skilar það sér í beinum hagnaði, eins  er hagkvæm landkynning af útflutningi íslenskra bóka og annarra listaverka. Hafi þeir Sigurður og Ágúst á réttu að standa þá borgar téður Ingó ekki eins eyring í listamannalaun, listirnar standa undir sér sjálfar og gott betur. Hugsum okkur nú að þessi 4% landsframleiðslu sem menningin skapar séu að hálfu ættuð frá listamannalaunum. Tökum dæmi: Skáldsaga sem ekki hefði verið saminn nema vegna þess að höfundurinn  naut  listamannalauna gæti verið þýdd á mörg tungumál,  selst vel ytra og malað þjóðarbúinu gull. Kannski stuðla listamannalaunin þannig að því að Veðurguðinn fái á hverju ári 2800 krónur aukalega í vasann sinn. Það er því engan veginn ljóst að listamannalaun séu nokkur baggi skattgreiðendum, Veðurguðinn  getur andað léttar.

Villa Bjarts í Sumarhúsum

 

Forsenda þess sem Veðurguðinn  segir er sú að sérhver einstaklingur sé hin eina sanna  uppspretta alls sem hann þéni, rétt eins og Guð Biblíunnar sem skóp heiminn úr engu. En þessi hugmynd um einstaklinginn er röng og má kalla „villu Bjarts í Sumarhúsum“, villu hins eilífa Íslendings sem hokrar í koti fjarri mannabyggðum. Villa sem sækir næringu í frjálshyggjuáróður. Af hverju er þetta villa? Vegna þess að allt sem við þénum á sér einhverjar rætur í samstarfi við aðra, vinnuframlagi fólks á fyrri tímum frá steinöld til vorra daga, í hugkvæmni og framtakssemi manna lífs sem liðinna o.s.frv. Veðurguðinn  myndi ekki hafa miklar tekjur ef Edison og fleiri hefðu ekki fundið upp ljósaperuna, George Boole ekki lagt grundvöll að þeirri algebru sem gerir tölvuforrit möguleg. Eða Bretar eflt markaðsfrelsi á sautjándu og áttundu öld,  Thor Jensen hafið blómlegan atvinnurekstur um aldamótin 1900 o.s.frv. Eða Steve Jobs og félagar sett Apple á laggirnar, reyndar hefðu þeir ekki komist langt ef bandaríska ríkið hefði ekki stutt tæknirannsóknir með afar öflugum hætti. Vonda ameríska ríkið tók skattfé af mönnum og notaði til að styðja grunn- og tæknirannsóknir. Án þessarar illu framkomu ríkisins væru Bandaríkin ekki forystuland í tækni og almenningur þar vestra fátækari.  Reyndar yrði almenningur almennt fátækari, Veðurguðinn hefur örugglega  grætt á bandarískri tækni-nýsköpun (ætti hann að endurgreiða amerískum skattgreiðendum?). Veðurguðinn   mundi heldur ekki bera mikið úr býtum ef ríkið hefði ekki séð til þess að samstarfsmenn hans nytu þeirrar lágmarksmenntunar sem gerir þeim kleift að lesa og reikna. Starfshæfni sína á hann m.a. að þakka foreldrum sínum, þau foreldrum sínum og svo koll  af kolli. Hefði hann fæðst í Bangla Dess væri hann sennilega dauður úr hungri. Hann er sjálfsagt vinnusamur eins og Íslendinga er siður en væri hann það ef hann væri alinn upp í samfélagi þar sem vinnusemi er síður metinn? Þýski félagsfræðingurinn Max Weber taldi að mótmælendatrúin hefði eflt vinnusemi mikið. Sé það rétt má Ingó  þakka Marteini Lúter og hyski hans fyrir dugnað sinn. Og hvar væri ávöxtur vinnusemi hans ef engin væri lögreglan, engir læknar og engin sjúkrahús? Þess utan er Veðurguðnum  frjálst að flytja til landa þar sem engin eru listamannalaunin.

Birta í Sumarhúsum og ríkið illa

Bjartsvillan er frjálshyggjuvilla. Önnur slík er vondaríkis-villan, þá villu að allt sem ríkið geri sé af hinu illa. Víkur nú sögunni að Birtu í Sumarhúsum sem kallar sig „Ernu Ýr Öldudóttir“. Hún heldur því fram að listamannalaun geri listamenn háða ríkinu, ríkisvaldið sé í raun að verja sig fyrir gagnrýni með slíkum launum. Hafi ég skilið hana rétt þá geta opinberir styrkir, m.a. listamannalaun orðið til  þess að ríkisvaldið láti „…framleiða list sem að  á beinan eða óbeinan hátt sýnir verk þess og stefnu á jákvæðan hátt. Hins vegar losnar ríkisvaldið að mestu við gagnrýni alvöru listamanna því hver vill bíta höndina sem fóðrar þá?“ Í þokkabót ákveði ríkið með þessu móti hvað teljist alvörulist. Ekki bæti úr skák þegar menn réttlæti ríkisstyrkta list með því að hún sé nauðsynleg til að vernda þjóðmenningu, slíkir höfði til frumstæðustu hvata fólkas, segir þessi birtingarmynd Birtu í Sumarhúsum, Erna Ýr Öldudóttir. Lítum fyrst á staðhæfinguna um þjóðmenningu, Erna Ýr rökstyður ekki mál sitt, heldur beitir ad hominem rökum, gerir andstæðinga sína tortryggilega. Þeim er lýst sem fólki sem höfðar til lægstu hvata manna. Þetta er ekki svara vert fremur en önnur ad hominem „rök“. Ekki er heldur mikið spunnið í staðhæfinguna um ríkið ákveði hvað teljist list, almenningi er frjálst að láta eiga sig að kaupa bækur sem hann telur ekki listrænan. Höfundur og forlag hans fá skellinn. Í ofan á lag talar hún eins og ríkið sé lifandi vera með vitund og vilja og haldið annarlegum hvötum. Það er auðvitað firra. Eða  hvaða gefna stefnu hefur ríkisvaldið íslenska? Stefnu ríkistjórnarinnar? Hvað með stefnu sveitarstjórna sem margar eru andsnúnar ríkisstjórninni? Hvað með stefnu einstakra embættismanna, t.d. Seðlabankastjóra sem ekki lýtur valdi ríkisstjórnarinnar? Segjum nú að stefna ríkisins sé stefna ríkisstjórnarinnar: Notaði Sigmundur Davíð hótanir um að svipta menn listamannalaunum sem tæki til að fá þá til að búa til list sem sýndi verk hans og stefnu með jákvæðum hætti? Ekki man ég til þess, sjálfur fékk ég hungurlús úr rithöfundasjóði fyrir margt löngu en þáverandi ríkisstjórn láðist að gefa mér fyriskipanir. Erna Ýr virðist ekki skilja að ríkið er í fyrsta lagi ekki lifandi vera, heldur summan af starfi fjölda einstaklinga, í öðru lagi eru til margs konar ríki af ýmsu tagi. Það er djúp staðfest milli  hins valddreifða svissneska ríkis með sitt víðfeðma lýðræði og  hins miðstýrða alræðisríkis Norður-Kóreu. Það er líka gap milli velferðaríkja Norðurlanda og hinna velferðarsnauðu Bandaríkja. Í fyrrnefndu ríkjunum eru embættismenn einatt alþýðlegir og tekið er á föngum mjúkum höndum en nokkuð gætir óþarfrar forsjárhyggju. Vestanhafs er embættiskerfið ekki mjög umfangsmikið en þess ruddalegra og fangar meðhöndlaðir eins og hundar. En um leið styrkir bandaríska ríkið grunn- og tæknirannsóknir mjög myndarlega, eins og áður segir, heimsbyggðinni allri til hagsbótar. Þess utan er heldur minna um  óþarfa forsjárhyggju vestanhafs en á Norðurlöndum (vandinn vestanhafs er fremur yfirgangur auðvalds en ríkisvalds). Sé sæmileg valddreifing innan ríkis, embættismenn alþýðlegir og lýðræði öflugt er lítil eða engin hætta á því að ríkið misnoti opinbert lista-styrkjakerfi. En ekki má gleyma því að á dögum Jónasar frá Hriflu var slíkt kerfi misnotað af honum og jafnvel öðrum pólitíkusum. Ekki síðan um hans daga, mér vitanlega. En því verður ekki neitað að það er viss möguleiki, lítill að vísu, á Hriflukenndri valdníðslu. Það  gerir að verkum að ég tel ekki rétt að listamenn hafi allar sínar tekjur frá ríkisvaldinu. Erna Ýr nefnir ekki auðvaldshættu aukateknu orði, hvað þá  möguleikann á því listamenn geti orðið háðir einkaauðvaldi. Setjum svo að við afnæmum listamannalaun. Þá myndu margir listamenn leita skjóls hjá peningamönnum sem gæti gert þá háða þeim, þannig færu þeir úr öskunni í eldin. Í ofan á lag gæti afnám listamannalauna gert listsköpun að forréttindum  auðmanna, fátækt fólk verður að strita til að hafa í sig og á og hefur ekki tíma til listrænnar iðju.  Vill Erna Ýr  enn meiri ójöfnuð á Íslandi? Það vill svo til að ég er jafnaðarmaður og tel að listamannalaun auki jöfnuð í heimi listanna. Víkjum aftur að auðmönnum. Ekki má draga þá alla upp á eina seil fremur en ríkin, mikill munur er á tiltölulega siðmenntuðum norskum auðmönnum og glæpaauðmönnum Rússlands. Ég fagna listastuðningi  norskra auðmanna, t.d. átti einn slíkur heiðurinn af listaverkagarðinum Ekeberg í Ósló. Íslensk auðstétt hefur úrkynjast mjög á undanförnum áratugum eins og sjá má af áðurnefndum upplýsingum um aflands-skattsvik hennar. Flestir peningamenn Íslands virðast vera ruddafengnir, eigingjarnir, valdasjúkir plebbar. Því  eru litlar líkur á að þeir muni hlaupa í skarðið ef listamannalaun hyrfu, þeir myndu tæpast styrkja aðra listamenn en þá sem dönsuðu eftir pípu þeirra.

Lokaorð

Niðurstaðan er sú að það sé tóm vitleysa að listamannlaun kosti skattgreiðendur einhver ósköp, þau kosta hvern skattgreiðanda í hæsta lagi 2800 kr á ári. Einnig hagnast þjóðarbúið beint og milliliðalaust á menningarstarfsemi, hún væri líklega mun minni ef listamannalauna nyti ekki. Veðurguðinn talar eins og hann skapi einn og sér allt sem hann þénar. Hann skilur ekki að hann ætti ekki bót fyrir rassinn á sér ef ekki nyti samvinnu við annað fólk eða þjónustu ríkisvaldsins, bæði hins hérlenda og hins bandaríska. Ekki hittir gagnrýni Ernu Ýrar betur í mark, gagnrýni hennar byggir á frjálhyggjuþjóðasögum um hið illa ríkisvald sem sé eins konar lifandi vera. Hún skilur heldur ekki að hætta getur stafað af einkaauðvaldi, nái það tangarhaldi á listunum.Listamannalaun stuðla að jöfnuði og hafa eflt listsköpun mjög, skáldsagnagerð hefur t.d. fleygt fram eftir að  listamannlaunakerfið varð til.  Sem jafnaðarmaður og listunnandi tel ég þau því af hinu góða enda er gagnrýnin á þau ekki ýkja gáfuleg.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni